5. maí 1923 - 3. nóvember 1998 Magnús Torfi Ólafsson veitti leiðsögn mörgum sem reyndu að gera sér grein fyrir heimsmálum á eftirstríðsárunum þegar kalda stríðið var í algleymingi. Hann var vandaður blaðamaður sem lagði sig fram um að greina hismi frá kjarna og skoðaði einatt mál frá fleiri en einni hlið. Hann var einn af þeim pennum sem gerðu Þjóðviljann að málgagni sem enginn gat horft framhjá og ekki átti sinn líka meðal vinstridagblaða á Norðurlöndum. Greinar MTÓ um erlend málefni voru alltaf upplýsandi og sá sem þetta skrifar lét fáar þeirra fram hjá sér fara. Einhvers staðar á ég ljósmynd sem ég tók af honum við skrifborðið á Skólavörðustíg 19 í septemberbyrjun 1958 við upphaf þorskastríðs. Þær myndir eru hins vegar fleiri sem geymdar eru í huga mér af mörgu tilefni og renna hjá eins og á tjaldi nú að leiðarlokum. Magnús kom sem ritstjóri með nafna sínum Kjartanssyni í heimsókn til Austur-Þýskalands að mig minnir veturinn 1958-59. Það var fengur fyrir okkur námsmenn sem þar dvöldum að hitta þessa vitringa saman í Leipzig. Í samræðum við þá bar margt á góma, meðal annars lágum við ekki á gagnrýni okkar um margt í stjórnarfari í landinu Magnús átti áratug síðar drjúgan hlut í afdráttarlausri fordæmingu Sósíalistaflokksins á innrásinni í Tékkóslóvakíu, en það var eitt af síðustu verkum forystunar áður en flokkurinn var lagður niður. Magnús Torfi hætti blaðamennsku 1962 og gerðist deildarstjóri erlendra bóka hjá Máli og menningu í heilan áratug. Mátti ganga að honum vísum í búðinni á Laugavegi 18 og þar setti hann mark sitt á bókaúrvalið. Á þessum árum hafði ég betri tíma en fyrr og síðar til lestar samhliða kennslu í Neskaupstað og mikið af því efni hafði farið í gegnum hendur Magnúsar og urðu pöntunarlistarnir oft langir. Það gekk mikið á á vinstri væng stjórnmálanna á þessum árum. Alþýðubandalagið sem þá var kosningabandalag Sósíalistaflokksins og Málfundafélags jafnaðarmanna var í uppbyggingu sem félagslegt afl og var tekist á um framtíðarstöðu þess. Magnús gerðist fyrsti formaður félagsins í Reykjavík 1966 og undirritaður var raunar á sama tíma formaður nýstofnaðs AB-félags í Neskaupstað. Í alþingiskosningunum 1967 voru eftir hörð átök um uppstillingu bornir fram tveir listar í nafni Alþýðubandalagsins í Reykjavík og fékk Magnús ekki við það ráðið. Þetta átti sinn þátt í því að hann ári síðar fylgdi Hannibal Valdimarssyni og Birni Jónssyni úr Alþýðubandalaginu áður en því var formlega breytt í stjórnmálaflokk. Þótti mörgum sérstök eftirsjá að Magnúsi og var ég í þeim hópi. Þegar Samtök frjálslyndra og vinstri manna buðu fram í alþingiskosningunum 1971 skipaði Magnús fyrsta sæti Samtakanna í Reykjavík. Var það raunar óvænt, því að Hannibal hafði sjálfur ætlað sér það sæti en venti kvæði í kross og bauð sig fram á Vestjörðum þar sem hann náði glæsilegri kosningu. Magnús náði kjöri í Reykjavík og varð menntamálaráðherra í vinstristjórn undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Af lagabótum sem Magnús beitti sér fyrir verður lengst minnst laga um grunnskóla, sem náðu fram að ganga vorið 1974, skömmu áður en slitnaði upp úr stjónarsamstarfinu og „samtökin" liðuðust sundur. Um svipað leyti hafði hann með stuðningi meirihluta Alþingis hreinsað bókstafinn z úr íslensku ritmáli, en sá gjörningur olli talsverðum deilum. Á þessum árum var ég farinn að sinna náttúruverndarmálum, sem þá og lengi síðar heyrðu undir menntamálaráðuneytið. Magnús var sem ráðherra formaður sendinefndar Íslands á fyrstu umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var í Stokkhólmi í júní 1972. Þótti mér vænt um að geta lagt honum þar lið. Ári seinna bað hann mig að veita forystu við undirbúning að menntaskóla á Egilsstöðum og veitti hann því máli góðan stuðning. Seinna kjörtímabil sitt á Alþingi var Magnús liðfár en naut þess að geta fylgst með alþjóðamálum á þingum og hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ekki var Magnús Torfi fyrr horfinn af þingi en honum bauðst staða blaðafulltrúa ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar haustið 1978 og gegndi hann því starfi fyrir mörg ráðuneyti í 11 ár. Þarna lágu leiðir okkar saman með óvæntum hætti. Mér þótti reyndar sérkennilegt að sitja við ríkisstjórnarborð með fyrrverandi ráðherra sem skrifara úti í horni, en starfið leysti Magnús vel og samviskusamlega af hendi. Ástæðu þess að Ólafur forsætisráðherra bauð Magnúsi að gerast blaðafulltrúi stjórnar sinnar 1978 má líklega rekja til sviptinga í aðdraganda stjórnarslitanna 1974. Það sumar sat Magnús í starfsstjórn með öll ráðuneyti Samtakanna á herðum sér. Sem samgönguráðherra opnaði hringveg á Skeiðarársandi 14. júlí 1974. Magnús Torfi Ólafsson var maður heilsteyptur og fastur fyrir, dulur, með ríkt geð og gat verið glettinn og skemmtinn er svo bar undir. Uppruni að vestan leyndi sér ekki í málfari hans. Hann hafði betri yfirsýn um alþjóðamál en flestir ef ekki allir aðrir Íslendingar á síðari helmingi aldarinnar og miðlaði af þeirri þekkingu með ágætum..Sem stjórnmálamaður mátti þola margháttaðar sviptingar en bjargaðist sæmilega heill frá þeirri hildi. Ég hugsa til hans með virðingu og þakklæti. Hinriku og börnum þeirra hjóna sendi ég frá suðurhveli samúðarkveðjur. Hjörleifur Guttormsson
|