Hjörleifur Guttormsson 11. janúar 2000

Umhverfismál í aldarlok

Afkvæmi 20. aldar

Áramót eru tími uppgjörs og nú er síðasta ár 20. aldarinnar runnið upp. Hugtakið umhverfismál var ekki einu sinni til um miðja öldina og öll sú nýja sýn sem því tengist er síðar til komin. Náttúruvernd og glíma við staðbundna jarðvegs- og gróðureyðingu hafði vissulega verið á dagskrá frá því um miðja 19. öld en það er fyrst í tíð núlifandi kynslóða að menn átta sig á að mannleg umsvif eru farin að hafa áhrif á umhverfi jarðarbúa. Efnamengunin og geimferðirnar á 6. tug aldarinnar opnuðu mönnum nýja sýn. Frá þeim tíma hafa umhverfismál verið alþjóðlegt viðfangsefni og að margra mati mál mála. Rætur umhverfisbreytinga af mannavöldum liggja víða, í allri efnahagsstarfsemi með vaxandi orkunotkun, félagslegum þáttum eins og fólksfjölgun og nú hafa bæst við erfðabreytingar og áhrif upplýsingatækni.

Sameinuðu þjóðirnar hafa allt frá Stokkhólmsráðstefnunni 1972 haft forgöngu um alþjóðlega greiningu umhverfisvandans og leit að lausnum. Starf Brundtland-nefndarinnar fæddi af sér hugtakið sjálfbær þróun og Ríó-ráðstefnan 1992 markaði síðan það ferli sem í aðalatriðum hefur verið fylgt til þessa dags.

Umhverfishorfur árið 2000

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem varð til eftir Stokkhólmsráðstefnuna, hefur nýlega gefið út viðamikla skýrslu sem ber á ensku heitið Global environment outlook 2000 (GEO-2000) og sem kalla mætti á íslensku Umhverfishorfur árið 2000. Skýrslan er afrakstur ferlis sem hófst árið 1995, unnin í samvinnu við kerfi SÞ, 30 umhverfisstofnanir og 850 einstaklinga í öllum heimsálfum. Sem flestir ættu að kynna sér efni hennar en útgefandi er Earthscan. Á síðum þessa rits klingja margar viðvörunarbjöllur en jafnframt er haldið til haga ávinningum í baráttu fyrir betra umhverfi. Meginniðurstaðan er sú að umhverfi jarðar láti undan síga á flestum sviðum vegna mannlegra athafna. Þar kemur annars vegar til yfirgengileg sóun í neyslusamfélögum og hins vegar fólksfjölgun, fátækt og eyðing náttúruauðlinda. Í stað þess að velstæð ríki þyrftu að verja auknu fjármagni til umhverfismála heima fyrir og í þróunaraðstoð blasir víðast hvar við samdráttur. Núverandi stefna fær ekki staðist og glapræði er að bregðast ekki við vandanum. Stóraukin umhverfisvitund almennings víða um lönd vekur þó vonir sem og frumkvæði og virkni áhugamanna.

Í GEO-2000 er rík áhersla lögð á að rannsaka þurfi áhrif hnattvæðingar á umhverfi jarðar og náttúruauðlindir. Dýpka þurfi alla málsmeðferð í stjórnkerfum ríkja með tilliti til áhrifa á umhverfið og stofnanir sem fjalla um efnahagsmál ættu að meta með allt öðrum hætti en hingað til langtímaáhrif efnahagsþróunar á umhverfið sem og einstakra aðgerða.

Hnattvæðing á kostnað umhverfis

Breytingarnar á efnahags- og fjármálasviði sem nú ganga undir nafni hnattvæðingar láta enga afkima heimsbyggðarinnar ósnortna. Vegna afnáms flestra hindrana á vegi fjármagns hafa fjölþjóðafyrirtæki styrkt stöðu sína í áður óþekktum mæli á kostnað ríkisstjórna og kjörinna fulltrúa og jafnhliða hafa glæpahringar á fjármálasviði séð sér leik á borði. Samþjöppun fjármagns og samruni fyrirtækja með stórauknu atvinnuleysi er tímanna tákn og hnattvæðingin magnar auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans. Stórauknu svigrúmi fjármagnsins fylgir tillitisleysi við umhverfi jarðar og arðrán náttúruauðlinda í áður óþekktum mæli nema ef vera skyldi í Sovétríkjunum eftir síðari heimsstyrjöld. Nýjasta landnám fjölþjóðafyrirtækja beinist að erfðamengi mannsins og sókn eftir einkaleyfi á erfðastofnum lífverutegunda í hagnaðarskyni. Þessu tengist síðan upplýsingasöfnun í margvíslega gagnagrunna. Þessi nýlendustefna nútímans þarf ekki að hafa fyrir því að brjóta undir sig lönd og álfur eins og stórveldi gerðu fyrr á tímum heldur sækir fjármagnið nú fram í skjóli opinna heimsviðskipta og upplýsingatækni. Helmut Schmidt fyrrum kanslari Vestur-Þýskalands kallar þetta kapítalisma rándýranna.

Loftslagsbreytingarnar

Losun gróðurhúsalofttegunda sem veldur loftslagsbreytingum er ljósasta dæmið um hversu víðtæk áhrif umsvifa mannsins á umhverfi jarðar eru orðin. Afleiðingar þessarar mengunar lofthjúpsins virðast þegar farnar að segja til sín með hækkuðum meðalhita, stórviðrum og áður óþekktum náttúruhamförum víða um heim. Þetta er þó aðeins forsmekkur þess sem búast má við, verði ekki brugðist við með róttækum hætti eins og stefnt er að með Kyótó-bókuninni sem fyrsta skrefi. Hækkun meðalhita um 2o C á næstu öld hefði gífurlegar afleiðingar á veðurfar og lífríki jarðar. Þau lönd sem lægst liggja yrðu óbyggileg og hyrfu undir sjávarmál, þar á meðal tugir þjóðríkja.

Tilfærsla gróðurbelta og aukin útbreiðsla skordýra og annarra lífvera sem bera með sér sjúkdóma eru dæmi um breytingar sem þegar eru farnar að gera vart við sig. En loftslagsbreytingar og hlýnun munu ekki ganga jafnt yfir heldur geta snúist í andhverfu sína með breytingum á hafstraumum og kólnun á vissum svæðum. Norðanvert Atlantshaf og Golfstraumurinn eru oftast nefnd í því sambandi. Það er kaldhæðnislegt að íslensk stjórnvöld skuli öðrum fremur draga lappirnar þegar um er að ræða Kyótó-bókunina sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúslofttegunda.

Nýir váboðar

Gróðurhúsaáhrifin tengjast einkum flókinni hringrás kolefnis en nú óttast ýmsir að hóflaus notkun köfnunarefnisáburðar og mikil ræktun belgjurta eigi eftir að leiða til sambærilegs vanda. Í áðurnefndri skýrslu GEO-2000 segir að margt bendi til að vaxandi notkun köfnunarefnis auki á sýringu í jarðvegi, breyti tegundasamsetningu vistkerfa, hækki nítratinnihald í drykkjarvatni og valdi ofauðgun í ferskvatni og þörungablóma með súrefnisþurrð á strandsvæðum.

Flutningur manna á lífverum, viljandi og óviljandi, til nýrra heimkynna er nú farinn að leiða af sér mikil vandamál á stórum svæðum. Sumar slíkar innrásartegundir gerast svo frekar til fjárins í nýjum heimkynnum að þær ógna tegundum sem fyrir eru og gera lífríkið fábreyttara. Dæmi um slíkar innrásartegundir hérlendis eru minkur og lúpína, báðar tilkomnar af mannavöldum á þessari öld. Það er kaldhæðnislegt og segir sitt um umhverfisvitund stjórnvalda að opinberar stofnanir skuli ryðja brautina fyrir slíka vágesti.

Tilkoma innfluttra stofna búfjár og nytjaplantna á kostnað gamalgróinna stofna sem aðlagast hafa umhverfi sínu um aldir er annað tímanna tákn, sem víða er gripið til af samkeppnisástæðum. Hér á landi standa menn nú frammi fyrir hugmyndum um að skipt verði um kúastofn og er rík ástæða til varfærni.

Staðan hérlendis áhyggjuefni

Meðferð umhverfismála hérlendis hefur engan veginn orðið sem skyldi og er nú mikið áhyggjuefni. Á það ekki síst við um hlut hins opinbera, bæði fjárveitinga- og framkvæmdavalds. Þegar umhverfisráðuneyti var stofnað hérlendis seint og um síðir árið 1990 væntu margir þess að umhverfismál fengju þá viðspyrnu í stjórnkerfinu sem lengi hafði verið beðið eftir. Þetta hefur ekki ræst nema að litlu leyti. Í stað þess að treysta þetta mikilvæga ráðuneyti hefur stjórnskipuleg staða þess veikst að undanförnu og þar við bætist sú ógæfa sem fylgir skilningsvana og duglitlum ráðherrum. Svo er nú komið að ríkisstjórn landsins með ráðherra umhverfismála í fararbroddi eyðir kröftum sínum í að berjast gegn umhverfisvernd og vilja stórs hluta þjóðarinnar á því sviði. Þar veldur mestu stóriðjustefnan sem kallar á umdeildar virkjanir og leiðir auk þess af sér stórfellda losun gróðurhúsalofttegunda sem skrifast á reikning Íslands. Helsta framlag stjórnmálaforystunnar í landinu til umhverfismála felst í því nú um stundir að sniðganga settar leikreglur og leita eftir undanþágum fyrir Ísland á alþjóðavettvangi.

Þetta er ekki aðeins röng stefna heldur einnig dýrkeypt, því að hún hamlar gegn brýnum aðgerðum á öðrum sviðum umhverfismála og eitrar út frá sér. Í stað þess að virkja almenning og taka í framrétta hönd áhugafólks um umhverfisvernd blanda stjórnvöld loftið lævi til mikils tjóns fyrir málefni sem fylkja ætti þjóðinni um. Umhverfisvernd þarf hér sem annars staðar að verða sameinandi málstaður ef þau markmið eiga að nást sem mestu varða fyrir framtíð þjóðar okkar og alls mannkyns.


Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim