Hjörleifur Guttormsson Við aldamót

 

Á hraðferð í óefni

Mannskepnan hugsar ekki í öldum heldur hefur nóg með að reyna að fóta sig milli ára. Þetta er í senn hluti af vanda hennar og lausn undan oki tilverunnar. Tilraun til að gera úttekt á vegferð okkar í öldum er þannig lítið annað en skemmtileg dægradvöl. Fyrir tvítugan einstakling eru þrjú ár til baka hálfgerð forneskja, hvað þá lengri tími. Við á efri árum eigum bágt með að setja okkur raunsætt í þau spor sem við stóðum í fyrir nokkrum áratugum. Skilin milli draums og veruleika verða harla óljós á skemmri leið. Nýliðin öld með allri sinni upplýsingu ætti þó m.a. að sýna okkur fram á hversu tvíbentar tækniframfarir eru hjá mannkyni sem lítil tök hefur á framvindu mála innan einstakra samfélaga sem og alþjóðlega. Heimsstyrjaldirnar tvær bera þessa glöggt vitni og öngstræti kjarnorkunnar á seinni hluta aldarinnar.

Umhverfisumræðan góðs viti

Ekki eru nema aldarþriðjungur frá því hugtakið umhverfi og umhverfismál skaut upp kollinum. Framan af var það litið með mikilli tortryggni af flestum og kröfur um umhverfisvernd taldar öfgar sem beindust gegn farsælli tækiþróun og framförum. Nú er staðan sú að fjölmargir hafa jákvætt viðhorf til hugtaksins en þau kerfi sem ráða þróuninni, tæknilega og efnahagslega hafa ekki nema í litlum mæli viðurkennt takmörk sín og vandann sem við erað fást.

Veislan endalausa

Fjöldi stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka tekur undir nauðsyn umhverfisverndar í orði en vill ósköp lítið vita af því um hvað málið snýst. Samfélag iðnríkja og það íslenska meðtalið gengur fyrir vexti á öllum sviðum, efnislegum vexti og meiri umsvifum, stækkandi köku og auknum úrgangi. Ráðstafanir til að taka á eftirköstum þessarar miklu veislu eru flestar fálmkenndar og felast margar í því að sópa undir teppið. Þó er mörgum ljóst að það er skammgóður vermir. Samt eru róttækar kröfur um breytingu umsvifalaust stimplaðar sem öfgar og reynt að gera þær tortryggilegar. Kannast menn nokkuð við slíkt á Íslandi við aldarlok?

Sjálfbær þróun nafnið tómt

Enn sem komið er svífa hugmyndirnar um sjálfbæra þróun í lausu lofti. Þetta lausnarorð sem varð til á undirbúningsstigi Ríóferlisins hefur enn litlu handföstu skilað. Þegar Sameinuðu þjóðirnar lögðu mat á árangurinn 1997, fimm árum eftir Ríóráðstefnuna, var niðurstaðan heldur dapurleg. Leiðsögninni í Dagskrá 21 hefur ekki verið fylgt nema af fáum. Áfram stefnir í óefni með andrúmsloft jarðar og loftslagsbreytingar af mannavöldum. Íslensk stjórnvöld vilja helst ekkert af þeim vita. Heimshöfin líða fyrir vaxandi rányrkju og mengun þrátt fyrir Hafréttarsáttmálann. Gróður og jarðvegur á þurrlendi er á undanhaldi og stöðugt þrengist um vegna sívaxandi fólksmergðar. Viðleitnin til varnar hefur enn litlu skilað nema undanhaldi.

Róttækra aðgerða þörf

Baráttan fyrir sjálfbærri þróun er rétt að byrja. Sem flestum þarf að verða ljóst að hugsjónin um heilbrigt og lífvænlegt umhverfi rætist ekki án baráttu og róttækra breytinga á undirstöðum samfélagsins. Markaðsöflin ein og sér leysa ekki vandann. Til að sigrast á manngerðum eyðingaröflum þarf vitræn stjórnun, bæði innan ríkja og alþjóðlega, og virkni og fórnfýsi af hálfu fjöldans. Jöfnun lífsgæða og bremsur á óhófseyðslu verða að koma til. Verði ekki brugðið á ný ráð fljótlega er hætt við að nýja öldin fái enn lakari eftirmæli en sú sem vorum að kveðja.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim