Hjörleifur Guttormsson 31. júní 2000

Tvíbentur fréttaflutningur

Fréttamenn og blaðaútgefendur bera mikla ábyrgð.Sundið á milli upplýsingaskyldu og sölumennsku getur stundum reynst þröngt og vandþrætt. Ég hef í sumar oft haft barnabörnin nálægt mér og þá fer maður ósjálfrátt að hlusta á fréttir með öðru hugarfari.

Flugslysin fréttnæmust

Slysafréttir, ryskingar, handtökur og réttarhöld eru orðin eftirlætis fréttaefni margra fjölmiðla. Þar er allur heimurinn undir ef um flugslys er að ræða, en af einhverjum ástæðum virðist fréttnæmara að menn farist með flugvél en á blóðvelli þjóðveganna. Tíu manna flugslys í Ástralíu eða Kína er umsvifalaust flutt sem heimsfrétt hér uppi á skerinu, að ekki sé talað um hærri tölur látinna. Ég hef aldrei skilið hvað er merkilegra við að deyja við fall úr lofti en árekstur á þjóðvegi, hrap í kletti eða að detta ofan af stól á eldhúsgólfinu. Líklegasta skýringin á matreiðslu fjölmiðla virðist mér vera hughrifin, að vekja hroll í huga hlustandans, að flytja “áhrifamikla” frétt. Eflaust kemur einnig til forysta myndmiðlanna sem helst kjósa að sýna sem mest á tjá og tundri: vettvang flugslysa með líkama í pörtum, snjóflóð með allt í viðbjóðslegri bendu – að ekki sé talað um stríðssenur. Undanfarið hefur verið heldur fátt um fína drætti á vígvöllum eftir að NATÓ lauk sínu erindi í Júgóslavíu. Þá er að fylla upp í með öðru viðlíka krassandi í staðinn.

Morðið á Leifsgötu

Það hljóp heldur betur á fréttasnærið á dögunum þegar maður drap mann í kjallara við Leifsgötu. Strax og spurðist varð þetta fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu með skrautlegum útleggingum um hvernig gengið var frá þeim látna sem og um líklega gerendur. Maðurinn hefði verið hengdur í hálstauinu. Þetta entist sem aðalfrétt í sólarhring. Þá fékk landslýður að vita frá aðalfjölmiðli sínum að þetta með hálstauið hefði verið harla ónákvæmt því að nú benti allt til að maðurinn hefði verið kyrktur í greipum gerenda, og líklega verið þar tveir fremur en einn að verki. Börnin í landinu fylgjast spennt með þessari framhaldssögu og fara að velta því fyrir sér hvernig haganlegast sé staðið að slíku verki. – Sem undirleikur við þetta Leifsgötuævintýri voru fréttir af drengnum sem drap föður sinn í grennd Húsvíkur á liðnum vetri og hefur sú saga dugað lengi og vel og hvergi nærri lokið.

Fylliríið í menningarborginni

Það hefur lengi verið til upplyftingar þeim sem leggja eyru við útvarpinu á sunnudagsmorgnum að fá sem aðalfrétt útdrátt úr lögregluskýrslu næturinnar. Þar kennir margra grasa og fjölbreytni slík að dugað gæti hverju sinni í líflega bíómynd. Verst er að börnin eru þá enn sofandi, þau sem á annað borð hafa skilað sér heim. Í sunnudagshádeginu er röðin komin að ryskingum úti á landi, sem komast þó sjaldan í hálfkvisti við atburðina í menningunni syðra.

Í grein sem Halldór Hansen barnalæknir skrifaði í Morgunblaðið 16. janúar 2000 undir fyrirsögninni “Börn í hringiðu nútímans” fjallaði hann um hin margvíslegu áreiti sem nútímabörn verða fyrir og vaxandi erfiðleika þeirra við að fóta sig. “Sá, sem ekki getur treyst sínum innri manni, er nokkurn veginn dæmdur til að breyta umsvifalaust áreiti í athöfn, án tillits til þess, hvort það kemur sér vel eða illa, þegar til lengri tíma er litið” segir þessi reyndi læknir. - Ábyrgðarmenn fjölmiðla og fréttamenn mættu að ósekju hugsa um aðstæður barna þegar þeir senda boð sín út í ljósvakann og setja hrollvekju sölumennskunar einhverjar skorður.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim