-----
Forwarded by Hafdís Hafliðadóttir/skipulag on 03.08.2007 11:35 -----
Skipulagsstofnun |
Minnisblað |
Viðtakandi: Stefán Thors, Ólafur Hr. Sigurðsson
bæjarstjóri. Sigurður Jónsson byggingarfulltrúi. Umhverfissvið Skst.
Sendandi: Þóroddur F Þóroddsson
Dagsetning: 9. júlí 2007
Málsnúmer: 2007010012
Bréfalykill: 9310
Efni: Vettvangsferð vegna byggingar
Fjarðarárvirkjunar, Seyðisfirði
Undirritaður fór til Seyðisfjarðar laugardaginn 7.7.2007 að ósk bæjarstjóra og
skoðaði framkvæmdasvæði Fjarðarárvirkjunar með honum og byggingarfulltrúa.
Þoka hamlaði skoðun á stíflustæðum.
Samkvæmt framlögðum gögnum vegna tilkynningar um matsskyldu var gert ráð fyrir
því að athafnasvæði við lagningu þrýstipípu yrði að jafnaði 9-11 metrar og mest
10-15 m. Ljóst er hins vegar að athafnasvæðið er mun breiðara og allt að
40-50m.
Samferðarmenn greindu frá því að í gögnum er þeir hefðu undir höndum væru
upplýsingar um hvernig ganga þyrfti frá þrýstipípu í skurði, svo sem um þykkt
jarðvegs ofan á pípunni, gerð efnis næst henni og áætlað svigrúm til
vinnu við lögnina í skurði.
Í tilkynningu vegna matsskyldu var ekki fjallað sérstaklega um dýpt skurðarins
eða þykkt jarðvegslags sem koma þarf ofan á pípuna með tillit til þrýstings.
Ekki var heldur fjallað sérstaklega um breidd skurðarins m.t.t. athafnasvæðis
við lagningu pípunnar eða breidd m.t.t. þess að vinnuvélar þyrftu að geta farið
eftir skurðinum. Þá var ekki fjallað um það að tæki við jarðefnaflutninga
þyrftu hugsanlega sérstaklega burðarmikinn veg eða mættu ekki aka eftir
þjóðveginum.
Á vettvangi sást að skurðurinn er mun umfangsmeiri, bæði dýpri og breiðari, en
ætla mátti af gögnum tilkynningar og úr honum kemur því mun meira efni en séð
var fyrir. Ekki er ljóst hvernig frá umframefni verður gengið svo sem best fari
í landslagi og m.t.t. þess að ekki valdi snjósöfnun á þjóveginn.
Vinna er að hefjast á brattasta kaflanum sem þrýstipípan fer um og er ekki
ljóst, m.t.t. þess sem komið er, hvernig gengur að hemja þar efnið sem úr
skurðinum kemur og halda innan takmarka framkvæmdasvæðisins en sjálfsagt er að
veitandi framkvæmdaleyfis kalli eftir upplýsingum um hvernig fyrirhugað er að
standa að verki.
Frágangur pípunnar þar sem hún er komin á efri hluta svæðisins virðist ekki
vera samkvæmt leiðbeiningum sem heimamenn vísuðu til, eða sambærilegur við það
sem skoðað var þar sem lagning pípunnar stóð yfir á neðri hluta svæðisins. Á
efri hluta svæðisins virtist efni úr skurðinum hafa verið mokað beint yfir
lögnina og að þar liggi að henni stórgrýti sem að sögn heimamenn hefur þegar
valdið skemmdum á pípunni. Eftirlit með þessum hluta framkvæmdarinnar hlýtur að
hafa verið mjög ábótavant og sýnist mér sem að endurvinna þurfi allt það verk,
það er grafa upp pípuna og setja niður nýja.
Með tilliti til áhrifa framkvæmdarinnar á umhverfið tel ég að bæjarstjórn, sem
veitandi framkvæmdaleyfis, eigi að geta krafist skýringa á ósamræmi
framkvæmdarinnar við þau gögn sem lögð voru til grundvallar leyfinu og krafist
þess að betur verði staðið að þeim hluta sem ólokið er.
Mikilvægt atriði við framkvæmdina er að öll skilyrði er varða öryggi þegar
kemur að rekstri séu uppfyllt. Ég tel að bæjarstjórn hljóti að geta krafist
þess að eftirlit með þeim þætti sé á hendi óháðs fagaðila og á kostnað
framkvæmdaraðila og tel rétt að iðnaðarráðuneytinu, sem veitanda
virkjunarleyfis, verði gerð grein fyrir stöðu málsins og í framhaldinu tryggt
að framkvæmd verksins uppfylli alla hönnunar og öryggisstaðla. Á þetta jafnt
við um lagningu þrýstipípunnar og byggingu stíflugarða.
Skoðun framkvæmdarinnar á þessu stigi var mjög lærdómsrík og styður þær körfur
sem Skipulagsstofnun hefur verið að gera um upplýsingar um hliðstæðar
framkvæmdir. Ljóst er að krefjast þarf enn frekari upplýsinga um hönnun mannvirkja
en gert hefur verið svo umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verði augljósari.
Framkvæmd þessa verks styður einnig mikilvægi þess að leyfisveitendur, ásamt
þeim sem þeir kalla til, skoði með framkvæmdaraðila á vettvangi hvernig hann
hyggst standa að verki m.t.t. framlagðra gagna og þannig sé metið hve raunhæf
fyrirhuguð tilhögun verksins er. Í ljósi slíkrar skoðunar, sem fyrst á
hugmyndastigi/skipulagsstigi, eru mestar líkur á að leyfisveitendur fái raunsæja
mynd af framkvæmdinni og geti tekið afstöðu til þess hvaða kröfur þurfi að gera
varðandi framkvæmdina og hvort setja þurfi skilyrði fyrir framkvæmdinni.
Niðurstaða slíkrar skoðunarferðar væri skjalfest og hluti gagna við
umfjöllun um framkvæm á síðari stigum.
Fulltrúi Skipulagsstofnunar þarf að fara á vettvang þegar tilkynning hefur
borist til að kanna aðstæður á vettvangi og bera saman við innsend gögn.
Framkvæmdaleyfi þarf að vera ítarlegt og framkvæmdaraðila ljóst að eftir því
ber að fara.
ÞFÞ