Mbl. - Miðvikudagur 21. apríl 1999.

Skriðuklaustur ­ er ekki nóg komið?

Menningarsetur

Jörðina í heild, segir Hjörleifur Guttormsson, ber að færa undir menntamálaráðuneytið.

EINN af öndvegishöfundum Íslendinga gaf ásamt eiginkonu sinni íslenska ríkinu fyrir hálfri öld jörðina Skriðuklaustur "ásamt húsum öllum og mannvirkjum, gögnum og gæðum". Gjöfin skyldi "hagnýtt á þann þátt að til menningarauka horfi" og tók ríkisstjórn landsins við henni með þeirri kvöð. Skriðuklaustur er höfuðból með sögu og einstakri umgjörð frá náttúrunnar hendi. Árið 1940 var þar risið hús skálds, einstakt að formi, bústaður rithöfundar sem brotið hafði ísinn erlendis og borið hróður Íslands víða á fyrrihluta aldarinnar og gerðist nú bóndi í átthögum sínum. Þau hjón, Gunnar og Franzisca, áttu heima á Skriðuklaustri í tæpan áratug og hlúðu að draumi sínum í dalnum eystra uns þau brugðu búi 1948 og fluttu til Reykjavíkur.

Það sem síðan gerðist hefur ekki verið íslenska ríkinu eða Austfirðingum til vegsauka. Í stað þess að gera þennan garð að setri til menningarauka fyrir umhverfi sitt var þangað flutt nokkrar bæjarleiðir tilraunastöð í landbúnaði, og skriffinnar landbúnaðarráðuneytis breiddu sig yfir húseignir og land og hafa haldið tangarhaldi sínu sem fastast til þessa. Fyrir náð og miskunn var rithöfundum á níunda áratugnum hleypt inn í skot í húsinu og kallað fræðimannsíbúð.

Gjörningar síðustu ára

Um langt skeið hafa margir velviljaðir menn reynt að greiða úr þeim ógöngum sem gjöf skáldsins rataði í við yfirtöku landbúnaðarráðuneytisins á gögnum jarðarinnar og gæðum. Í þeim hópi voru bæði ráðherrar, tilraunastjórar sem settir voru til verka á staðnum og stöku heimamenn. Samningur var gerður 1972 um afnot mikils hluta hússins fyrir Minjasafn Austurlands, breyting gerð á honum 1979 og þá bréfað af þremur ráðherrum að jörðin öll færðist undir menntamálaráðuneytið, ef rekstri tilraunastöðvar yrði hætt. Við þetta var ekki staðið upp úr 1990, nema að því er varðaði Gunnarshús.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra hefur með jákvæðum hætti beitt sér í málefnum staðarins, setti á fót Gunnarsstofnun í árslok 1997 og hélt áfram glímu forvera síns við landbúnaðarráðuneytið. Ráðherrar landbúnaðarmála ráðskuðust á sama tíma með jörðina rétt eins og hún væri þeirra eign og virðast hafa notað hana sem einhvers konar skiptimynt til að hygla einstökum bændum í nágrenninu. Þetta er ósæmilegt framferði sem ekki stenst mælikvarða heilbrigðrar stjórnsýslu að ekki sé talað um virðingarleysið við gjöf skáldsins til íslensku þjóðarinnar. Er mælirinn nú ekki fullur og nóg komið af lágkúru? Ríkisstjórn landsins verður sóma síns vegna og í þjóðarþágu að gera bragarbót í málefnum staðarins. Eins og málið er vaxið fellur í hlut forsætisráðherra að hafa um þetta forystu.

Fyrirspurn til forsætisráðherra

Hinn 2. mars síðastliðinn lagði ég fram á Alþingi eftirfarandi fyrirspurn til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og bað um skriflegt svar: "Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að jörðin Skriðuklaustur í Fljótsdal verði í heild sinni sett undir menntamálaráðuneytið og umsjá hennar falin stjórn Gunnarsstofnunar?" Svar hefur ekki borist við fyrirspurninni, en ég vænti þess að hún hafi ekki lent undir á borði ráðherrans heldur sé málið nú til efnislegrar athugunar í forsætisráðuneytinu.
Það eru engar rökrænar forsendur fyrir því að skipta upp milli ráðuneyta "ævarandi eign íslenska ríkisins" og viðhalda því skæklatogi sem slík skipting umráða býður upp á. Jörðina í heild ber að færa undir menntamálaráðuneytið. Slíkt er í samræmi við samkomulag menntamálaráðherra, landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra frá 12. október 1979. Sama afstaða kom einnig fram nýlega og var bókuð á sameiginlegum fundi hreppsnefndar Fljótsdalshrepps og stjórnar Gunnarsstofnunar 8. október 1998.

Andi Gunnars og Franziscu

Sá sem þetta ritar kom nokkrum sinnum á barnsaldri í Skriðuklaustur meðan Gunnar og Franzisca sátu staðinn. Erfitt er að lýsa þeim hughrifum sem fylgdu slíkri heimsókn, þeirri reisn og dulúð sem ríkti yfir þessu blómumprýdda húsi og þeirri andagift og útgeislun sem stafaði frá húsráðendum. Faðir minn tók mig með sér í efirlitsferð skógarvarðar um Fljótsdal og afdali sumarið 1946 og tók hún röska viku. Við komum á marga bæi í dalnum, riðum árnar í fylgd kunnugra og gistum að minnsta kosti á þremur stöðum. Alls staðar barst talið með einum og öðrum hætti að Skriðuklaustri, þeim myndarskap sem þar ríkti úti sem inni. Andi Gunnars og Franziscu hvíldi yfir dalnum og allir töldu sig eiga hlutdeild í þessu ævintýri. Næstsíðasta daginn var farið í heimsókn í Klaustur og stansað fram á kvöld. Ég bjó að því lengi að hlusta á samræður og skyggnast í króka og kima í þessu ótrúlega sloti. Klausturnesið framundan var íðilgrænt með miklum slægjum bænda víða að úr dalnum.

Væri úr vegi að hlúa nú að þessum stað "á þann hátt að til menningarauka horfi" í samræmi við hug hjónanna sem afhentu hann íslensku þjóðinni að gjöf og ríkinu til varðveislu í árslok 1948?

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson