Hjörleifur Guttormsson 4. júlí 2000

Stóriðjumál enn í uppnámi

Ekki er ein báran stök í stóriðjuklúðri stjórnvalda. Á elleftu stundu voru í vor afgreidd á Alþingi lög um mat á umhverfisáhrifum. Sú lagasetning átti í raun að vera tveimur árum fyrr á ferðinni. Evrópurétturinn rak á eftir lagabreytingum og ýmsir voru óánægðir með reynslu af fyrri löggjöf. Frumvarp til nýrra laga kom seint fram á þingi í vetur og umhverfisnefndin hafði sem oft áður nauman tíma til skoðunar nýrrar og vandasamrar löggjafar. Mikill þrýstingur var frá ýmsum framkvæmdaraðilum að einfalda málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum. Sett voru í lögin ákvæði um svonefnda matsáætlun sem undanfara matsskýrslu. Á móti kom að ferlið var stytt í hinn endann með því að felld voru niður ákvæði um að Skipulagsstofnun geti úrskurðað framkvæmd í frekara mat. Samkvæmt nýju lögunum verður stofnunin annaðhvort að segja já eða nei að lokinni athugun matsskýrslu, dæma framkvæmd hæfa, ef til vill með skilyrðum, eða óhæfa vegna umtalsverðra neikvæðra áhrifa á umhverfið.

Lög í gildi - reglugerð vantar

Ný lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000 voru afgreidd á síðasta þingdegi og öðluðust gildi 25. maí. Um margt er útfærslan óljós og því er kveðið á um í 19. grein laganna að umhverfisráðherra setji í reglugerð, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar, nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Eru sérstaklega talin upp 10 svið þar sem reglugerðar þurfi við (19. grein), þar á meðal um framsetningu matsáætlunar og matsskýrslu, samráðsferlið, aðgang almennings að gögnum og kynningu á framkvæmd og úrskurðum. Í bráðabirgðaákvæði er kveðið á um að reglugerðin skuli sett eigi síðar en en 1. október 2000. Sá er gallinn á þessu öllu saman, að ekkert bólar á reglugerðinni, ekki einu sinni byrjað að vinna að undirbúningi hennar. Umhverfisráðherra hefur nýlega skipað starfshóp í málið, en hann hefur ekki komið saman þegar þetta er skrifað. Mat þeirra sem til svona vinnu þekkja er að erfitt muni reynast að ganga frá reglugerðinni fyrir haustið innan lögboðinna tímamarka.

Reyðarál og Landsvirkjun byrjuð matsferli

Vöntun reglugerðar kæmi kannski ekki að sök, ef ekkert væri að gerast tengt nýju lögunum þessa sumarmánuði. En það er nú eitthvað annað. Stærstu framkvæmdaáform Íslandssögunnar eru á þungu skriði, borin fram af Reyðaráli hf og Landsvirkjun. Bæði fyrirtækin voru farin að vinna eftir lögunum daginn sem þau tóku gildi, málþola að kemba fjöll og firði Austanlands og standa við NORAL-dagskrána. Í júní sl. hófu þau að kynna tillögur sínar að matsáætlun og ætla innan skamms að skila þeim formlega til Skipulagsstofnunar. Þar á bæ hafa menn 4 vikur til að skoða tillögurnar, samþykkja áætlunina eða vísa henni til föðurhúsanna í frekari vinnslu. Það er hér sem vandræðin byrja. Lögin eru afar óljós um það hvernig með tillögu að matsáætlun skuli fara, bæði gagnvart almenningi og milli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar. Hvaða rétt hefur almenningur til athugasemda á þessu stigi? Hvað um aðgang að gögnum og hvernig á að leiða ágreining á þessu stigi ferlisins til lykta? Framhaldið er með svipuðum hætti varðað óvissu á meðan reglugerð er ekki til staðar.

Bíða verður eftir reglugerð

Umhverfisráðherrann skrifaði grein um nýju lögin í Morgunblaðið 27. júní og var harla ánægð með þau. Hún minntist hins vegar ekki einu orði á það sem við á að éta, þ.e. lögboðna viðamikla reglugerð sem hennar er að setja. Allt mat á umhverfisáhrifum er í uppnámi á meðan þá leiðsögn vantar og réttaróvissan blasir við. Hér eiga allir sitt undir, almenningur í landinu og þeir sem undirbúa framkvæmdir. Stóriðjumálin vega þar þyngst um þessar mundir og öllu stappinu er stefnt í óvissu réttarfarslega eins og málum er komið. Það eitt að ferlið er byrjað án þess vegvísarnir séu til staðar skapar óvissu fyrir allt framhaldið. Ef síðar reynir á dómskerfið eru formsatriðin oft þúfan sem veltir hlassi.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim