Umhverfismál og hálendisvernd
Mikil breyting þarf að verða til þess, segir Hjörleifur Guttormsson, að umhverfismál fái þann sess sem þeim ber hérlendis.
MIKIL breyting þarf að verða til að umhverfismál fái þann sess sem þeim ber hérlendis. Þetta á við um stöðu þeirra innan stjórnkerfisins, fjárveitingar og forgangsröðun. Íslendingar voru með síðustu ríkjum Vestur-Evrópu til að koma á umhverfisráðuneyti 1990. Fram að þeim tíma var staða umhverfismála og náttúruverndar í stjórnkerfinu afar veik og því mikið verk að vinna. Síðan hafa skipst á skin og skúrir en engan veginn tekist að skapa umhverfismálum þá fótfestu og vægi sem þarf. Skort hefur á pólitískan skilning og stuðning í ríkisstjórnum og á Alþingi. Helstu stofnanir umhverfisráðuneytisins hafa verið sveltar. Hollustuvernd ríkisins sem gegnir lykilhlutverki í mengunarmálum, matvæla- og eiturefnaeftirliti skortir bæði fjármuni og mannafla til að rækja lögboðið hlutverk. Náttúruvernd ríkisins hefur ekki getað sinnt eftirliti og uppbyggingu á friðlýstum svæðum, sem mörg hver eru eftirsóttir ferðamannastaðir. Það fer ekki saman að ætla sér stóra hluti á sviði ferðamannaþjónustu og vanrækja náttúruvernd og brýnan undirbúning til móttöku ferðamanna. Stórátak þarf til að bæta fyrir vanrækslu margra liðinna ára.
Stóriðjustefnan og hálendið
Mestu átökin á sviði umhverfismála varða landnotkun á hálendinu og virkjanaframkvæmdir. Þau mál eru nátengd stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, sem báðir stjórnarflokkarnir boða að framhald verði á fái þeir brautargengi í kosningunum. Samkvæmt þeirra áætlunum er ráðgert að koma hér á næsta áratug upp stóriðjuverum sem þyrftu 10-12 teravattstundir af raforku á ári. Til að anna slíku nægði ekki allt virkjanlegt vatnsafl norðan Vatnajökuls. Heildarframleiðsla á raforku í landinu nam 6,5 teravattstundum á síðasta ári, stóriðja og almenn notkun meðtalin.
Vinstrihreyfingin grænt framboð er algerlega andvígt stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem Samfylkingin hefur í reynd tekið undir. Við teljum að nú þurfi að gera hlé á virkjanaframkvæmdum á meðan mótuð er sjálfbær orkustefna sem taki til næstu 50 ára. Við mótun hennar þarf að taka mið af framtíðarþörf þjóðarinnar fyrir raforku og ríkulegt tillit til náttúruverndar. Eðlilegt er að gera ráð fyrir að vetni og aðrir vistvænir orkugjafar leysi innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi. Orkuþörf í þessu skyni gæti numið helmingi meira en nú er framleitt af raforku í landinu. Að okkar mati á ekki að binda meiri raforku en orðið er í mengandi málmbræðslum. Á grundvelli slíkrar stefnu getur Ísland orðið fullgildur þátttakandi að Kyótóbókuninni um leið og unnt yrði að móta víðtæka verndarstefnu fyrir miðhálendið.
Málmbræðslurnar tímaskekkja
Margir þeir sem ræða um atvinnuþróun hérlendis taka undir það sjónarmið að stóriðja með fleiri málmbræðslum sé ekki það sem koma skal. Ólafur Jóhann Ólafsson stjórnarformaður Advanta og rithöfundur svaraði aðspurður um horfur í íslensku atvinnulífi í þættinum Öld í aðsigi á Rás 1 þann 7. mars síðastliðinn: "Ef menn sofa ekki á verðinum þá er bjart framundan en svefndrungi drepur allt og ég held til dæmis að þessir blessuðu stóriðjudraumar okkar séu ansi mikil tímaskekkja ... Þetta er eins og að ganga inn í gamla öld að heyra þetta." Ég er honum sammála.