Hjörleifur Guttormsson | 5. júní 2000 |
Hættulegt handahóf í stjórnsýslu Bágt er að horfa upp á handahóf stjórnvalda í málefnum landsbyggðar. Heildstæð hugsun og yfirsýn virðast bannorð en skottulækningar þeim mun ofar á blaði. Meirihluti á Alþingi, stjórnarliðar studdir af Samfylkingunni, hefur nú innsiglað kjördæmabreytingu sem ber þess vott að höfundarnir hafi hvorki lært að gagni landafræði né Íslandssögu. Nægir að benda á þá visku að kljúfa Norðlendingafjórðung um þvert og skipta Reykjavík í tvö kjördæmi. Verður þessi gjörningur lengi í minnum hafður. Hér átti löggjafinn leik á borði að jafna atkvæðisrétt í landinu með því að gera Ísland allt að einu kjördæmi til Alþingis. Jafnhliða átti að setja á fót nýtt stjórnsýslustig með fimm fylkjum, höfuðborgarsvæði og fjórum landsfjórðungum. Með þessu móti hefði einkum unnist tvennt. Alþingi hefði fengið skýrt umboð til að fjalla heildstætt um landsins gagn og nauðsynjar og jagið um mismun atkvæðisréttar hefði verið úr sögunni. Með stofnun fylkja hefði skapast nýr og ákjósanlegur grunnur til að efla svæðisbundna sjálfstjórn og byggja upp þekkingu á heimamálum. Í staðinn eru menn nú að þenja út sveitarfélög með sameiningu oft langt út yfir skynsamleg mörk. Fylki kjörnar samstarfseiningar Lýðræðislega kjörin fylkisþing væru kjörinn vettvangur til að takast á um hagsmunamál heima fyrir og nýtingu opinbers fjármagns svæðinu til hagsbóta. Þannig gætu myndast þau vaxtarsvæði og þjónustukjarnar sem seint verða til með handstýringu frá Alþingi eða úr Stjórnarráðinu. Heimamenn hefðu verið knúðir til að koma sér saman um sameiginlegar lausnir og fylkin hefðu sjálfkrafa orðið skipulagseiningar í landrænu og hagrænu tilliti. Um þetta fluttum við Steingrímur J. Sigfússon tillögur á Alþingi fyrir 15 árum og enn var á þetta minnt nýlega þegar kjördæmabreytingin var á dagskrá. Rök fyrir fylkjaskipan eins og hér um ræðir má sækja allt aftur á þjóðveldisöld og hún félli einnig ólíkt betur en nýja kjördæmaskipanin að samstarfi sveitarfélaga eins og það hefur þróast síðustu áratugi. Markviss dreifing stjórnsýslu Með fimm fylkjum fengist svæðaskipting sem auðvelda myndi stórum landfræðilega dreifingu opinberrar stjórnsýslu, sem ekki næst nema að takmörkuðu leyti á grunni sveitarfélaga. Fylkin væru nægilega stórar einingar til að byggja upp stjórnsýslu ríkisins á öllum helstu málasviðum og hún fengi um leið bakhjarl í fylkisþingunum. Núverandi viðleitni til að flytja stofnanir hins opinbera sem gegna mistöðvarhlutverki frá Reykjavík út á land leysir lítinn vanda og vinnur um margt gegn skynsamlegri stjórnsýslu. Miklu vænlegra er að hlúa að svæðisbundinni uppbyggingu í helstu málaflokkum og færa með því þjónustuna nær fólkinu. Það yrði jafnframt til að fjölga sérmenntuðu fólki á landsbyggðinni. Núverandi handahóf þar sem einstakir ráðherrar skáka með illu eða góðu einstökum stofnunum á sínu valdsviði út á land snýst fyrr en varir gegn landsbyggðinni. Ólíkt ráðlegra er að hlúa að svæðisbundinni starfsemi, fjölga meðal annars störfum á sviði rannsókna, mennta og heilbrigðismála þar sem þeirra er augljós þörf og draga um leið úr yfirbyggingu hins opinbera í höfuðstaðnum. Hjörleifur Guttormsson |