Hjörleifur Guttormsson | 30. mars 2000 |
Álspilaborgin hrunin - fjárfestar snúa við blaðinu Álversfarsinn á Austurlandi tók nýjan snúning um miðja þessa viku. Opnað var inn í bakherbergi fjárfesta sem nú hafa kollvarpað stóriðjudæmi ríkisstjórnarinnar í einu vetfangi. Fljótsdalsvirkjun sem lagt hefur undir sig þjóðmálaumræðuna í mörg ár og upptók tíma Alþingis fyrri hluta vetrar hefur nú verið sett til hliðar og er væntanlega brátt úr sögunni. Í stað hennar stað er teflt fram umdeildri Kárahnjúkavirkjun til að þjóna 240 þúsund tonna byrjunaráfanga í risaálverksmiðju við Reyðarfjörð. Valgerður iðnaðarráðherra gekk í gær fram og hneigði sig fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar. Umhverfisráðherrann sést hins vegar hvergi, enda ekki bergnumin af Eyjabökkum. Nýtt sjónarspil er að hefjast, en á engu traustari grunni en hið fyrra. Spilaborg stóriðjunnar eystra er að hrynja. Reiknistokkur fjárfestanna Tvö og hálft ár eru liðin frá því að formaður Framsóknarflokksins kynnti Austfirðingum fagnaðarerindi sitt um risaálbræðslu. Álíka lengi hefur verið tekist á um kröfuna um að farið verði að leikreglum og Fljótsdalsvirkjun sett í lögformlegt umhverfismat. Á þetta máttu ráðherrarnir ekki heyra minnst, handjárnuðu þá sem þeir komu höndum yfir á Alþingi og kvörnuðu út úr Samfylkingunni. Nú aðeins þremur mánuðum eftir sögulega atkvæðagreiðslu í þinginu er hið ómögulega í einu vetfangi í lagi, ekki fyrir tilverknað ráðherranna heldur eftir að peningamenn tóku upp reiknistokkinn. Eyjabakkar verða friðlýstir og allt frekara gums fer í mat lögum samkvæmt. Í stað 2003 nefnir forstjóri Landsvirkjunar nú árin 2007 eða 2008 að hægt verði að ræsa virkjun til að knýja álverksmiðju! Alla orkunýtingu í endurmat Búið er að fara hroðalega með Austfirðinga í þessu sjónarspili og setja um leið Ísland allt á annan endann. Nú er brýnt að linni og bætt verði fyrir þann skaða sem hlotist hefur. Stóriðjuhugsuninni þarf að víkja til hliðar og setja öll orkunýtingaráform í rækilegt endurmat, m.a. með vetnissamfélag 21. aldar í huga. Gripið verði strax til verndaraðgerða á Eyjabakkasvæðinu og stefnt að stofnun Snæfellsþjóðgarðs hið fyrsta. Hlúa þarf að víðtækri nýsköpun í atvinnulífi á öllu Austurlandi og leggja fé í samgöngubætur sem um munar með jarðgöngum á tveimur stöðum, þ.e. milli Héraðs og Vopnafjarðar og miðsvæðis á Austfjörðum. Framsóknarforystan suður? Brýnt er að treysta félagslega stöðu landsbyggðarinnar og hverfa í því samhengi frá óheillavænlegri breytingu á kjördæmaskipan. Ef fyrirliggjandi tillögur meirihluta kosningalaganefndar ná fram að ganga hverfur Austfirðingafjórðungur af sjónarsviðinu í fyrsta sinn frá þjóðveldisöld. Endileysa þessa máls birtist mönnum í togstreitunni um hvorum megin hryggjar Austur-Skaftafellssýsla eigi að liggja. Það er nú í hámælum að Framsóknarforystan hafi sveiflað mörkum Suðurlands austur að Lónsheiði þegar fjárfestarnir sýndu þeim á spilin og álborgin hrundi. Gömul orðtæki ganga nú í endurnýjun lífdaga - ekki er öll vitleysan eins! Hjörleifur Guttormsson |