Hjörleifur Guttormsson 13. nóvember 2000

Efnahagskerfi og náttúra úr jafnvægi

Stjórnmálamenn í hlutverki leikbrúðunnar

Veröldin er óðum að breytast í heim sem einkennist af rótleysi og sýndarveruleika. Undirstöður efnahagsstarfsemi eru að verða almenningi óskiljanlegar og taka á sig svip spilavítis þar sem aðaldriffjöðurin er von um vinning austan við sól og sunnan mána eins og segir í ævintýrinu. Fjárfestingar í hlutabréfum sem byggja á litlu öðru en hugarórum um óvissa framtíð halda uppi dampi í kauphöllum og efnahagskerfum voldugra ríkja. Krafan um lukkupottinn er allsráðandi í mati á fyrirtækjum, skili þau ekki hluthöfum ofsagróða hér og nú eru þau dæmd úr leik og fjármagnsmarkaðurinn snýr við þeim baki. Þetta er hrunadans sem getur orðið afdrifaríkur í hnattvæddum heimi þar sem fáa öryggisloka er að finna.

Veruleikafirrt stjórnmál

Stjórnmálin draga dám af þessum aðstæðum efnahagslífins og eru á engu traustari grunni en gengið í kauphallarviðskiptum. Hlutskipti kjörinna fullrúa og umboðsmanna valdsins er svipað og bifvélavirkja, að smyrja æ flóknara gangvirki en huga ekki að því hvert það er að bera okkur. Staðan í ríkasta landi veraldar, Bandaríkjunum, er táknræn um það öngstræti sem stórveldi, er telur sig eiga að vera fyrirmynd annarra, er nú statt í. Ég á þar ekki við pattstöðuna eftir forsetakosningarnar, heldur forleikinn þar sem eytt var hundruðum miljarða í baráttu tveggja frambjóðenda sem leiddu hjá sér að fjalla um nokkuð það er máli skiptir. Þjóðinni var boðið upp á tvo "keppinauta", hannaða af auglýsingastofum og sem meira að segja hnýttu á þá sömu rauðu hálsbindin.

Hitinn í gróðurhúsinu

Bandaríkin halda á lykli að lausn á stærsta sameiginlega vandamáli mannkyns, loftslagsbreytingum af mannavöldum. Bandaríkjamenn senda út í sameiginlegt andrúmsloft jarðar nær fjórðung af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á jörðinni ár hvert. Þetta mál var ekki rætt svo heitið gæti í kosningabaráttunni vestra, þótt margir telji að Al Gore hafi meiri skilning á því en olíudrengurinn frá Texas. Umræða um hækkun á bensínverði og aðrar aðgerðir sem snerta þá heilögu kú einkabílinn og sóunarhagkerfið sem byggir allt sitt á ódýrri orku er fyrirfram dæmd úr leik af þeim sem hanna leikbrúður kosningabaráttunnar. Báðir sameinuðust stóru flokkarnir um að ýta Nader, fulltrúa grænna sjónarmiða, út af sviðinu. Bandaríska samfélagið vill áfram fá að lifa í heimi blekkinga og sjálfsánægju og fjölmiðlarisarnir kynda óspart undir.

Lærisveinar á Íslandi

En það er víðar en í Bandaríkjunum sem stjórnmálamenn stinga hausnum í sandinn þegar kemur að umhverfismálum. Íslenska ríkisstjórnin með forsætisráðherra í fararbroddi neitar að slást í för með alþjóðasamfélaginu til að draga úr loftslagsbreytingum nema Ísland eitt og sér fái að margfalda losun gróðurhúsalofttegunda á sama tíma og öðrum er ætlað að draga úr henni. Það er ótrúlegt að hlýða á leiðtoga ríkisstjórnarinnar gera lítið úr niðurstöðum alþjóða loftslagsráðsins til þess eins að réttlæta þá stefnu að Ísland skerist úr leik. Í góðu samræmi við þetta lýsti fjármálaráðherra þeirri skoðun í sjónvarpi á dögunum að Bush væri óskakandídat miðað við íslenska hagsmuni í Kyótó-ferlinu.

Varnaðarorð úr hásætum

Svo óglæsilegt sem það er fyrir orðstír fulltrúalýðræðisins, virðist sem háttsettir einstaklingar sem ekki eru háðir kosningavélum leyfi sér frekar en ráðandi stjórnmálamenn að mæla varnaðarorð. Karl Bretaprins sagði til dæmis á ráðstefnu Breska læknafélagsins í byrjun nóvember: "Nýlegir atburðir eins og kúariðuósköpin og alvarlegar veðurhamfarir í landi okkar eru, um það efast ég ekki, afleiðingar af því að mannkynið hafnar í hroka sínum að taka tillit til viðkvæms jafnvægis í náttúrunni." Hvernig væri að íslenska ríkisstjórnin bæði um áheyrn í Buckingham Palace?

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim