Mbl. Miðvikudagur 24. mars 1999.

Rumskað við lok kjörtímabils

Stóriðjustefna

Íslenskar orkulindir eru takmarkaðar, segir Hjörleifur Guttormsson, og verulegt magn þarf til að fullnægja þörfum fyrir almennan markað á næstu öld og til framleiðslu vistvænna orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis.
KOMIÐ er að lokum kjörtímabils. Ríkisstjórnin liggur undir ámæli fyrir hömlulausa stóriðjustefnu og tillitsleysi við náttúru landsins. Tveimur mánuðum fyrir kosningar er allt í einu dustað rykið af gömlu plaggi sem nefnist "framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum". Í því stendur meðal annars að gera skuli "rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000(!) Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi."

Rétt 10 ár eru liðin frá því Alþingi samþykkti að tillögu undirritaðs ályktun um hliðstætt efni. Þessi viljayfirlýsing Alþingis "um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða" var svohljóðandi:
"Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar."
Í greinargerð með tillögunni var meðal annars vísað til reynslu Norðmanna "þar sem norska Stórþingið hefur friðlýst fjölmörg vatnsföll, sumpart um takmarkaðan tíma".

Skilningsleysi Alþýðuflokksráðherra

Á árunum 1992 og 1993 spurðist ég tvívegis á Alþingi fyrir um afdrif þessarar ályktunar. Þá var við völd fyrri ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Alþýðuflokkurinn lagði til umhverfisráðherrann, einn af öðrum. Í svari Eiðs Guðnasonar (518. mál á 115. löggjafarþingi) kemur fram að á árinu 1990 hafi í samstarfsnefnd Náttúruverndarráðs og orkuyfirvalda verið ákveðið að kanna virkjunar- og verndarsjónarmið sitt í hvoru lagi og bera saman líkt og gert hefur verið í Noregi. Vanda þurfi vel til verksins sem geti tekið nokkurn tíma. Vísað er í svarinu til óska Náttúruverndarráðs við ráðuneytið "að það geri ráðstafanir til þess að fé verði varið til þessa verkefnis á fjárlögum fyrir árið 1993 þannig að ljúka megi gerð áætlunar um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða fyrir haustið 1993". Enn var spurst fyrir um málið 1993 (92. mál á 117. löggjafarþingi). Í svari Össurar Skarphéðinssonar umhverfisráðherra við fyrirspurn minni sagði m.a., að heildaráætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða sé á lokastigi og von á að "að áætlunin verði afhend umhverfisráðherra um miðjan nóvember 1993". Því miður reyndust þetta blekkingar. Út kom að vísu 25 blaðsíðna greinargerð auk fylgiskjala á vegum Náttúruverndarráðs 1994 undir heitinu "Verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera". Þar var þó aðeins um að ræða fyrstu drög og tillögur um rannsóknir en enga heildaráætlun um verndun. Í sparnaðarskyni var skýrsla þessi aðeins gefin út í mjög takmörkuðu upplagi og aldrei send alþingismönnum!

Umhverfisráðuneyti úti í horni

Það kemur æ betur í ljós hvaða skilning núverandi ríkisstjórn hefur á hlutverki umhverfisráðuneytisins. Þegar nú loks á að hefjast handa um rammaáætlun til langs tíma um vatnsafl og jarðvarma er iðnaðarráðuneytinu falin forysta málsins. Hér er nýting en ekki verndun í forgrunni, þótt reynt sé að gefa málinu annað yfirbragð. Í Noregi hefur umhverfisráðuneytið haft forustu í vinnu að flokkun vatnsfalla og um verndaráætlanir allt frá árinu 1981 en vel skilgreind samvinna verið við orkuyfirvöld. Hér er þessu snúið við. Þó fer umhverfisráðuneytið hér með skipulagsmál og ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að niðurstöður rammaáætlunarinnar, ef þær einhvertíma líta dagsins ljós, verði "færðar að skipulagi". Meðferð Framsóknarflokksins á ráðuneyti umhverfismála hefur verið samfelld sorgarsaga. Umhverfisráðherrann hefur verið niðurlægður í hverju stórmálinu á fætur öðru, síðast að því er varðar ákvörðunina um að undirrita ekki Kyótó-bókunina. Þegar ráðherrann nú er í raun kominn til annarra verka er honum haldið sárnauðugum með húsbóndatitil yfir tveimur ráðuneytum. Utanríkisráðherra og formaður Framsóknar skipar þessum málum að vild sinni og er ljóst hvor málaflokkurinn á upp á pallborðið nú um stundir, umhverfismál eða stóriðja.

Prófsteinn á sáttatal
Forystumenn Framsóknarflokksins hafa undanfarið látið í það skína að nú þurfi að leita sátta í harðnandi deilum sem tengjast stóriðjustefnu þeirra og náttúruvernd. Iðnaðarráðherra gefur í skyn að rammaáætlunin um nýtingu vatnsaflsins eigi að vera innlegg í slíka sáttagjörð. Stóriðja hefur verið helsta flagg ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. En ráðherrarnir ætla ekki að láta þar staðar numið. Á dögunum samþykkti stór meirihluti á Alþingi, stuðningslið ríkisstjórnarinnar ásamt þingmönnum Samfylkingarinnar, nýjar heimildir til raforkuöflunar fyrir stóriðjuver. Um leið gerði ríkisstjórnin grein fyrir enn stórfelldari stóiðjuáformum á næsta áratug. Alls er þarna um að ræða orkuöflun til stóriðju sem svarar til um 10 teravattstundum, en á síðasta ári voru framleiddar alls í landinu um 6,5 teravattstundir af raforku, þar af 3,8 til stóriðju. Ef ríkisstjórnin vill í raun sýna landsmönnum að einhver alvara liggi að baki sáttatalinu að því er varðar orkuöflun og náttúruvernd, þarf tvennt að koma til. Í fyrsta lagi að öll áform um frekari stóriðju verði lögð á hilluna uns mörkuð hefur verið sjálfbær orkustefna og gengið frá verndaráætlun fyrir vatnsföll og jarðhitasvæði. Í öðru lagi verði því lýst yfir að Kyótóbókunin verði lögð fyrir næsta Alþingi til staðfestingar, en frestur til sérstakrar undirritunar bókunarinnar rann út 15. mars síðastliðinn. Íslenskar orkulindir eru takmarkaðar og verulegt magn þarf til að fullnægja þörfum fyrir almennan markað á næstu öld og til framleiðslu vistvænna orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis. Frekari ráðstöfun orku til hefðbundinnar stóriðju hérlendis gengur þvert gegn markmiðunum um umhverfisvernd og sjálfbæran orkubúskap.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson