Hjörleifur Guttormsson
7. júní 2000
Mýrargötu 37  
740 Neskaupstaður  
kt. 311035-6659  
   
Skipulagsstofnun  
Laugavegi 166  
105 Reykjavík  

 

Efni: Athugasemdir vegna frummatsskýrslu um mat á framkvæmdinni Upphéraðs- og Norðurdalsvegur Atlavík-Teigsbjarg í Fljótsdal.

Undirritaður hefur kynnt sér framlagða frummatsskýrslu og hefur ástæðu til að gera við hana alvarlegar athugasemdir. Yfirlýstur höfuðtilgangur framkvæmdarinnar er skv. skýrslunni: "...að hægt sé að mæta þeim þungaflutningum og umferð sem fylgir fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum." (bls. 5) og "...að bæta burðarþol og vegferil vega að hinu fyrirhugaða virkjanasvæði í Fljótsdal." (bls. 24).

  1. Furðu sætir að í skýrslu framkvæmdaraðila skuli ekki tekinn til umfjöllunar sá kostur að endurnýja brú á Lagarfljót við Egilsstaði og beina flutningum vegna hugsanlegra virkjunarframkvæmda norðan Vatnajökuls um Fell og Fljótsdal norðan Fljóts. Á þetta er ekki einu sinni minnst í umfjöllun um "aðra valkosti" rétt eins og þessi möguleiki væri ekki til staðar. Þegar af þessum ástæðum er framlögð skýrsla ótæk til mats, svo augljósan kost sem hér er um að ræða og eðlilegan að dómi undirritaðs. Helstu rök fyrir því að þessa leið beri að velja eru eftirtalin:
    1. Brýna nauðsyn ber til að endurnýja Lagarfljótsbrú hið fyrsta, þar eð núverandi brú stenst engan veginn almennar burðarþolskröfur. Vaxandi þungaflutningar verða um Lagarfljótsbrú á næstu árum, og aukast enn ef ráðist yrði í byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði.
    2. Það er röng nýting fjármagns og sóun á almannafé, ef fyrst ætti að byggja brú yfir Jökulsá í Fljótsdal sem stæðist kröfur um þungaflutninga í þágu virkjunarframkvæmda og síðan að endurbyggja Lagarfljótsbrú í almannaþágu, m.a. vegna þungaflutninga.
    3. Algjör óvissa ríkir um hvort eða hvenær til virkjunarframkvæmda kemur í Fljótsdal og annars staðar norðan Vatnajökuls. Með það í huga er fásinna að ætla nú að ráðast í umrædda vega- og brúagerð á þeim forsendum sem skýrslan gerir ráð fyrir.
    4. Afar óæskilegt væri að beina umferð vegna virkjunarframkvæmda ef til kæmu, þar á meðal vegna þungaflutninga, um Hallormsstað sem einn helsta ferðamannastað á Austurlandi. Hallormsstaður hefur stöðu friðlands, ef leitað er samanburðar við friðlýst svæði að náttúruverndarlögum. Verður að telja það sjálfstætt og eðlilegt markmið að létta svo sem kostur er á vélknúinni umferð um Skóga, þ.e. svæðið frá Vallaneshálsi inn að Gilsá. Þetta á einnig við um almenna umferð nú og í framtíðinni inn á Fljótsdalsheiði og að Snæfelli, sem mun öðru fremur leggjast austan Fljóts, ef vegur norðanmegin verður lakari.
    5. Með því að beina umferð vegna virkjunarframkvæmda um Lagarfljótsbrú og inn í Fljótsdal norðan Fljóts verður komist hjá fjölmörgum ókostum og áhættum sem fylgja myndu ef fallist væri á tillögu framkvæmdaraðila. Engir hliðstæðir annmarkar eru á vegagerð norðan Fljóts, þótt auðvitað verði að vanda til hennar.
    6. Engar tafir sem máli skipta yrðu á vegabótum í þágu umræddra hugsanlegra virkjunarframkvæmda með því að velja þann kost sem undirritaður reifar hér. Undirbúningur að skipulagi vegna nýrrar brúar á Lagarfljót við Egilsstaði, svæðisskipulagi Héraðs og aðalskipulagi Fellahrepps, er á lokastigi og stefnt að afgreiðslu innan árs.
    7. Vegabætur í Fljótsdal austan Jökulsár verða auðvitað á dagskrá eftir sem áður og unnt yrði að gaumgæfa betur en ella nauðsynlegar samgöngubætur á þeirri leið.

Sem sjá má af ofangreindu eru augljós og þung rök fyrir því að beina vegabótum í þágu hugsanlegra og allsendis óvissra virkjunarframkvæmda í Fljótsdal að Lagarfljótsbrú og veginum inn Fell og Fljótsdal norðan Lagarfljóts. Í öllu falli verður að gera kröfu til þess að sá kostur fái umfjöllun með hliðstæðum hætti og sú hugmynd sem framkvæmdaraðili hefur nú lagt fram til mats áður en úrskurðað er endanlega um mat á umhverfisáhrifum.
  1. Megin ókostir auglýstra vegaframkvæmda á leiðinni Atlavík-Teigsbjarg eru:
    1. Aukin umferð um Hallormsstaðaskóg.
    2. Brúargerð á Jökulsá sem rýfur landslag horft til Fljótsdals að utan.
    3. Veruleg hætta á flóðum og landspjöllum ofan ráðgerðrar brúar á Jökulsá frá Gilsáreyri yfir á móts við Hjarðarból.
    4. Ferðamannastaðir í Fljótsdal, Skriðuklaustur og Valþjófsstaður, verða úrleiðis miðað við hringferð um Löginn.
    5. Byggðin í Fljótsdal/Suðurdal verður afskekkt miðað við núverandi tilhögun samgangna og þann kost að reisa nýjar brýr fyrr eða síðar innar í dalnum.

Framhjá flestum ef ekki öllum þessum annmörkum verður komist með því að beina fjármagni til vegabóta að Lagarfljótsbrú og uppbyggingu vegarins um Fell og Fljótsdal norðan Lagarfljóts.

Virðingarfyllst

Hjörleifur Guttormsson