Náttúruverndarsamtök Austurlands

NAUST 19. janúar 2000

Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir
Umhverfiráðuneytinu Vonarstræti 4
150 Reykjavík

Efni: Kæra Náttúruverndarsamtaka Austurlands - NAUST vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins 10. desember 1999 um 480 þúsund tonna álver á Reyðarfirði, sbr. 14. grein laga nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum.

Málflutningsumboð:
Hjörleifur Guttormson, kt. 311035-6659, rekur mál þetta fyrir hönd Náttúruverndarsamtaka Austurlands - NAUST.

Inngangur
Náttúruverndarsamtök Austurlands - NAUST eru sammála þeirri meginniðurstöðu í úrskurði skipulagsstjóra að setja beri 480 þúsund tonna álverksmiðju á Reyðarfirði í frekara mat á umhverfisáhrifum, enda sé fyrir hendi lagagrunnur til að framkvæma slíkt mat og framkvæmdaraðili uppfylli skilyrði laga. NAUST gerir hins vegar kröfu um að bætt verði við þáttum í frekara mati þannig að skýr heildarmynd fáist af áhrifum umræddra stóriðjuframkvæmda.

A. Aðalkröfur kæranda

  1. Að frekara mat fari fram í samræmi við úrskurð skipulagsstjóra ríkisins og taki einnig til umhverfisáhrifa allra matsskyldra framkvæmda til orkuöflunar fyrir álverksmiðjuna sem og annarra tengdra matsskyldra framkvæmda.
  2. Að við frekara mat í samræmi við úrskurð skipulagsstjóra verði gerð ítarleg grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni og mótvægisaðgerðum með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirrar stefnu stjórnvalda að Ísland gerist aðili að Kyótó-bókuninni.
B. Varakröfur kæranda, verði ekki fallist á aðalkröfur:
  1. Að fyrirliggjandi matsferli frá 15. október 1999 verði ónýtt, þar eð frummatsskýrsla kemur ekki frá réttum aðila.
  2. Að matsferlið frá 15. október 1999 verði ónýtt vegna ófullnægjandi lagastoðar fyrir matinu, eða því a.m.k. frestað þar til lög um mat á umhverfisáhrifum hafa verið endurskoðuð.

A. Málavextir og málsástæður vegna aðalkrafna kæranda:

Tengdar framkvæmdir verði metnar samhliða verksmiðju
Kærandi er sammála þeirri meginniðurstöðu skipulagsstjóra ríkisins að framkvæmdir vegna álverksmiðju á Reyðarfirði skuli fara í frekara mat, en þá jafnframt með vísan til fyrirvara kæranda um framkvæmdaraðila og ófullnægjandi lagastoð, sbr. varakröfur. Til viðbótar þeim 13 atriðum sem sérstaklega eru tilgreind í úrskurðarorðum skipulagsstjóra gerir kærandi kröfu um að ráðherra kveði á um að umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, m.a. vegna orkuöflunar fyrir verksmiðjuna, verði metnar samhliða og samtímis sem hluti af heildstæðu mati.

Augljós forsenda fyrir byggingu og rekstri álverksmiðju er að til hennar fáist nægileg raforka sem samkvæmt frummatsskýrslu fyrir 480 þúsund tonna álver nemur 6.640 gígavattstundum á ári, þar af til ráðgerðs 1. áfanga 1660 gígavattstundum. Í þessu sambandi er rétt að minna á ákvæði laga nr. 63/1993, meðal annars 1. grein þar sem segir:
"Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana."

Einnig ber sérstaklega að líta til ákvæða 4., 5. og 7. greinar laganna í þessu samhengi. Í þessu sambandi er vísað til skýrslu forsætisráðherra um starfsskilyrði stjórnvalda, eftirlit með starfsemi þeirra og viðurlög við réttarbrotum í stjórnsýslu. (Þskj. 376 - 275. mál á 125. löggjafarþingi 1999-2000). Þar segir í upphafi efnisgreinar 2.3.3. sem ber heitið Sjónarmið sem leiða má af markmiðum laga:
"Sérhvert stjórnvald hefur ákveðinn og afmarkaðan verkahring. Stjórnvaldi ber að beita því stjórnsýsluvaldi sem það er að lögum bært til að fara með með þau markmið fyrir augum sem því ber að vinna að lögum samkvæmt. Byggi stjórnvald ákvörðun sína á sjónarmiðum sem stefna að öðrum markmiðum, t.d. að vernda persónulega hagsmuni, áskilja sér fjárhagslegan ávinning sem það á ekki tilkall til eða ná fram hefnd, er um valdníðslu að ræða (d. magtfordrejning). Stjórnvaldi ber að beita valdi sínu í réttu augnamiði, þ.e. með þá opinberu hagsmuni eina fyrir augum sem því er falið að gæta. Þau sjónarmið eru almennt talin málefnaleg sem eru til þess fallin að ná fram markmiði þeirra laga sem ákvörðun er byggð á. Þetta er ein algengasta aðferðin við að greina málefnaleg sjónarmið. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem hún er jafnframt í samræmi við þá grundvallarskyldu stjórnvalda að framkvæma lög í samræmi við þau markmið sem löggjafinn hyggst ná fram með setningu þeirra."

Þegar ráðgerðar eru framkvæmdir við 480 þúsund tonna álver ber að mati kæranda lögum samkvæmt að leggja fram, sem hluta af heildstæðu mati, lýsingu á öllum framkvæmdum sem varða orkuöflun til slíkrar álverksmiðju, hvort sem áformað er að byggja hana í einum eða fleiri áföngum og fá þær metnar með álverksmiðjunni. Ber stjórnvaldi að tryggja að þannig sé staðið að málum, hvort sem framkvæmdaaðili er einn eða fleiri. Þannig er rétt að leggja fram til mats í samstæðri heild framkvæmdir við verksmiðju, virkjanir, raflínur og aðra matsskylda þætti sem tengjast umræddum framkvæmdaáformum. Sé þetta vanrækt verður hvorki náð markmiðum laganna né heldur er unnt fyrir almenning að gera sér grein fyrir umfangi og áhrifum framkvæmdarinnar í heild sinni. Þetta á ekki síst við þegar orkuframkvæmdir eru ráðgerðar fyrst og fremst eða einvörðungu í þágu viðkomandi verksmiðju, þannig að um er að ræða eina samhangandi heild, þar sem hver þáttur er öðrum háður.
Fyrir liggur að vegna umræddrar álverksmiðju þyrfti óhjákvæmilega að ráðast í margar virkjanir og raunar ráðgert að framkvæmdir við virkjanir hefjist á undan byggingu verksmiðju. Auk Fljótsdalsvirkjunar er þar svonefnd Kárahnjúkavirkjun efst á blaði vatnsaflsvirkjana, sbr. viljayfirlýsingu Hydro Aluminium Metal Products A/S, Landsvirkjunar og ríkisstjórnar Íslands frá 29. júní 1999. Alþingi hefur sem kunnugt er enga heimild veitt til virkjunar Jökulsár á Dal. Um Kárahnjúkavirkjun segir Orkustofnun í greinargerð frá 4. nóvember 1999:
"Slík virkjun verður auðvitað ekki reist nema í tengslum við sérstakan áfanga í orkufrekum iðnaði. Áfanginn yrði að vera stór, eða sem svarar til álvers með um 240 þús. tonna afkastagetu á ári."
Telur Orkustofnun að Kárahnjúkavirkjun gæti verið komin í gagnið um 2007-2008,
"…enda væri ákvörðun um að ráðist [ráðast] í hana tekin þegar á þessum vetri."
Umrædd 480 þúsund tonna verksmiðja er forsenda umræddra virkjunarframkvæmda og útfærsla þeirra er nátengd og háð hver annarri, miðlun, virkjun, afl, raflínur og tengivirki o.s.frv. Má í þessu sambandi benda á mat á umhverfisáhrifum Vatnsfellsvirkjunar og upphaflega ráðgerðum tengslum hennar við Norðlingaöldumiðlun. Það stríðir gegn markmiðum og anda laga um mat á umhverfisáhrifum að ætla að fjalla einangrað og óháð hvert öðru um framkvæmdaþætti sem eru jafn samofnir og hér um ræðir. Hafa ber í huga að stór hluti af umhverfisröskun stóriðjuframkvæmdanna tengist raforkuöflun.

Tenging við raforkukerfi annarra landshluta

Látið er að því liggja í frummatskýrslu að ekki þurfi að koma til ný tenging með raflínu við raforkukerfi annarra landshluta "í fyrsta áfanga". Ekkert er í skýrslunni frekar um það efni fjallað með tilliti til síðari áfanga verksmiðjunnar. Ljóst er þó af umfjöllun Orkustofnunar frá 4. nóvember 1999 [fylgiskjal II með tillögu til þingsályktunar um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, 186. mál á 125. löggjafarþingi] að lagning öflugrar raflínu milli Suðurlands og Austurlands er áfram á dagskrá og þá frekar tvær en ein. Um þetta segir Orkustofnun (bls.46):
"Allt um það er kostnaður við þessar línur þvílíkur að ekki er skynsamlegt að leggja í þau útgjöld vegna umrædds álvers eingöngu. Þess verður þó að geta að aukin raforkuvinnsla og raforkunotkun austanlands kallar fyrr eða síðar á öfluga tengingu við meginvirkjunarsvæðin sunnanlands."
Þessi þáttur þarf að sjálfsögðu nánari athugunar við, en fullyrt hefur verið af ráðamönnum að með staðsetningu álverksmiðju eystra megi komast hjá slíkri kostnaðarsamri tengingu og það sé ein helsta forsenda staðsetningar á Austurlandi. Kostnaður við raflínur og tengivirki er hluti af kostnaði við orkuöflun. Spyrja verður hverjum sé ætlað að standa straum af kostnaði við slíkt raflínukerfi sem samkvæmt ofansögðu er talið nauðsynlegt, almennir raforkukaupendur eða eigendur viðkomandi risaálbræðslu. Væri um blandaða kostnaðarþátttöku að ræða er eðlilegt að upplýst sé hvað ætti að koma í hlut hvers aðila.

Afstaða skipulagsstjóra, rök og gagnrök

Í kaflanum "Tengdar framkvæmdir" (bls. 56) í niðurstöðum skipulagsstjóra um frummatsskýrslu, dags. 10. desember 1999 kemur fram að við frumathugun hafi komið fram fjölmargar athugasemdir við að ekki skuli lagt heildarmat á umhverfisáhrif fyrirhugaðra orkuframkvæmda í þágu álverksmiðju á Reyðarfirði. Um orkuþörf verksmiðjunnar segir þar m.a.:
"Orkuþörf 480 þúsund tonna álvers ein og sér kallar á umfangsmiklar framvæmdir við orkuframleiðslu sem fyrirsjáanlegt er að kunni að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að mati skipulagsstjóra ríkisins. Vert er að minna á að starfsemi 480 þús. tonna álvers krefst 6.640 GWst af raforku á ári, sem er meira en heildarframleiðsla Landsvirkjunar árið 1998. Einnig að ekki hafa verið lagðar fram upplýsingar um hvernig fyrirhugað er að afla orku til 480 þús. tonna álvers, utan hvað fyrir liggur að til 1. áfanga álvers sé fyrirhugað að virkja Jökulsá í Fljótsdal og í Bjarnarflagi, auk þess sem Kárahnjúkavirkjun, sem skv. Svæðisskipulagi miðhálendisins ætti að framleiða 3.200 GWst, er tilgreind í Noral-samkomulaginu frá 29. júní 1999 til orkuöflunar fyrir álverið. Af þessum ástæðum verður að gera kröfu um að ítarleg grein sé gerð fyrir jákvæðum áhrifum 480 þús. tonna álvers sem vega kunni upp þau hugsanlegu umtalsverðu áhrif sem framkvæmd hennar kunni beint og óbeint að hafa í för með sér. Þar er átt við áhrif á byggð, samfélag og atvinnulíf á Austurlandi og landinu í heild."
Í sama kafla kemur fram að skipulagsstjóri telur
"…ekki stoð fyrir því í lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993 að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar í einu heildarmati. Skipulagsstjóri bendir í þessu sambandi á úrskurð umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga. Slíkt heildarmat myndi stuðla að markvissari vinnubrögðum og umræðu um fyrirhugaðar framkvæmdir af þeirri stærðargráðu sem álver við Reyðarfjörð, virkjanaframkvæmdir og lagning háspennulínu eru. Skipulagsstofnun beindi í september 1999 þeim tilmælum til framkvæmdaraðila að mat á umhverfisáhrifum nýrrar hafnar við fyrirhugað álver og háspennulínu að álverinu yrði auglýst samtímis. Jafnframt að auglýst yrði á sama tíma mat á umhverfisáhrifum jarðgufuvirkjunar við Bjarnarflag sem talin var nauðsynleg forsenda fyrir 1. áfanga álversins."
Kærandi telur, andstætt skipulagsstjóra, að stoð sé fyrir því í lögum að krefjast þess að tengdar framkvæmdir séu metnar heildstætt, sbr. markmiðsgrein og fleiri ákvæði laga nr. 63/1999. Engin önnur ákvæði nefndra laga vísa í aðra átt. Í markmiðsgrein laganna (1. grein), stendur m.a. að
"…ÁÐUR EN tekin er ávörðun um FRAMKVÆMDIR sem kunna, vegna staðsetningar, STARFSEMI SEM ÞEIM FYLGIR, að hafa í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, NÁTTÚRUAUÐLINDIR og samfélag hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum,…". (Leturbreyting kæranda).
Þessum markmiðum verður ekki náð fram öðru vísi en heildstæð mynd sé dregin upp af viðkomandi framkvæmdum. Í því skyni verður að tryggja að allir helstu framkvæmdaþættir séu metnir heildstætt og samtímis. Í tilvitnuðum ummælum skipulagsstjóra kemur fram að "…slíkt heildarmat myndi stuðla að markvissari vinnubrögðum…" og jafnframt segir að Skipulagsstofnun hafi reynt í aðdraganda frummats haustið 1999 að hafa áhrif í þessa átt.

Véfengt er lögmæti úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. júní 1996 um raforkumannvirki og aðrar matsskyldar framkvæmdir sem tengdust álverksmiðju á Grundartanga. Með honum ómerkti ráðherra 1. og 5. skilyrði í úrskurði skipulagsstjóra frá 19. febrúar 1996 um mat á umhverfisáhrifum álvers á Grundartanga, lagningar háspennulínu, stækkun Grundartangahafnar og efnistöku. Fyrsta skilyrði skipulagsstjóra hljóðaði svo:
"Óheimilt er að hefja framkvæmdir við hvorn áfanga fyrir sig fyrr en gerð hefur verið fullnægjandi grein fyrir matsskyldum framkvæmdum þeim tengdum og fyrir liggur úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 63/1993. Þetta á við um allar þær virkjunarframkvæmdir, háspennulínur og aðrar matsskyldar framkvæmdir samkvæmt 5. grein laganna sem tengjast munu hvorum áfanga fyrir sig."
Úrskurðarorð umhverfisráðuneytis um þessi atriði hljóðuðu þannig:
"Ráðuneytið fellst hins vegar ekki á að tengja allar framkvæmdir saman og takmarka eina framkvæmd við aðra og ber því að fella 1. og 5. skilyrðið niður."
Með þessum úrskurði féllst ráðuneytið án rökstuðnings á kærukröfu Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar fyrir hönd Columbia Aluminium Corporation.

Ef eitthvað er, kalla aðstæður við byggingu álverksmiðju við Reyðarfjörð enn skýrar á heildstætt mat en á Grundartanga að því er öflun raforku til verksmiðju varðar. Í Reyðarfirði er um risafyrirtæki að ræða á alþjóðlegan mælikvarða og virkjanir sem byggja þyrfti væru einvörðungu í þágu álverksmiðjunnar þar.

Allt ber þetta að sama brunni: Til að náð verði markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum verður að draga upp heildarmynd af framkvæmdum sem ráðast þarf í og meta þær samtímis. Gildir þá einu þótt um fleiri en einn framkvæmdaraðila í þröngri merkingu sé að ræða. Stjórnvaldsins er að sjá til að slík heildarmynd liggi fyrir til mats samtímis, öllum aðgengileg.

Losun gróðurhúsalofttegunda

Við rekstur 480 þúsund tonna álbræðslu myndi losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi reiknað í CO2-ígildum vaxa um nálægt 40% frá því sem var á viðmiðunarárinu 1990. Losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni er langstærsti einstaki mengunarvaldurinn frá rekstri hennar. Engin sértæk umfjöllun er þó um það mál í frummatsskýrslu um álverið heldur skýla framkvæmdaaðilar sér á bak við óljósa stefnu stjórnvalda til Kyótó-bókunarinnar við Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ekki er þess getið í skýrslunni að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: "Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess."

Skipulagsstjóri fjallar í niðurstöðum frumathugunar sinnar um losun koldíosxíðs (CO2 ) frá verksmiðjunni (bls. 23-24) án þess að leggja eigið mat á það mál með tilliti til ofangreindra samninga og stöðu Íslands. Í því efni er látið nægja að vitna til svars umhverfisráðuneytis við fyrirspurn Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur svofelld niðurstaða ráðuneytisins:
"Bygging fyrirhugaðs álvers gengur því ekki gegn stefnu Íslands gagnvart rammasamningi SÞ um loftslagsbreytingar og Kyótó-bókuninni."
Skipulagsstjóri greinir frá því að á skuldbindingar Rammasamningsins og Kyótó-bókunarinnar sé bent í 27 athugasemdum við frummatsskýrslu og sumir í þeim hópi bendi á að framkvæmdaaðili fjalli ekki um hugsanlegar mótvægisaðgerðir. Einn aðili, Félag skógarbænda á Vesturlandi bendi á
"…að miðað við kostnað af ræktun nytjaskóga þurfi 120 þúsund tonna álverksmiðja að kosta 3.940 milljónum króna til skógræktar til að binda koldíoxíð frá verksmiðjuni með skógrækt."
Í þessu samhengi er rétt að minna á að ríkisstjórn Íslands ákvað á árinu 1997 að verja 450 miljónum króna til aukinnar skógræktar með það að yfirlýstu markmiði að binda 22 þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum til lengri tíma litið.

Skipulagstjóri greinir frá að í athugasemdum við frummatsskýrslu komi fram að eftir byggingu 480 þúsund tonna álvers verði magn gróðurhúsalofts meira á hvern íbúa á Íslandi en í flestum öðrum löndum. Skipulagsstjóri nefnir í niðurstöðum sínum að af hálfu framkvæmdaaðila komi fram að í rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sé átt við innlenda neyslu. Sem mótvægisaðgerð setur framkvæmdaaðili einvörðungu á blað orðin "Aukin skógrækt" án þess að fjalla nokkuð frekar um þann þátt í frummatsskýrslu.

Í "aðalskýrslu" framkvæmdaaðila, bls. 79-80, má lesa eftirfarandi:
"Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kveður á um að iðnvædd ríki, þar á meðal Ísland, skuldbinda sig til að grípa til aðgerða til að auka ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda, þannig að hann verði ekki meiri árið 2000 en árið 1990. Það er skilningur íslenskra stjórnvalda að í rammasamningnum sé átt við útblástur frá innlendri neyslu. Íslensk stjórnvöld hafa því undanskilið stóriðju sem nýtir endurnýjanlegar orkulindir frá markmiðum sínum um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Því er litið svo á að framkvæmdir við álver á Reyðarfirði rúmist innan alþjóðlegra skuldbindinga íslenskra stjórnvalda um loftslagsbreytingar."
Í umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 30. ágúst 1999: Þjóðhagsleg áhrif nokkurra stóriðjuverkefna, fylgiskjal A13 með frummatsskýrslu, er lítillega vikið að losun gróðurhúsalofttegunda. Segir þar:
"Bygging álvers á Reyðarfirði með 360 þúsund tonna framleiðslugetu eykur losun CO2 sem nemur 650 þúsund tonnum, sem samsvarar 30% af losun CO2 á árinu 1990." (bls.2)
Og litlu síðar segir:
"Losunarheimild Íslendinga samkvæmt Kyoto-bókuninni nemur þeirri losun sem var árið 1990 að viðbættum 10%. Losun vegna verkefna í dæmum 2 og 3 eru umfram þau mörk. Fyrir liggur tillaga um að Ísland fái að halda losun vegna nýrrar stóriðju utan við losunarbókhald, en ekki er ljóst hvort sú tillaga verður samþykkt. Til að uppfylla ákvæði Kyotobókunarinnar yrði að öðrum kosti væntanlega að kaupa losunarkvóta á alþjóðamarkaði, en kostnaður vegna þess er ekki tekinn með í útreikningana."
Eins og réttilega er tekið fram í umsögn Þjóðhagsstofnunar liggur engin niðurstaða fyrir um óskir Íslands í tengslum við útfærslu á Kyótó-bókuninni. Talið er líklegt að úrslit í því efni og niðurstaða um ýmsa fleiri mikilvæga þætti ráðist ekki fyrr en á 6. aðildarríkjaþingi Rammasamningsins (COP-6) seint á árinu 2000 eða vorið 2001. Uns þetta liggur fyrir verður allt í óvissu um framtíðarstöðu Íslands gagnvart loftslagssamningnum og Kyótó-bókuninni. Það verður að telja ábyrgðarlaust af stjórnvöldum að ætla að leiða mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði til lykta áður en sú staða liggur skýrt fyrir. Hér er ekki aðeins um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar að tefla heldur, eins og fram kemur í umsögn Þjóðhagsstofnunar sem vitnað er til hér að ofan, stórt efnahagslegt atriði sem í engu hefur verið tekið tillit til í þjóðhagslegum útreikningum til þessa varðandi rekstrarforsendur verksmiðjunnar.

Undirrituð gera kröfu til þess að í frekara mati á umhverfisáhrifum álverksmiðju á Reyðarfirði verði gerð ítarleg grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni og mótvægisaðgerðum með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirrar stefnu stjórnvalda að Ísland gerist aðili að Kyótóbókuninni.

B. Málavextir og málsástæður fyrir varakröfum kæranda:

Hver er réttur framkvæmdaraðili að lögum?

Ekki er hægt að fallast á að Eignarhaldsfélagið Hraun ehf, sem lagði fram frummatsskýrslu sé til þess bært að lögum. Í skýrslunni - aðalskýrslu, bls 1 - segir: "Eignarhaldsfélagið Hraun ehf kemur fram fyrir óstofnað hlutafélag um álver við Reyðarfjörð með aðild HAMP og íslenskra fjárfesta".

Í lögum nr. 63/1993, 2. gr., stendur:
"Í lögum þessum merkir:
Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem lög þessi taka til."
Ekkert í frummatsskýrslu eða öðrum framkomnum gögnum bendir til að nefnt félag hyggist hefja framkvæmdir við álver á Reyðarfirði og ekkert umboð eða beiðni fylgdi skýrslunni frá neinum sem talist gæti framkvæmdaraðili í skilningi laganna.

Hraun ehf er þannig leppur fyrir einhvern hulduaðila og getur ekki talist framkvæmdaraðili í skilningi laganna. Kærendur véfengja því lögmæti þess matsferlis sem hafið var á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði með auglýsingu skipulagsstjóra ríkisins 15. október 1999. Þess er krafist að réttur framkvæmdaaðili gefi sig fram og leggi fram frummatsskýrslu í samræmi við lög.

Framhaldið í tilvitnuðum texta frummmatsskýrslu leiðir enn frekar í ljós sýndartilvist Hrauns ehf í þessu samhengi, þar sem félagið felur STAR "…að hafa umsjón með gerð skýrslu þeirrar sem hér liggur fyrir" og verkefnisstjórn STAR "…fól verkfræðihópnum HVH að vinna skýrsluna." Þannig var enginn marktækur aðili í skilningi laga til staðar til að svara fyrir um innihald skýrslunnar eða áform raunverulegs framkvæmdaraðila.

Vakin er athygli á þeirri staðreynd að STAR er að hluta til eign Fjárfestingarstofu orkusviðs, sem er eign Landsvirkjunar að hálfu. Þannig hefur eigandi fyrirhugaðs raforkuvers hönd í bagga með gerð frummatsskýrslu fyrir fyrirhugaðan raforkukaupanda.

Þann 14. janúar árið 2000 kom fram á sjónarsviðið nýtt hlutafélag, Reyðarál hf., sem er ætlað að skipuleggja framkvæmdir til undirbúnings byggingar álverksmiðju á Reyðarfirði og eiga verksmiðjuna og reka ef af framkvæmdum verður. Tengsl þessa nýja hlutafélags og Hrauns ehf eru ekki ljós og draga verður í efa að sú frummatsskýrsla sem fram var lögð og auglýst 15. október 1999 endurspregli viðhorf Reyðaráls hf. Hér er því gerður fyrirvari um stöðu þessara aðila með tilliti til mats á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna álvers og þess ferlis sem átt hefur sér stað þar að lútandi til þessa.

Lagastoð brostin

Að mati kæranda vantar lagastoð fyrir mati á umhverfisáhrifum, almennt séð og þá einnig í þessu tilviki, þar eð stjórnvöld hafa vanrækt að láta endurskoða lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum eins og kveðið var á um við setningu þeirra laga, sbr. bráðabirgðaákvæði I þar sem segir:
"Lög þessi skulu endurskoðuð jafnframt því sem fram fer endurskoðun skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978, ásamt síðari breytingum."
Þessu ákvæði hefur ekki verið fullnægt. Á þeim tíma sem lög nr. 63/1993 voru til afgreiðslu hafði Alþingi og umhverfisnefnd þingsins til meðferðar stjórnarfrumvarp að nýjum skipulags- og byggingarlögum. Þá þegar var tilefni til að hefja frekari vinnu að löggjöf um mat á umhverfisáhrifum, sbr. bráðabirgðaákvæði I. Setning nýrra skipulags- og byggingarlaga dróst hins vegar allt þar til vorið 1997 er sett voru lög nr. 73 frá 28. maí 1997 og þá eða fyrr hefði að réttu átt að vera lokið endurskoðun laga nr. 63/1993. Ítrekað hefur verið minnt á þann drátt sem orðið hefur af hálfu umhverfisráðuneytisins varðandi endurskoðun laganna um mat á umhverfisáhrifum.en- Af hálfu þáverandi umhverfisráðherra var því lýst yfir að frumvarp til endurskoðunar nefndra laga kæmi fram á löggjafarþinginu 1997-98. Þetta brást og hefur frumvarp til nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum enn ekki verið lagt fyrir Alþingi. Þetta er þeim mun óskiljanlegra þar sem frá því 10. desember 1998 hafa legið fyrir drög að slíku frumvarpi samin af stjórnskipaðri nefnd.

Þá hafa stjórnvöld vanrækt að bregðast við breytingum á tilskipun Evrópusambandsins nr. 97/11/EC frá 3. mars 1997, sem bar að tryggja lagastoð að landsrétti fyrir 15. mars 1999 og í allra síðasta lagi fyrir lok ágústmánaðar 1999 að því er umhverfisráðherra greindi frá á Alþingi 20. október 1999.

Með því að vanrækja endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum hafa stjórnvöld skert rétt hagsmunaaðila og einstaklinga á því sviði sem lögin frá 1993 og umrædd tilskipun taka til. Auk réttarskerðingar getur það kallað á bótakröfur, sbr. einnig nýgenginn hæstaréttardóm nr. 236/1999 um ábyrgð ríkisins vegna greiðslu orlofslauna við gjaldþrot.

Kærandi telur rétt að fresta mati á umhverfisáhrifum "480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði" sem og öðrum framkvæmdum sem að réttu þarf að meta, uns Alþingi hefur lokið endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum enda tryggði slík málsmeðferð rétt einstaklinga til að koma á framfæri athugasemdum við lögbær stjórnvöld í samræmi við ný lög og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum.


Í kæru þessari, aðalkröfum og varakröfum, hafa verið reifuð ýmis atriði sem þurfa frekari úrlausnar við. Er þeim hér með vísað til umhverfisráðherra í trausti þess að þau verði gaumgæfð vandlega áður ráðherra kveður upp rökstuddan úrskurð að fengnum umsögnum lögum samkvæmt. Kærandi er að sjálfsögðu reiðubúinn að veita frekari upplýsingar og skýra mál, ef ráðuneytið svo óskar. Jafnframt áskilur kærandi sér allan rétt til að koma að frekari gögnum við meðferð málsins.

Virðingarfyllst
f. h. kæranda
Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim