Mbl. - Laugardagur 20. febrúar 1999.

Áltjaldið er fallið
Stóriðja

Það er kominn tími til að Austfirðingar sem aðrir horfi raunsætt til framtíðar, segir Hjörleifur Guttormsson, og láti ekki skammsýna ráðamenn villa sér sýn.

STJÓRN Norsk Hydro hefur nýverið tekið sínar ákvarðanir um fjárfestingar og niðurskurð hjá fyrirtækinu. Norskum fjölmiðlum ber saman um að hugsanleg fjárfesting í álbræðslu á Íslandi sé hulin móðu og ekki á dagskrá fyrst um sinn. Hið sama endurspegla ummæli talsmanna fyrirtækisins eftir stjórnarfundinn 15. febrúar síðastliðinn. Þeir eru eðlilega varfærnir þegar á þá er gengið og vilja ekki styggja íslensk stjórnvöld meira en nauðsyn krefur. Auðvitað ætlar Norsk Hydro að ljúka því "viðræðuferli" sem fyrirtækið hafði skuldbundið sig til, enda langt komið. Ritstjórn Morgunblaðsins les rétt í málið í leiðara 17. febrúar með því að setja spurningarmerki við hvort nokkur alvara sé í áformum Norsk Hydro.

Viðbrögðin hjá íslenskum ráðamönnum eru af allt öðrum toga. Ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins er trúr yfirboðara sínum og lætur sem ekkert sé. "Ákvarðanir sem Norsk Hydro kynnti í gær snerta okkur ekki," segir hann í blaðaviðtölum. Þannig á að freista þess að viðhalda blekkingarleiknum fram á mitt sumar, í öllu falli fram yfir kosningar. Þetta er hins vegar orðið vonlítið verk. Áltjald framsóknarforystunnar er fallið og leiksýningunni sem hófst fyrir tæpum tveimur árum verður ekki haldið áfram nema fyrir þröngan hóp sanntrúaðra. Stóriðjuleikurinn bitnar harðast á Austfirðingum, þótt hann varði landsmenn alla. Ýmsir í röðum sveitarstjórnarmanna virðast ekki sjá í gegnum vefinn og halda dauðahaldi í tálsýnina. Komi Norsk Hydro ekki siglandi með álbræðslu inn á Reyðarfjörð sé hins næsta að bíða. Sögusagnir um afar áhugasamt þýskt álfyrirtæki eru hentar á lofti, þótt þeir þýsku svari ekki einu sinni bréfum! Þessi langavitleysa hefur lamandi áhrif á viðleitni til atvinnuþróunar á Austurlandi. Margt góðra hugmynda um nýsköpun í atvinnulífi hafa fæðst þar undanfarin ár og sumar þeirra leitt til nýrra fyrirtækja og þróunar hjá þeim sem fyrir eru. Stuðningur við þróunarstarf er hins vegar alls ónógur og hugmyndin um stóra vinninginn drepur margt í dróma.
Það er kominn tími til að Austfirðingar sem aðrir horfi raunsætt til framtíðar og láti ekki skammsýna ráðamenn villa sér sýn. Við þurfum að koma fótum undir sjálfbæra atvinnuþróun sem víðast og nýta takmarkaðar orkulindir af framsýni og varúð. Hugmyndirnar um vetni sem framtíðarorkugjafa vísa í aðra og skynsamlegri átt en sú stefna að binda orkuna í málmbræðslum. Við gerum ekki hvorttveggja.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson