Hjörleifur Guttormsson | 4. desember 2000 |
Pistlahöfundur á glapstigum Um ósannindavaðal Karls Th í Spegli RÚV Fastir dálkahöfundar eiga ekki alltaf sjö dagana sæla að finna upp á einhverju sem vekur athygli. Reynir þá á frumleika en jafnframt að falla ekki í gryfju ósanninda eða leggja út af eigin hugarburði. Það síðartalda henti Karl Th Birgisson pistlahöfund í Spegli Ríkisútvarpsins þessar vikurnar, nánar tiltekið í þætti sem hann flutti miðvikudaginn 29. nóvember síðastliðinn. Þar fjallaði hann um ráðgerðar álverksmiðjur og taldi verksmiðjuhugmynd á Reyðarfirði hafa fengið allt aðrar og óblíðari viðtökur umhverfisverndarfólks en fyrirhuguð stækkun verksmiðju Norðuráls í Hvalfirði. Nefndi hann ítrekað þrjá einstaklinga til sögunnar og sakaði þá um tvískinnung, þar á meðal undirritaðan. Í leiðinni gerði hann þeim tugþúsundum sem fyrir ári kröfðust þess með undirskrift sinni að Fljótsdalsvirkjun færi í lögformlegt mat upp skoðanir með óvenju ósvífnum dylgjum. Þar sem hér var um grófa árás að ræða sem sett var fram í skjóli Ríkisútvarpsins vil ég benda á nokkur atriði úr þessum ósannindavaðli pistlahöfundarins. Burðarásinn í málflutningi Karls var sá að lítil viðbrögð hefðu orðið þá auglýst hafi verið á dögunum eftir athugasemdum við matsáætlun vegna stækkunar hjá Norðuráli. "Það var ekki fyrr en skipulagstjóri hafði framlengt sérstaklega frestinn til að gera athugasemdir að nokkrir aðilar rönkuðu við sér...". Þetta er alrangt og greinilega sett fram í trausti þess að hlustendur hafi ekki kynnt sér leikreglurnar samkvæmt gildandi lögum. Skipulagsstjóri hafði ekki auglýst neina matsáætlun vegna Norðuráls þegar Karl flutti pistil sinn né leitað athugasemda frá almenningi, hvað þá framlengt einhvern frest. Hins vegar er slíkrar auglýsingar að vænta þá þetta er skrifað í desemberbyrjun og geta menn þá gert athugasemdir við áætlunina. Helsta tækifæri almennings til athugasemda er síðan þegar matsskýrsla framkvæmdaaðila liggur fyrir, í þessu tilfelli líklega á næsta ári. Það sem Karl virðist ekki átta sig á er að verkfræðistofan Hönnun hf hefur fyrir hönd framkvæmdaaðila á síðustu vikum verið að vinna að drögum að matsáætlun og kynnt þau á heimasíðu sinni. "Hvernig má það vera að allt fari á annan endann í Reykjavík út af álveri í Reyðarfirði en svo þurfi að framlengja sérstaklega frest til þess að einhver geri athugasemdir við ennþá stærra álver í Hvalfirðinum" var næsta staðhæfing sem byggja átti undir ímyndina höfuðborgarbúar gegn Austfirðingum. Fyrir ári voru engin ákvæði um matsáætlanir í lögum og því engu saman að jafna, fyrir utan ranga og margendurtekna staðhæfingu Karls um "ennþá stærra álver í Hvalfirðinum". Og enn kvað pistlahöfundurinn: "Nú dugar ekki að segja að lætin í fyrra hafi verið út af virkjunum en ekki álveri því að baráttan gegn Fljótsdalsvirkjun var í langflestum tilvikum mjög gegnsætt fíkjublað til að skýla nekt þeirra sem vildu ekkert álver og vilja ekki enn sama hvað það kostar." Hér er Karl Th áfram á hálum ís og hygg ég að flestir lesi öðru vísi í þau átök sem urðu í fyrravetur og lyktaði með kúvendingu stjórnvalda. Eftir rangar staðhæfingar, eina af annarri, var síðan meginstefið hjá Karli að draga upp mynd af firringu og óvild íbúa höfuðborgarsvæðisins í garð landsbyggðarinnar. Þar er hann á báti með talsmönnum samtakanna Afl fyrir Austurland sem setja sig í gervi píslarvottar og láta eins og Austfirðingar vilji upp til hópa risaálver á Reyðarfirði. Sannleikurinn er sá að skiptar skoðanir eru meðal Austfirðinga sem og annarra landsmanna um stóriðjustefnu stjórnvalda, óháð því hvar ráðgert er að hola niður verksmiðjum. Karli Th Birgissyni er auðvitað velkomið að reyna að gera þann sem hér heldur á penna tortryggilegan í hverri grein. En þegar álverkmiðja í Hvalfirði er tilefni heilaspuna hans sakaði ekki að hann kynnti sér málavexti ögn betur, meðal annars málafylgju mína á Alþingi 1995-1998 þegar stjórnvöld voru að koma fótum undir álverksmiðju þar með lögleysu og yfirgangi. Hjörleifur Guttormsson |