Hjörleifur Guttormsson 31. ágúst 2000

NAUST og aflraunir við Snæfell

Náttúruverndarsamtök Austurlands, kölluð NAUST, eru 30 ára um þessar mundir. Þau urðu til í þann mund sem bylgja náttúru- og umhverfisverndar reis í fyrsta sinn hátt víða um lönd og hafa starfað samfellt síðan. Um hríð voru þessi austfirsku samtök ein á velli hliðstæðra félaga hérlendis fyrir utan samtökin Landvernd sem byggja á nokkuð öðrum grunni. NAUST hefur á þrjátíu ára ferli sínum fengið miklu áorkað, bæði á félagssvæði sínu Austurlandi en einnig á landsmælikvarða í samvinnu við Náttúruverndarráð og systursamtök. NAUST hefur einnig verið þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi, átti meðal annars fulltrúa á vettvangi frjálsra félagasamtaka í Ríó 1992.

Frumkvæði að friðlýsingu landsvæða

Þegar á þriðja starfsári sínu 1973 gaf NAUST út drög að náttúruminjaskrá fyrir Austurland. Þar var að finna ábendingar um fjölmörg svæði, sum víðlend, sem ástæða væri til að vernda og friðlýsa að náttúruverndarlögum. Mörg þessara svæða eru nú landsþekktar og eftirsóttar náttúruperlur, eins og Lónsöræfi, sem Náttúruverndarráð gerði að friðlandi með samkomulagi við landeigendur 1977. Friðlýsing Ingólfshöfða, Hólmaness við Reyðarfjörð og Álfaborgar í Borgarfirði eystra eru mál sem komust í höfn með aðstoð NAUST auk fjölda svæða á Austurlandi sem sett hafa verið á opinbera náttúruminjaskrá. Þar má nefna stór svæði eins og Víkur og Loðmundarfjörð, Gerpissvæðið og Kverkfjöll og Krepputungu. Síðast en ekki síst má nefna tillögu NAUST í fyrrasumar um Snæfellsþjóðgarð.

Ömurlegt tiltæki

Það var sérstæð afmælisgjöf sem stóriðjusinnar á Austurlandi færðu NAUST á aðalfundi samtakanna við Snæfell 27. ágúst. Sú heimsókn og ruðningur nær 60 stuðningsmanna stóriðjuframkvæmda inn í samtökin daginn fyrir aðalfund verður lengi í minnum höfð. Sjaldan hefur verið efnt til fáránlegri uppákomu hérlendis, enda hefur hún þegar hlotið óvæginn dóm meðal almennings. Flestir skilja að með innrásinni á aðalfund þessara náttúruverndarsamtaka var verið að greiða lýðræði í landinu alvarlegt högg. Forsprakkar félagsins Afl fyrir Austurland eru reyndar þegar farnir að sýna iðrunarmerki og skynja að þeir hafa hlaupið alvarlega á sig.

Forysta SSA athugi sinn gang

Formaður austfirska sveitarstjórnarsambandsins, sem ekki tók undir þetta tiltæki, sá samt ástæðu til að reyna að gera lítið úr NAUST, - þetta séu fámenn samtök sem fái of mikla áheyrn í fjölmiðlum. Ég held að þeir sem þannig mæla ættu að lesa sig til um sögu, stefnu og starfshætti NAUST. Fjöldi Austfirðinga hefur tengst samtökunum undanfarna þrjá áratugi, átt sæti í stjórn þeirra, verið formlegri félagar eða tekið þátt í kynnisferðum og öðru starfi samtakanna. Núverandi formaður NAUST, Halla Eiríksdóttir, hefur undanfarið með mikilli prýði borið hönd fyrir höfuð þeirra mörgu sem lagt hafa NAUST og málstað náttúruverndar á Austurlandi lið síðustu þrjá áratugi.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim