|
Hjörleifur Guttormsson
9. maí 2000
Mýrargöru 37
740 Neskaupstaður
kt. 311035-6659
Skipulagsstofnun
ríkisins
Laugavegi 166
105 Reykjavík
Efni: Mat á
umhverfisáhrifum rannsóknaborholu og vegarlagningu hennar vegna í Grændal í
Ölfusi, sbr. auglýsingu Skipulagsstofnunar 7. apríl 2000.
Undirritaður
telur ekki rétt að fallast á umrædda framkvæmd af eftirtöldum ástæðum:
- Svæðið er á náttúruminjaskrá og ein
af fallegustu náttúruperlum
suðvestanlands. Dalurinn liggur stutt frá Hveragerði og er kjörið göngusvæði
til náttúruskoðunar og fræðslu. Lélegt aðgengi fyrir ökutæki inn í dalinn
er mikill kostur sem ekki ætti að fórna að lítt athuguðu máli.
Jarðvarmavirkjun í dalnum myndi gjörbreyta ásýnd hans og vegarlagning
hefði víðtæk og óæskileg áhrif á ímynd dalsins sem friðsæls
útivistarsvæðis. Því ber að fara heildstætt yfir mál þetta hvað framtíðar
landnýtingu varðar, áður en ráðist er í framkvæmdir sem valda myndu
umtalsverðri röskum og miða að nýtingu jarðvarma fyrir virkjun til
raforkuframleiðslu og hugsanleg not til iðnaðar.
- Rammaáætlun og nýting háhitasvæða. Á
vegum iðnaðarráðuneytis er hafin vinna að svonefndri Rammaáætlun undir
kjörorðunum Maður-Nýting-Náttúra. Markmið þessarar vinnu er að fara
heildstætt yfir orkulindir í landinu, vatnsafl og jarðvarma, með tilliti
til verndunar og nýtingar og forgangsröðunar að því er hið síðarnefnda
varðar. Ekki er rétt að hefja rannsóknir eins og Sunnlensk orka hf.
ráðgerir í Grændal, áður en niðurstöður eru fengnar úr Rammaáætluninni.
Slíkt stríddi beinlínis móti
markmiðinu með þeim yfirgripsmiklu athugunum sem fram eiga að fara undir
merkjum þessa verkefnis.
- Rannsóknaholan sem að er stefnt af
framkvæmdaraðila er fyrirhuguð innarlega í Grændal og vegarlagning að
henni yrði áberandi og til mikilla lýta fyrir umhverfið. Liggur hún um
margvísleg jarðfræðifyrirbæri svo sem framhlaup í dalnum vestanverðum.
Borun rannsóknaholu getur valdið miklum breytingum á jarðhita á yfirborði
og hugsanlega spilla fyrir rannsóknum og hagnýtingu á hveraörverum á
svæðinu.
- Fyrirliggjandi rannsóknaleyfi
iðnaðarráðuneytis gildir einvörðungu til könnunar á jarðhita með borun
neðan við 85 metra hæð og rúmar á engan hátt fyrirætlanir samkvæmt
frummatsskýrslunni. Furðulegt verður að teljast að framkvæmdaraðili skuli
leggja skýrsluna fram þvert á fyrirliggjandi skilyrði stjórnvalda.
- Ekki er kunnugt um að sérstök þörf sé
á viðbótarraforkuöflun nú um stundir fyrir almennan raforkumarkað sem
kalli á nýjar virkjanir. Hið sama á einnig við um gufuorku til
iðnaðarnota, sbr. þá staðreynd að gufuafl hefur verið til reiðu í því
skyni við Hveragerði um langt skeið án þess markaður hafi fundist. Menn
ættu að fara sér hægt í að fórna miklum náttúruverðmætum út á óljósar og
lítt rökstuddar væntingar.
- Hérlendis viðgengst mikil sóun á
raforku á ýmsum sviðum og væri unnt að draga verulega úr þörf fyrir nýjar
virkjanir með hagkvæmri orkunýtingu og skynsamlegum sparnaðaraðgerðum.
Hefur iðnaðarráðuneytið nýlega ýtt undir slík áform, m.a. á markaðssvæði
Rafmagnsveitna ríkisins.
- Það væri mikið slys ef nú yrði ráðist
í umræddar boranir og vegarlagninu í Grændal. Stefna ætti að varðveislu
dalsins sem næst núverandi horfi án vegalagninga til yndisauka fyrir
komandi kynslóðir.
Hjörleifur Guttormsson |