Hjörleifur Guttormsson 4. okóber 2000

Vatnajökull og þjóðgarðshugmyndin

Ávarp við upphaf ráðstefnu á Kirkjubæjarklaustri 29. september 2000

Einhver mesta og sérstæðasta afreksferð sem sögur fara af hérlendis er búferlaflutningur Gnúpa-Bárðar á landnámsöld úr Bárðardal suður um Vonarskarð til Fljótshverfis á vit betri landkosta. "Hann gerði kjálka hverju kykvendi, því er gengt var", segir sagan, "og lét hvat draga sitt fóður og fjárhlut". Mættu nútíðarmenn nokkuð af læra um sjálfbæran ferðamáta! Eftir Gnúpa-Bárði var síðar nefnd Bárðarbunga, sem lyftir rima sínum í allt að 2000 metra hæð á norðvesturhorni Vatnajökuls.

Ferðir yfir Vatnajökul

Á miðöldum ferðuðust Norðlendingar ár hvert suður yfir öræfi til sjóróðra í Hornafirði og Suðursveit. Leið þeirra lá lengi vel um hjarnsvæði og stækkandi jökul sem þeir sem fjær bjuggu nefndu því óljósa hugtaki Austurjökla og lengi bar heitið Klofajökull. Nú hefur það nafn að fullu vikið fyrir Vatnajökulsheitinu en sú nafngift á trúlega rót að rekja til Gríms-vatna, einnar öflugustu eldstöðvar og mesta jarðhitasvæðis á Íslandi. Nálægt 1600 höfðu ferðir yfir jökul lagst af en áfram kræktu menn um hríð austur fyrir jökul um fjallendið upp af Lóni þar sem Norðlingaheiti lifa enn góðu lífi. Heiti Grímsvatna lifði í máli manna en staðsetning vatnanna var flestum hulin fram á þá öld sem nú er senn á enda. Jafnvel Sveinn Pálsson var fjarri því að geta sér rétt til um hvar Grímsvötn væri að finna. Næst sanni komst Sæmundur Magnússon Hólm, sem sýndi á uppdrætti 1777 eldstöð sem hann kallar Súlu inni í Vatnajökli mjög nálægt því sem Grímsvötn ættu að vera samkvæmt uppdrættinum. Setti hann gos í þessari eldstöð í samband við hlaup á Skeiðarársandi.

Í rétta átt vísuðu líka öld síðar orð Sigurðar Gunnarssonar, síðar prests á Hallormsstað, sem fór um Vonarskarð með Birni Gunnlaugssyni landmælingamanni 1839 og lögðu þeir leið sína upp Dyngjujökul sunnan Kistufells. Þeir Björn og Sigurður voru raunar fyrstu nafngreindu einstaklingarnir sem vitað er að hafi lagt leið sína um Vonarskarð á eftir Gnúpa-Bárði - að vísu í hina áttina. Í grein sem Sigurður Gunnarsson skrifaði 1876 í Norðanfara "Um öræfi Íslands" hvetur hann landa sína til rannsókna á Vatnajökli og telur að veita eigi fé til slíkra rannsókna og kalla til jarðfróða menn. Hann vísar til eldsumbrota í Vatnajökli í heilan áratug á undan Dyngjufjallagosinu 1875 og spyr: "Hver veit um þær eldgosastöðvar? Hver hefur skoðað Grímsvötn og hveri þá sem þar vella alla tíð?"

Á fáeinum áratugum hefur verið svarað mörgum spurningum um Vatnajökul og hvað undir honum býr. Margt er þó enn á huldu og sumt verður seint ráðið. Um Vatnajökul fara ekki aðeins rannsóknamenn heldur er jökullinn orðinn leikvöllur manna í sívaxandi mæli. Því fylgja kostir en um leið kemur upp þörfin fyrir skipulag sem þarf að ná til sjálfs jökulsins og umhverfis hans.

Náttúruvernd og frumkvöðlarnir

Náttúruvernd á sér tæpast meira en hálfrar aldar sögu hérlendis. Einn af brautryðjendunum var Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur. Erindi sem hann flutti á 60 ára afmæli Hins íslenska náttúrufræðifélags haustið 1949 er enn þörf lesning. Brýning hans flýtti fyrir því að hér voru sett fyrstu lögin um náttúruvernd 1956 sem síðan voru endurskoðuð 1971. Framsýnir stjórnmálamenn eins og Eysteinn Jónsson áttu þar hlut að máli. Í þessum lögum var lagður grunnur að friðlýsingu landsvæða og annarra náttúrufyrirbæra. Þjóðgarðarnir í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum urðu til á grunni þessarar löggjafar sem og fjöldi annarra friðlýstra svæða. Lagaákvæðin um þjóðgarða hafa haldist lítið breytt frá fyrstu útgáfu, nema 1996 var bætt við heimild um að leggja megi til þjóðgarðs land í einkaeign með sérstökum samningi.

Tillagan um jöklaþjóðgarða

Á árunum 1996-1998 fór fram mikil umræða á Alþingi og í þjóðfélaginu um stefnumörkun varðandi meðferð óbyggða í landinu, ekki síst miðhálendisins. Aðkoma að þessari umræðu var úr ólíkum áttum eins og hagsmunirnir að baki. Að meginhluta endurspeglaði hún hinsvegar nýja upplifun og næma tilfinningu þorra þjóðarinnar fyrir óbyggðunum. Samtímis var unnið að gerð skipulagsramma fyrir miðhálendið og til varð fyrsta svæðisskipulag þess til 2015. Upp úr þessari umræðu óx tillaga um fjóra stóra þjóðgarða á miðhálendinu með meginjöklana sem kjarna. Alþingi valdi að veita hugmyndinni um Vatnajökulsþjóðgarð forgang með samþykkt sinni 10. mars 1999. Í áliti umhverfisnefndar til þingsins um málið segir meðal annars:

"Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fengist reynsla sem síðar gæti nýst við hugsanlegan undirbúning fleiri slíkra þjóðgarða á miðhálendinu. Vakin er athygli á að tillagan fellur vel að fyrirliggjandi skipulagstillögu um miðhálendið. Að Vatnajökli liggja ýmis svæði sem þegar njóta verndar að náttúruverndarlögum, svo sem friðland á Lónsöræfum, Kringilsárrani og Eldborgaraðir (Lakagígir). Þá nær þjóðgarðurinn í Skaftafelli nú þegar inn á Vatnajökul. Með friðlýsingu alls jökulsins tengjast þessi svæði saman í eina verndarheild."

Núverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, tók virkan þátt í hálendisumræðunni svonefndu, þá sem þingmaður á sínu fyrsta kjörtímabili. Meðal annars sagði hún í umræðum á Alþingi vorið 1997: "Ég held að við ættum að staldra við núna og reyna að gera okkar besta í því að vernda miðhálendið til framtíðar..." Það er gott að vita af slíkum hug, nú þegar hún ber öðrum fremur ábyrgð á umhverfismálum á Íslandi. Að tillögu umhverfisráðherra hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Dúkurinn hefur verið lagður. Nú þurfa sem flestir að hjálpa til við að koma kögrinu á hann.

Íslenskt og alþjóðlegt stórmál

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er stórmál og ótvírætt íslenskt ákvörðunarefni. Um það þarf að ríkja sem víðtækust samstaða og lykill að árangri er sem best samráð og samvinna við þá sem næstir eru vettvangi. Hugmynd heimamanna í Hornafirði um jöklasafn á Höfn fellur einkar vel að þjóðgarðshugmyndinni. Hið sama á við um tillögu Náttúruverndarsamtaka Austurlands um Snæfellsþjóðgarð, sem tengjast myndi Vatnajökli. Við þurfum jafnframt að líta á stofnun þjóðgarða sem þessara í alþjóðlegu samhengi í ljósi þróunar og líklegrar framvindu. Nærvera góðra erlendra fyrirlesara á þessari ráðstefnu, þeirra Jack D. Ives og Thor Midteng, sýnir að aðstandendur ráðstefnunnar sem hér er að hefjast sækjast eftir hollráðum handan um höf. Verum minnug þess að fáar þjóðir hafa yfir þeim kostum að ráða eins og við Íslendingar að geta ráðstafað stórum lítt snortnum landsvæðum til þjóðgarðsstofnunar. Gildi þjóðgarðs sem tæki til Vatnajökuls og nálægra svæða á ótvírætt eftir að vaxa hröðum skrefum, hvort sem beitt er efnahagslegum mælistikum eða huglægari kvörðum eins og tækifæri fyrir fólk til lífsfyllingar. Verndun hreinleika jöklanna er jafnframt nátengd varðveislu ferskvatnsauðlinda landsins, sem fyrr en varir verða gullsígildi.

Hvernig skilum við landinu?

Í nefndu ávarpi fyrir hálfri öld sagði Sigurður Þórarinsson:

"Við lifum á tímum, sem meta flest til silfurs og seðla og kalla það raunsæi, en nefna ef til vill trú á þau verðmæti, sem ég hef hér talið að vernda þyrfti, rómantík og flótta frá veruleikanum. En til eru þau verðmæti sem ekki verða metin til fjár og eru það þó þau, sem gefa mannlegu lífi innihald og meiningu og er ekki vafasamt raunsæi að vanmeta þau? Seðlarnir fúna og við, sem söfnum þeim, fúnum líka, en við fáum ekki umflúið dóm komandi kynslóða um það, hvernig við skiluðum landinu okkar í þeirra hendur."

Vonandi verða slík viðhorf ofarlega í hugum þeirra sem fjalla um mótun Vatnajökulsþjóðgarðs og nýrra þjóðgarða í framtíðinni. Stefnan hefur verið tekin, drjúgur hluti af myndinni liggur fyrir, en eftir er að móta og fylla upp í rammann, - vonandi með helstu svæðum sem þessi stærsti jökull landsins hefur sett mark sitt á.

Megi þessi ráðstefna okkar í senn verða skemmtileg, fræðandi og árangursrík.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim