Mbl. - Þriðjudagur 12. janúar 1999.

Fellur áltjaldið fyrir kosningar?

Ég hef frá upphafi varað Austfirðinga við því, segir Hjörleifur Guttormsson, að taka alvarlega yfirlýsingar Framsóknarforystunnar um risaálbræðslu Norsk Hydro á Reyðarfirði.

BYGGING álbræðslu á Reyðarfirði hefur verið stærsta einstaka málið í umræðu á Austurlandi allt árið 1998. Í þessari grein er spáð í stöðu þess og leiddar líkur að því að lítið sem ekkert sé á bak við tjöld ráðamanna. Vikið er meðal annars að bágri fjárhagsstöðu og samdrætti hjá Norsk Hydro.

Risaálbræðsla skyldi það vera

Hálft annað ár er nú liðið frá því að forysta Framsóknarflokksins færði Austfirðingum þau tíðindi að þeir þyrftu að búa sig undir að taka við risaálveri dótturfyrirtækis Norsk Hydro (Hydro Aluminium), sem staðsett yrði á Reyðarfirði. Málið myndi skýrast á næstu mánuðum. Haustið 1997 svaraði Finnur Ingólfsson fyrirspurnum undirritaðs á Alþingi meðal annars um það hver væri áætluð hámarksstærð og áfangaskipting álbræðslunnar og ráðgerður byggingartími með þessum orðum:

"Hydro Aluminium hefur lýst áhuga á byggingu álbræðslu með 240.000 tonna framleiðslugetu á ári sem stækka mætti í allt að 720.000 tonn. Athugunin miðast í upphafi við tvo áfanga með allt að 240.000 tonna framleiðslugetu á ári í hvorum og er gert ráð fyrir að fyrsti áfanginn tæki til starfa árin 2004 eða 2005 og síðari áfanginn fimm árum síðar."
En mánuðirnir hafa liðið og aftur og aftur hefur iðnaðarráðuneytið tilkynnt um frestun á ákvörðun. Fyrst skyldi hún liggja fyrir í ársbyrjun, þá í maí, síðan var henni frestað fram í september og nú síðast tilkynnt að vart sé niðurstöðu að vænta fyrr en næsta sumar ­ eftir alþingiskosningar!

Norsk Hydro lítinn áhuga á Austurlandi
Það lá í loftinu þegar í fyrravetur að áhugi Norsk Hydro á að fjárfesta í álbræðslu á Íslandi á umræddu tímabili væri afar takmarkaður. Fyrirtækið hafði hins vegar eins og hliðstæðir fjölþjóðarisar áhuga á að fá innsýn í orkumál á Íslandi til að eiga upplýsingar um virkjanakosti og aðrar aðstæður í handraðanum upp á seinni tíma. Raunverulegur áhugi Norsk Hydro á fjárfestingu á Austurlandi var frá upphafi lítill sem enginn. Þetta mátti að vísu ekki segja upphátt og voru iðnaðarráðuneyti og markaðsskrifstofa MIL jafnóðum látin bera allar slíkar fregnir til baka. Austfirðingar skyldu trúa því og treysta að Framsóknarráðherrarnir færu ekki með neitt fleipur! Til að halda lífi í leiknum var svo síðastliðið sumar efnt til könnunar á áhuga Austfirðinga á álbræðslu og stórvirkjun í tengslum við hana. Niðurstaðan leiddi í ljós það sem flestir vissu, að skoðanir á stóriðju í fjórðungnum væru afar skiptar en óvæntasta niðurstaðan var hins vegar sú að aðeins rúmur helmingur aðspurðra lagði áherslu á að virkjað yrði í fjórðungi.

Óraunsæjar og skaðlegar hugmyndir

Undirritaður hefur frá upphafi varað Austfirðinga við að taka alvarlega yfirlýsingar Framsóknarforystunnar um risaálbræðslu Norsk Hydro á Reyðarfirði. Ég hef talið þær í senn óraunsæjar og andstæðar íslenskum hagsmunum. Þess utan rúmast þessi áform engan veginn innan alþjóðasamninga um loftslagsbreytingar. Það er líka með öllu ábyrgðarlaust að ætla að veita Norðmönnum eða öðrum útlendingum ráðstöfunarrétt á stórum hluta af vatnsafli í landinu, orkulindum sem þjóðin getur þurft á að halda til framleiðslu á vistvænni orku í stað olíu þegar líður á næstu öld. Umræddar virkjanir eru afar umdeildar frá umhverfissjónarmiði og með byggingu þeirra myndu minnka til muna möguleikar á að ná sátt um umhverfisvernd á hálendinu. Bygging risaálbræðslu á Reyðarfirði er líka afar ófýsilegur kostur í félagslegu og byggðapólitísku samhengi og nettó-ávinningur af slíku fyrirtæki fyrir fjórðunginn í meira lagi óviss.

Blekkingaleiknum þarf að linna

Þeir bera mikla ábyrgð sem enn reyna að telja Austfirðingum trú um að framundan séu gífurleg umsvif við virkjunarframkvæmdir og byggingu álverksmiðju. Með því er verið að viðhalda væntingum sem ekki er innistæða fyrir. Á meðan eru hugmyndir og frumkvæði um aðra atvinnuuppbyggingu drepin í dróma. Meira að segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi eru farnir að ókyrrast vegna þessa máls. Bragð er að þá barnið finnur. Mál er komið að þessum blekkingaleik linni og stjórnvöld sýni þess í stað lit á að taka á hversdagslegum en raunverulegum vanda og ójöfnuði sem Austfirðingar búa við, meðal annars í verði á orku til húshitunar.

Fyrirtæki í fjárhagskreppu

Við allt þetta sjónarspil bætist það að rekstur Norsk Hydro hefur gengið afleitlega á þessu ári. Fyrirtækið telur sig þurfa að bregðast við miklum taprekstri í olíuvinnslu og áburðarframleiðslu með samdrætti í fjárfestingum og rekstri.
Á stjórnfundi Norsk Hydro hinn 20. desember var ákveðið að fara yfir öll fjárfestingaráform fyrirtækisins og Myklebust forstjóri þess útilokar ekki að grípa þurfi til uppsagna. Í viðtali við Aftenposten í Ósló talaði hann einnig um verulegan samdrátt í fjárfestingum næstu árin frá því sem verið hafi á dagskrá. Í þessu viðtali við forstjórann er ekki rætt um áliðnaðinn og Ísland ekki nefnt á nafn frekar en fyrr á árinu. Verð á áli á heimsmarkaði er hins vegar afar lágt þessa stundina, meðal annars fullyrt að vanti 400 dali per tonn til að Norðurál í Hvalfirði nái endum saman. Það er kannski ekki undarlegt að Mr. Peterson sé að svipast um eftir kaupanda eins og flogið hefur fyrir.
Ekki sýnist líklegt að blásið verði til fjárfestinga á Íslandi af hálfu Norsk Hydro við þessar aðstæður. Um sparnaðarráðstafanir á að tilkynna á stjórnarfundi fyrirtækisins 15. febrúar næstkomandi. Ekki er þó útilokað að eitthvað verði gert til að gleðja þá Finn og Halldór. Við minnumst þess að Jón Sigurðsson fékk að skrifa undir sýndarsamninga við Atlantsál um Keilisnesbræðslu fyrir kosningarnar 1991. Það þarf ekki að tjalda miklu til svo gleðja megi íslenska ráðherra. Aðalatriðið frá þeirra bæjardyrum er að áltjaldið falli ekki fyrir kosningarnar að vori.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson