Hjörleifur Guttormsson:

1. október 1998

 

 

Jöfnuður og græn gildi
Nýtt afl í mótun

Stefnuumræða á Alþingi 1. október 1998

 

Herra forseti.

Það er óvenju mikil gerjun í íslenskum stjórnmálum. Miklar líkur eru á að tveir stjórnmálaflokkar rísi af grunni Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista. Annar þeirra verði kratabandalag með óljósa stefnu á mörgum sviðum, hinn verði róttækur flokkur sem samþætti baráttu fyrir umhverfis- og náttúruvernd kröfunni um jöfnuð og réttlæti í samfélaginu. Þessari nýsköpun ber að fagna. Hún mun hafa áhrif á störf þessa þings og allt stjórnmálasviðið.

Forsætisráðherra flutti fyrr í dag þingi og þjóð mikla góðærismessu. Flestum þykir sinn fífill fagur. Auðvitað ber að fagna því að vel árar en því miður njóta ekki allir þessa góðæris. Fjölmennir hópar í samfélaginu búa við skertan hlut. Aldraðir og öryrkjar sjá lítið af góðærinu. Það ert til skammar að greiðslur til þeirra hafa hvorki fylgt verðalags- eða launaþróun. Sama máli gegnir um bætur til atvinnulausra og greiðslur til námsmanna. Þegar litið er undir yfirborðið blasir því miður víða við fátækt á Íslandi. Þeir eru margir sem bíða með ugg eftir að pósturinn færi þeim innheimtubréfin. Þessu misrétti verður að ljúka. Bjartsýnistal forsætisráðherrans nægir ekki öryrkjum og öðrum lágtekjuhópum. Það nægir ekki heldur íbúum landsbyggðarinnar sem búa við hróplega mismunun á mörgum sviðum. Og ekki ætlar ríkisstjórnin að nota góðærið til að taka sérstaklega á stöðu kvenna sem standa almennt langtum verr að vígi en karlar í efnalegu tillliti.

Krafan um jöfnuð er sígild, en samfélagsþróunin gengur í öfuga átt. Ójöfnuður fer vaxandi hröðum skrefum hérlendis sem annars staðar. Þróun þar sem driffjöður hagvaxtar felst í meiri og meiri efnislegri neyslu stefnir vistkerfum jarðar og tilvist mannkyns í hættu. Við erum að fjarlægjast markmiðið um sjálfbæra þróun, hugsjónina um samfélög án fátæktar og í sátt við umhverfið. Framandi og heilsuspillandi efnum er blandað í neysluvörur almennings í síauknum mæli. Lífríki og fjölbreytt náttúra er á undanhaldi. Loftslagsbreytingar af mannavöldum boða vá, nema þjóðir heims taki höndum saman um að draga úr mengun.

Víðar en í umhverfismálum er óstöðugleiki og skammsýni tímanna tákn. Fjármála- og efnahagslíf samtengdrar heimsbyggðar hangir á bláþræði. Ríki sem til skamms tíma voru talin lýsandi vitni um vaxtarþrótt kapítalismans eru nú í hlutverki beiningamanns. Þessar aðstæður koma mörgum í opna skjöldu, ekki síst stjórnmálamönnum og hagfræðingum sem litið hafa á óhefta hnattvæðingu fjármagnsins sem mikla blessun. Sú kreppa sem nú ber að dyrum víða um heim ætti að hvetja menn til róttæks endumats. Þeim röddum fjölgar sem setja vilja hömlur á fjármagnsflutninga til að stemma stigu við gífurlegri spákaupmennsku. Kreddur frjálshyggjunnar eru hins vegar lífseigar enda víða studdar af sósíaldemókrötum ekki síður en hægri mönnum.

Efnahagsmál og umhverfismál þurfa að vera samofin í málsmeðferð stjórnvalda hvers þjóðríkis og í alþjóðaviðskiptum. Nú eru umhverfismálin hins vegar á þriðja farrými. Hér á landi hafa þau verið sett í öskustó hjá skilningsvana ríkisstjórn. Heilræðin frá Ríó-ráðstefnunni 1992 um sjálfbæra þróun og varúð og hlífð í umgengni við náttúruna hafa aldrei náð inn í íslenska stjórnarráðið. Niðurlæging þessa málaflokks í höndum Framsóknarflokksins er sorgarsaga. Í stefnuræðu sinni sagði forsætisráðherrann kokhraustur: „Ísland er og verður í fremstu röð á sviði umhverfismála". Um leið kvartaði hann sáran yfir Kyótóbókuninni um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Í því máli stefnir ríkistjórnin í algjört óefni með stóriðjustefnu sinni. Ríkisstjórnin vill engar hömlur sjá þegar erlendar málmbræðslur eru annars vegar. Verði þetta niðurstaðan setur Ísland sig í afar erfiða stöðu í alþjóðasamstarfi um umhverfismál þar sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta, ekki síst um varnir gegn mengun hafsins.

Óaðskiljanlegur hluti af stóriðjustefnunni eru virkjanaáform sem engin sátt er um meðal þjóðarinnar. Íslenskar orkulindir eru ekki meiri en svo að vöxtum að þjóðin þarf að ráðstafa þeim af forsjálni með langsæja hagsmuni í huga. Orka sem bundin er í málmbræðslum til margra áratuga verður ekki nýtt til annars á meðan. Þetta dæmi gengur ekki upp. Orkulindirnar eigum við meðal annars að nýta til að knýja farartæki okkar og fiskiskip og draga að sama skapi úr innflutningi jarðefnaeldsneytis. Tæknin er þegar til staðar, rafbílar og vetni, og hagkvæmni á næsta leiti.

Þingflokkur óháðra hefur þegar lagt fram tillögu um sjálfbæra orkustefnu þar sem staðfesting á Kyotó-bókuninni er ein af forsendunum.

Hliðstæðir mælikvarðar um sjálfbæra þróun eiga að gilda um hagnýtingu annarra náttúruauðlinda og þá ekki síst fiskimiðanna. Ríkar þjóðir heims að okkur Íslendingum meðtöldum verða að endurmeta forsendur hagvaxtar sem byggir á kröfunni um meira og sífellt meira af efnislegum gæðum. Það gangvirki er að leiða okkur inn í samfélagsgerð sem ber feigðina í sér. Í slíku kerfi felst hvorki ávísun á hamingju eða lífsfyllingu. Í stað kröfunnar um sífellt meira og meira eigum við að reisa önnur gildi, kröfuna um jöfnuð milli manna og siðræn viðhorf í samskiptum við móður náttúru.

Það er ekki sjálfsagt mál að nýta hvaða tækni sem er eða fylgja eftir vísindalegum uppgötvunum án siðrænna mælikvarða um afleiðingarnar. Kjarnorkusprengjan og sá vandi sem tengist hagnýtingu kjarnorkunnar ætti að vera mönnum lexía. Líftæknin gæti lent á svipuðu háskaspori og reynst bölvun en ekki blessun ef menn ekki gæta sín við hvert fótmál. Spurningin stendur ekki aðeins um erfðatækni og sjúkdóma, heldur um siðfræði og takmörk sem okkur ber að virða, einnig á sviði mannhelgi og einkalífs.

Góðir áheyrendur.

Hér sem annars staðar er rík þörf fyrir stjórnmálaafl sem hefur að leiðarljósi jöfnuð og græn gildi. Þetta afl er í mótun. Það mun setja í forgang kröfuna um jöfnuð og vistvænt samfélag. Er það ekki málstaður sem vert er að styðja?

 

Ég þakka áheyrnina - Góðar stundir


Til baka | | Heim