Hjörleifur Guttormsson 13. mars 2000

Álmálið eystra - hvert stefnir?

Mörg ljón á veginum

Gatan fyrir álverksmiðju við Reyðarfjörð er síst greiðari nú en áður. Svonefndur framkvæmdaraðili að byggingu álverksmiðjunnar er á byrjunarreit að því er snertir mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Raflínur frá Fljótsdal að verksmiðjunni eiga eftir að fara gegnum matsferli og eru þær einar og sér stórt álitaefni sem marga varðar. Krafan um að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt mat er á ný komin á dagskrá eftir að ljóst er að Landsvirkjun ætlar ekki að hefja framkvæmdir við hana fyrr en í fyrsta lagi vorið 2001. Bjarnarflagsvirkjun er ekki komin í matsferli, né heldur raflína frá henni austur í Fljótsdal. Kárahnjúkavirkjun er eyrnamerkt sem orkugjafi fyrir annan áfanga álverksmiðjunnar, en stjórnvöld ætla að koma sér hjá því að gera það mál upp þar til síðar. Ekki er byrjað að vinna starfsleyfi fyrir verksmiðjuna og vandamálum sem tengjast losun gróðurhúsalofttegunda frá henni er vísað úr í buska. Skipulagsmál framkvæmda eru ófrágengin jafnt í Fljótsdal sem í Fjarðabyggð. Er þá ótalið það sem við á að éta, það er fjármagn til framkvæmdanna. Orð stjórnarformanns Þróunarfélags Íslands á aðalfundi félagsins mánudaginn 6. mars sl. lýsa upp þann þátt málsins. Margir hafa orðið til að benda á hversu holt er undir efnahagsþætti þessara stóriðjuframkvæmda, ekki síst að því er snýr að íslenskum fjárfestum, nú síðast Ingjaldur Hannibalsson prófessor í grein í Morgunblaðinu 27. febrúar sl. Það virðist hins vegar vænlegra að tala við steininn nú um stundir en reyna að ná eyrum ráðherra um þessi efni.

Úrskurður umhverfisráðherra

Mörgum hefur orðið fótaskortur í útleggingum á úrskurði umhverfisráðherra frá 25. febrúar sl. Þar fór fremstur ritstjóri Dags í leiðara á hlaupársdag. Virðist sem sá hinn sami hafi ekki haft fyrir því að lesa úrskurðinn.
Ég leyfi mér hér að vitna til úrskurðarorða umhverfisráðherra í heild, svohljóðandi:

"Hinn kærði úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði, uppkveðinn 10. desember 1999, er úr gildi felldur. Jafnframt er meðferð málsins, sem hófst með tilkynningu framkvæmdaraðilans, Eignarhaldsfélagsins Hrauns ehf., um umrædda framkvæmd 12. október 1999, ómerkt í heild sinni."
Með þessum úrskurði setur ráðherrann málið á byrjunarreit og í úrskurðinum felast hvorki fyrirmæli né afstaða til þess hvort einhver fitjar upp á málinu á ný og þá í hvaða formi. - Að öðru leyti geta menn velt fyrir sér reifun ráðuneytisins og hvers vegna úrskurðurinn féll á þennan veg. Skýringin virðist mér einföld: Fremur en að fallast á niðurstöðu skipulagsstjóra um "frekara mat" kaus ráðherra af einhverjum ástæðum að ómerkja allt matsferlið. Niðurstaðan sýnist mér leiða til hins sama, hvor kosturinn sem valinn var. Framkvæmdaraðilinn verður að taka málið upp að nýju, ef hann svo kýs, og það er hans val á hvaða grunni það er gert. Allt tal um flýtimeðferð á fyrsta áfanga er hins vegar út í hött.

Niðurstöðu fyrst að vænta 2001

Álverksmiðja við Reyðarfjörð hefur aldrei legið á borðinu og óvissan mun halda áfram a.m.k. fram á næsta ár. Með NORAL-verkefninu átti að fást skorið úr um það fyrir 1. júní 2000, hvort íslenskir fjárfestar og Norsk Hydro taki sameiginlega stefnu á framkvæmdir. Þeirri ákvörðun seinkar nú um ótiltekinn tíma. Þegar rætt var á Alþingi fyrr í vetur um framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun var staðhæft að fyrsti júní 2000 væri slíkur eindagi að af þeim sökum gæfist ekki tími fyrir lögformlegt umhverfismat. Nú sjá menn að sú dagsetning var ekkert annað en tilbúin svipa til að berja á þingi og þjóð. Þarf ekki annað en lesa viðtal við nýjan iðnaðarráðherra í Morgunblaðinu 5. mars sl. til að fá það staðfest. Í þetta safn bættust síðan degi síðar orð Þorgeirs Eyjólfssonar, stjórnarformanns Þróunarfélagsins, sem telur langt í lok samninga gagnvart Norsk Hydro og Landsvirkjun og um leið leggur hann áherslu á að frá upphafi þurfi að tryggja möguleika á a.m.k. 240 þúsund tonna verksmiðju.

Þegar Landsvirkjun segir að framkvæmdir samkvæmt útboði frestist um heilt ár er fundið upp á nýrri tylliástæðu til að komast hjá formlegu mati á Fljótsdalsvirkjun. Það er illt til að vita ef þetta gamalgróna fyrirtæki ætlar að taka þátt í slíkum loddaraleik með nýjum iðnaðarráðherra og ber það vott um ótrúlega skammsýni sem í raun einkennir allt þetta mál.

Orkuöflun og flutningslínur í óvissu

Þótt ráðamenn telji sig hafa Fljótsdalsvirkjun á hendi eru kurl þar engan veginn komin til grafar. Náttúruverndarsamtök Íslands hafa höfðað mál til að fá staðfest að framkvæmdir við virkjunina skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Þá nægir orka frá virkjuninni ekki fyrir 1. áfanga álverksmiðju og stefnt er að Bjarnarflagsvirkjun að auki. Sú virkjun er ekki komin í mat né heldur svonefnd Kröflulína II til að flytja raforkuna frá henni austur. Þá er áformað að leggja tvær raflínur frá tengivirki í Fljótsdal um Hallormsstaðaháls, þvert yfir Skriðdal og um sinnhvorn dalinn, Hallsteinsdal og Þórdalsheiði, niður á Reyðarfjörð. Umhverfisröskun af þessum tröllauknu línum yrði gífurleg, en þær eru ekki enn komnar í mat. Af öllu þessu má ráða hversu margir endar eru lausir í þessu máli, og eru þó ótaldar stórvirkjanir fyrir síðari áfanga álverksmiðjunnar (Kárahnjúkavirkjun, Arnardalsvirkjun o.fl.).

Nýtt mat á álverksmiðjunni

Ýmsir aðstandendur álverksmiðjunnar láta svo sem endurtekið mat á umhverfisáhrifum hennar sé nánast formsatriði. Látum vera að Framsóknarþingmenn og ráðherrar reyni að bera sig borginmannlega. Öllu sérkennilegra er þegar þeir sem reknir voru til baka með mat sitt á dögunum, gervifélagið Hraun ehf og STAR, vilja telja mönnum trú um að auðvelt verði að þröngva 1. áfanga verksmiðjunnar í gegnum umhverfismat. Þeir hinir sömu taka þá ekki alvarlega úrskurð skipulagsstjóra frá 10. desember 1999, en í honum er að finna mörg atriði sem snerta verksmiðjuhugmyndina alla, jafnt 1. áfanga sem og ráðgert framhald. Eitt þeirra varðar frekara mat á áhrifum verksmiðjunnar á byggð, fólksfjöldaþróun og vinnuafl á Austurlandi. Auk margra náttúrufarslegra og efnahagslegra þátta eru samfélagsáhrifin einn veikasti hlekkur þessa málatilbúnaðar. Þeir sem einu sinni hafa fallið á prófi ættu að hafa vit á að búa sig sæmilega undir áður en þeir ganga að prófborði í annað sinn.

Inn í þetta mál kemur væntanleg ný löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Varla getur það verið hugmynd manna að setja verksmiðjuna öðru sinni í mat samkvæmt úreltri löggjöf. Nægir í því sambandi að minna á stöðuna gagnvart Evrópurétti, en lögin hafa verið í ósamræmi við hann í næstum ár. Ný lög gætu orðið virk í sumar og ætti umhverfisráðuneytið að hlutast til um að beðið yrði með frekari vinnu að mati á umhverfisáhrifum uns þau taka gildi.

Skipulagsmál ófrágengin

Svo ótrúlegt sem það er hefur ekki einu sinni verið haft fyrir því að ganga frá skipulagsþætti þessa stóriðjumáls. Á það bæði við um verksmiðju og orkuöflun til hennar. Umhverfisráðherra staðhæfði á Alþingi fyrir jól að ekki þyrfti að leita frekar en orðið er til Fljótsdalshrepps vegna leyfisveitinga fyrir virkjunarframkvæmdum. Var ráðherrann þar á allt öðru máli en Skipulagsstofnun. Væri það svo sem eftir öðru að reynt yrði að ganga yfir heimamenn í Fljótsdal.

Annar þáttur nánast skoplegur snýr að Fjarðabyggð. Í öllum ákafanum að hreppa stórframkvæmdirnar gleymdi sveitarstjórnin að undirbúa skipulag vegna þeirra, jafnt fyrir verksmiðju, raflínur og íbúðabyggð. Gildandi aðalskipulag Fjarðabyggðar gerir ekki ráð fyrir stóriðjunni og því er nú eftir dúk og disk unnið að því að breyta skipulaginu. Geta menn átt von á auglýsingum þar að lútandi með tilheyrandi rétti almenningi til handa til athugasemda lögum samkvæmt. Það er jafn gott að ekki fréttist til útlanda um þessa frammistöðu til viðbótar öðru skrautlegu!

Áhættusöm tilraun

Saga þessa álverksmiðjumáls er þegar orðin dýrkeypt og sér þó ekki fyrir endann á. Sú hugmynd að setja risaálver niður í fámennt samfélag á Austfjörðum gengur þvert á reynslu og ráðleggingar, ekki síst erlendis frá. Verði slík tilraun framkvæmd er hætt við að hún leiði til ófarnaðar í samfélagslegu tilliti fyrir utan öll umhverfisspjöllin. Menn ættu líka að hafa í huga að af þeim stöðum sem skoðaðir hafa verið hérlendis með tilliti til staðsetningar stóriðju á borð við álver er Reyðarfjörður talinn hvað síst til slíkrar starfsemi fallinn.

Um efnahagleg áhrif þessara hugmynda minni ég á varnaðarorð tveggja fyrrverandi forstöðumanna Iðntækisstofnunar Íslands, þeirra Páls Kr. Pálssonar og Ingjalds Hannibalssonar. Ýmsir aðrir hafa varað við tapi af áformuðum virkjunarframkvæmdum. Í öllu falli er ljóst að Landsvirkjun stendur frammi fyrir mjög erfiðu og áhættusömu dæmi og um leið allir viðskiptavinir þess stóra fyrirtækis.

Hætta verður feluleiknum

Í kæru sem Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) lögðu fram til umhverfisráðherra í janúar sl. var þess m.a. krafist að fram fari heildstætt mat á öllum þáttum stóriðjumálsins eystra, bæði orkuframkvæmdum og verksmiðju. Álmálið eystra er alltof stórt og afdrifaríkt til að mönnum leyfist að ástunda feluleik um grundvallaþætti þess. Að undanförnu hafa komið fram splunkunýjar upplýsingar úr bakherbergjum samningsaðila sem ætlað er að hætta fé sínu í verksmiðjuna, nú síðast á aðalfundi Þróunarfélags Íslands. Öllum er fyrir bestu að leggja spilin á borðið, hætta feluleiknum og fara að settum leikreglum um alla þætti þessa umdeilda og afdrifaríka máls.


Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim