Hjörleifur Guttormsson 26. september 2000

 

Skemmdarverkin gegn landsbyggðinni

Það er nöturlegt að fylgjast með verkum ríkisstjórnarinnar og meirihlutans á Alþingi þegar landsbyggðin á í hlut. Hvert axarskaftið öðru verra ríður yfir og nánast óskiljanlegt hvernig staðið er að málum. Tvennt vil ég nefna úr aðgerðasafni stjórnvalda síðustu misseri: Stórskaðlega kjördæmabreytingu og óhönduglegar tilraunir með stofnanaflutning sem ætla að reynast hin mesta hefndargjöf.

Ónothæf kjördæmi

Það virðist nú vera að renna upp fyrir ýmsum að nýleg kjödæmabreyting var mikið glappaskot, ekki síst gagnvart dreifbýlinu. Nægir að minna á ritstjórnargrein í Morgunblaðinu um málið fyrir skemmstu og skrif ýmissa málsmetandi blaðamanna. Með því að þenja kjördæmin út eins og raun ber vitni og draga mörk þeirra þvert á gömul stjórnsýslumörk er verið að rjúfa tengsl þingmanna við umbjóðendur sína og raska hefðbundnu samstarfi sveitarfélaga. Hvaða vit halda menn til dæmis að verði í starfi þingmanna sem eiga að þjóna svæðinu frá Lónsheiði norður um til Siglufjarðar? Um leið eru höggvin sundur umdæmi sveitarstjórnarsambanda á Austurlandi og Norðurlandi eystra, en á grunni þeirra hefur þróast margháttað samstarf. Með því að klippa Hornafjörð frá Austurlandi og sameina afganginn Eyjafjarðarsvæðinu er verið að kippa grunninum undan heilum landsfjórðungi sem á rætur allt aftur á þjóðveldisöld. Ábyrgð á þessum tiltektum bera núverandi stjórnarflokkar, þótt þeir hafi fengið til liðs við sig kratasafnið sem nú gengur undir nafninu Samfylking.

Hví þögðu fjölmiðlarnir?

Full ástæða er til að kanna, þótt seint sé, hvers vegna tillögurnar að kjördæmabreytingu fengu í tvígang sáralitla almenna umfjöllun í samfélaginu. Ætti hér þó að vera mál á ferðinni sem almenningur hafi skoðun á sem og trúnaðarmenn fólks í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Um svipað leyti geisaði fjörleg umræða á síðum dagblaða um gagnagrunn á heilbrigðissviði, hálendismál og stóriðju. En þegar kom að undirstöðu pólitískrar starfsemi í landinu þögðu flestir þunnu hljóði og létu sinnulitla flokksformenn teyma sig á asnaeyrunum. Vantaði þó ekki gagnrýniraddir á Alþingi eins og frá Þingflokki óháðra og síðar Vinstrihreyfingunni grænu framboði sem bentu á brotalamirnar og holklakann undir hinni nýju skipan.

Stofnanasirkusinn

Tilburðir ráðherra og stjórnarliða í Byggðastofnun til að flytja heilar stofnanir frá Reykjavíkursvæðinu út á land hvíla á veikum grunni ekki síður en kjördæmabreytingin. Þessum mönnum virðist fyrirmunað að læra stafrófið í farsælli stjórnsýslu. Í stað þess að eyða kröftum í að skáka fáeinum stofnunum út á land, oft til óhagræðis jafnt fyrir landsbyggð sem höfuðborgarsvæði, bíða svæðisbundin verkefni í hrönnum á sviði opinberrar stjórnsýslu. Það vantar aðeins skilning og fjármagn til að koma fólki til gagnlegra starfa, þar á meðal í stofnunum sem margar hverjar eru þegar til staðar á landsbyggðinni. Í staðinn er hægt að draga úr eða taka fyrir vöxt hliðstæðrar starfsemi á vegum hins opinbera syðra. Fátt ætlar að verða landsbyggðinni jafn dýrkeypt og að hafa falið forsjá sína stjórnmálamönnum sem sjá ekki lengra nefi sínu.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim