Hjörleifur Guttormsson frá Buenos Aires:

2.11.1998.

 

Loftslagsþing að hefjast

 

Í dag 2. nóvember hefst hér í Buenos Aires loftslagsráðstefna aðildarríkja að samningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem frágenginn var fyrir Ríó-ráðstefnuna 1992 og Ísland síðan staðfesti með samþykki Alþingis í júní 1993. Það er skemmtileg tilviljun að Eiður Guðnason sendiherra sem undirritaði sem umhverfisráðherra samninginn í Ríó fyrir 6 árum er nú fulltrúi utanríkisráðuneytisins á þessum ársfundi samningsaðila hér í Argentínu. Nokkrir af fulltrúum Íslands á ráðstefnunni komu hingað í gær eftir sólarhringsferð frá Íslandi, þeirra á meðal Þórir Ibsen frá umhverfisráðuneytinu, Tómas Haukur Heiðar frá utanríkisráðuneytinu og Jón Ingimarsson frá iðnaðarráðuneytinu. Áður var kominn hingað Halldór Þorgeirsson frá umhverfisráðuneytinu, en hann og Jón Ingimarsson voru í hópi fulltrúa Íslands á hliðstæðum fundi í Kyótó í desember í fyrra. Í lok vikunnar munu svo bætast í hópinn Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra og Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri. Undirritaður situr ráðstefnuna sem þingmaður og einnig eru væntanlegir hingað samkvæmt boði umhverfisráðherra tveir fulltrúar áhugasamtaka, þeir Brynjólfur Jónsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands og Ólafur Magnússon frá samtökunum Sól í Hvalfirði.

 

Hliðstæður fundur og í Kyótó fyrir ári

Ráðstefnan í Buenos Aires er haldin samkvæmt 7. grein loftslagssamningsins um "þing aðila" og gert er ráð fyrir að haldin séu árlega. Þessi fundur hér er þannig að formi til hliðstæður Kyótó-fundinum fyrir ári. Sá þótti einkar sögulegur og vakti fyrirfram heimsathygli vegna þeirrar bókunar sem þar var í undirbúningi og samþykkt var á 12. stundu í Kyótó. Bókunin fól í sér að iðnríkin svonefndu, talin upp í viðauka II með loftslagssamningnum, taka á sig lagalegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem svarar 5,2% að meðaltali á næsta áratug frá því sem þau losuðu árið 1990. Á það að verða upphafið að frekari niðurskurði í losun sem nú er talið að þurfi að nema 50-60% á fyrrihluta næstu aldar. Flest iðnríki hafa áritað niðurstöðuna í Kyótó, en Ísland er í hópi örfárra ríkja sem ekki hafa enn sett stafi sína undir þetta sögulega samkomulag. Var þó í Kyótó fallist á að Ísland mætti auka losun um 10%.

 

Helstu verkefni Buenos Aires þingsins?

Fyrir Buenos Aires aðildarríkjaþinginu, sem er hið fjórða eftir að samningurinn gekk í gildi (kallað á ensku Conference of the Parties = COP-4) liggja mörg mál sem varða loftslagssamninginn og útfærslu hans. Reynt verður að ganga frá starfsreglum um skipan stjórnar samningsaðila, þar sem meðal annars OPEC-ríkin gera kröfu um sæti, og einnig um hversu stór meirihluti þurfi að standa að samþykktum svo að þær nái fram að ganga. Ýmis atriði er snerta túlkun og framkvæmd á ákvæðum Kyótó-bókunarinnar verða fyrirferðarmikil á dagskrá þær tvær vikur sem ætlaðar eru til fundarins, þar á meðal um viðskipti með losunarkvóta, um samstarf milli ríkja, ekki síst iðnríkja og þróunarlanda, að því er varðar einstakar framkvæmdir ("joint implementation") og um vægi aðgerða til að auka bindingu koldíoxíðs í losunarbókhaldi ríkja. Af hálfu íslenskra stjórnvalda verður ekki síst lögð áhersla á að fá á þinginu viðurkenningu fyrir að undanþiggja megi einstakar stórframkvæmdir í litlum hagkerfum frá því að teljast með í skuldbindingum viðkomandi ríkis. Í raun er þetta svonefnda "íslenska ákvæði" klæðskerasaumað fyrir stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda. Þá verður væntanlega einnig rætt um skuldbindingar þróunarríkja í loftslagsmálum, en gestgjafalandið hefur lagt til að þau taki á sig kvaðir "af fúsum og frjálsum vilja".

 

Vor í landi steikur og tangós

Af nógu verður að taka í ráðstefnusölum þessa þingdaga, þótt spennan verði trúlega minni en á síðasta ársfundi í Kyótó. Utan við niðar þessi mikla stórborg "með gný sinn og læti" þar sem borð svigna undan stórsteikum seint og snemma og tangósýningar með viðeigandi söngvum eru þjóðartákn eftir að Carlos Gardel (d. 1935) lyfti þeim í hæðir. Í borginni og útborgum hennar búa nær 11 milljón manns, um þriðjungur íbúa landsins. Hér á 35 gráðu sunnan miðbaugs er vor með um og yfir 20 stiga hita á daginn og þeir eiga víst ekki von á frosti nema einu sinni á öld. Héðan verða fluttar fréttir af ýmsu tagi næsta hálfan mánuð, aðallega þó um þá örlagaglímu sem mannkyn heyr við sjálft sig nú um stundir í skugga loftslagsbreytinga.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim