Hjörleifur Guttormsson | 27. janúar 2000 |
Byggðastefna úr takt við tímann Þorri ráðamanna þjóðarinnar er á villigötum í málum sem varða framtíð byggðar í landinu. Í stað þess að hlúa að fjölþættum aðgerðum til að treysta byggðina rembist ríkisstjórnin studd af skammsýnum sveitarstjórnarmönnum við að knýja fram úreltar hugmyndir í kraftaverkstíl. Þetta á bæði við um stjórnsýslu og atvinnumál. Skýrustu dæmin um þetta eru risaálverksmiðja á Austurlandi og kjördæmabreytingin. Allt skal það vera stórt á sama tíma og menn gleyma hinu smáa sem samanlagt skapar sjálfar undirstöðurnar. Vanrækt grundvallarmál Ætli menn að tryggja áframhaldandi byggð út um landið verður að næra undirstöðurnar, sem skipta sköpum þegar fólk hyggur að framtíð sinni og barna sinna. Meðal þeirra mikilvægustu eru góð og örugg heilsugæsla, menntunarmöguleikar á öllum skólastigum, fjölþætt atvinna og svipaður framfærslukostnaður og á höfuðborgarsvæðinu. Á öllum þessum sviðum skortir mikið á að beitt sé ráðum sem duga. Aðgerðir stjórnvalda hafa um langt skeið einkennst af viðhorfinu OF LÍTIÐ OF SEINT. Vinstri höndin virðist ekki vita hvað sú hægri gjörir. Samþykktar eru fagurlega orðaðar byggðaáætlanir sem forsætisráðherra og nú iðnaðarráðherra er ætlað að halda utan um. Gallinn er sá að lítið sem ekkert er með þær gert í stjórnarráðinu og á meðan svo heldur fram eru þær pappírsgagn og tálbeita og af þeim sökum verra en ekkert. Fáránleiki ál-stefnunnar Stóriðjuupphlaup hafa riðið húsum með nokkrum hléum undanfarna áratugi. Fyrir 10 árum var það álverksmiðja sem Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra ætlaði að koma niður í kjördæmi sínu, kennd við Atlantal-samsteypuna. Eyfirðingar voru látnir keppa um hnossið og líka Reyðfirðingar til málamynda. Allt gufaði það upp en olli ómældu hugarfarslegu tjóni auk mikilla fjárútláta. Sagan endurtekur sig nú með margfalt stærri verksmiðjuhugmynd á Reyðarfirði og Eyfirðingar eru byrjaðir að minna á sig á ný. Stóriðjuumræðan á Austurlandi hefur nú um árabil dregið máttinn úr annarri atvinnuþróun. Yrði verksmiðjan að veruleika væri það mesta ógæfa sem yfir fjórðunginn hefur dunið í mannaminnum. Ekki aðeins væru menn að beisla mestallt vatnið norðan Vatnajökuls fyrir þessa einu hít heldur yrði sá atvinnurekstur sem fyrir er á Mið-Austurlandi settur í stórfelldan vanda. Nettó-útkoman yrði hörmuleg fyrir utan öll umhverfisspjöllin. Það er dapurlegt að horfa á Samfylkingarliðið engjast í þessari snöru með ríkisstjórnarforkólfunum. Öfugsnúin kjördæmabreyting Á síðasta kjörtímabili breytti meirihluti á Alþingi stjórnarskrá lýðveldisins til að koma á nýrri kjördæmaskipan í landinu. Stjórnarskrárbreytingin var innsigluð á stuttu sumarþingi eftir kosningar. Henni fylgir módel að kjördæmabreytingu sem er einhver vitlausasta hugmynd sem hægt er að hugsa sér. Höfuðborgarsvæðinu á að skipta upp í þrjú kjördæmi, meðal annars kljúfa Reykjavík sundur langs eða þvers. Jafnframt á að skipta landsbyggðinni upp í þrjú risakjördæmi þvert á allar félagslegar hefðir fyrr og síðar. Norðurland á að kljúfa sundur um Tröllaskaga og láta eystri hlutann með Akureyri gleypa Austurland. Það er von að Hornfirðingar hugsi sitt ráð og það ættu fleiri að gera. Þessi kjördæmabreyting verður eins konar náðarhögg fyrir landsbyggðina auk þess að búin verða til ný vandamál á höfuðborgarsvæðinu. Þingmenn landsbyggðarkjördæmanna verða settir yfir lendur sem þeir sjá ekki út yfir og fá auk þess fjarvistarsönnun gagnvart umbjóðendum sínum. Frekar en að setja á þennan óskapnað átti að gera Ísland að einu kjördæmi. Hjörleifur Guttormsson |