Hjörleifur Guttormsson 23. maí 2000

Flumbrugangur eina ferðina enn

Það er kannski til of mikils mælst að íslensk stjórnvöld taki upp önnur og skynsamlegri vinnubrögð í stóriðjumálum en undanfarið, en ósköp hefði það verið góð tilbreyting eftir allan flumbruganginn. Nú hefur eina ferðina enn verið skrifað upp á yfirlýsingu um framkvæmdaáform við risaálver og stórvirkjanir og enn birtast okkur dagsetningar: Upphaf framkvæmda í ársbyrjun 2002, álver í rekstur 2006, jafnvel árinu fyrr. Fyrirvarar eru að vísu slegnir í nýju NORAL-yfirlýsingunni, bæði hvort ráðist skuli í verkefnið, um hugsanlegar tafir og heimild fyrir aðila að draga sig út úr verkefninu fyrir 1. febrúar 2002. Yfirlýsingin er þannig eins og gatasigti, ef grannt er skoðað. Hún virðist gerð af pólitískri friðþægingarþörf og ætlað að vera einskonar skjöldur fyrir Framsóknarráðherrana til að bregða fyrir sig eftir allan loforðaflauminn. Það hefði hins vegar verið ráðlegt fyrir stjórnvöld að spara sér þessa nýju spennitreyju sem sennilega á eftir að rifna um það leyti sem ár verður til næstu alþingiskosninga.

Það sem þagað er yfir

Skynsamlegt hefði verið af iðnaðarráðherra og öðrum NORAL-aðilum að draga fram helstu óvissuatriðin í þessu máli í stað þess að endurtaka enn og aftur tímasett gylliloforð um stórframkvæmdir. Á meðan ekki er fengin niðurstaða úr mati á umhverfisáhrifum þessara framkvæmda, bæði vegna álverksmiðjunnar, Kárahnjúkavirkjunar og svonefndrar Fljótsdalsveitu, eru engar forsendur til að láta liggja að því að í þetta verkefni verði ráðist, hvað þá um útfærslu þess í einstökum atriðum.

Mat á umhverfisáhrifum felur meðal annars í sér að skoða verður aðra kosti til nýtingar umræddra landsvæða, þá ekki síst stofnun þjóðgarðs. Kárahnjúkavirkjun og veitur henni tengdar myndu rista sundur víðernin norðan Vatnajökuls og fyrirliggjandi virkjunarhugmynd felur í sér að flytja eigi Jöklu (Jökulsá á Dal) yfir í Lagarfljót. Slíkur flutningur stórfljóts milli vatnasviða á sér enga hliðstæðu hérlendis. Halda menn í alvöru að ákvörðun um slíkt geti legið fyrir að hálfu öðru ári liðnu?

Umhverfisáhrif álverksmiðju

Risaálver náði ekki gegnum mat á umhverfisáhrifum á liðnum vetri. Reyðarfjörður er einhver allra óheppilegasti staður sem hægt er að finna fyrir slíka stóriðju hérlendis. Af hálfu Veðurstofu Íslands var sett stórt spurningarmerki við það hvort umhverfi fjarðarins þyldi staðsetningu 240 þúsund tonna verksmiðju, hvað þá stærra fyrirtækis.

Álverksmiðja sem framleiddi 340 þúsund tonn myndi losa um 650 þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum sem þýðir hátt í fjórðungs aukningu á heildarlosun hérlendis. Ekkert slíkt svigrúm er til staðar handa Íslandi samkvæmt Kyótó-bókuninni og fullkomin óvissa ríkir enn um afdrif undanþágubeiðni íslenskra stjórnvalda.

Skammsýn ráðstöfun orkulinda

Hugmyndin um að binda 5000 gígavattstundir af raforku í álverksmiðju til langs tíma ber vott um ótrúlega skammsýni og er raunar í mótsögn við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Hér er á ferðinni svipað orkumagn og þyrfti til vetnisframleiðslu fyrir öll samgöngutæki landsmanna. Með áformunum um að knýja á næstunni fram ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun er iðnaðarráðherra að gefa svonefndri Rammaáætlun sem hann ber ábyrgð á langt nef. Með henni var meiningin að gera heildarútttekt á nýtingu og verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða landsins. Enginn getur tekið mark á þeirri vinnu stundinni lengur þegar sjálft stjórnvaldið sem ábyrgð ber á áætluninni hefur yfirlýst markmið hennar að engu.

Samfélagsleg áhrif óheillavænleg

Hvergi er í Noral-yfirlýsingunni minnst á samfélagsleg áhrif umræddra stórframkvæmda. Er það þó þáttur sem ekki er síður ástæða til fyrir Austfirðinga að hafa áhyggjur af en umhverfisröskuninni. Skipulagsstofnun benti sérstaklega á ófullnægjandi athugun á þessum þætti í úrskurði sínum 10. desember 1999 um frekara mat á álverksmiðjunni.

Ráðgert risaálver á Reyðarfirði væri að minni hyggju félagslega séð mikil hefndargjöf fyrir fjórðunginn, bæði það atvinnulíf sem fyrir er og það samfélag sem eftir á myndi snúast fyrst og fremst kringum eina álverksmiðju. Það er ótrúleg skammsýni sem í því birtist að ætla að binda framtíð fámenns landshluta við eitt risafyrirtæki og síst af öllu greiði við komandi kynslóðir.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim