Hjörleifur Guttormsson
30. júní 2000
Mýrargötu 37  
740 Neskaupstaður  
   
Reyðarál hf  
c/o Geir A. Gunnlaugsson stjórnarformaður  
Síðumúla 28  
108 Reykjavík  

Efni: Athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna 420 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði

Undirritaður vísar til ábendinga sem hann bar fram á kynningarfundi Reyðaráls hf á Reyðarfirði 19. júní sl. um matsáætlun. Í svörum fundarboðenda kom m.a. fram að við frekari mótun matsáætlunar yrði farið yfir allar þær athugasemdir sem á sínum tíma voru sendar Skipulagsstofnun vegna frummats á vegum Hrauns ehf í fyrra matsferli vegna 480 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði (október-desember 1999). Til áréttingar læt ég hér fylgja með athugasemdir mínar frá þessum tíma dags. 18. nóvember 1999.

Þessu til viðbótar leyfi ég mér með bréfi þessu að koma á framfæri við Reyðarál hf athugasemdum vegna frekari vinnu fyrirtækisins að matsáætlun fyrir allt að 420 þúsund tonna álver í Reyðarfirði. Afrit sendi ég Skipulagsstofnun sem ætlað er að taka við tillögu að matsáætlun og fjalla um hana, sbr. 8. grein laga nr. 106/2000.

  1. Tímarammi væntanlegs mats.
    Ég tel að NORAL-verkefninu sé alltof þröngur stakkur skorinn hvað varðar tíma til mats, meðal annars á fyrirhugaðri álverksmiðju. Á hálfu ári, þ.e. frá því gert er ráð fyrir að matsáætlun sé samþykkt af Skipulagsstofnun og þar til fyrirhugað er að leggja fram matsskýrslu í janúar 2001 verða tæpast framkvæmdar svo vel sé þær yfirgripsmiklu rannsóknir og athuganir sem vinna þarf að vegna þessara risaframkvæmda, bæði á umhverfis- og samfélagsþáttum. Á litlu er að byggja úr matsskýrslu Hrauns ehf sem var mjög ábótavant, auk þess sem þar voru skildir eftir ókannaðir með öllu mikilvægir þættir. Nægir þar að minna á allt það sem lýtur að straumakerfi og lífríki sjávar í Reyðarfirði. Svipuðu máli gegnir um veðurfarsrannsóknir þar eð ráðgerðar viðbótarathuganir í skamman tíma gefa mjög takmarkaða mynd af aðstæðum til viðbótar þeim takmörkuðu gögnum sem fyrir liggja.

  2. Reglugerð ekki til staðar.
    Fyrir liggur að ekki hafa enn verið sett í reglugerð "...nánari ákvæði um framkvæmd laganna...", þ.e. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 19. grein nefndra laga og ákvæði IV. til bráðabirgða, en samkvæmt því ákvæði skal slík reglugerð hafa öðlast gildi í síðasta lagi 1. október 2000. Ég tel ótækt að ætla að hefja mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum þessum áður en umrædd reglugerð hefur öðlast gildi og fengið kynningu. Á það ekki síst við þegar jafn stórfelld framkvæmdaáform eru annars vegar. Beinlínis er tekið fram í 19. gr. b.-lið að nánari ákvæði í reglugerð varði m.a. "framsetningu matsáætlunar, matsskýrslu og gögn," svo og "samráðsferlið," samkvæmt c.-lið sömu greinar. Hlýtur það að leiða til óviðunandi réttaróvissu, jafnt fyrir framkvæmdaraðila sem aðra, að hefja matsferli fyrir útgáfu lögboðinnar reglugerðar. Um er að ræða mörg atriði sem varða m.a. réttarstöðu almennings og samskipti Skipulagsstofnunar og framkvæmdaraðila á hinum ýmsu stigum. Því er hér eindregið lagt til að framkvæmdaraðili leggi ekki fram tillögu sína til Skipulagsstofnunar fyrr en nefnd reglugerð hefur verið gefin út. Að öðrum kosti afgreiði Skipulagsstofnun ekki tillögu að matsáætlun, sbr. 8. gr. 2. mgr., fyrr en eftir að heildstæð reglugerð hefur verið út gefin á grundvelli laganna og hlotið kynningu. Sú málsmeðferð sem nú stefnir í að óbreyttu hlýtur að leiða í ófæru jafnt fyrir stjórnvöld sem framkvæmdaraðila.

  3. Stærð verksmiðjunnar
    Verksmiðjan sem Reyðarál hf ráðgerir að reisa og starfrækja á Reyðarfirði, er ekki aðeins risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða heldur á heimsmælikvarða. Verksmiðjan þyrfti drjúgan skerf af þeirri raforku sem líklegt er að virkjuð verði hérlendis næstu áratugi. Slíkt fyrirtæki fellur illa að íslenskum aðstæðum, umhverfislega, félagslega og efnahagslega og er því brýn þörf á að kanna rækilega alla þætti málsins. Alveg sérstaklega á það við um erfiðar umhverfisaðstæður eins og fyrir liggja í Reyðarfirði og samfélagsaðstæður á Mið-Austurlandi. Fyrirtæki sem hefði í þjónustu sinni um 600 starfsmenn, auk starfsmanna við þjónustu, skapar mikið álag á fámennar byggðir þessa svæðis og yrði óhjákvæmilega ríkjandi á svæðinu. Því verður að krefjast ítarlegra samfélagslegra rannsókna á áhrifum slíkrar verksmiðju til lengri tíma litið en varast að byggja á meira og minna órökstuddum getsökum eins og skýrsla Nýsis hf. frá árinu 1999 því miður gerði. Skiptir þá einnig miklu máli að metin séu áhrif á annað atvinnulíf á svæðinu sem líklegt er að lendi í erfiðri samkeppni um vinnuafl, fyrst af öllu á byggingartíma verksmiðju og virkjana.

  4. Losun gróðurhúsalofttegunda
    Ekkert er að finna um þennan stærsta einstaka mengunarþátt ráðgerðrar verksmiðju í tillögu að matsáætlun. Starfræksla 420 þúsund tonna álverksmiðju yki losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis um þriðjung miðað við árið 1990 og rúmast slík losun hvorki innan þeirra skuldbindinga sem Íslendingar tóku á sig með aðild að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna né fellur að því svigrúmi sem Íslandi er ætlað samkvæmt Kyótóbókuninni. Engin grein er fyrir því gerð í drögum Reyðaráls hf að matsáætlun hvernig fyrirtækið hyggst taka á þessu vandamáli sem þó er augljós hindrun fyrir starfrækslu slíkrar verksmiðju hérlendis. Óskhyggja íslenskra stjórnvalda, eins og hún hefur birst í yfirlýsingum, breytir ekki staðreyndum um alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Ekkert liggur heldur fyrir um hver verða afdrif undanþágubeiðni Íslands í COP-ferlinu að því er stóriðju varðar og óráð að treysta því að á hana verði fallist á meðan niðurstaða er ekki fengin á réttum vettvangi. Í þessu sambandi er rétt að benda á umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 30. ágúst 1999 vegna undirbúnings frummatsskýrslu Hrauns ehf um álver í Reyðarfirði. Þar segir m.a.:
    "Fyrir liggur tillaga um að Ísland fái að halda losun vegna nýrrar stóriðju utan við losunarbókhald, en ekki er ljóst hvort sú tillaga verður samþykkt. Til að uppfylla ákvæði Kýótóbókunarinnar yrði að öðrum kosti væntanlega að kaupa losunarkvóta á alþjóðamarkaði, en kostnaður vegna þess er ekki tekinn með í útreikningana."
    Gera verður þá kröfu til matsáætlunar Reyðaráls hf að með henni séu lagðar skýrar línur um hvernig fyrirtækið hyggist taka á losun gróðurhúsalofttegunda hugsanlegrar verksmiðju í matsskýrslu sinni og rektraráætlunum um verksmiðjuna. Ótækt verður að að telja ef vinna á að undirbúningi málsins á grundvelli óljósra og þokukenndra yfirlýsinga íslenskra stjórnvalda um losun gróðurhúsalofttegunda, hvað þá tillagna sem ekki hafa fengið afgreiðslu innan Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

  5. Hreinsun útblásturs
    Ekki er viðunandi að miða kröfur um hreinsun útblásturs flúoríðs og ryks frá umræddri verksmiðju við PARCOM viðmiðunarmörk sem að stofni til eru frá árinu 1994 og í raun löngu úrelt. Minna má á að norsk stjórnvöld gerðu í aðdraganda umræddra samþykkta, sem ekki eru skuldbindandi, kröfur um mun þrengri mörk fyrir losun. Auðvelt á að vera með fyrirliggjandi tækni að fallast á og tryggja a.m.k. helmingi þrengri mörk en gengið er út frá í PARCOM-viðmiðunum. Ætti að gera ráð fyrir slíku í matsáætlun og fylgja því eftir við undirbúning að starfsleyfi. Fráleitt væri að ætla nýrri verksmiðju að starfa eftir úreltum viðmiðunum PARCOM. Þá er rétt að benda á að með orðalagi í tillögu Reyðaráls hf að matsáætlun þar sem segir: "...en með vothreinsun er a.m.k. 70% af brennisteinstvíoxíði fjarlægt úr kerreyknum" (bls.12) sýnist fyrirtækið ætla sér óeðlilega stórt borð fyrir báru, þar eð nær lagi væri að gera ráð fyrir 90-95% hreinsun í þessu samhengi.

  6. Veðurfarsrannsóknir
    Í áformuðum viðbótarrannsóknum á veðurfari kemur fram að sjálfvirkar veðurstöðvar verði settar upp á Vattarnesi yst við Reyðarfjörð og í fjallinu upp af Teigum í 220 metra hæð. Þetta sýnist vera allsendis ófullnægjandi og setja ætti upp tvær hliðstæðar veðurstöðvar utar með firðinum, til dæmis nálægt Berunesi og við Stóru-Breiðuvík. Athuganir á Vattarnesi "yst við Reyðarfjörð" endurspegla ekki innfjarðaraðstæður og lýsa því ekki nema að litlu leyti inn í það vandamál sem við er að fást, þ.e. takmörkuð loftskipti í firðinum um lengri eða skemmri tíma. Er því eindregið ráðlagt að bætt verði við nefndum athugunarstöðvum milli Teiga og Vattarness.

  7. Hafís í Reyðarfirði
    Ekki er að finna í tillögu að matsáætlun að gert sé ráð fyrir söfnun sögulegra upplýsinga um hafís fyrir Austfjörðum og í Reyðarfirði sem hugsanlega þyrfti að taka tillit til í áætlunum um verksmiðjuna.

  8. Félagslegar rannsóknir
    Undir lið 5.2.8 segir:
    "Líkur eru á að samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif álvers og Kárahnjúkavirkjunar verði metin sameiginlega og verði þá sem sjálfstæð skýrsla eða sem kafli í annarri hvorri eða báðum matsskýrslunum...".
    Þessi framsetning vekur upp margar spurningar, meðal annars í ljósi þess að um tvo framkvæmdaraðila er að ræða. Í 5. grein 2. mgr. laga nr. 106/2000 er svohljóðandi ákvæði:
    "Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd er fyrirhuguð á sama svæði, getur ráðherra, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega."
    - Þannig hefur málið ekki verið kynnt eða lagt fyrir af framkvæmdaraðilum, Reyðaráli hf og Landsvirkjun. Ekki verður heldur séð að 4. mgr. 5. greinar sömu laga þar sem segir
    "...að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, eða hluta hennar, samkvæmt þessari grein og 6. gr. fari fram með öðrum hætti en kveðið er á um í lögum þessum."
    geti hér átt við, þar eð umræddar matsáætlanir Reyðaráls hf og Landsvirkjunar eru lagðar fyrir með vísan í venjulega málsmeðferð samkvæmt lögunum. Ekki verður heldur séð að opinberir aðilar, ráðuneyti eða stofnanir á þeirra vegum geti gengið í hlutverk "framkvæmdaraðila" að því er varðar samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif álvers. - Það gerir málið jafnframt allt erfiðara úrlausnar, að ekki hefur verið sett reglugerð á grundvelli laganna, sbr. 19. grein og ákvæði IV. til bráðabirgða, en í reglugerð verður væntanlega skorið úr um ýmis álitaefni. Svo nauðsynlegt sem það er að heildarsýn fáist um samfélagsleg og þjóðhagsleg áhrif umræddra stóriðjuframkvæmda áður en pólitískar ákvarðanir yrðu teknar um framkvæmdirnar, leysir það vart framkvæmdaraðilana sjálfa undan þeirri lögboðnu skyldu að gera hvor um sig grein fyrir sínu eigin mati á samfélagslegum áhrifum framkvæmdanna eins og lög og reglur um mat á umhverfisáhrifum kveða á um. Eðlilegt sýnist að mat framkvæmdaraðilanna á samfélagslegum áhrifum fái hliðstæða meðferð að lögum og aðrir þættir. Á síðari stigum yrðu samfélagsleg áhrif væntanlega til sérstakrar athugunar hjá stjórnvöldum og stofnunum sem hlut eiga að máli.

  9. Rafskautasmiðja
    Bygging rafskautaverksmiðju við Reyðarfjörð er stórmál út af fyrir sig og nýtt í þessu samhengi. Tillaga Reyðaráls hf. að matsáætlun er fáorð um þessa framkvæmd, sem bætir við mörgum álitaefnum. Engin lýsing liggur fyrir á framleiðsluferli, losun mengandi efna, starfsmannafjölda o.fl. í rafskautaverksmiðju. Verður væntanlega að taka alla slíka þætti til sértækrar athugunar og sem hluta af heild eftir því sem við á. Hlýtur að þurfa að móta ítarlega matsáætlun þeirra vegna þar sem lagðar verði línur um hvernig fyrirhugað sé að vinna að matsskýrslu um rafskautasmiðjuna, hvaða rannsóknir þurfi að ráðast í hennar vegna svo og um mengunarhættu og varnir gegn henni.

  10. Málsmeðferð og hagsmunatengsl
    Brýnt er að málsmeðferð við mat á umhverfisáhrifum standist kröfur um hlutlægni og komist verði hjá árekstrum vegna hagsmunatengsla. Í fyrra matsferli þar sem Hraun ehf. var í hlutverki "framkvæmdaraðila" komu fram ábendingar um óeðlileg tengsl einstakra aðila er að málinu komu á fyrri stigum, m.a. að aðalhöfundur að skýrslu Nýsis hf. átti sæti í stjórn Landsvirkjunar. Einnig var aðkoma Þjóðhagsstofnunar sem umsagnaraðila gagnrýnd vegna aðildar forstöðumanns hennar að NORAL-verkefninu. Brýnt er að mat á þessum ráðgerðu stórframkvæmdum verði framvegis yfir gagnrýni hafið að þessu leyti og verði ekki umdeilt að því er form varðar vegna hagsmunatengsla.

Virðingarfyllst

Hjörleifur Guttormsson