Hjörleifur Guttormsson 10.maí 2000

Brussel-trúboðið og Samfylkingin

Skýrsla utanríkisráðherra til Alþingis um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi hefur greinilega valdið þeim sem boða aðild Íslands að Evrópusambandinu talsverðum vonbrigðum. Niðurstöður skýrslunnar renna ekki stoðum undir að vænlegt sé eða einhlítt að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu. Í skýrslunni koma þvert á móti fram fjölmörg atriði sem sýna hversu varhugavert það væri fyrir íslenska hagsmuni að gerast aðili að þessu ríkjasambandi. Skýrslan tekur þó engan veginn af skarið, enda er sagt hún eigi að vera hlutlæg úttekt til upplýsingar og umræðu. Pólitíska ábyrgð á þessu verki ber utanríkisráðherra, sem nú sem fyrr útilokar ekki aðild að ESB eins og hann undirrstrikaði á Alþingi fyrir fáum dögum. En þótt Framsóknarforystan gæli við ESB-aðild eru aðrir sóknharðari þegar að því kemur að breiða út trúna á Brussel-veldið.

Háyfirdómari RÚV

Háværustu raddirnar sem tala fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa komið úr tveimur áttum: Annars vegar frá Alþýðuflokknum sáluga og nú frá arftaka hans Samfylkingunni, hins vegar frá sumu af því fólki sem tengist utanríkisþjónustu Íslands í Brussel eða starfar hjá EFTA og ESB. Þeir einstaklingar hafa auðvitað eins og aðrir fullan rétt á að viðra sínar skoðanir, en öllu alvarlegra er að starfandi fréttaritari Ríkisútvarpsins í Brussel hefur um árabil verið sérstakur miðlari fyrir einhliða sjónarmið úr þessari átt og nýlega gerst háyfirdómari þegar aðild Íslands að ESB ber á góma.

Eftir að hafa leitt fram vitni frá Brussel í nokkrum þáttum RÚV um síðustu mánaðamót kvað fréttaritarinn sjálfur, Ingimar Ingimarsson, upp þann dóm um skýrslu utanríkisráðherra að hún væri á heildina litið jákvæð gagnvart aðild Íslands að Evrópusambandinu. Eitt vitnanna sem Ingimar leiddi fram og landsmenn fengu að hlýða á með morgunmatnum var starfsmaður hjá framkvæmdastjórn sjálfs Evrópusambandsins. Annað var námsmaður sem telur sig vita flest betur en íslenskir embættis- og stjórnmálamenn um sjávarútvegsstefnu ESB og afleiðingar hennar fyrir Íslendinga. Í þriðja vitninu í þessari lotu heyrðist í fréttaauka á laugardegi, bæjarstjóra ofan af Skaga sem hafði verið í hugarlyftingu um mánaðarskeið í Brussel. Eftir særingar fréttamannsins sagði Gísli Gíslason bæjarstjóri m.a.: "Það kann að fara svo að við höfum enga aðra kosti heldur en að fara inn í Evrópusambandið og þá kunni að vera betra að hafa gert það af fúsum og frjálsum vilja"! Það er nauðhyggjan sem setur þannig mark sitt á málflutninginn.

Vandræðagangur Samfylkingar

Talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa um langt skeið borið sig illa undan því að "málið sé ekki á dagskrá" hérlendis og á því þurfi að verða breyting. Enginn hefur þó bannað neinum að ræða aðild að ESB seint og snemma og það með eða án milligöngu fréttaritara RÚV í Brussel. Á Alþingi Íslendinga gætu þeir sem vilja aðild Íslands að ESB "sett málið á dagskrá" þingsins strax í dag. Ekki þarf annað en Össur & Co flytji tillögu um að fela ríkisstjórninni hið snarasta að senda aðildarumsókn til Brussel. Það væri nær en að ætlast til að aðrir, jafnvel andstæðingar aðildar, taki af þeim ómakið að breiða út fagnaðarerindið. Eitthvert hik er hins vegar á þessum merkisberum.

Ekki á að þurfa brot á eðlilegum leikreglum, hvað þá misnotkun einstakra fréttamanna á aðstöðu sinni, til að Íslendingar ræði afdrifarík mál eins og stöðu landsins á alþjóðvettvangi og taki afstöðu til þeirra. Samskiptin við Evrópusambandið hafa um langt skeið verið snar þáttur íslenskra utanríkismála og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið minnir á þau dag hvern. Málið hefur sannarlega verið á dagskrá í 12 ár, og reyndar í 40 ár hjá Alþýðuflokknum.

Það hefur rækilega sannast að kratarnir sem fastast beittu sér fyrir aðild Íslands að EES-samningnum litu aðeins á hann sem áfanga á leið inn í Evrópusambandið. Nú heitir það hjá Samfylkingunni að "skilgreina samningsmarkmið Íslands". Hvernig skyldi þeim andstæðingum ESB-aðildar líða sem ganga nú undir þessu kröfuspjaldi Samfylkingarinnar?

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim