Hjörleifur Guttormsson:

1. september 1998

 

Nafngiftir sveitarfélaga

  Mikil umræða hefur verið um nöfn sveitarfélaga undangengin ár og ekkert lát er þar á. Það er góðra gjalda vert, því að hér er um stórt menningarpólitískt mál að ræða. Þess utan er hér á ferðinni tilvalið þrætuepli, sem stytt getur mönnum stundir, en einnig vakið til umhugsunar um íslenskt mál, staðfræði og fleira áhugavert. Æskilegt er þó að stympingar um nöfn sveitarfélaga fái farsælan endi og þörf er á sæmilega skýrum reglum sem almenningur í senn fær skilið og haft sem haldreipi í leit að brúklegum nöfnum.

Hlálegt nafnakraðak

Sameining sveitarfélaga sem nú er í tísku hefur reynt mjög á nýsmíði í nafngiftum. Umræðan um heiti nýs sveitarfélags hefur á stundum verið mun meiri og ákafari en um forsendur sameiningarinnar. Í sveitarstjórnarlögum sem giltu fram á þetta ár voru ákvæði þess efnis að sveitarfélög skyldu bera eitthvert heitanna hreppur, bær eða kaupstaður sem síðari lið heitis.

Þessu var viðhaldið við breytingu sveitarstjórnarlaga árið 1986, þótt rökin fyrir slíkri aðgreiningu væru þá í raun úr gildi felld með afnámi sýslufélaga. Réttarstaða Reykjavíkurborgar og Mjóafjarðarhrepps hefur síðan verið hin sama innan sveitarstjórnarstigsins. Fljótlega fóru menn að ganga á svig við lögin með fulltingi ráðuneyta með því að taka upp heitin byggð eða sveit. Í árslok 1995 var staðan sú, að í landinu var ein borg, 16 kaupstaðir, 12 bæir", 3 byggðir, 4 sveitir og 134 hreppar. Ef eitthvað varð til að rugla almenning í ríminu um uppbyggingu stjórnsýslu í landinu var það þetta hlálega nafnakraðak. Við þetta bættust síðan silkihúfuheiti álíka sundurleit á oddvita og framkvæmdastjóra sveitarfélaganna. Þar skyldi rækilega haldið aðgreindum Jóni og séra Jóni.

 

Aukið svigrúm til nafngifta?

Hugrenningar af þessum toga leiddu til þess að ég gerði fyrir nokkrum árum tillögu um að sveitarfélög skuli ákveða sjálf nafngift sína sem þó þarf að hljóta staðfestingu félagsmálaráðuneytis." Einnig vildi ég kveða á um þá meginstefnu að framkvæmdastjóri sveitarfélags nefnist sveitarstjóri og formaður sveitarstjórnar kallist oddviti. Tillögum þessum var heldur vel tekið af þeim sem veittu umsögn um frumvarpið og þegar félagsmálaráðherra lét hefja vinnu að frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga var viðkomandi nefnd bent á að líta á tillögur mínar. Löggjöfin er nú komin og varð að ráði á Alþingi að gera sérstaka örnefnanefnd að umsagnaraðila um tillögur að nafngiftum sveitarfélaga. Nýskipuð örnefnanefnd hefur þegar sagt álit sitt á allmörgum hugmyndum og formaður hennar, Ari Páll Kristinsson, ritaði fróðlega grein um viðhorf sín og forsendur nefndarinnar í Morgunblaðið 29. ágúst 1998.

 

Smiðshöggið vantar

Ég get tekið undir margt af því sem frá nefndinni hefur komið, en þó finnst mér málið enn í öngstræti. Ég skil ekki hvers vegna eigi að þröngva endingum eins og -bær, -byggð, -sveit eða -kaupstaður upp á sveitarfélög og nóg komið af allskyns ónefnum í skjóli þeirrar stefnu. Ég sé ekki að slíkt sé á nokkurn hátt til glöggvunar fyrir málnotendur heldur þvert á móti fallið til að rugla menn í ríminu um sveitarstjórnarstigið. Mér líst hins vegar vel á þá hugmynd, sem örnefnanefnd hefur viðrað, að bætt sé orðinu sveitarfélag framan við aðalheiti. Þannig yrði til Sveitarfélagið Firðir, Sveitarfélagið Akureyri og Sveitarfélagið Fljótsdalshreppur sem opinber stjórnsýsluheiti, sambærileg við Lýðveldið Ísland sem er formlegt heiti íslenska ríkisins. Með þessu væru menn lausir úr viðjum ósmekklegra endinga og svigrúm ykist til að gefa sveitarfélögum góð og falleg nöfn. Eigum við ekki að lögbjóða þessa stefnu?

 

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim