Mbl. - Miðvikudagur 10. febrúar 1999.

Hjörleifur Guttormsson

Að draga tjaldhæla úr jörðu
Kosningar

Ég hef átt einskonar tjaldvist í fulla tvo áratugi á Alþingi Íslendinga, segir Hörleifur Guttormsson, og ekki laust við að ég sé farinn að hugsa til heimferðar.
FYRIRSÖGN þessa pistils er sótt í kvæðið Tjaldljóð eftir Guðmund Böðvarsson. Það endar á stefinu ­ Tjaldhæla mína dreg ég bráðum úr jörðu. Ég hafði þessa hendingu oft yfir þegar ég eyddi sumrum á rölti með tjald og mal í fjöllum austanlands. Þá var sjaldan sofið meira en eina til tvær nætur í stað. Nú hef ég átt einskonar tjaldvist í fulla tvo áratugi á Alþingi Íslendinga og ekki laust við að ég sé farinn að hugsa til heimferðar. Þetta hefur verið stormasöm en áhugaverð viðdvöl. Kjörtímabilin eru orðin sex, eitt þeirra þó harla stutt. Við lok þeirra hefur oft áður sótt á mig að breyta til og leita ekki endurkjörs. Nú eru miklir sviptivindar í stjórnmálum. Flokkar hverfa og nýir koma í staðinn. Ég hef átt hlut í að koma á fót Vinstrihreyfingunni ­ grænu framboði, sem varð formlega að stjórnmálaflokki 6. febrúar. Ég hef mikla trú á þeim nýju samtökum til góðra verka og mun áfram leggja þeim lið eftir mætti. Ég tel hins vegar rétt að aðrir taki við forystu þeirra á Austurlandi.
Þuríður Backman kölluð fram Þegar ég kvaddi Alþýðubandalagið á síðasta sumri fylgdu mér úr þeim flokki allmargir félagar mínir og samstarfsmenn eystra. Í þeim hópi var Þuríður Backman, varamaður minn á Alþingi um árabil. Hún hefur oftsinnis tekið sæti mitt á Alþingi frá 1991 að telja og haft þar margt til mála að leggja. Samstarf okkar hefur verið prýðilegt í alla staði. Hún hefur verið dugleg og ósérhlífin að ferðast með mér um kjördæmið og þekkir vel til í öllum byggðarlögum. Hún hefur líka verið þátttakandi og oddviti í sveitarstjórn. Það gleður mig að heyra að í kjölfar þess að ég tjáði kjörnefnd félags Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs á Austurlandi ætlan mína hefur nefndin nýverið leitað til Þuríðar um að leiða væntanlegan framboðslista í komandi
alþingiskosningum. Henni er til þess treystandi. Með henni mun koma til starfa fyrir nýja hreyfingu vösk sveit fólks víða að úr kjördæminu, en félagsins þar er að ákveða um skipan listans.

Óráðin framtíð

Stjórnmál hafa verið drjúgur hluti af lífi mínu allt frá æskudögum. Erfitt mun reynast að skilja við þau að fullu þótt ég hverfi nú úr fremstu víglínu í mínu gamla kjördæmi. Í mínum huga er pólitík hluti daglegs lífs. Þeir sem ekki taka afstöðu eru líka þátttakendur, en láta aðra ráða för. Mín bíður fjall af verkefnum sem gaman væri að fást við fyrr en seinna. Umhverfismál og íslensk náttúra í allri sinni fjölbreytni eiga hug minn áfram. Ég kom inn á Alþing sem lausamaður og hef ekki áhyggjur af því hvað við kann að taka. Ég hef aldrei skilið það mikla umtal sem tengist framtíð manna sem gegnt hafa störfum á Alþingi um hríð. Sumir virðast álíta að þingmenn séu nánast ósjálfbjarga eftir að hafa skilað umboðinu. Sú reynsla sem fæst á Alþingi mætti samt vera meira metin, ekki síst á almennum vinnumarkaði.

Að leita vaðs

Það er ekki runnin upp kveðjustund. Í hugann kemur þó franska orðtækið Partir c'est mourir un peu ­ Að taka sig upp er að deyja að nokkru. Sú tilfinning mun trúlega fylgja mér þegar starfslok verða við Austurvöll. Langafi minn Sigurður Gunnarsson, sem var í liði Jóns Sigurðssonar, reið frá þingi norður Sprengisand haustið 1871. Hann áði í Þjórsárverum við annan mann og sá horfði á eftir honum austur yfir Þjórsá hjá Sóleyjarhöfða. Kvöldið eftir tjaldaði Sigurður einn í Kiðagili. Ég hef oft fylgt honum í huganum. Þá var öld önnur en verkefni þingmannsins þó að inntaki hin sömu. Orð skáldsins frá Kirkjubóli falla vel að framhaldinu:

Enn fara lestir, það lætur í silum og klökkum og leiðin til vaðsins er auðkennd með gamalli vörðu. Já, nú væri tíð að taka dót sitt í klif.