Hjörleifur Guttormsson | 16. okóber 2000 |
Umhverfismál í gíslingu Staða Íslands í loftslagsmálum í aðdraganda Haag-ráðstefnu. Siðlaus undanþágubeiðni Ísland gerðist aðili að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar árið 1994. Á Kyótó-ráðstefnu aðildarríkja samningsins í desember 1997 var samþykkt ítarleg bókun við hann til að tryggja fyrsta skrefið í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Íslenska ríkisstjórnin bannaði sendinefnd Íslands að undirrita bókunina, þótt gert væri ráð fyrir að Íslendingar fengju að bæta 10% við losun á meðan flest iðnríki skuldbundu sig til að draga saman. Þess í stað var hótað ágreiningi nema tekin yrði inn í samþykktir ráðstefnunnar sérstök bókun, sem kölluð hefur verið "Íslenska ákvæðið". Það var skraddaðasaumað fyrir stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og felur í sér að losun frá stóriðju hérlendis reiknist ekki með í skuldbindingum Íslands. Siðlausari framganga hefur vart sést á alþjóðavettvangi. Á 6. ráðstefnu aðildarríkja loftslagssamningsins, sem haldin verður í Haag innan skamms, verður reynt af Íslands hálfu að fá undanþágunabeiðnina samþykkta með skírskotun til fámennis. Rangt mat á hagsmunum Afstaða íslenskra stjórnvalda í þessu stórmáli sýnir betur en flest annað nærsýni núverandi valdhafa. Skammtímahugsun ræður ferðinni. Í stað þess að leggjast á sveif með þeim sem glíma vilja við þetta stærsta sameiginlega umhverfisvandamál samtímans segir íslenska ríkisstjórnin "Ekki ég. Ekki ég. - En við skulum vera með ef við þurfum engu að kosta til."! Það sem ræður þessari dæmalausu afstöðu er sú stefna íslenskra stjórnvalda að bjóða erlendum stóriðjufyrirtækjum, einkum álrisum, hér aðgang að orku án þess að þau þurfi að kosta neinu til vegna losunar gróðurhúsalofttegunda. Þannig á að draga hingað sem mest af stóriðjufjárfestingum og í leiðinni er auglýst hér lægsta raforkuverð í Evrópu. Þessi stefna er ekki aðeins ógnun við orðstír Íslands og hagsmuni í samskiptum við umheiminn heldur einnig við íslenska náttúru. Varúðarreglan ráði ferð Sérstök vísindanefnd um loftslagsbreytingar hefur nýlega sent frá sér skýrslu, sem fjallar bæði um mat alþjóðasamfélagsins (IPCC-hópsins) og hugsanleg áhrif loftslagsbreytinga fyrir íslenskt þjóðfélag. Fengur er að þessari skýrslu nefndarinnar svo langt sem hún nær. Þar kemur m.a. fram að mikil óvissa ríkir um áhrif hækkaðs meðalhita á jörðinni á umhverfisþætti hérlendis. Einn viðkvæmasti þátturinn eru afleiðingar hlýnunar andrúmslofts á hafstrauma í Norður-Atlantshafi og víðar og þar með á Golfstrauminn. Í mati á slíkri óvissu hlýtur varúðarreglan að vera æðsta boðorð samhliða því sem lagt er mat á áhrifin hnattrænt en ekki út frá óvissum staðbundnum afleiðingum. Ráðherra í gíslingu Losun gróðurhúslofttegunda af mannavöldum frá Íslandi er nánast hin sama miðað við höfðatölu og meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins. Allt tal um sérstöðu Íslands að þessu leyti er út í hött nema við viljum bera okkur saman við Bandaríkin sem ein og sér standa fyrir fjórðungi heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda. Áhrifin af neikvæðri afstöðu íslenskra stjórnvalda til Kyótó-bókunarinnar munu engan veginn einskorðast við umhverfissviðið heldur fyrr en varir einnig hitta okkur fyrir á fjölmörgum öðrum sviðum alþjóðasamstarfs. Það er sorglegt til þess að vita að góðum kröftum íslensku utanríkisþjónustunnar skuli varið til að berjast fyrir röngum málstað vegna þröngsýni nokkurra ráðherra. Dapurlegast er vissulega hlutskipti umhverfisráðherrans sem í þessu máli eins og fleirum er í gíslingu samráðherra úr eigin flokki. Hjörleifur Guttormsson |