Hjörleifur Guttormsson:

1. febrúar 1999

 

Lokasprettur kjörtímabils

Rúmur mánuður eftir af þinghaldi

 

Framundan er fimm vikna þinghald, lokasprettur á fjögurra ára kjörtímabili. Fyrir þinginu liggja aðeins fá mikilvæg og umdeild mál frá ríkisstjórninni en hugsanlega bætast við ný stjórnarfrumvörp. Breytt kjördæmaskipan með tilheyrandi stjórnarskrárbreytingu er efst á blaði umdeildra mála og áhrifa hennar á stjórnskipan landsins mun gæta lengi eins og rætt er um hér á eftir. Þá er boðuð breyting á þingsköpum Alþingis, þar sem mörg álitaefni verða á ferðinni.

Þingmenn úr stjórnarandstöðu fá á næstu dögum náðarsamlegast að mæla fyrir málum sem mörg hver hafa beðið umræðu frá því þau voru lögð fram á fyrstu vikum þingsins. Í þeim bunka á undirritaður ekki færri en 6 mál sem fyrst að lokinni umræðu ganga til þingnefnda. Þetta sýnir þær aðstæður sem stjórnarandstöðunni og einstökum þingmönnum eru búnar, þar sem málefni ríkisstjórnar hafa allan forgang. Eigi að breyta þingsköpum nú þarf lagfæring á þessu að vera ofarlega á blaði þannig að mál komist greitt til þingnefnda. Jafnframt þarf að setja reglur um afgreiðslu mála frá nefndum til þingsins þannig að afstaða til þeirra verði lýðum ljós í stað þess að mál séu svæfð aftur og aftur í þingnefndum.

Kjördæmamálið

Aðdragandi kjördæmabreytingar er breyting á stjórnarskrá, sem fær ekki lokaafgreiðslu fyrr en að loknum þingkosningum. Þá fyrst yrði gengið frá breytingu á kjördæmaskipan sem kosið yrði eftir árið 2003 verði þing ekki rofið fyrr. Stærsta spurningin sem svara þarf er hvort meirihluti verður fyrir því á þingi að fækka kjördæmum, stofna risastór landsbyggðarkjördæmi og kljúfa Reykjavík í tvennt sem kjördæmi. Um þetta liggja fyrir tillögur frá formönnum þingflokka öðrum en Óháðum.

Ég hef áður gagnrýnt þessar tillögur, ekki síst að búa til risastór landsbyggðarkjördæmi sem vonlaust er fyrir einstaka þingmenn að sinna svo að vit sé í. Þannig er gert ráð fyrir að helmingur af flatarmáli Íslands, þ.e. allur eystri hluti landsins frá Siglufirði til Skeiðarársands verði eitt kjördæmi! Samkvæmt þessum hugmyndum á jafnframt að leggja vestari hluta Norðurlands saman í eitt kjördæmi með Vesturlandi og Vestfjörðum og mynda þrjú kjördæmi á höfuðborgarsvæðinu. Með þessu er ofan á annað gengiðgegn þeim samstarfsgrunni sem þróast hefur með sveitarfélögum í svonefndum landshlutasamtökum. Fyrir löngu átti að vera búið að taka upp fylkjaskipan í landinu, sem styrkt hefði verulega stöðu landsbyggðarinnar. Væri slíkt í boði teldi ég einsýnt að gera landið að einu kjördæmi til Alþingis. Þann óskapnað sem nú liggja fyrir tillögur um mun ég aldrei geta stutt.

Lögbjóða ætti kjördag síðsumars

Yfirstandandi Alþingi ber þess ljós merki að kosningar eru í aðsigi. Þingmenn hafa margir hverjir verið uppteknir af framboðsmálum og áróðri sem fylgir prófkjörum. Þannig fær þetta síðasta þing kjörtímabilsins á sig hálfgerðan upplausnarblæ. Ekki er óeðlilegt að kosningar í sjónmáli setji nokkurt mark á þingstörf og er engin nýlunda. Hitt er lakara ef meirihluti þingheims verður svo upptekinn af eigin framtíð og stöðu í "goggunarröð" stjórnmálanna, ráðherrar og hugsanleg ráðherraefni ekki síður en óbreyttir, að þingstörfin líða fyrir það.

Í þessu sambandi skiptir máli hvenær ársins kosið er. Ég teldi það horfa til bóta fyrir þingstörfin að flytja kjördag frá maí yfir á september, bæði til Alþingis og trúlega einnig til sveitarstjórna. Þannig væri hægt að tryggja venjubundna lengd á þinghaldi og stjórnmálaflokkarnir gætu notað vorið og sumarið til að ganga frá framboðum. Kosningabaráttan hæfist um miðjan ágúst og stæði í röskan mánuð ef kosið yrði um haustjafndægri upp úr 20. september. Þing gæti þá hafist eins og nú í byrjun október, ferskt og albúið til verka, í stað þess að nýkjörnir þingmenn sitji yfir engu sumarlangt.

Bæklingur um hálendið

Ríkisstjórnin hefur gefið út bækling með heitinu Hálendi Íslands - fjársjóður þjóðarinnar og látið dreifa honum í hús. Mikið var við haft þegar ritlingur þessi upp á fáeinar blaðsíður var gefinn út, því að ekki færri en fjórir ráðherrar fylgdu honum úr hlaði. Tilgangur þessara r útgáfu virðist sá helstur að skýra meginefni þeirra þriggja laga sem sett voru á síðasta þingi um málefni miðhálendisins, en lögin um eignarhald á auðlindum í jörðu taka raunar til landsins alls.

Því miður hefur ekki tekist vel til með þessa myndskreyttu útgáfu, sem sagt er að hafi kostað um 3 miljónir króna. Réttlæting hennar hlýtur fyrst og fremst að vera fræðsla til almennings, en efnið er afar grautarlega fram sett og ægir saman skrúðmælgi, hálfkveðnum fyrirheitum og lagaskýringum. Það síðasttalda er hins vegar afar rýrt í roðinu og ruglingslegt, ekki síst þar eð blandað er saman við lögskýringar hugmyndum um óútrædd eða væntanleg frumvörp frá ríkistjórninni. Dæmi um það er "samvinnunefnd miðhálendis" sem talað er um sem staðreynd, umfjöllun um raforkuvinnslu og ókomin frumvörp frá umhverfisráðherra um náttúruvernd og mat á umhverfisáhrifum.

Áróður yfirgnæfir fræðsluþáttinn

Bæklingurinn er á köflum með augljósum áróðursblæ og reynt er með honum að draga fjöður yfir stefnu- og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra í málefnum hálendisins. Þeim tilgangi þjóna líka myndirnar, en í stað þeirra hefði verið nærtækara að bregða upp myndrænum skýringum af innbyrðis tengslum nefndra laga og þeim skipulagsákvörðunum og tillögum sem fyrir liggja um landnot á miðhálendinu.

Aftast í þessum bæklingi ríkisstjórnarinnar er að finna uppdrátt af Íslandi, sem vekur upp fleiri spurningar en hann svarar. Þar er dregin lína um "miðhálendið", sem samkvæmt gjörningum ríkisstjórnarinnar er ekki til sem sérstök eining. Sýnd eru "sýslumörk" 13 árum eftir að sýslur voru aflagðar sem stjórnsýslueiningar, en í skýringareit stendur "umdæmamörk sýslumanna". Þá er vísað til sveitarfélagamarka á uppdrætti þessum en láðst hefur að sýna hvar þau liggja á jöklum landsins. Var þó ekki minnsta afrek ríkisstjórnarinar í hálendismálum að skipta jöklum landsins upp milli sveitarfélaga.

 

Hjörleifur Guttormsson.

 

 


Til baka | | Heim