Mbl. - 7. apríl 1999.

Ísland og sprengjuregnið á Júgóslavíu
Hernaðaraðgerðir
Enginn hefur frá því árásirnar hófust svarað því, segir Hjörleifur Guttormsson, hvaða vanda sprengjuregnið á Júgóslavíu eigi að leysa.

ÍSLENSK stjórnvöld hafa með eindregnum yfirlýstum stuðningi við árás NATÓ á Júgóslavíu í fyrsta sinn gert Íslendinga að þátttakendum í stríði gegn fullvalda ríki. Utanríkisráðherra birtist þjóðinni sem eindreginn talsmaður árásarinnar og forsætisráðherra fær þakkarbréf frá Clinton fyrir stuðninginn. Herstöðvar hérlendis standa til reiðu fyrir herför NATÓ ef þurfa þykir.
Þessa afstöðu taka íslensk stjórnvöld þótt ekki liggi fyrir samþykki Sameinuðu þjóðanna við herförinni. Þjóð okkar er þannig gerð ábyrg fyrir árás á fullvalda ríki sem á sér ekki hliðstæðu í sögu eftirstríðsáranna. Það hefðu einhverntíma þótt tíðindi að við sem vopnlaus smáþjóð kysum okkur slíkt hlutskipti á alþjóðavettvangi. Hvaða vanda leysir sprengjuregnið? Enginn hefur frá því árásirnar hófust svarað því, hvaða vanda sprengjuregnið á Júgóslavíu eigi að leysa. Afleiðingarnar eftir fjögurra daga hernað hafa orðið þær helstar að Serbar hafa þjappað sér saman um forseta landsins og ríkisstjórn og hatur magnast í garð Vesturveldanna sem tala til íbúa Júgóslavíu með sprengjuregni úr háloftunum. Ástandið í Kosovo sem var nógu slæmt fyrir hefur versnað til muna og ofsóknir magnast á hendur fólki þar af albönskum uppruna. Hertur straumur flóttafólks yfir til grannríkjanna síðustu daga er bein afleiðing af stríðsaðgerðunum. Íslensk stjórnvöld geta verið kokhraust víðs fjarri vettvangi hildarleiksins. Hið sama gildir ekki um nágranna Júgóslavíu. Grísk stjórnvöld hafa sem fulltrúar NATÓ-ríkis neitað að taka þátt í herförinni og varað eindregið við afleiðingum hennar. Ítalska þingið samþykkti síðastliðinn föstudag með 318 atkvæðum gegn 188 ályktun þar sem ítölsku ríkisstjórninni er falið "í samvinnu við bandamenn okkar í NATÓ að vinna að því að samningaviðræður um Kosovo verði hafnar á ný og sprengjuárásunum hætt." Athygli vekur að hérlendis eru það aðeins Þingflokkur óháðra og talsmenn Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs sem mótmæla árásunum á Júgóslavíu. Sá málstaður á hins vegar víða hljómgrunn. Fyrir helgi sendi Lútherska heimssambandið frá sér ályktun þar sem aðförum NATÓ var eindregið mótmælt. NATÓ sem alþjóðaherlögregla Réttilega benda margir á að aðgerðir NATÓ gegn Júgóslavíu sýni ljóslega þá eðlisbreytingu sem sé að verða á Atlantshafsbandalaginu. Í stað þess yfirlýsta markmiðs að koma fram sameiginlega til varnar aðildarríkjum ef á þau er ráðist sé verið að breyta bandalaginu í eins konar alþjóðaherlögreglu undir forystu Bandaríkjanna. Nokkuð er síðan umræða hófst um þetta fyrir alvöru og herförin gegn Júgóslavíu er fyrsta prófraunin í þessa veru. Ekki er þó víst að öll NATÓ-ríki taki slíku hlutverki fagnandi enda væri með því verið að víkja Sameinuðu þjóðunum endanlega til hliðar. Í yfir 20 ríkjum er ástand gagnvart minnihlutahópum svipað eða verra en í Júgóslavíu án þess nokkuð hafi verið aðhafst af hálfu NATÓ. Rúanda og Súdan eru dæmi sem eiga sér margar hliðstæður. Það er hörmulegt til þess að vita að íslensk stjórnvöld skuli gerast samábyrg um það feigðarflan sem nú minnir á sig dag hvern í stað þess að láta Ísland vera boðbera friðar og sátta á alþjóðvettvangi.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson