Hjörleifur Guttormsson Apríl 2000

Fljótsdalslínur 3 og 4
Athugasemdir við frummatsskýrslu Landsvirkjunar vegna mats á umhverfisáhrifum tveggja 400 kV háspennulína
Drög að erindi til Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun
Laugavegi 166
105 Reykjavík

Efni: Athugasemdir vegna mats á umhverfisáhrifum Fljótsdalslína 3 og 4

Efnisyfirlit:

  1. Ótraustur lagagrunnur
  2. Forsendur framkvæmdar óskýrar
  3. Samtímis mat á verksmiðju, virkjunum og raflínum
  4. Óásættanleg umhverfisáhrif af 400 kV loftlínum
  5. Aðaltillaga og varatillaga vegna frummats
  6. Öryggissjónarmið og varatillaga skv. 5.2
  7. Raflínulagnir og kostnaðarsjónarmið
  8. Áhrif rafsegulsviðs
  9. Efnistaka og náttúruverndarlög
  10. Ýmis atriði
    1. Úttekt á lífríki
    2. Áhrif á "ferðamennsku"
    3. Nýting vegslóða meðfram línum
    4. Skipulag og línulagnir
    5. Örnefni
    6. Kynning og stuttir frestir

 

1. Ótraustur lagagrunnur

Athygli vekur að Skipulagsstofnun skuli að ósk Landsvirkjunar setja framkvæmd við Fljótsdalslínur 3 og 4 í mat á sama tíma og lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum eru í endurskoðun á Alþingi. Ekki hefur annað komið fram en að stefnt sé að lögfestingu frumvarps til nýrra laga um þetta efni fyrir lok yfirstandandi löggjafarþings, sem gert er ráð fyrir að ljúki ekki síðar en um miðjan maí 2000. Þannig kann að vera að ný lög taki gildi á meðan matsferlið út af framkvæmdinni stendur yfir. Eðlilegt hefði verið að bíða eftir nýrri löggjöf í ljósi þess að lögin frá 1993 hafa a.m.k. frá því í ágúst 1999 verið úr takt við gildandi rétt, þ.e. tilskipanir Evrópusambandsins á þessu sviði. Óvissa hlýtur því að ríkja um lögmæti og stöðu mats á umhverfisáhrifum sem unnið er samkvæmt lögum nr. 63/1993.

2. Forsendur framkvæmdar óskýrar

Forsendur þeirrar framkvæmdar sem hér er sett í mat eru óljósar. Jafnframt er auðsætt að engin þörf er fyrir framkvæmdaraðila að fá framkvæmdina metna nú og á næstu mánuðum. Umræddum raflínum er samkvæmt frummatsskýrslu ætlað að flytja orku til ráðgerðrar álverksmiðju á Reyðarfirði. Allt er nú í óvissu um þá framkvæmd og verður það að líkindum næstu misseri. Þær forsendur sem frummatsskýrslan gengur út frá, 120 þúsund tonna upphafsáfangi álvers á Reyðarfirði, eru ekki lengur í takt við nýlegar yfirlýsingar stjórnvalda frá því um mánaðamót febrúar/mars 2000. Endurskoðun svonefnds NORAL-verkefnis stendur yfir. Kárahnjúkavirkjun sem nú er talað um sem fyrstu framkvæmd til raforkuöflunar fyrir 240 þúsund tonna byrjunaráfanga álvers er enn á undirbúningsstigi og hefur ekki verið sett í mat á umhverfisáhrifum. Þá liggur fyrir samkvæmt fyrirliggjandi frummatsskýrslu um raflínur að ekki sé stefnt að því að hefja framkvæmdir við lagningu þeirra fyrr en framkvæmdir við virkjun í þágu 1. áfanga álverksmiðju hefjast, heldur sé það einmitt hugmynd Landsvirkjunar að fasa þessar framkvæmdir saman.

Af þessum sökum m.a.er það rangt af framkvæmdaraðila að setja nú umrædda raflínuframkvæmd í mat. Staða Skipulagsstofnunar til að fjalla um og meta framkvæmdina sýnist að sama skapi í ósvissu sem og staða þeirra sem rétt hafa til athugasemda, þar eð samhengi raforkuflutnings, virkjunar og kaupanda að raforkunni liggur ekki fyrir. Breytir þar yfirlýsing í frummatsskýrslu neðst á blaðsíðu 9 og efst á bls. 10 engu, enda er hún harla mótsagnakennd:

"Þrátt fyrir að skýrslan sé unnin í tengslum við þau áform sem nú eru uppi um byggingu álvers á fyrrgreindri iðnaðarlóð í Reyðarfirði, ber að skoða hana sem sjálfstæða úttekt á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar sem hér er kynnt, þ.e. byggingu tveggja 400 kV háspennulína til flutnings á raforku frá tengivirki Fljótsdalsvirkjunar til aðveituvirkis á iðnaðarlóð í Reyðarfirði. Verði niðurstaða matsferlis sú að heimild verður veitt fyrir byggingu tveggja háspennulína af þeirri gerð sem hér er greint frá, getur framkvæmdaraðili byggt línurnar óháð þeirri starfsemi sem kann að verða á fyrrgreindri lóð."
Með vísan til ofangreindra málsatvika er að rétt að Skipulagsstofnun hafni nú að meta framkvæmdina þar til forsendur hennar hafa skýrst á viðhlítandi hátt.

3. Samtímis mat á verksmiðju, virkjunum og raflínum

Undiritaður ítrekar það sem fram kom af hans hálfu sem athugasemd við mat á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði (bréf dagsett 18. nóvember 1999), að setja beri allar framkvæmdir sem tengjast þessum stóriðjuáformum í mat samtímis. Breytir þá engu þótt þeir sem fyrir einstökum framkvæmdum standa séu ekki frá sama fyrirtæki. Samkvæmt Evrópurétti er heimild til að krefjast slíks samræmds mats og auðsætt að þannig beri að standa að mati í þessu tilviki. Skal það hér rökstutt með tilliti til umræddra raflína.

Raflínur frá virkjun eru forsenda orkufreks iðnaðar hérlendis, í þessu tilviki á Reyðarfirði. Flutningsþörf raflína fer eftir umfangi þess iðnaðar sem að er stefnt og heimild yrði veitt fyrir. Tæknileg útfærsla raflínu, þar á meðal áætluð spenna, hlýtur að taka mið af þeirri raforku sem flytja á. Hönnun og bygging raflínu, einnar eða fleiri, þar á meðal sveigjanleiki í vali á línuleið sem og lega raflínu og önnur útfærsla, m.a. hvort um yrði að ræða loftlínu og/ eða jarðstreng, fer meðal annars og væntanlega ekki síst eftir flutningsþörf. Vitneskja um þessa flutningsþörf liggur nú ekki fyrir.

Hins vegar liggur fyrir það mat sérfræðistofnana, m.a. umsögn Veðurstofu Íslands til Skipulagsstofnunar dagsett 7. febrúar 2000, að takmörk séu fyrir því, hversu stóra álverksmiðju unnt sé að reisa á Reyðarfirði með tilliti til staðbundinna aðstæðna og mengunarhættu. Veðurstofan telur það vera álitamál hvort umhverfi Reyðarfjarðar þoli starfrækslu 240 þúsund tonna álvers, hvað þá stærri verksmiðju.

Raflínur þær sem hér um ræðir ganga mjög á umhverfisgæði og er það augljós skylda að halda umfangi þeirra í lágmarki. Það á enn frekar við þá meta skal hvort réttlætanlegt sé að ráðast í uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Mat á þessu hvorutveggja þarf að sjálfsögðu að vera heildstætt og taka m.a. til heildarálags á náttúrulegt og félagslegt umhverfi sem og til þjóðhagslegra þátta.

4. Óásættanleg umhverfisáhrif af 400 kV loftlínum

Andstætt því sem haldið er fram í frummatsskýrslu Landsvirkjunar yrðu mikil og tilfinnanleg umhverfisáhrif af raflínunum eins og lagningu þeirra er lýst í skýrslunni. Á það við um alla þá kosti sem þar er lýst og skipta sjónræn áhrif þar lang mestu máli. Með öllu er óskiljanlegt að framkvæmdaraðili skuli setja meginniðurstöðu sína fram með svofelldum orðum (bls.3):

"Við mat á umhverfisáhrifum kemur fram að línurnar hafa á heildina lítil áhrif á náttúru og umhverfi svæðisins."
Þessum ályktunarorðum framkvæmdaraðila er ástæða til að andmæla harðlega en þau hafa verið notuð af Landsvirkjun og STAR, sbr. heimasíða, sem megináhersla og yfirskrift við kynningu málsins. Tilgangurinn er auðsæilega sá að slæva vitund almennings gagnvart þeirri framkvæmd sem hér er sett í mat. Ályktunarorð þessi sækja ekki nema að takmörkuðu leyti efnisleg rök í frummatsskýrsluna og eru því enn ómerkilegri fyrir vikið.

Framkvæmdaraðili gerir ráð fyrir að eingöngu verði um loftlínur að ræða, þ.e. að einstakir kaflar verði hvorki lagðir í jörð eða sjó. Um er að ræða raflínur af stærstu gerð, miðaðar við 400 kV spennu hvor um sig, með 300-340 stöguðum stálmöstrum, 20-37 metra á hæð og með 25,5 metra þverslá. Í hverjum slíkum gálga er komið fyrir þremur um 4 metra löngum einöngrurum og í þeim hanga þrír tveggja þráða rafstrengir. Sér hver maður að hér er um gríðarleg mannvirki að ræða, hæð þeirra stærstu á við 12 hæða íbúðarblokk og sjónræn áhrif að sama skapi mikil. Þessar línur munu að óbreyttu liggja um þveran Fljótsdal og Skriðdal og þvert fyrir botn Reyðarfjarðar og yrðu á öllum þessum stöðum afar áberandi og til mikilla lýta fyrir dalina og umhverfi fjarðarins.

Þá er samkvæmt aðaltillögu framkvæmdaraðila, þ.e. kosti 1, gert ráð fyrir að aðgreina línustæðin á Hallormsstaðahálsi og milli Skriðdals og Reyðarfjarðar; eykur það til muna álag á umhverfið á þeim slóðum. Horft neðst úr Hallormsstaðaskógi yrði línan sem lægra lægi afar áberandi og þannig til mikilla lýta þar sem hún ber við loft. Milli Skriðdals og Reyðarfjarðar er nær ósnortið og glæsilegt svæði, Þórudalur, Brúðardalur og Þórdalsheiði, lagt undir raflínu og dalir þessi með því eyðilagðir til útivistarnota og sem gönguleið. Þéttbýlið á Reyðarfirði yrði umgirt risaraflínum meira en til hálfs, m.a. rista þær sundur brekkurnar ofan þorpsins og spilla þeirri glæstu sýn til fjallahringsins sem umlykur fjarðarbotn og nú er höfuðprýði staðarins.

5. Aðaltillaga og varatillaga vegna frummats

5.1. Aðaltillaga:

Aðaltillaga undirritaðs er svonefndur núllkostur, það er að ekki verði lagðar frá Fljótsdal til Reyðarfjarðar þær raflínur sem hér eru fyrrihugaðar. Byggir tillagan á því mati undirritaðs að ekki eigi að ráðast í byggingu risaálverksmiðju eða álíka stóriðju á Reyðarfirði og þar af leiðandi ekki að leggja þangað raflínur eins og þær sem gerð er grein fyrir í frummatsskýrslu. Gegn risaálveri á Reyðarfirði mæla umhverfisleg, samfélagsleg og þjóðhagsleg sjónarmið sem undirritaður gerði grein fyrir í athugasemdum dagsettum 22. nóvember 1999 vegna frummats á 480 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði. Vísast hér til þess erindis sem er í höndum Skipulagsstofnunar en einnig er það að finna á heimasíðu minni.

5.2 Varatillaga:

  1. Verði ekki tekið tillit til aðaltillögu minnar er til vara lögð áhersla á að stærð orkufreks iðnaðar á Reyðarfirði verði takmörkuð þannig að ekki þurfi að koma til lagningar raflína nema með 220 kV spennu að hámarki, enda yrðu þær lagðar í jörðu, að minnsta kosti í Fljótsdal, Skriðdal og fyrir botni Reyðarfjarðar. Á það einnig við um raflínur niður af Fljótsdalsheiði, hvort sem væri frá Teigsbjargi eða utar.
  2. Jafnframt að slíkar raflínur yrðu lagðar samsíða og fylgdu byggðalínu (Kröflulínu 2) yfir Hallormsstaðaháls og lægju báðar um Hallsteinsdal þannig að Þórudalur og Brúðardalur yrðu ekki lagðir undir raflínu.
  3. Raflínurnar verði færðar ofar á Gilsárdal, þ.e. alllangt upp fyrir Skjögrastaði þannig að þær hverfi úr sjónlínu þá horft er upp eftir Gilsárgili frá innri barmi þess (hefðbundinn útsýnisstaður nálægt miðjum Ranaskógi). Til vara er lagt til að línurnar verði settar í jörð til að ná sama markmiði.

 

6. Öryggissjónarmið og varatillaga skv. 5.2

6.1 Vísað er til varatillögu skv. 5.2 um legu raflína á Hallormsstaðahálsi. Sé þörf talin á að bregðast við ísingarhættu á Hallormsstaðahálsi ber að gera það með því að taka aðra línuna í jörð þar sem hættan á ísingu er talin mest.
6.2 Til að bregðast við snjóflóðahættu á Hallsteinsdal er tiltölulega auðvelt að auka öryggi með viðeigandi aðgerðum (sjálfstandandi burðarmöstur og/eða varnarvirki ofan við möstur) eins og lýst er á bls. 83 í frummatsskýrslu.

7. Raflínulagnir og kostnaðarsjónarmið

Í niðurstöðum frummatsskýrslu segir m.a. (bls.1):

"Við val á línuleið þarf að huga að mörgum þáttum. Fyrst og fremst eru það hagkvæmis-, umhverfis-, öryggis- og tæknileg sjónarmið sem vega hvað þyngst. En þeir kostir sem valdir eru þurfa að vera raunhæfir og vel framkvæmanlegir."
Þessi framsetning kemur út af fyrir sig ekki á óvart. En hvaða mælikvarðar búa hér að baki orðunum "raunhæfir" og "vel framkvæmanlegir"? Hætt er við að þeir endurspegli ekki nútímaleg viðhorf til umhverfisverndar, sem m.a. gera ráð fyrir að allur kostnaður við framkvæmdir sé færður á þeirra reikning og endurspeglist í viðskiptum, í þessu tilviki milli Landsvirkjunar og eigenda stóriðjufyrirtækja. Landsvirkjun ber lögum samkvæmt að færa heildarkostnað við raforkumannvirki vegna stóriðju inn í verðlagningu á raforku til hennar. Til að þetta gerist í reynd þarf ALLUR KOSTNAÐUR að verða sýnilegur, einnig fórnarkostnaður vegna álags á umhverfið ekki síður en tilkostnaður vegna öryggis og annarra þátta. Umhverfistjón af völdum sjónrænna áhrifa frá raflínum ber að meta hátt og um leið verður það úrræði að setja raflínurnar í jörð nærtækara og sjálfsagðara.
Á bls. 68-71 í frummatsskýrslu er fjallað um "aðrar útfærslur" m.a. kostnað af að leggja raflínur með mismunandi spennu í jörð eða sem sæstreng. Þar má m.a. lesa:
"Hagkvæmnissjónarmið ráða miklu um hvort háspennulína er lögð sem strengur í jörð eða loftlína. Á mynd 4.2 má sjá áætlaðan kostnað fyrir loftlínur og jarðstrengi fyrir mismunandi spennur. Eins og sjá má er munurinn mikill þegar spenna er há en fer minnkandi eftir því sem spennan lækkar....Út frá öryggissjónarmiðum er bilanatíðni jarðstrengja mun lægri en loftlína, en ef bilun kemur upp í jarðstreng tekur mun lengri tíma að finna bilun og gera við, heldur en með loftlínu."
Ekki skal þetta véfengt. Athygli vekur kostnaðaraukinn með hækkandi spennu. Þannig er hann metinn aðeins 2,5-4 faldur fyrir 220 kV línu lagða í jörð í samanburði við loftlínu með sömu spennu, en fyrir 400 kV spennu hins vegar 7-9 faldur miðað við 800 MVA flutningsgetu og tvöfalt meiri sé krafist hærri flutningsgetu (1600 MVA), þar eð þá er talið að þurfi "2 sett" af jarðstreng. Með hliðsjón af þessu skiptir miklu kostnaðarlega að komast af með línur ætlaðar fyrir 220 kV spennu og leggja þær í jörð, sbr. það sem sett var fram sem varakrafa í tölulið 5.2 a) hér að framan. Sé hugsað um stóriðju á Reyðarfirði ætti í öllu falli að halda henni innan þeirra marka að ekki kalli á meira en 220 kV raflínur, en styðja fleiri atriði eins og hætta af mengun þá stefnu.

8. Áhrif rafsegulsviðs

Andmælt er framsetningu í niðurstöðum frummatsskýrslu, bls. 4, þar sem segir:

"Engar vísbendingar eru um að rafsegulsvið frá 400 kV eða 220 kV línum hafi skaðleg áhrif á menn, dýr eða gróður. Almennt eru rafseguláhrif hverfandi utan byggingarbanns línanna."
Hér er sterkar til orða tekið en stætt er á. Þótt ekki hafi verið sannað svo óyggjandi sé talið að rafseguláhrif frá raflínum hafi áhrif á heilsu manna og líðan hafa hrannast upp grunsemdir þar að lútandi víða um lönd og leitt til varúðarráðstafana við staðsetningu raflína og mannabústaða nálægt þeim. Þetta er að nokkru viðurkennt í frummatsskýrslu þar sem fjallað er um áhrif rafsviðs og segulssviðs á bls. 108.

9. Efnistaka og náttúruverndarlög

Sjálfsagt ætti að vera að fylgt sé náttúruverndarlögum við alla efnistöku vegna raflína og slóða í þeirra þágu, sbr. lög nr. 44/1999, VI. kafla um nám jarðefna (45.-49. grein), en hvergi sýnist mér vísað til þessara lagaákvæða í sambandi við efnistöku í frummatsskýrslunni. Hér að framan hefur verið andmælt lagningu raflínu um Þórdalsheiði. Verði ekki úr þeirri línugögn falla væntanlega sjálfkrafa niður ráðgerðir efnistökustaðir við Ljósá og Brúðardalsfjall, en ástæða er til að andmæla efnistöku þar af umhverfisástæðum. Þórudalur með Ljósárgiljum á aðra hönd og Hallbjarnastaðatindi á hina er afar fallegt og verðmætt svæði. Stefna ætti að því að friðlýsa dalinn til útivistarnota og halda slóð um Þórdalsheiði sem göngu- og reiðleið en ekki beina á hana bílaumferð.

10. Ýmis atriði

10.1 Úttekt á lífríki.
Ástæða er til að ætla að við úttekt á flóru, gróðri og dýralífi, þar með talið fuglumog hreindýrum, hafi úttektaraðilum verið skammtaður naumur tími til verka vegna þess hraða sem settur var í undirbúning frummats. Af þeim sökum má gera ráð fyrir að upplýsingar í viðkomandi úttektum séu takmarkaðri en skyldi. Rétt er að benda á atriði er snertir hina sjaldgæfu þyrnirós á Kollaleiru. Í skýrslunni er talað um aðeins einn vaxtarstað í landi jarðarinnar en ég hygg þeir séu að minnsta kosti tveir og nokkurt bil (e.t.v. 200-300 m) á milli þeirra. Rétt er að minna á að svonefnt áflug fugla á raflínur sem talsverð brögð eru að verður úr sögunni um leið og línurnar eru færðar í jörð.

10.2 Áhrif á "ferðamennsku".
Í frummatsskýrslu stendur: "Framkvæmdin mun ekki hafa umtalsverð áhrif á ferðamennsku á svæðinu nema þá helst valkostur 4, þar sem línurnar munu liggja í gegnum Hallormsstaðarskóg:" (bls. 67) "Áhrif á útivist og ferðamennsku verða einhver í Fljótsdal og óveruleg á Hallormsstað..".(bls.107). " Niðurstöður (bls.108): Ekki er líklegt að Fljótsdalslínur 3 og 4 muni hafa mikil áhrif á útivist og ferðamennsku þegar á heildina er litið. Þá ályktun má m.a. draga út frá reynslu af öðrum svæðum á landinu þar sem háspennulínur hafa verið lagðar."

Hér er afar grunnfærnislega á málið litið. Ráðgerðar stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi munu hafa afar neikvæð áhrif á möguleika og þróun ferðaþjónustu á svæðinu, þar með taldar umræddar risaraflínur sem yrðu hluti af heildaráhrifum. Sjónræn áhrif af línunum eins og þær eru hér kynntar í frummatsskýrslu verða stórfelld og neikvæð og skerða möguleika einstakra jarða og svæða til að koma upp ferðaþjónustu, að meðtalinni sumarbyggð. Skammvinn "reynsla" frá öðrum svæðum segir hér lítið, og skoðanakannanir meðal ferðamanna segja aðra sögu en látið er að liggja í skýrslunni.

10.3 Nýting vegslóða meðfram línum.
Í skýrslunni stendur: "Landeigendur geta nýtt slóða til að komast um landareign sína og ákveðið að opna þá fyrir almennri umferð." (bls.2) Það kemur nokkuð á óvart ef það á að vera í verkahring landeigenda að ákveða hvort slóðar meðfram raflínum og samsvarandi vegslóðar séu opnir eða lokaðir fyrir almennri umferð og þá væntanlega um leið bera ábyrgð á viðkomandi umferðarleiðum. Er ekki þörf á að litið verði á lög og reglur er þetta varða og bæta um, sé eitthvað óljóst sem kveða þyrfti nánar á um en nú er gert?

10.4 Skipulag og línulagnir.
Í frummatsskýrslu kemur fram að fyrirhugaðar raflínulagnir hafi verið kynntar þeim sem vinna að svæðisskipulagsgerð fyrir Fljótsdalshérað og að aðalskipulagi í Fjarðabyggð. Óljós eru eftir sem áður tengsl þessa matsferlis vegna umhverfisáhrifa við vinnu á grundvelli skipulags- og byggingarlaga. Undirritaður hafði haldið að áform um lagningu þessara raflína kölluðu á sérstaka svæðisskipulagsmeðferð þriggja viðkomandi sveitarfélaga: Fjarðabyggðar, Austur-Héraðs og Fljótsdalshrepps.

10.5 Örnefni
Yfirleitt sýnist rétt farið með örnefni í frummatsskýrslu en þó eru undantekningar þar á. Dæmi: Brandöxl fyrir Brandsöxl, Hallormsstaðarskógur í stað Hallormsstaðaskógur og hliðstæð örnefni dregin af Hallormsstaðir, sem var nafn jarðarinnar áður en - staðarheitið (með -r-) var tekið upp einhvern tíma eftir að Hallormsstaður varð prestssetur. Í samræmi við þetta er hefð fyrir að rita Hallormsstaðabjarg [í daglegu tali kallað Bjarg], Hallormsstaðaháls o.s.frv.. Hins vegar eða eðlilegt að rita Hallormsstaðar-yfirlýsing, sem er nýlegt plagg og þó úrelt! Geirdalsá í stað Geitdalsá (bls. 73), auðsæilega prentvilla.

10.6 Lítil kynning og stuttir frestir.
Því miður hefur kynning af hálfu framkvæmdaraðila á áformuðum raflínubyggingum verið lítil og allsendis ófullnægjandi. Hún hefur fyrst og fremst beinst að nærumhverfi og landeigendum og einnig það í takmörkuðum mæli. Þannig voru aðeins tveir kynningarfundnir haldnir vegna málsins, þ.e. í Fljótsdal og á Reyðarfirði. Þetta mál varðar alla landsmenn, þar með talið alla Austfirðinga. Hvers vegna var ekki af hálfu framkvæmdaraðila boðað til almenns kynningarfundar á Egilsstöðum og þangað boðaðir fulltrúar fjölmiðla? Fjölmiðlar hafa lítið greint frá þessu stórmáli og framkvæmdaraðili gert sitt til að sem minnst fari fyrir umfjöllum um það, sbr. fullyrðingar Landsvirkjunar og vinnumanna hennar um lítil umhverfisáhrif.

Frestir fyrir þá sem framkvæmdaraðili leitaði umsagna hjá við undirbúning frummatsskýrslu voru of stuttir, að minnsta kosti í einhverjum tilvikum. Um það vitna m.a. viðbrögð umhverfissviðs Austur-Héraðs, sbr. bókun þess á fundi 3. nóvember 1999 þar sem sérstaklega var mótmælt hversu lítið ráðrúm var veitt til athugunar á áformuðum raflínulögnum. Lá af þessum sökum engin umsögn fyrir um málið frá sveitarstjórn Austur-Héraðs á undirbúningsstigi frummats. Undirstrikar þetta með öðru hversu ótímabært það var að setja mál þetta nú í mat á umhverfisáhrifum, löngu áður en þörf getur talist á frá sjónarhóli þess sem að framkvæmdinni stefnir.

Neskaupstað, á föstudaginn langa 2000
Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim