Mbl. - Föstudagur 16. apríl 1999.
Samfylkingin og skipulag miðhálendisins
Hálendið
Með þjóðlendulögunum er hálendið ekki "gert að sameign þjóðarinnar", segir Hjörleifur Guttormsson, heldur er þar sagt fyrir um aðferð til að skera úr um mörk eignarlanda og almenninga, án þess að kveða fyrirfram upp úr um niðurstöðu.
Rannveig og ríkisforsjáin
MÁLFLUTNINGUR Samfylkingarinnar um miðhálendið er með ólíkindum. Í grein sem Rannveig Guðmundsdóttir skrifaði í Morgunblaðið 8. apríl 1999 um "Skipulagsmál á miðhálendinu" talar hún fyrir þeirri stefnu Samfylkingarinnar að slá eigi striki yfir allt það sem unnið hefur verið að skipulagsmálum miðhálendisins frá 1993 að telja og setja málið á byrjunarreit. Lögðu þó kratar sem aðilar að ríkisstjórn línuna um það ferli sem unnið hefur verið eftir frá þeim tíma. Í stað þess að sveitarfélög í landinu komi að málinu með ríkinu vill Samfylkingin fela ríkinu einu að leggja línur um skipulagsmál miðhálendisins sem "yrði á stjórnsýslustigi ríkis og unnið af stofnunum þess í samvinnu við einstök fagráðuneyti og væru sveitarfélög bundin af því" eins og stendur skrifað í nefndaráliti fulltrúa Samfylkingarinnar, Margrétar Frímannsdóttur og Magnúsar Árna Magnússonar í umhverfisnefnd hinn 8. mars 1999 [þingskjal 1091]. Þeir sem bera verndun miðhálendisins fyrir brjósti ættu að hugleiða hver staðan væri ef framkvæmdaráðuneytin í Reykjavík og stofnanir þeirra hefðu ein aðstöðu til að leggja línurnar. Rannveig finnur sérstaklega að því í grein sinni að í athugasemdum við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem fjallað var um á árinu 1998 hafi komið fram að sumar forsendur skipulagsins "gengju þvert á lög og stefnu stjórnvalda". Þarna er um að ræða athugasemdir stofnana orkuiðnaðarins, sem vissulega töldu að sér þrengt með svæðisskipulaginu. Það er einmitt hið jákvæða við svæðisskipulagstillöguna sem nú liggur á borði ráðherra til staðfestingar. Skipulagstillagan kemur til móts við verndunarsjónarmið, þótt vissulega hefðu margir viljað sjá gengið mun lengra í því efni.
Bullið í Össuri
Ekki batnar málflutningur Samfylkingarinnar eins og hann birtist okkur í grein Össurar Skarphéðinssonar fyrrverandi umhverfisráðherra í Morgunblaðinu 14. apríl síðastliðinn. Þar rekur hver fingurbrjóturinn annan. Þingmaðurinn virðist ekki átta sig á hvað felst í lögunum sem sett voru í fyrra um þjóðlendur. Með þjóðlendulögunum er hálendið ekki "gert að sameign þjóðarinnar" eins og þingmaðurinn staðhæfir, heldur er þar sagt fyrir um aðferð til að skera úr um mörk eignarlanda og almenninga, án þess að kveða fyrirfram upp úr um niðurstöðu. Verkefnið er lagt í hendur óbyggðanefndar og niðurstaða hennar á að liggja fyrir ekki síðar en árið 2007. Eiður Guðnason umhverfisráðherra Alþýðuflokksins í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 199193 taldi vel koma til greina að landinu öllu yrði skipt upp milli sveitarfélaga. Sem ráðherra lagði Össur það síðan í hendur fulltrúa héraðsnefnda sveitarfélaga þar sem að hans sögn búa 4% þjóðarinnar að gera tillögu um svæðisskipulag miðhálendisins. Afrakstur þeirrar vinnu er nú á borði eftirmanns hans á ráðherrastóli eftir umfangsmikið ferli þar sem allir landsmenn höfðu rétt til að gera athugasemdir. Össur rangtúlkar nýgerða breytingu á skipulagslögum með því að fullyrða "að eitt örlítið sveitarfélag getur sett allt skipulag hálendisins úr skorðum með því að hafna heildarskipulagi samvinnunefndarinnar". Þetta er rangt. Ávinningur breytinga á skipulagslöggjöfinni í síðasta mánuði er ekki aðeins sá að inn í samvinnunefnd miðhálendisins koma nú fulltrúar "96% íbúanna", m.a. fólks á höfuðborgarsvæðinu, heldur er miðhálendið afmarkað til frambúðar og ekkert eitt sveitarfélag hefur lengur neitunarvald um svæðisskipulag þess.
Það er mikilvægt að í þessu stóra máli viti menn hvað upp snýr. Það á við um Samfylkinguna sem aðra, ekki síst þá sem voru handhafar framkvæmdavaldsins fyrir örfáum árum.
Höfundur er alþingismaður Austfirðinga.
Hjörleifur Guttormsson