Hjörleifur Guttormsson 23. maí 2000

Orkuforðinn er takmarkaður

Þrívegis hafa þeir sem standa að Vinstrihreyfingunni - grænu framboði flutt á Alþingi tillögu um að íslensk stjórnvöld móti sjálfbæra orkustefnu. Á meðan að þeirri stefnumótun sé unnið verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um. Tillagan hefur verið á borði iðnaðarnefndar en ekki fengist afgreidd í þinginu. Þó fjallar hún um eitt brýnasta verkefni samtímans og varðar í senn atvinnuþróun og umhverfi.

Í greinargerð með tillögunni er mikinn fróðleik að finna um stöðu orkumála hérlendis og um hugmyndir stjórnvalda um áframhaldandi stóriðjuframkvæmdir. Sérstaklega er vakin athygli á því sem vera ætti augljóst hverjum manni, að hefðbundnar orkulindir eru takmarkaðar og vegna breyttra viðhorfa eru nýtingarmörkin langtum þrengri en stjórnvöld vilja vera láta. Niðurstaða þingmanna VG er sú "...að óráð sé að auka við hefðbundinn orkufrekan iðnað í landinu frá því sem nú er til að þjóðin hafi svigrúm til að nýta innlendar orkuauðlindir í stað innfluttrar olíu og gæta um leið náttúruverndarhagsmuna."

Sama niðurstaða í Morgunblaðinu

Í Morgunblaðið skrifar Egill Egilsson þætti um tæknimál. Þann 7. maí síðastliðinn fjallaði hann um orkumál hérlendis [bls. 16 B] og setti fram spurninguna: Er orkuforði okkar í raun óþrjótandi? Greinin er afar athyglisverð og þar kemst Egill að niðurstöðu, sem er efnislega hin sama og að ofan greinir. Ástæða er til að hvetja sem flesta til að kynna sér rök greinarhöfundar. Hann bendir á aukna orkuþörf á fyrrihluta 21. aldar vegna vetnisvæðingar, fólksfjölgunar og neyslumynsturs. Umhverfissjónarmið hér heima og erlendis þrengi að nýtingarmöguleikum, sérstaklega vatnsaflsins, og hann telur skammsýni að halda að Íslendingar geti í framtíðinni hagað sér sem hingað til. Í lok greinar sinnar segir Egill: "Niðurstaða þessa hlýtur að vera sú að við þurfum að halda vel á okkar spilum sjálf, og ekki selja frá okkur verulega orku til stóriðju, að minnsta kosti ekki til langs tíma. Við þurfum að halda fullum ráðstöfunarrétti yfir þessu sjálf."

Er rammaáætlunin bara plat?

Á síðasta ári hleyptu stjórnvöld seint og um síðir af stað vinnu sem að þeirra sögn er ætluð til að fara yfir orkunýtingarhugmyndir með tilliti til umhverfisverndar. Verkefni þetta gengur undir heitinu Rammaáætlunin og er raunar sama mál og Alþingi ályktaði um að frumkvæði undirritaðs fyrir 11 árum. Guð láti á gott vita, hugsuðu margir þegar iðnaðarráðherra kynnti verkefnið, því að ekki mátti umhverfisráðherra bera á því ábyrgð! Nú er hins vegar ljóst að þessi sömu stjórnvöld ætla að geysast fram með sína stóriðjustefnu óháð Rammaáætluninni. Kárahnjúkavirkjun, Bjarnarflagsvirkjun og enn einn áfangi Kvíslarveitna eru á dagskrá orkuyfirvalda eins og ekkert hafi í skorist og fleira er í burðarliðnum. Þegar stóriðjan á í hlut virðast stjórnvöld hvorki skeyta um skömm né heiður, - að ekki sé talað um landið og komandi kynslóðir.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim