Hjörleifur Guttormsson | 5. apríl 2000 |
Tálvonir um ál Atburðarásin í stóriðjumálum hefur verið býsna hröð og óvænt fyrir marga. Rúmur mánuður er liðinn frá því að umhverfisráðherra vísaði mati á umhverfisáhrifum álverksmiðju á Reyðarfirði á byrjunarreit. Í síðustu viku tóku svonefndir fjárfestar af skarið og kistulögðu það módel sem unnið hefur verið eftir til orkuöflunar í þágu sömu verksmiðju. Eyjabakkamiðlun sem mest hefur verið deilt um er væntanlega úr sögunni og gangi það eftir mun framkvæmdaundirbúningur lúta settum leikreglum með "lögformlegu mati". Stjórnmálamennirnir sem stóðu vörð um aðra túlkun laga og réttar sitja nú uppi með skömmina. Vilja menn ekkert læra? Ætla mætti að þessar sviptingar hefðu orðið mönnum lexía og þeir tækju sér smátíma til umhugsunar við nýjar aðstæður. Það virðist þó ekki gilda um þá sem draga stóriðjuvagninn. Þegar eru komnir nýir svardagar og tímasetningar um 360 þúsund tonna verksmiðju og Kárahnjúkavirkjun. Iðnaðarráðherrann segir í Morgunblaðinu 30. mars: "Hins vegar finnst mér kosturinn við þetta vera sá að við gætum innan örfárra vikna fengið niðurnegldar yfirlýsingar frá fjárfestum um að þetta verkefni verði að veruleika....". Enn á ný fyrirheit sem engin innistæða er fyrir. Í fyrsta lagi munu fjárfestar, Norsk Hydro sem aðrir, í bráð engar bindandi skuldbindingar gefa um að ráðast í þessa framkvæmd og í öðru lagi er matsferli allra þátta málsins eftir og rannsóknir sem því tengjast. Á meðan eru spurningarmerkin mörg og stór, að ekki sé talað um ytri aðstæður í heimsbúskap og á mörkuðum.. Ráðherrarnir virðast áfram eiga erfitt með að horfast í augu við það lýðræðislega ferli sem mat á umhverfisáhrifum á að tryggja. Óvissuþættir í umhverfismati Mat á umhverfisáhrifum varðar alla þætti viðkomandi framkvæmda, náttúrufarslega, samfélagslega og hagræna. Þetta vill stundum gleymast. Þannig vega samfélagslegu áhrifin í þessu máli afar þungt og fyrir þeim var gerð allsendis ófullnægjandi grein síðasta haust að mati Skipulagsstofnunar. Hagrænu þættirnir eru að sama skapi stórir og nægir að nefna raforkuverð og þá gífurlegu áhættu sem blasir við Landsvirkjun og almennum viðskiptaaðilum þess fyrirtækis. Náttúrufarsþættirnir varða bæði verksmiðju og virkjanaáform. Fyrir liggur það mat Veðurstofu Íslands að veðurfarsaðstæður á Reyðarfirði séu afar erfiðar þegar stóriðja á í hlut. Þannig sé 240 þúsund tonna álver á mörkum þess að vera ásættanlegt þótt beitt væri vothreinsun, hvað þá stærri verksmiðja. Losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni sprengir allar viðmiðanir sem Íslandi eru ætlaðar í Kyótóbókuninni. Staða Íslands gagnvart loftslagssamningnum er enn í óvissu og afdrif þess máls á næstu misserum hlýtur að hafa áhrif á mat á verksmiðjunni. Vandamál tengd Kárahnjúkavirkjun Kárahnjúkavirkjun ristir sundur víðernin norðan Vatnajökuls og byggingu hennar og rekstri fylgja fjölmörg vandamál. Aurburður í Hálslón yrði tímasprengja og veita vatns frá Jöklu austur í Lagarfljót hefði víðtæk áhrif, sem lítt hafa verið könnuð. Mikil áhrif á hreindýrastofninn blasa við, fyrir svo utan nær 190 metra háa stíflu þvert á Hafrahvammagljúfur. Þetta og fjölmargt fleira verður viðfangsefni rannsókna og mats á næstu árum með þátttöku almennings í landinu. Það er siðlaust af stjórnmálamönnum að gefa í skyn að þeir hafi niðurstöðu málsins í hendi sér. Til þess skortir forsendur. Umræðan um risaálver í Reyðarfirði og allt sem því fylgir mun halda áfram enn um langa hríð. Margt bendir nú til að það verði nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum 2003 að taka ákvarðanir um framhaldið, nema tjaldið verði fallið löngu fyrr. Hjörleifur Guttormsson |