|
Hjörleifur Guttormsson |
23. júní 2000
|
Mýrargötu 37 |
|
740 Neskaupstaður |
|
kt. 311035-6659 |
|
|
|
Til Landsvirkjunar |
|
Háaleitisbraut 68 |
|
108 Reykjavík |
|
Efni: Matsáætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar
ásamt tengdum veitum.
Vísað er til þess sem fram kom af hálfu undirritaðs á kynningarfundi
Landsvirkjunar á Egilsstöðum 15. júní 2000, meðal annars að undirritaður
er gagnrýninn á NORAL-verkefnið í heild sinni, byggingu risaálverksmiðju
á Reyðarfirði og virkjana í hennar þágu.
Með bréfi þessu vil ég koma á framfæri athugasemdum við
framlögð drög að matsáætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar og leyfi mér að
setja fram kröfur og óskir um breytingar á henni. Eru þær settar hér fram
í knöppu formi. Sé óskað frekari skýringa er ég reiðubúinn til að veita
þær skriflega eða munnlega.
- Fyrst liggi fyrir niðurstöður Rammaáætlunar. Landsvirkjun fresti
að hefja lögformlegt mat á umhverfisáhrifum framkominna hugmynda um
Kárahnjúkavirkjun uns fyrir liggur heildstæð niðurstaða úr Rammaáætlun
á nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem að er unnið á vegum ríkisstjórnarinnar
og sem gert er ráð fyrir að taki til Kárahnjúkavirkjunar og tengdra
veitna.
- Mat á álverksmiðju komi á undan endanlegu mati á virkjunum.
Ekki verði stefnt að því að ljúka lögformlegu mati á virkjunum í þágu
NORAL-verkefnisins fyrr en lokið er matsferli vegna álverksmiðju á Reyðarfirði.
Óvissa mun ríkja um hvort fallist verði á hugmyndir Reyðaráls hf. um
fyrri og síðari áfanga álverksmiðju á Reyðarfirði [280 + 140 þúsund
tonn á ári] uns matsferli þeirra vegna er að fullu lokið. Samkvæmt NORAL-verkefninu
er umrædd álverksmiðja forsenda Kárahnjúkavirkjunar og tengdra veituframkvæmda
og því verður að telja órökrétt að ætla að meta að lögum virkjanir í
þágu verksmiðjunnar fyrr en niðurstaða er fengin úr mati vegna framkvæmdaáforma
Reyðaráls hf.
- Lágmarkstími til rannsókna tvö heil sumur. Með tilliti til
umfangs þeirra virkjunarframkvæmda sem Landsvirkjun ráðgerir samkvæmt
matsáætlun sinni, verður að áætla lágmarkstíma til rannsókna á umhverfisáhrifum
þeirra tvö heil sumur (2001 og 2002). Fellur það hvað tíma snertir að
ofangreinum ábendingum skv. tl. 1 og 2. Liggi fyrir niðurstöður úr Rammaáætlun
fyrir árslok 2002 ætti að vera unnt að leggja vel undirbúna matsskýrslu
vegna Kárahnjúkavirkjunar fram til lögformlegrar umfjöllunar veturinn
2002-2003.
- Reglugerð ekki til staðar. Fyrir liggur að ekki hafa enn verið
sett í reglugerð "...nánari ákvæði um framkvæmd laganna...", þ.e. laga
nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 19. grein nefndra laga
og ákvæði IV. til bráðabirgða, en samkvæmt því skal slík reglugerð hafa
öðlast gildi í síðasta lagi 1. október 2000. Ótækt sýnist að ætla að
hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum þessum áður en
umrædd reglugerð hefur öðlast gildi. Á það ekki síst við þegar jafn
stórfelld framkvæmdaáform eru annars vegar. Beinlínis er tekið fram
í 19. gr. b.-lið að nánari ákvæði í reglugerð varði m.a. "framsetningu
matsáætlunar, matsskýrslu og gögn," og samkvæmt c.-lið sömu greinar
"samráðsferlið,". Hlýtur það að leiða til óviðunandi réttaróvissu, jafnt
fyrir framkvæmdaraðila sem aðra, að hefja matsferli fyrir útgáfu lögboðinnar
reglugerðar.
- Fram fari mat á stofnun Snæfellsþjóðgarðs. Vegna fram kominna
tillagna Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) og fleiri um stofnun
Snæfellsþjóðgarðs, sem Náttúruverndarþing tók efnislega undir í janúar
2000, er eðlilegt að Landsvirkjun óski eftir því við þar til bær stjórnvöld
(umhverfisráðuneyti/Náttúruvernd ríkisins) að þau láti kanna með sjálfstæðum
og formlegum hætti slíkan kost sem felur í sér allt aðra landnýtingu
á því svæði sem hugmyndirnar um Kárahnjúkavirkjun taka til.
- Sjálfbær orkustefna. Könnun á núll-kosti af hálfu Landsvirkjunar
ætti meðal annars að taka til fram kominna tillagna um sjálfbæra orkustefnu
(13. mál á 125. löggjafarþingi), þar á meðal hversu mikla vatnsorku
er líklegt að heimilað verði að virkja til raforkuframleiðslu næstu
hálfa öldina eða svo, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Inn
í þær athuganir verði teknar hugmyndir um "vetnissamfélag" hérlendis,
þ.e. útrýmingu á innfluttu eldsneyti stig af stigi á næstu áratugum,
sbr. m.a. hugmyndir stjórnvalda þar að lútandi, sem og áætlaðan vöxt
almenns raforkumarkaðar.
- Áhættumat af frekari raforkusölu til stóriðju. Gerð verði úttekt
á þjóðhagslegri áhættu og áhættu fyrir Landsvirkjun sem því tengist
að ætla að binda meiri raforkusölu en orðið er við sveiflukenndan markað
eins og til þungaiðnaðar, í þessu tilviki álframleiðslu, og verði gerð
grein fyrir því í matsskýrslu.
- Fórnarkostnaður af umhverfisspjöllum verði metinn. Við mat
á Kárahnjúkavirkjun verði teknar upp og þróaðar aðferðir til að meta
tölulega fórnarkostnað vegna fyrirsjáanlega tapaðra náttúrugæða af völdum
umræddra virkjunarframkvæmda, sbr. meðal annars ábendingar innlendra
sérfræðinga eins og Ragnars Árnasonar, Geir Oddssonar, Magnúsar Harðarsonar
og Páls Harðarsonar sem allir hafa fjallað fræðilega um aðferðir og
leiðir í þessu skyni. Gerð verði viðhlítandi grein fyrir niðurstöðu
slíkra athugana í matsskýrslu. Áætlaður fórnarkostnaður verði reiknaður
inn í hugmyndir um raforkuverð frá Kárahnjúkavirkjun þannig að hann
endurspeglist í hugsanlegum samningum um raforkusölu.
- Losun gróðurhúsalofttegunda. Gerð verði ítarleg grein fyrir
losun gróðurhúsalofttegunda úr ráðgerðum miðlunarlónum og vegna annarra
breytinga á virkjunarsvæðum og hvernig slík losun og eftir atvikum aukin
binding kemur heim og saman við ráðgerða aðild Íslands að Kyótóbókunni.
Hliðstæða kröfu verður að gera til matsáætlunar á vegum Reyðaráls hf.
að því er hugsanlega álverksmiðju varðar.
- Raflínutenging við aðra landshluta. Gerð verði í matsskýrslu
ítarleg grein fyrir hvort fyrirhugað sé að tengja hugsanlega Kárahnjúkavirkjun
við raforkukerfi annarra landshluta og ef svo væri, hverjum er ætlað
að bera kostnað af stofnlínum, sem reistar yrðu í þessu skyni.
- Skipurit yfir vinnutilhögun. Farið verði yfir skipurit að vinnutilhögun
verkefnisins, sbr. bls. 3 í tillögu að matsáætlun og könnuð staða þeirra
opinberu aðila sem þar er ætluð þátttaka með tilliti til hlutverks þeirra,
lögbundins eða umsamins. Spurningar hljóta t.d. að vakna hver verði
staða Náttúrufræðistofnunar Íslands sem óháðs ráðgjafa stjórnvalda og
almennings eftir að stofnunin hefði bundið sig í skipurit eins og þarna
er gert ráð fyrir. Svipuðu máli gegnir um þátttöku manna í "ráðgjafarhópi"
þegar um er að ræða einstaklinga sem tekið hafa að sér opinbert eftirlitshlutverk
fyrir stofnanir á sviði náttúruverndar. Miklu skiptir fyrir verkaskiptingu
og trúverðugleika að ekki sé fyrirfram stofnað til hagsmunaárekstra
í ferli eins og því sem hér er í undirbúningi.
- Fjárhagsleg aðild Landsvirkjunar að óskyldum verkefnum á matstíma.
Á kynningarfundi Landsvirkjunar á Egilsstöðum 15. júní sl. greindi forstjóri
Landsvirkjunar frá því að fyrirtækið standi fjárhagslega undir Rammaáætlun
stjórnvalda vegna vatnsfalla og jarðvarma. Einnig hefur komið fram að
Landsvirkjun greiði laun vegna eftirlitsverkefna á vegum Náttúruverndar
ríkisins á ráðgerðu virkjunarsvæði og kaupi sér jafnframt aðstöðu til
upplýsingamiðlunar hjá Gunnarsstofnun á meðan á fyrirhuguðu matsferli
stendur. Við aðrar aðstæður þarf ef til vill ekkert að vera athugavert
við fégreiðslur af þessu tagi, en hætt er við að slíkt ýti undir tortryggni
þegar víðtæk og vandasöm áætlanagerð svo og afar umdeild framkvæmdaáform
eru annarsvegar. Þarf því sérstaka aðgát í þessum efnum þar sem leitast
sé við að tryggja að ekki sé farið á svig við góða viðskipta- og samskiptahætti.
Á það ekki síður við um hlutaðeigandi opinbera aðila en Landsvirkjun.
Í von um að ofangreinar ábendingar fái ítarlega athugun og geti orðið
til bóta við undirbúning matsáætlunar.
Virðingarfyllst Hjörleifur Guttormsson
Afrit sent Skipulagsstofnun
|