Hjörleifur Guttormsson                                               Neskaupstað, 22. september 2005

Mýrargötu 37

740 Neskaupstaður

 

 

 

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra

Umhverfisráðuneytinu

Vonarstræti 4

150 Reykjavík

 

Efni: Kæra vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar 18. ágúst 2005 um að virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 

Undirritaður kærir hér með til umhverfisráðherra ofangreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar, gerir kröfu um að hún verði ómerkt og að virkjun Fjarðarár lúti mati á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000.

 

Rökstuðningur fyrir kærunni:

Hér á eftir eru rakin helstu atriði til stuðnings kærunni og skýringar á ofangreindri kröfu.

 

Nýjar virkjanir en ekki “endurbætt virkjun”.

Um er að ræða hugmyndir um tvær nýjar og sjálfstæðar virkjanir í Fjarðará og stórfellda aukningu miðlunar í Heiðarvatni sem m.a. myndi kalla á tilfærslu núverandi þjóðvegar. Um er að ræða Gúlsvirkjun (2,5 MW) á svæðinu milli Stafa sem nýta myndi fallið (194 m) frá Heiðarvatni og svonefnda Bjólfsvirkjun (4,9 MW) sem nýta myndi áfram fallið (344 m) frá inntaki við Gúl niður á láglendi með stöðvarhús um 200 m neðan við stöðvarhús Fjarðarselsvirkjunar, sem byggð var á árinu 1913. Aðrennslispípur að viðkomandi stöðvarhúsum yrðu samtals 6,4 km á lengd, niðurgrafnar ásamt viðkomandi rafstrengjum. Vatnsborðssveifla í Heiðarvatni myndi við aukna miðlun vaxa um 9 m frá núverandi 3 m og samtals nema 12 m frá efsta að neðsta vatnsborði[1]. Flatarmál vatnsins myndi jafnframt nær þrefaldast, úr 0,66 km2 í 1,77 km2.

            Villandi er að setja þessar nýju fyrirhuguðu virkjanir í Fjarðará fram sem “Endurbætta virkjun í Fjarðará” og fella þær undir viðauka 13.a við lög nr. 106/2000. Gamla Fjarðaselsvirkjunin, 0,16 MW að afli og sem nýtir um 50 m fallhæð og lítilsháttar miðlun í Heiðarvatni, varðar í raun ekki þessar nýju virkjunarhugmyndir. Hún er sögulegt minnismerki og safngripur sem enn nýtist til rafmagnsframleiðslu.

 

Matsskyld virkjun vegna stærðar vatnsmiðlunar

Skipulagsstofnun virðist hafa horft fram hjá ákvæðum 1. viðauka, tölulið 17, við lög nr. 106/2000, þar sem til matsskyldra framkvæmda teljast “Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m3.” Viðbótarmiðlun nefndra virkjana nemur samkvæmt skýrslu framkvæmdaraðila meira en 10 milljónum rúmmetra og er framkvæmdin því ótvírætt matsskyld. Á þetta benti iðnaðarráðuneytið réttilega í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar vegna framkomins erindis Íslenskrar orkuvirkjunar ehf.

 

Þjóðleiðin yrði vörðuð mannvirkjum.

Bygging nefndra virkjana hefði mikil og umtalsverð áhrif á svipmót þjóðleiðarinnar um Fjarðarheiði og niður í Seyðisfjörð. Virkjunarmannvirkin allt frá vatnsmiðluninni í Heiðarvatni  í um 600 m hæð niður að stöðvarhúsi Bjólfsvirkjunar í 24 m hæð y.s. fylgja að meginhluta núverandi þjóðvegi og næsta nágrenni hans og blasa þannig við vegfarendum. Þótt aðrennslispípur yrðu grafnar í jörð munu ummerki þeirra á 6,4 km vegalengd skera sig frá óröskuðu landi og blasa við vegfarendum. Hér er um að ræða eina fjölförnustu ferðamannaleið á Íslandi til og frá ferjuhöfninni Seyðisfirði sem gefur vegfarendum þversnið af landi og lífríki frá sjó upp í 600 m hæð. Breytingin á náttúrulegum gróðri á þessari leið er mikil og áhugaverð. Skortir á að Náttúrustofa Austurlands hafi vakið athygli á þeim þætti í umsögn sinni. Fyrir margan manninn gleðja fjallaplöntur og mosi á háheiðinni ekki síður auga en gróskumiklar brekkurnar í Fjarðardal. Óhjákvæmilega yrði umtalsverð röskun á svipmóti landsins við umræddar framkvæmdir, þótt svo reynt yrði að græða jarðvegssár eftir föngum. Umrætt svæði ber vissulega á köflum merki vegagerðar frá liðnum áratugum en það er ekki sambærilegt við samfellda rás sem myndast við lagningu á 6,4 km löngum aðrennslispípum. Nýting gamalla slóða við mannvirkjagerð mun auk þess ýfa upp vegslóðir sem orðnar eru lítt áberandi.

 

Fossaskrúð sem vernda ætti ósnortið.

Fossaskrúð Fjarðarár er næsta einstakt og blasir slík dýrð óvíða ef nokkurs staðar við augum frá alfaraleið hérlendis. Þetta er sá umhverfisþáttur sem mest er um vert að vernda ósnortinn. Samkvæmt skýrslu framkvæmdaraðila hyggjast menn ganga til verka af varfærni gagnvart rennsli Fjarðarár og er það stutt nokkrum myndum af völdum fossum. Þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni eru hins vegar allssendis ófullnægjandi hvað þennan þátt varðar. Meta þarf áhrif á alla helstu fossa í Fjarðará og Þverá og bera saman ólíkt rennsli á mismunandi árstímum. Má í því sambandi benda á athuganir árum saman sem á sínum tíma voru gerðar á Fjallfossi í Dynjandi vestra vegna virkjunarhugmynda. Alls munu vera ekki færri en 25 umtalsverðir fossar í Fjarðará, hver með sinni ásýnd, þar af um 20 nafngreindir. Flestir eru þeir í örskotsfjarlægð frá þjóðvegi, þótt ekki blasi þeir allir við úr bifreið. Þetta mikla fossasafn verður að teljast ein helsta náttúruauðlind Seyðisfjarðar. Unnt væri að vekja athygli gesta og gangandi á þessu fossasafni með allt öðrum og áhrifameiri hætti en gert hefur verið hingað til. Fyrir ferðaþjónustu á Seyðisfirði er hér um mikið vannýtt tækifæri að ræða. Stýring á rennsli fossanna rýrir óhjákvæmilega gildi þeirra til náttúruupplifunar. Má í því sambandi benda á umræðu sem fram hefur farið hérlendis af svipuðu tilefni, allt frá Gullfossi til fossa í Efri-Þjórsá og Jökulsá í Fljótsdal og minni fossa víða um land.. Verndun fossanna í Fjarðará er mál sem varðar alla Íslendinga, þótt hagsmunir heimabyggðar ættu að vera mestir að tryggja vernd þeirra. Með mati á umhverfisáhrifum þessara virkjunarhugmynda yrði varpað ljósi á þá hagsmuni sem hér eru í húfi.

 

Frekari röskun á umhverfi Fjarðardals ekki réttlætanleg.

Að mati undirritaðs hafa engin sannfærandi rök komið fram því stuðnings að raska þurfi umhverfi Fjarðardals og Fjarðarár í Seyðisfirði umfram það sem orðið er. Engin aðkallandi þörf er fyrir raforku inn á landskerfið frá nefndum virkjunum og Seyðisfjörður er þokkalega settur hvað varaafl snertir til heimanota. Félagsleg rök vegna atvinnu við nefndar framkvæmdir og rekstur umræddra virkjana geta ekki vegið þungt, enda með öllu óvíst um aðild heimamanna að framkvæmdum ef til kæmu. Rekstur vatnsaflsvirkjana kallar sem kunngt er á sárafá störf, enda að mestu sjálfvirkur. Á móti vega síðan þeir möguleikar og kostir sem felast í lítt snortnu umhverfi á einni helstu ferðamannaslóð austanlands.

 

Ónógar rannsóknir og takmörkuð kynning.

Ýmislegt jákvætt má segja um skýrslu Íslenskrar orkuvirkjunar ehf (júní 2005) miðað við hliðstæð gögn frá framkvæmdaraðilum.Yfirlýst markmið fyrirtækisins er að reyna að samþætta orkuvinnslu og umhverfisvernd og vissulega hafa sést stórtækari hugmyndir um virkjun Fjarðarár síðasta aldarþriðjung. Skýrslunni fylgja viðaukar og greinargerðir sem varpa ljósi á ýmis áhrif sem vænta má af framkvæmdinni. Vantar þó mikið á að þar sé öllu til skila haldið, bæði varðandi lífríki og áhrif á rennsli viðkomandi vatnsfalla.

 Athygli vekur að Umhverfisstofnun, sem leggja á heildstætt mat á virkjunarhugmyndirnar, horfir fram hjá eða gerir lítið úr ýmsum augljósum, neikvæðum þáttum framkvæmdarinnar. Kann það að stafa af ókunnugleika, en undirrituðum er kunnugt um að stofnunin stóð ekki að neinni vettvangsathugun vegna þessa máls. - Úr ofangreindum annmörkum yrði bætt með því að framkvæmdin verði látin lúta ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum eins og skylt er að lögum. Þar kæmi fyrst til ítarleg matsáætlun og síðan matsskýrsla á grundvelli hennar. Almenningi er síðan lögum samkvæmt tryggð aðkoma að málinu í tengslum við hvorutveggja. Með því að ætla að sleppa umræddum virkjunum við lögformlegt mat væri skapað hættulegt fordæmi sem haft gæti keðjuverkandi áhrif þegar aðrar bergvatnsár eiga í hlut. Hafa ber í huga að umhverfisáhrif eru ekki endilega í hlutfalli við stærð virkjunar.

 

Ákvörðun Skipulagsstofnunar mörgum annmörkum háð

Sú ákvörðun Skipulagsstofnunar sem hér er gerð krafa um að verði ómerkt er röng og mörgum annmörkum háð á heildina litið. Virkjanahugmyndirnar eru settar fram sem “endurbætt virkjun í Fjarðará” og þannig felldar undir 2. viðauka, lið 13.a, við lög nr.106/2000. Eins og áður greinir er það villandi og óréttmæt nálgun.

Í umsögn iðnaðarrráðuneytisins til Skipulagsstofnunar kemur fram að ráðuneytið “... telur eðlilegt í ljósi þess hve framkvæmdin nái yfir stórt svæði við alfararleið og í samræmi við 17. lið í 1. viðauka í lögum um mat á umhverfisáhrifum, að mat fari fram á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.” (Skipulagsstofnun, 18. ágúst 2005, s. 8) Umræddur fyrsti viðauki varðar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum, og segir þar undir tölulið 17: “Stíflur og önnur mannvirki eða breytingar á árfarvegi til að hemja og/eða miðla vatni þar sem 3 km2 lands eða meira fara undir vatn eða rúmtak vatns er meira en 10 milljónir m3.” Í skýrslu framkvæmdaraðila (s. 9) kemur m.a. fram að viðbótarmiðlun í Þverárlóni og Heiðarvatni nemi 1,5 + 9 = 10,5 gígalítum eða 10,5 milljónum rúmmetra. Samkvæmt því er framkvæmdin ótvírætt matsskyld.

Fram kemur í gögnum málsins að áður en framkvæmdaleyfi yrði veitt þurfi að tryggja öflun neysluvatns til Seyðisfjarðarkaupstaðar. Ætti lausn á slíkum grundvallarþætti að liggja fyrir áður en virkjunarhugmyndir eru formlega settar fram til mats.

            Framkvæmdaraðili kynnir áform sín með jákvæðum orðum og telur sig taka ríkulegt tillit til umhverfisþátta. Skal ekki gert lítið úr þeirri viðleitni á þessu stigi máls. Hafa þarf jafnframt í huga að frómar óskir duga oft skammt þegar til kastanna kemur. Nýjasta dæmi um það er svonefnd Múlavirkjun í Eyja- og Miklaholtshreppi. Engin skilyrði fyrir framkvæmdunum er að finna í niðurstöðu Skipulagsstofnunar utan almenna tilvísun í framlögð gögn.

 

Undirritaður áskilur sér allan rétt til frekari rökstuðnings við meðferð málsins á kærustigi

 

 

Virðingarfyllst

 

 

Hjörleifur Guttormsson

kt. 311035-6659

 



[1] Í skýrslu Íslenskrar orkuvirkjunar er talað um 5 m núverandi miðlunarhæð en skv. kynningarbæklingi RARIK frá í maí 1995 er hækkun vatnsborðs aðeins 3 m.