Mbl. - Laugardagur 24. apríl 1999.

Framsókn, Schengen og sölumenn dauðans

Eiturlyfjainnflutningur

Aðild að Schengen samkomulaginu, segir Hjörleifur Guttormsson, gæti gert baráttuna gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna frá meginlandinu erfiðari.

ÞAÐ er góðra gjalda vert að Framsóknarflokkurinn sem farið hefur með heilbrigðismál á þessu kjörtímabili segist vilja bæta úr vanrækslu stjórnvalda í baráttunni við fíkniefnavandann. Batnandi manni er best að lifa segir máltækið og vonandi styður Framsókn á þessu sviði við bakið á þeim sem verða í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili, þótt flokkurinn kunni að fá frí frá landsstjórninni.

Hitt er öllu verra að Framsóknaflokkurinn með formann sinn í fararbroddi leggur ofurkapp á að binda Ísland inn í Schengen-kerfið sem margir telja að geri baráttuna gegn ólöglegum innflutningi fíkniefna frá meginlandinu mun erfiðari en ella væri. Schengen-fyrirkomulagið gerir ráð fyrir að allt eftirlit með fólki í ferðum yfir landamæri í Vestur-Evrópu verði aflagt. Heimildir sem nú eru í vegabréfasamkomulagi Norðurlandanna um að taka megi stikkprufur af ferðamönnum verða ekki leyfðar samkvæmt Schengen-reglunum. Þótt tolleftirlit haldist að minnsta kosti að nafninu til hérlendis þar eð Ísland er ekki aðili að Evrópusambandinu, verður samspil vegabréfaeftirlits og tollgæslu úr sögunni.

Tillaga sem ekki mátti samþykkja

Ég hef á tveimur þingum flutt tillögu um úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna. Gerði hún ráð fyrirvandaðri athugun á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins. Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð umsagnaraðila við tillögunni hélt stjórnarmeirihlutinn henni fastri í allsherjarnefnd Alþingis. Virðist sem ekki hafi mátt afgreiða tillöguna af ótta við að úttektin leiddi í ljós vaxandi erfiðleika á að koma í veg fyrir fíkniefnasmygl til landsins eftir að Schengen-fyrirkomulagið kæmi til sögunnar.
Utanríkisráðherra hefur lagt kapp á að binda Ísland við Schengen sem fyrst og framkvæmdir við stækkun flugstöðvar í Keflavík gera ráð fyrir að Schengen-farþegar renni hér út og inn úr landinu án möguleika á að koma við vegabréfaeftirliti.

Álit lögreglustjórans í Reykjavík

Í umsögn dags. 23. nóvember 1998 til allsherjarnefndar um tillöguna sagði lögreglustjórinn í Reykjavík meðal annars um áhrif Schengen-aðildar:
Með því verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víða slakt innan svæðisins og sums staðar eru uppi allt önnur viðhorf til fikniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í sex af aðildarríkjum Schengen hafa t.d. verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna "til eigin nota". Reynslan sýnir að takmörkuð landamæravarsla hefur slæm áhrif, t.d. í Svíþjóð og Danmörku, að mati hlutaðeigandi aðila.

Ljóst er að stór hluti þeirra fíkniefna, sem flutt eru til landsins, kemur frá Evrópu. Mest af því sem lögreglan leggur hald á, kemur með farþegum í gegnum Keflavíkurflugvöll. Með takmörkuðu eftirliti þar og annars staðar minnka að öllu óbreyttu möguleikar tollgæslu til eftirlits með innflutningi fíkniefna."

Lögreglustjóraembættið lýsti sig reiðubúið að taka þátt í úttektinni, yrði eftir því óskað. Sama viðhorf kom fram í umsögn ríkislögreglustjóra, sem taldi að þarft gæti verið að fram færi úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna.

Óskiljanlegt er með öllu að stjórnarmeirihlutinn með utanríkisráðherra í fararbroddi skuli ekki einu sinni hafa viljað heimila úttekt á Schengen með tilliti til fíkniefna.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson