Hjörleifur Guttormsson 7. febrúar 2000


Ætla Akureyringar að gæta hagsmuna dreifbýlisins?

Fiskur undir steini

Umræðan um málefni landsbyggðarinnar er oft á kostulegum nótum. Það nýjasta í þeim efnum eru hugmyndir iðnaðarráðherra bæjarforystunnar á Akureyri að leysa Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK) upp og sameina fyrirtækið orkuveitum í eigu Akureyrarbæjar. Um leið er ætlunin að setja höfuðstöðvar þessa nýja fyrirtækis niður á Akureyri. Þetta kann að vera óvitlaus hugmynd frá sjónarhóli Akureyringa, en landsbyggðarfólk almennt ætti að hugsa sinn gang áður en það klappar fyrir þessari ráðagjörð. Starfsemi Rafmagnsveitnanna var fyrir löngu skipt niður svæðisbundið og markvisst hefur verið dregið úr yfirbyggingu fyrirtækisins í höfuðstað landsins.

Hver á að tryggja jöfnun raforkuverðs?

Rafmagnsveitur ríkisins hafa lengi fengist við það örðuga verkefni að byggja upp og reka raforkukerfi í dreifbýli. Jafnframt hefur RARIK reist og rekið nokkrar vatnaflsvirkjanir svo og varaaflsstöðvar en fyrirtækið hefur í auknum mæli orðið að kaupa orku frá Landsvirkjun. Markaðslegar forsendur til að bjóða viðskiptavinum RARIK hliðstætt raforkuverð og í boði er á stærstu þéttbýlissvæðunum hafa ætíð verið veikar. Verst hefur samkeppnisstaðan verið í rafhitun samanborið við hagstæðar jarðvarmaveitur. Til þess að hamla gegn óviðunandi mismunun hafa Rafmagnsveiturnar og raunar einnig Orkubú Vestfjarða orðið að reiða sig á beinan og óbeinan stuðning af almannafé. Tekna til verðjöfnunar var um skeið aflað með sérstöku verðjöfnunargjaldi en eftir að það var lagt niður hefur komið til margháttaður ríkisstuðningur, m.a. í formi yfirtöku lána vegna fjárfestinga.

Til að létta á rafhitunarkostnaði íbúa á “köldu svæðunum” hafa komið til beinar greiðslur úr ríkissjóði á fjárlögum auk sérstaks afsláttar Landsvirkjunar á raforkusölu til húshitunar. Eftir sem áður er rafhitunarkostnaður 2-3 sinnum hærri en hjá hagstæðum jarðvarmaveitum.Valdamenn tala um þessar mundir digurbarkalega um að hérlendis skuli innleidd samkeppni á raforkumarkaði eftir forsögn frá Evrópusambandinu. Engin skýr svör hafa fengist um það hvernig tryggja eigi við þær aðstæður verðjöfnun svipað og nú gerist á svæði Rafmagnsveitna ríkisins og hjá Orkubúi Vestfjarða.

Allt í einum graut

Kosturinn við rekstrarform Rafmagnsveitna ríkisins er að pólitísk ábyrgð samfélagsins á fyrirtækinu hefur legið í augum uppi. Alþingismenn og fjármálaráðherrar hvers tíma hafa nauðugir viljugir orðið að líta á skyldur samfélagsins við orkumál dreifbýlisins. Orkubú Vestfjarða hefur jafnframt notið hliðstæðrar fyrirgreiðslu og RARIK.

Ég óttast að með því að leggja Rafmagnsveitur ríkisins niður og drepa verkefnum þeirra á dreif muni ríkisvaldið eiga auðveldara með að hlaupa frá skyldum sínum um jöfnun orkuverðs og afhendingaröryggi og varpa þeim vanda yfir á viðkomandi sveitarfélög og veitusvæði. Það er óskynsamlegt að blanda þessum undirstöðuþáttum sem varða byggðir í öllum landshlutum saman við hagsmuni eins byggðarlags, hvað þá að setja það í samhengi við breytta kjördæmaskipan. Hvaða hag sjá til dæmis Sunnlendingar í því að eiga raforkumál sín undir orkuveitu með þungamiðju á Akureyri? Þá ættu Austfirðingar ekki síður að gjalda varhug við hugmyndum sem þessum. Margt bendir til að oddvitar Akureyrar hyggist styrkja stöðu síns byggðarlags með því að ná forræði yfir austfirskum málefnum, ekki bara í orkumálum heldur á öðrum sviðum opinberrar þjónustu. Með kjördæmabreytingunni stefnir þannig í að Austurland verði smám saman sett undir Akureyri í hagræðingarskyni.

Kjarni þessa máls er sá að nýr iðnaðarráðherra hefur ásamt bæjarstjóranum á Akureyri sett fram vanhugsaða hugmynd og hvorki haft fyrir því að rökstyðja hana né kynna hlutaðeigandi.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim