Hjörleifur Guttormsson | 2. september 1999 |
Snæfellsþjóðgarður rétta svariðViðhorfsbreyting og réttarreglur Íslendingar hafa verið að kynnast hálendinu í stórauknum mæli síðustu ár. Æ fleiri eignast hlutdeild í töfrum óbyggðanna og vilja tryggja sem víðtækasta verndun þeirra fyrir óbornar kynslóðir. Viðhorfsbreytingunni verður helst líkt við byltingu og hún skapar forsendur fyrir endurmati og nýjum ákvörðunum. Rökin fyrir slíku er ekki síður að finna í alþjóðlegu umhverfi. Ríó-ráðstefnan 1992 lagði nýjan grunn að umgengni við náttúruna með sjálfbæra þróun og varúðarreglu sem æðstu boðorð. Það hefur miðað afar hægt hérlendis að fá meginniðurstöður Ríó-yfirlýsingarinnar inn í íslenskt réttarkerfi. Frumvarp sem umhverfisráðherra lagði fyrst fram vorið 1994 “um lögfestingu nokkurra meginreglna umhverfisréttar” hefur enn ekki hlotið afgreiðslu. Síðast kom þetta stjórnarfrumvarp fram á þingi í hittifyrra, en engin áhersla var á afgreiðslu þess frekar en fyrri daginn. Í upphafsgrein þessa frumvarps segir: “Tilgangur laga þessara er að tryggja að meginreglna umhverfisréttar verði ávallt gætt við framkvæmd og skýringu laga er varðar umhverfið. Markmiðið er að vernda umhverfið og stuðla að því að einstaklingar sem og komandi kynslóðir fái notið þeirra gæða sem felast í heilnæmu umhverfi og náttúruauðlindum.” Svikist um endurskoðun laga En það er ekki aðeins að stjórnvöld hafi dregið við sig að lögfesta meginreglur umhverfisréttar. Þau hafa jafnframt svikist um að sinna lögboðinni endurskoðun löggjafar um mat á umhverfisáhrifum. Upphaflegri löggjöf um þetta efni var aldrei ætlað að standa lengi. Í lögum nr. 63/1993 var beinlínis tekið fram að lögin bæri að endurskoða jafnhliða endurskoðun skipulags- og byggingarlaga, en endurskoðun þeirra lauk vorið 1997. Þessari lögboðnu skyldu brugðust stjórnvöld, þótt margoft væri á Alþingi vakin athygli á nefndu lagaákvæði. Fullyrt var af umhverfisráðherra æ ofan í æ á síðasta kjörtímabili að frumvarp til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum væri að koma fram. Enn hefur það ekki séð dagsins ljós þótt langt sé um liðið að stjórnskipuð nefnd skilaði af sér tillögum að frumvarpi. Fyrirvari skipulagsnefndar miðhálendis Samvinnunefnd héraðsnefnda sveitarfélaga sem skilaði tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins í maí 1997 gerði m.a. svohljóðandi fyrirvara um Fljótsdalsvirkjun: ”Gildi Eyjabakkasvæðisins vegna sérstæðs gróðurfars, dýralífs, landslags o.fl. er svo mikið að ástæða er til að endurskoða tilhögun virkjunar samkvæmt gildandi lögum. Svæðið hefur einnig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna.” Og í lokaáliti nefndarinnar frá í ágúst 1998 segir m.a.: ”Nefndin telur að eðlilegt sé að að endurmeta 15 ára gömul áform með tilliti til breyttra forsendna, m.a. nýrrar tækni og breyttra viðhorfa til umhverfismála....Gerðir eru fyrirvarar um stærð miðlunarlóna á gróðurlendum í 600 m y.s. sem eru meðal stærstu fuglabyggða hálendisins.” Fyrirvarar sem skipulagsnefndin gerði í aðdraganda þessa hálendisskipulags, sem ráðherra staðfesti síðastliðið vor, eru þannig ótvíræðir,. Þjóðgarðstillaga NAUST Nýleg tillaga Náttúruverndarsamtaka Austurlands – NAUST – um að stofnaður verði Snæfellsþjóðgarður sem meðal annars spanni yfir Eyjabakkasvæðið endurspeglar áreiðanlega vilja stórs hluta þjóðarinnar um þessar mundir. Náttúruverndarsamtök Austurlands telja brýnt að litið sé heildstætt á þetta verðmæta svæði með tilliti til verndunar náttúru þess ókomnum kynslóðum til yndisauka. Ef velja á milli þjóðgarðs og álverksmiðju ætti valið að reynast auðvelt. Margir munu taka undir þá ályktun aðalfundar NAUST, að Snæfellsþjóðgarður og verndun hálendisins norðan Vatnajökuls hefði ómetanlegt gildi fyrir landið í heild og Austurland sérstaklega auk þess að hafa alþjóðlega þýðingu. Hjörleifur Guttormsson |