Hjörleifur Guttormsson 7. desember 2000

Hrunadans stóriðjunnar

Athugasemdir til Skipulagsstofnunar vegna Norðuráls

Stóriðjudansinn er stiginn víða um þessar mundir. Nú er það Norðurál sem vill fá að stækka verksmiðju sína í Hvalfirði upp í 300 þúsund tonna afköst á ári við fyrstu hentugleika. Til þess þarf "aðeins" um 10% af virkjanlegu vatnsafli í landinu eða 3,1 teravattstund. Hvað er það á milli vina? Þegar spurt er hvaðan orkan eigi að koma verður fátt um svör, að minnsta kosti í bili. Landsvirkjunarmenn vilja þó ekki standa alveg á gati og geta vísað á að heimild sé fyrir Búðarhálsvirkjun, en hún er reyndar bara dropi í þessa hít. Þá er nefnd til sögunnar miðlun og veita í Þjórsárverum, þ.e. Norðlingaalda og Kvíslaveita nr. 6 og svo er eitthvað eftir í Neðri-Þjórsá. En fyrst ætlar Norðurál að koma verksmiðjunni í gegnum nálarauga umhverfismats. Best að þegja um virkjanirnar á meðan.

Ríkisstjórn í þykjustuleik

Ekkert er ríkisstjórninni jafn kært og stóriðjuverin. Þegar að þeim kemur standa ráðherrarnir upp og hneigja sig. Þetta er nú einu sinni eitt af fáu sem stjórnmálamenn telja sig geta haft áhrif á í framkvæmdum og atvinnulífi, fyrir utan hafnir og vegaspotta. Þegar allt ætlaði vitlaust að verða út af virkjunum í fyrra fann Finnur Ingólfsson - blessuð sé minning hans - upp á því að búa til Rammaáætlun um nýtingu orkulinda. Hann kvaddi til herskara af fólki og Siv umhverfisráðherra fékk að standa álengdar. Hins vegar má ríkisstjórnin ekki vera að því að bíða eftir niðurstöðu úr þessari vinnu, ekki frekar en úrslitum í loftslagsmálunum. Rammaáætlunin var líka aldrei annað en þykjustuleikur svona upp á punt.

Norðuráli liggur á

Þessa dagana er Skipulagsstofnun að fara yfir tillögu Norðuráls að matsáætlun fyrir risaálverið á Grundartanga. Almenningur fær að leggja inn athugasemdir fram til 15. desember. En einnig matsáætlunin á bara að vera sýndarleikur, því að strax í janúar ætlar Norðurál að vera búið að meta málið og leggja inn skýrslu til skipulagsstjóra. Allt skal vera klappað og klárt fyrir vorið. Nema svo undarlega vilji til að Skipulagsstofnun hafi eitthvað við þessa hraðferð að athuga. Þá færi nú í verra.

Milljón tonn í gróðurhúsið

Ef marka má áætlun Mr. Petersons hjá Norðuráli hyggjast þeir leggja um milljón tonn af gróðurhúslofttegundum árlega inn á reikning Íslands. Síðan á að vera svigrúm til losa 6300 tonn af brennisteinstvíoxíði út í andrúmsloftið, því að ekki á að kosta til vothreinsun. Bæta skal ár hvert 4800 tonnum af kerbrotum í landfyllingu við Grundartanga með öllum þeim kræsingum sem þau innihalda. Sem minnst á að tefja sig á að rýna í díoxín, PAH og þungmálma enda er það bara tittlingaskítur og skraut ofan á mengunarhauginn. Allt skal unnið með nýjustu tækni enda er hægt að byggja á hálfrar aldar gamalli fabrikku frá Bæjaralandi sem flutt var hingað sællrar minningar. Starfsleyfi fyrir 180 þúsund tonna verksmiðju var útgefið og stimplað af Framsóknarflokknum c/o Guðmundi Bjarnasyni í mars 1997 - þvert ofan í lög og reglur. Það er vissulega munur að hafa menn í stjórnarráðinu sem kunna til verka.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim