Hjörleifur Guttormsson 16. okóber 2000

Reyðarál í brotsjóum og óvissu

Engin langtímastefna hjá stjórnvöldum

Hugmyndin um álverksmiðju á Reyðarfirði fékk á sig brotsjó á dögunum með ummælum forstjóra álsviðs Norsk Hydro um veika innviði á Austurlandi til að rísa undir risaálveri. Heimsókn forystu Norsk Hydro hingað til lands nýverið breytti þar engu um. Þótt iðnaðarráðherra og stjórnarformaður Reyðaráls reyni að bera sig vel hefur óvissan um byggingu álverksmiðju í Reyðarfirði verið rækilega undirstrikuð. Nú hefur Norðurál bæst í hópinn á biðstofu Landsvirkjunar og biður um rafmagn fyrir 300 þúsund tonna álbræðslu. Næsta ár fer í mat á umhverfisáhrifum álverksmiðju og virkjana á Austurlandi. Útkoman úr því ferli er í meira lagi óviss. Staða Íslands í Kyótóferlinu er einnig í þoku. Spurningin nú á að snúast um það, hvort Íslendingar eigi yfirleitt að binda meira af takmörkuðum orkulindum sínum í þungaiðnaði eins og álframleiðslu og láta eins og við séum einir í heiminum þegar loftslagsmálin eru annars vegar.

Takmarkaðar orkulindir

Ríkisstjórnin og forysta Landsvirkjunar lætur skammtímasjónarmið ráða ferðinni í orkumálum. Látið er sem orkulindir landsmanna séu óþrjótandi og því sé allt í lagi að binda sífellt meira af þeim í hefðbundnum þungaiðnaði. Breytt viðhorf til náttúruverndar og umhverfismála eru ekki tekin alvarlega á þeim bæ. Umhverfisráðuneytinu er áfram haldið í bóndabeygju. Rammaáætlunin svonefnda er augljóslega bara upp á punt. Í stað þess að staldra við og móta vitræna orku- og umhverfistefnu til frambúðar er látið vaða á súðum. Vegna umhverfissjónarmiða er óráðlegt að gera ráð fyrir að meira en 20-25 teravattstundir raforku geti verið til ráðstöfunar hérlendis á fyrrihluta 21. aldar að meðtöldum þeim 7 teravattstundum sem nú eru framleiddar. Meini menn eitthvað með tali um vetnissamfélag og geri ráð fyrir hóflegum vexti raforku til almennra nota, veitir ekki af þessu svigrúmi. Eftir sem áður verður vandasamt verk að samræma slíka orkuöflun umhverfissjónarmiðum. Hugmyndir stjórnvalda um að binda 10-15 teravattstundir í hefðbundinni stóriðju næsta áratuginn ganga bæði gegn umhverfisvernd og hugmyndunum um vetnissamfélag. Meirihluti raforkuframleiðslunnar er þegar bundinn álmarkaði og það hlutfall stefnir í að verða 80% eða meira samkvæmt stefnu stjórnvalda og Landsvirkjunar. Slíkt væri mikið óráð. Frekari samningaviðræðum um stóriðju ætti að slá á frest, að minnsta kosti þar til langsæ orkustefna hefur verið mótuð og staða Íslands innan loftslagssamningsins liggur skýrt fyrir.

Fjárfestar og félagslegar aðgerðir

Það er mikill barnaskapur að halda að Norsk Hydro eða aðrir fjárfestar muni standa að félagslegum aðgerðum á Austurlandi til að búa svæðið undir að taka við risaálveri. Í stað þess að iðnaðarráðherra tæki alvarlega ummæli Eivinds Reiten, forstjóra álsviðs Norsk Hydro, brást hún við með því að gera því skóna að ekki væri mark á honum takandi, menn yrðu að bíða eftir aðalforstjóranum! Þetta ber því miður ekki vott um mikla þekkingu á innviðum alþjóðlegra stórfyrirtækja. Eivind Reiten sagði í raun ekki annað en það sem blasa ætti við hverjum manni. Austurland er ekki svæði sem hentar fyrir 400 þúsund tonna álver, hvað þá stærra. Verði samt í það ráðist mun það hafa mjög alvarleg áhrif á það atvinnulíf sem fyrir er og þróunarkosti á öðrum sviðum. Það er kaldhæðnislegt að menn þurfi að heyra slík varnaðarorð fyrst frá útlendingi sem upplýsir jafnframt að íslenskir viðmælendur hans hafi af þessu alls engar áhyggjur! Íslenskir þátttakendur í þessum blindingjaleik láta sem fyrr stjórnast af óskhyggjunni einni saman. Öðru sinni kaupa menn til dæmis dýru verði skýrslur af Nýsi hf, þar sem Sigfús Jónsson stjórnarmaður í Landsvirkjun situr beggja megin borðs, eins og skýrsluómyndin frá í fyrravetur hafi ekki verið nóg. Svipuðu máli gegnir um forráðamenn sveitarfélaga á svæðinu, sem áfram leggja allt sitt í eina körfu og hamast við að telja fólki trú um að verksmiðjan sé á næsta leiti. Hvernig standa þeir hinir sömu að vígi gagnvart íbúum Austurlands ef annað kemur á daginn?

Umhverfismat í óvissu

Óvissa er um niðurstöður í mati á umhverfisáhrifum sem nú er unnið að, annars vegar á vegum Reyðaráls vegna 420 þúsund tonna álverksmiðju og rafskautaverksmiðju, hins vegar af Landsvirkjun vegna Kárahnjúkavirkjunar með öllu sem henni tengist. Áætlanir fyrirtækjanna gera ráð fyrir að matsskýrslum verði skilað til Skipulagsstofnunar í byrjun árs 2001 og úrskurður Skipulagsstofnunar, eftir að leitað hefur verið formlegra athugasemda frá almenningi, liggi fyrir næsta vor. Margir hafa dregið í efa að þessar tímaáætlanir standist, meðal annars í ljósi athugasemda við matáætlanirnar á síðasta sumri. Þannig taldi Hafrannsóknastofnun sig ekki geta lokið sínum þætti nema til kæmi rannsókn á ýmsum mikilvægum þáttum í sjó í Reyðarfirði sem nái a.m.k. yfir heilan ársferil. Svipuðu máli gegnir um ýmislegt er snýr að mati á virkjunarhugmyndunum. Ég tel ólíklegt að fyrir liggi endanleg niðurstaða mats á umhverfisáhrifum fyrr en kemur fram á árið 2002 og tímasetningar Noral-verkefnisins muni riðlast, einnig af þeim sökum. Ummæli ráðamanna Norsk Hydro benda til, að þeir vilji skyggnast í alla kima málsins áður en fyrirtækið geri upp hug sinn um þátttöku í áliðnaði hérlendis.

Ógæfulegur darraðardans

Eftir að fyrir liggur áhugi Norðuráls á mikilli stækkun verksmiðjunnar í Hvalfirði mun hefjast gamalkunnur darraðardans, þar sem meðal þátttakenda verða talsmenn sveitarfélaga, þingmenn og ýmsir meintir hagsmunaaðilar eystra og vestra. Iðnaðarráðherra hefur þegar sagt að erfitt verði að þókknast öllum og Landsvirkjun notar tækifærið til að þrýsta á um gamlar og nýjar virkjunarhugmyndir. Kæmi ekki á óvart að Kvíslaveita 6, Norðlingaöldumiðlun og jafnvel Skaftárveita um Langasjó verði nefnd til sögunnar. Allt getur þetta orðið efni í skrautlega umræðu í aðdraganda alþingiskosninga 2003.

Nú þarf yfirvegaða stefnumörkun

Þessum stóriðjukór á að vísa frá á þeim augljósu forsendum, að fyrst verði að liggja fyrir skýr stefna um það, hvernig menn ætla að nýta orkulindir landsmanna til heilla í fyrirsjáanlegri framtíð og samræma nýtingu og náttúruvernd. Þau sem kvödd hafa verið til vinnu að rammaáætlun undir kjörorðunum Maður - Nýting - Náttúra eiga á því skýlausa kröfu að fá að vinna verk sín ótrufluð af þrýstingi og skammtímaviðhorfum. Álverksmiðjur leysa ekki vanda landsbyggðarinnar. Þar verða að koma til viðhorf sem taka mið af sjálfbærri þróun og stuðningur stjórnvalda við frumkvæði og aðgerðir heimamanna á sem flestum sviðum. Tálvonir um lausnir í formi risafyrirtækja eru verri en engar og til þess eins fallnar að magna þann vanda sem við er að fást.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim