Hjörleifur Guttormsson
Alþingi

10. desember 1997

 

Til Samvinnunefndar um svæðisskipulag Miðhálendis Íslands
c/o Skipulag ríkisins
Laugavegi 166
105 Reykjavík

 

Efni: Athugasemdir og viðbætur vegna tillögu að svæðisskipulagi fyrir Miðhálendi Íslands til ársins 2015.

 

Hér fara á eftir viðbætur og athugasemdir undirritaðs vegna tillögu Samvinnunefndar um svæðisskipulag Miðhálendis Íslands. Viðbæturnar fela meðal annars í sér tillögur um þjóðgarða á Miðhálendinu þar sem jöklar hálendisins myndi kjarnann.

 

1. Almennt um tillöguna að Miðhálendisskipulagi.

Fyrirliggjandi tillaga er um margt vel unnin og hafa greinargerð og tvenn gagnasöfn að geyma margháttaðan fróðleik sem sumpart hefur ekki verið aðgengilegur. Aðferðafræðin við mótun tillögunnar er athyglisverð sem og tillagan í heild. Tillögugögn bera eðlilega vott um takmarkaðar upplýsingar á mörgum sviðum og jafnframt að þekkingu er afar misskipt eftir einstökum svæðum hálendisins. Svo virðist sem ráðgjafar samvinnunefnda rinnar hafi verið misjafnlega í stakk búnir og út á aðferðafræði sumra þeirra má ýmislegt setja. Þetta á m.a. við um opinberar stofnanir eins og Orkustofnun og Landsvirkjun og Landgræðslu ríkisins.

Þemakort sem fylgja greinargerð eru í of smáum mælikvarða til að auðvelt sé að átta sig á mörkum landslagsheilda og deilisvæða. Er þetta þeim mun bagalegra sem lýsing á landslagsheildum og deilisvæðum, bls. 20-22, er ónákvæm og í sumum tilvikum villandi. Uppdrættir hefðu þurft að vera í stærri kvarða og mörk felld inn á landfræðilega uppdrætti með örnefnum, t.d. í kvarðanum 1 : 250 000. Veldur þetta miklu óhagræði við athugun á gögnunum og hætt er við að umsagnir dragi dám af því.

Texti greinargerðar er á sumum stöðum óljós þannig að erfitt er að ráða í við hvað er átt. Þess utan eru ritvillur alltof margar og í nokkrum tilvikum rangt farið með örnefni. Allvíða ber ekki saman heitum í skipulagsuppdrætti og greinargerð

 

2. Hugmyndafræði óskýr að baki skipulagsins

Í greinargerð og fylgiritum er ekki að finna skýra frásögn af hugmyndalegum forsendum nefndarinnar fyrir skipulagsvinnunni. Er þá einkum haft í huga í hvaða farveg höfundar skipulagsins telji rétt að beina nýtingu og þróun Miðhálendisins. Hugtakið sjálfbær þróun kemur lítið við sögu í skipulagstillögunni en hefði þó þurft að vera leiðarljós í vinnu sem þessari. Ekki kemur fram í gögnum hvort nefndin hafi í upphafi skipulagvinnunnar fjallað um hvaða forsendur þyrfti að uppfylla til að Miðhálendið falli að mælistiku sjálfbærrar þróunar og hvernig beita ætti henni við einstaka þætti skipulagsgerðarinnar. Í þessu efni kann að vera við aðra að sakast en samvinnunefndina.

 

3. Afmörkun landslagsheilda og flokkun tillagna eftir sýslum

Lengi má deila um um landfræðilega afmörkun og svæðisbundna skiptingu við tillögugerð um landnotkun. Æskilegt er að í því efni sé fylgt almennri málnotkun og löghelgaðri skiptingu landsins í svæði. Skipting samkvæmt tillögunni í Norðurhálendi, Norðausturhálendi og Austurhálendi fellur að mati undirritaðs illa að málvenju. Norðurland finnst mér ná að Jökulsá á Fjöllum, Norðausturland þaðan og að Smjörfjöllum-Jökuldalsheiði, eiginlegt Austurland nái yfir Hérað og Ausfirði en Suðausturland frá Lónsheiði að Mýrdalssandi. Mér er ljóst að höfundar leitast við að sameina "heildir" og því var ef til vill nauðsynlegt að víkja eitthvað frá venjubundnum mörkum. Í sumum tilvikum er hér hins vegar of langt gengið og á svig við málvenju. Hver myndi telja Öræfajökul á Austurhálendi og Öskju á Norðausturhálendi fremur en Norðurhálendi?

Þá vekur aðgreining á landnotkun eftir sýslum upp spurningar um stöðu sýslna og gildi sýslumarka. Þar verður ekki lengur byggt á lögum þar eða með nýjum sveitarstjórnarlögum 1986 voru sýslur aflagðar. Mörk milli sýslna byggjast síðan í besta falli á hefð, og umdæmi sýslumanna, sem nú eru kenndir við aðsetursstað, fylgja í nokkrum tilvikum ekki lengur fyrri sýslumörkum. Að ýmsu leyti er svæðaskipting eftir "sýslum" handhæg, þar eð kjördæmi eru helst til stórar einingar í vinnu sem þessari. Draga verður hins vegar í efa réttmæti þess að nota sýsluheitin fyrirvaralaust í gjörð eins og þeirri sem hér um ræðir.

 

4. Verndarheildir og mannvirkjabelti.

Grunnhugmyndir skipulagstillögunnar felast í aðgreiningu lands annars vegar eftir mannvirkjastigi og hins vegar verndargildi. Þannig eiga að verða til stórar samfelldar landslagsheildir og belti, svonefndar verndarheildir og mannvirkjabelti. Meiriháttar mannvirkjagerð á að verða á afmörkuðum beltum en þess utan verði "...teknar frá sem stærstar og samfelldastar verndarheildir þar sem framkvæmdum er haldið í lágmarki. Innan verndarheildanna eru stærstu ósnortnu víðerni Íslands. Almennt séð ber að halda hverskonar mannvirkjagerð á Miðhálendi Íslands í lágmarki og þess í stað að beina henni á jaðarsvæði hálendisins." (bls. 60). Þessi leiðsögn er góðra gjalda verð, en ekki verður sagt að hún endurspeglist skýrt á skipulagsuppdrætti, en staðhæft í texta (bls. 60) að verndarheildir og mannvirkjabeltin séu "...engu að síður leiðbeinandi og stefnumarkandi varðandi alla mannvirkjagerð og afmörkun hvers konar verndarsvæða á hálendinu." Úr þessu yrði bætt með ákvarðandi hætti ef tillaga undirritaðs um þjóðgarða á Miðhálendinu yrði hluti af skipulaginu sbr. tölulið 5 hér á eftir.

Þótt gert sé ráð fyrir að helstu mannvirkjabelti Miðhálendisins liggi norður-suður um Sprengisand og Kjöl eru mörg önnur svæði undirlögð af mannvirkjagerð, þar á meðal "þvertengingar" austur-vestur þar sem eru raflínur og vegir sem ætlaðir eru fyrir almennra umferð. Á sama hátt gerir tillagan ráð fyrir miklum orkuframkvæmdum norðan Vatnajökuls, Kárahnjúkavirkjun og Fljótsdalsvirkjun þótt með fyrirvara sé um þá síðartöldu að því er varðar miðlunarlón á Eyjabökkum.

Einn af veikleikum skipulagstillögunnar er að ekki er tekin afstaða til þess hvaða svæði skuli haldast sem ósnortin víðerni í svipaðri merkingu og "wilderness" samkvæmt bandarískri löggjöf, það er með öllu ósnortin af mannvirkjum. Hættan er sú að við endurskoðun skipulagsins verði smátt og smátt aukið við vegi, skálabyggingar og fleiri mannvirki á "víðernum" og þannig komi stefnumörkunin fyrir lítið. Segir þó réttilega í greinargerð: "Þá hafa óröskuð víðerni mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu í landinu í framtíðinni." (bls. 61).

Ekki eru dregin skýr eða rökræn mörk að séð verður milli "náttúruverndarsvæða" og "verndarsvæða" sem til samans eru taldir "...landmestu landnotkunarflokkarnir". Verndarsvæðin eru sögð fela í sér alhliða verndargildi og þar verði í ríkari mæli uppbygging á ferðaþjónustu og vegagerð henni tengdri en á náttúruverndarsvæðum. (bls. 61). Í flokki verndarsvæða eru sagðir allir stærstu jöklar landsins. Athygli vekur að flestum jöklum Miðhálendisins er skipt upp ýmist í náttúruverndarsvæði eða verndarsvæði. Þannig virðist t.d. meirihluti Vatnajökuls eiga að teljast verndarsvæði. Um náttúruverndarsvæðin er sagt mikilvægt að setja ákveðnar reglur, "...í ákveðnum tilvikum sérlög, sem setja skorður varðandi hverskonar mannvirkjagerð, umferð og umgengni, jafnt sumar sem vetur." Allt er þetta á sínum stað, en nauðsynlegt er skerpa hér skilning og tryggja rökrænt innra samhengi í svæðisskipulaginu.

 

5. Þjóðgarðar á Miðhálendinu með jöklana sem kjarna.

Undirritaður leyfir sér að leggja til að svæðisskipulag Miðhálendisins verði gerð skýrara og markvissara með því að komið verði þar upp þjóðgörðum sem verði burðarásinn í náttúruverndarvæðum á hálendinu. Jöklarnir (Vatnajökull, Tungnafellsjökull, Hofsjökull, Langjökull, Eiríksjökull, og Mýrdalsjökull að meðtöldum Eyjabakkajökli) myndi þar eins konar kjarna sem ríkislendur (almenningar) og þeim tengist síðan náttúruverndarsvæði og verndarsvæði svipað og fram kemur í skipulagstillögunni. Haldið yrði mannvirkjabeltum um Sprengisand og Kjöl eins og tillagan gerir ráð fyrir. Þjóðgarðssvæðin væru þannig að vísu aðgreind en eftir sem áður yrði til geysivíðlendur "Miðhálendisþjóðgarður" og honum tengdust núverandi friðlönd (samkvæmt náttúruverndarlögum) og framtíðar verndarsvæði sem lögð yrðu til hans. Stjórnun þjóðgarðanna yrði á hendi Náttúruverndar ríkisins í samvinnu við ýmsa hlutaðeigandi og þannig mætti tryggja samfellu í stjórnun og eftirliti. Hér verður samhengis vegna dregin upp mynd af þessum þjóðgörðum Miðhálendisins.

 

5.1 Vatnajökulsþjóðgarður.

Hann tæki yfir Vatnajökul ásamt Öræfajökli og skriðjöklum. Þjóðgarðurinn í Skaftafelli yrði hluti af honum og Esjufjöll sem þegar eru friðlýst. Einnig með samkomulagi fjalllendi ofan byggðar milli skriðjökla allt austur í Lón. Þar tekur við Friðland á Lónsöræfum og kragi norðvestur með jökli til Snæfells og Vesturöræfa. Um síðastnefnda svæðið hefur um skeið legið fyrir fullmótuð tillaga að friðlýsingu. Kringilsárrani er friðland að náttúruverndarlögum, og þaðan teygja sig samkvæmt skipulagstillögunni til vesturs samfelld verndarsvæði allt til Vonarskarðs og Tungnafellsjökuls . Verndarsvæðin við vestanverðan Vatnajökul allt til Eldborgaraða (Lakagíga) ættu að verða hluti þjóðgarðsins sem og fjallendið inn af Núpsstað. Þannig yrði til einn stærsti þjóðgarður Evrópu með jökulinn og nær samfelldan kraga af stórbrotnu landi umhverfis. Honum gæti tengst til norðurs Ódáðahraun samkvæmt sérlögum um Mývatn og Laxá.

 

5.2 Hofsjökulsþjóðgarður.

Við Hofsjökul bætast m.a. Þjórsársver og samkvæmt skipulagstillögunni belti vestan Þjórsár allt niður í Þjórsárdal. Einnig tengjast honum Kerlingarfjöll og nálæg svæði svo og verndarsvæði austan Hofsjökuls um Háumýrar, meðfram Miklafelli og norður fyrir jökulinn að Laugafelli eða vestur að Tvífelli (Ingólfsskála).

 

5.3 Langjökulsþjóðgarður.

Langjökull verði kjarninn og umhverfis hann skapast samfellt verndarsvæði samkvæmt skipulagstillögunni með Jarlhettum, Hvítárvatni, Hrútfelli og Þjófadölum norður um Hveravelli. Eiríksjökull og Flosaskarð sem og Geitland, Kaldidalur, Ok og Þórisjökull tengjast þessum stóra þjóðgarði. Til suðvesturs kemur síðan aðliggjandi Þjóðgarðurinn á Þingvöllum og til norðvesturs Arnarvatnsheiði sem votlendisfriðland.

 

5.4 Mýrdalsjökulsþjóðgarður og Friðland að Fjallabaki.

Mýrdalsjökull og Eyjafjallajökull ættu að mynda uppistöðu þessa þjóðgarðs með Þórsmörk norðvestan undir og Emstrur og Mælifellssand norður af. Samkvæmt skipulagstillögunni er með réttu sýnt samfellt náttúruverndarsvæði norður að Torfajökli þar sem við tekur Friðland að Fjallabaki. Tekið er einnig undir þá stefnu samvinnunefndar að færa verndarsvæði út um Tindfjallajökul og Heklu og til norðausturs yfir Veiðivötn, Grænafjallgarð og Eldgjá. Hins vegar er gerð alvarleg athugasemd við að undanskilja Langasjó með aðliggjandi fjöllum og setja fram þá hugmynd að Skaftá verði veitt inn í Langasjó og þaðan miðlað vatni til Tungnár. Tengja ætti Vatnajökulsþjóðgarð og Mýrdalsjökulsþjóðgarð með samfelldu verndarsvæði frá Síðumannaafrétti norðvestur um Langasjó og áfram norðvestan Tungnár um Heljargjá og Veiðivatnahraun. Sprungureinar út frá megineldstöðvum undir Vatnajökli og Mýrdalsjökli ná saman á þessu svæði og hvergi í heimi er slíka reglu að finna í goshryggjum frá ísöld og gossprungum frá nútíma og einmitt á þessu svæði.

Sú stefna að gera jökla miðhálendisins og aðliggjandi verndarsvæði að þjóðgörðum fellur mjög vel að meginhugmyndum fyrirliggandi skipulagstillagna. Með því fæst skýr heildarstefna og meiri samfella en ella í skipulagið. Staða verndunar á hálendinu styrkist til muna og gildi Miðhálendisins vex í augum þjóðarinnar og þeirra sem um það ferðast. Með friðlýsingum sem þeim er hér um ræðir mun Ísland verða í fremstu röð þjóða í náttúruvernd. Með framkvæmd þessara hugmynda tækju náttúruverndarsvæði lauslega áætlað til um fjórðungs landsins.

 

6. Inngangur

Landslagsheildir - lýsing á afmörkun (bls. 21-22)

Nr. 3.1 Trölladyngja. Hér hefði mátt geta um Dyngjuháls.

- 3.7 Efrafjall (Grjót).- Möðrudalur og Fjallgarðar eru kunnuglegri heiti. Kolleyrudalur heitir en ekki Kollseyradalur.

- 5.5 Lónsöræfi-Þrándarjökull (Austfjarðafjallgarður). Um er að ræða syðsta hluta Austfjarðafjallgarðs.

- 5.6 Suðursveitarfjöll (Hálendið SA Vatnajökuls). Þetta er hæpin nafngift þar eð Suðursveitarfjöll eru innan Suðursveitar (Borgarhafnarhrepps). Lambatungnajökull heitir skriðjökullinn en ekki Lambatungujökull.

- 5.7 Öræfi. Hálendið milli Skeiðarárjökuls og Breiðamerkurjökuls.

- 6.1 Björninn-Eystrafjall er aðeins umlukið jökli á tvo vegu.

- 6.3 Lakagígir (Eldborgaraðir) - Núpahraun. Svæðið liggur austan við Skaftá og sunnan Síðujökuls. [Hjá heimamönnum eru áttatilvísanir vissulega aðrar en landfræðilegar áttir].

- 9.3 Vatnajökull, vesturhluti (Dyngjufjöll-Síðujökull). Ekki er rétt að blanda Dyngjufjöllum í málið, og líklega er átt við Dyngjujökul.

 

7. Uppdrættir - Þemakort

Þemakort 4. Gróður- og jarðvegsrof, ástandslýsing.

Vart er hægt að telja svæði sem liggja ofan 800-900 m hæðar, þ.e. ofan náttúrulegra marka fyrir samfelldan gróður, rofsvæði, t.d. Dyngjuháls og Kverkfjallarana. Ekki heldur svæði sem jökulvötn flæmast um eins og Jökulsá á Fjöllum norðan Dyngjujökuls.

 

Kort 9. Landslag; fjölbreytni í formum, litum og landsgerðum.

Erfitt er að henda reiður á forsendum einkunna eins og til dæmis fyrir 9.3 (vestanverður Vatnajökull) landslag sagt "fábreytt og venjulegt" og 5.3 sem er svæði sem virðist taka til Snæfells og Þjófahnjúka.

 

Kort 13 Gróðurminjar o.s.frv.

Mér er til efs að þessi flokkun segi hálfa sögu. Trúlega er þarna lagt mikið upp úr . Gróðurþekju og fjölda tegunda. Einkunnin "frekar lítið gildi" er vart við hæfi í reitum 5.3 til og með 5.6. Og hvað um 3.1 ("lítið sem ekkert gildi") miðað við landfræðilegar aðstæður?

 

Kort 20. Náttúrufarsgildi o.s.frv.

Hér er um mikilvæga einkunnagjöf að ræða en kannski nokkuð erfitt um vik að fá fram vitrænt heildarmat á hvert svæði miðað við gefnar forsendur. Undirritaður fellir sig hins vegar illa við að sjá sunnanverðan Vatnajökul (9.5) og fjalllendi suður og austur af jöklinum (t.d. 5.5 og 5.7) ekki fá einkunnina A. Fráleitari er þó niðurstaðan á svæði 6.1 sem m.a. tekur til Lómagnúps og Núpsstaðarskóga sem fá einkunnina C: "Miðlungs fjölbreytni í náttúrufari, strjálar og/eða fábreyttar minjar". Þá er ég ekki heldur sáttur við D-einkunn fyrir Hraun (svæði 5.4), sem er að mörgu leyti einstætt svæði. Hvers á síðan svæði 6.6 m.a. með Hágöngum og umhverfi að gjalda (einkunn D). Af ýmsu má ráða að landslag og jarðfræði vega ekki þungt í einkunnagjöf fyrir Náttúrufarsgildi".

 

Kort 22. Takmarkanir á beitarnotum.

Hvað þýðir fyrirsögnin "Takmarkanir á beitarnotum"? Er þetta stefnuyfirlýsing Rala og Landgræðslu? Forsendur flokkunar eru harla óljósar, sbr. bls. 52. Hvað ræður því t.d. að 5.4 og 5.5 (Hraun og Lónsöræfi) fá B-einkunn en ekki C, sú síðartalda gefur Hornafirði, Suðursveit og Öræfum?

 

Kort 23. Hagsmunaárekstrar orkuvinnslu og náttúruverndar.

Undirritaður gerir þunga athugasemd við einkunn D fyrir svæði 6.4 (svæði milli Skaftár og Tungnár m.a. með Langasjó) að því er varðar verndarhagsmuni. Fór samvinnunefndin að Langasjó? Sama á við um 9.3 (vestanverður Vatnajökull) sem ætti að fá einkunn A og raunar einnig 9.4. Þá leyfir undirritaður sér að efast um B-flokkun á svæði 6.1 að því er varðar "mikla orkuvinnslumöguleika". Einnig einkunn C á 5.4 (Hraun) að því er varðar "litla eða enga verndarhagsmuni".

 

8. Stefnumörkun

 

2. 5 Þjóðminjar.

Lagt er til að Hvannalindir verði teknar inn á skrá yfir "...sérstakar verndar- og kynningaráætlanir um menningarminjar..." (bls. 63).

 

2. 7 Orkuvinnsla.

Undirritaður efast um að rétt sé að skipta skipulagstímabilinu til 2015 í tvennt, fyrri og síðari hluta. Gerð er tillaga um að felld verði út af listanum í "Fyrirhuguð orkuvinnslusvæði" (bls.65) og af skipulagsuppdrætti nr. 4. Efri Þjórsá: Norðlingaölduveita, nr. 5. Jökulsá í Fljótsdal; "Fljótsdalsvirkjun 1" og af lista yfir "Hugsanleg orkuvinnslusvæði" (bls. 66) nr. 4. Skaftárveita 1. Gerð er krafa um að allar virkjanir, þótt heimilaðar hafi verið áður en lög voru sett um mat á umhverfisáhrifum, falli undir ákvæði þeirra laga. Vakin er athygli á því sem stendur við 10.3.2.2. Orkuvinnsla - Fljótsdalsvirkjun á bls. 131: "Fyrirvari um lónastærðir á Eyjabakkasvæðinu. Gildi Eyjabakkasvæðisins vegna sérstæðs gróðurfars, dýralífs, landslags o.fl. er svo mikið að ástæða er til að endurskoða tilhögun virkjunar skv. gildandi lögum. Svæðið hefur einnig mikið gildi fyrir ferðaþjónustuna. Gert er ráð fyrir að skoðaðir verði til hlítar möguleikar á að virkja saman Jökulsá á Brú (Kárahnjúkavirkjun) og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti að Kárahnjúkalón geti nýst sem miðlun fyrir bæði vatnasviðin." - Til að Kárahnjúkalón (Hálslón) "...geti nýst sem miðlun fyrir bæði vatnasviðin" þarf að taka vatn frá Jökulsá í Fljótsdal neðan við Eyjabakkafoss og leiða vestur eftir. Eyjabakkasvæðið sjálft er svo flatt að stífla á ráðgerðum stað og teljandi miðlun ofan hennar myndi setja svæðið að mestu undir vatn.

Frá því að heimildir voru veittar um virkjun Jökulsár í Fljótsdal hafa viðhorf til virkjunarinnar og landnotkunar á svæðinu breyst mikið, ekki síst á Austurlandi. Mönnum er nú ljósara en áður gildi svæðisins til útivistar og ferðaþjónustu. Óumdeilt er að það svæði sem færi undir miðlunarlón á Eyjabökkum er náttúrufarslega mjög verðmætt og myndar með Snæfelli landslagslega heild sem virkjun myndi raska. Eigi að velja á milli Fljótsdalsvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar í Jökulsá á Dal er mat undirritaðs að velja ætti þá síðarnefndu. Kárahnjúkavirkjun fylgir vissulega tilfinnanleg röskun af miðlunarlóni og ekki er hægt að fallast á að Hafrahvammagljúfur (Dimmugljúfur) verði skert að marki.

Sérstök ástæða er til að benda á fokhættu frá miðlunarlónum sem tengjast jökulám og af framburði sem dælt yrði upp úr þeim. Alltof lítið hefur verið gert úr þeim þætti og ósvarað er spurningum um viðkomandi mannvirki og umhverfisáhrif eftir að lónstæði hafa fyllst af framburði.

Ekki er að mati undirritaðs réttlætanlegt að heimila Norðlingaölduveitu vegna áhrifa miðlunarlóns á Þjórsárver. Þar má enga áhættu taka. Með Skaftárveitu væri vatn flutt milli vatnasviða en það á ekki að koma til álita. Veitan byggir einnig á þeirri hugmynd að nýta Langasjó sem miðlunarlón. Þessu svæði ber að halda óröskuðu af mannvirkjagerð og gera það að hluta af Vatnajökulsþjóðgarði.

2.8.2 Vetrarumferð

Tekið er undir að setja þurfi reglur um vetrarumferð og akstur á snjó á hálendinu. Í því sambandi þarf að marka stefnu um umferðarleiðir og hvar heimila skuli vélknúða vetrarumferð. Meta þarf alla áhrifaþætti slíkrar umferðar áður reglur eru settar, m.a. mengun, truflun, hávaða og ímynd. Tryggja verður rannsóknir á áhrifum hálendisumferðar sumar sem vetur og eftirlit með að settum reglum sé framfylgt.

 

2.8.4 Reiðleiðir

Ekki er nóg að merkja reiðleiðir. Meta þarf á hvaða leiðum forsvaranlegt er af umhverfisástæðum að fara með hesta og áhrif af álagi mikillar umferðar hestamanna. "Ferja verður fóður á flesta áningarstaði á hálendinu..." (bls. 67). Þetta ætti að vera regla án undantekningar.

 

2.8.5 Gönguleiðir

Í texta bls. 68 stendur: "Gönguleiðir þurfa að vera í góðu vegasambandi og tengir net aðalgönguleiða saman þjónustustaði ferðamanna." Líklega er hér átt við upphaf og lok leiðar, en orðalagið er tvírætt.

 

2.13 Framkvæmd skipulagsáætlunar

Brýnt er að ganga þannig frá málum um framkvæmd, endurskoðun og eftirlit með svæðisskipulagi Miðhálendisins að þær ákvarðanir sem í skipulaginu felast raskist ekki og gætt sé fyllsta samræmis af hálfu þeirra sem með stjórnsýslu og skipulag skulu fara lögum samkvæmt. Miðað við núverandi lagaramma verður stjórnsýslan í höndum sveitarfélaga sem í hlut eiga á Miðhálendinu en ekki á hendi eins stjórnsýsluaðila. Þeim mun brýnna er að tryggja samráð og samræmd tök hlutaðeigandi sveitarfélaga og að við endurskoðun svæðisskipulagsins komi þau öll að máli. Virðist ástæða til að gera breytingu á skipulagslögum til að tryggja slík málstök betur en nú er, m.a. að samvinnunefnd komi ætíð að máli og landsmenn allir eigi umsagnarrétt ef um breytingar á svæðisskipulagi er að ræða.

 

Einstök svæði

Hér á eftir verða gefnar ábendingar og gerðar athugasemdir um einstök svæði. Þar eð undirritaður er kunnugastur á landinu austanverðu hef ég valið að fjalla hér á eftir eingöngu um þann hluta landsins.

 

9. Suður-Þingeyjasýsla

9.1.4 Þjóðminjasvæði

Á skipulagsuppdrætti er sýndur rauður depill, "merkar fornminjar" vestan undir Bárðarbungu. Undirrituðum er ekki ljóst til hvers er þarna vísað og sér ekki að þessu séu gerð skil í greinargerð. Er þetta steinbyrgið "Á Dyngjuhálsi" skammt frá Gæsahnjúk? Það hefur þá villst af leið.

 

9.4 Samgöngur

9.4.2.5 Fyrirhugaður vegur með Fljótsdalslínu.

Andmælt er þeirri stefnu tillögunnar að línuvegur með Fljótsdalslínu yfir Ódáðahraun flokkist sem fjallvegur. Þennan veg á ekki að hafa opinn fyrir almenna umferð. Um rökstuðning vísast m.a. til álitsgerðar nefndar sem um þessa línuleið fjallaði fyrir umhverfisráðuneytið árin 1993-94. Þessi athugasemd varðar einnig ökuleið merkta Dyngjufjalladalur (bls. 123).

 

9.5.4 Fjallasel og 9.6 Byggingarmál

Athuga þarf stöðu nýs skála við Gæsavötn, reistur í stað (?) Baldursbúðar haustið 1997.

 

10. Norður-Múlasýsla

10.0 Megindrættir í landnotkun.

"Upp úr landinu stendur Snæfell, kulnuð megineldstöð." - Undirritaður þekkir fáa jarðfræðinga sem staðhæft hafi að Snæfell sé að fullu kulnuð eldstöð. Svo virðist sem þar hafi verið eldvirkni síðla á síðasta jökulskeiði eða undir lok þess. "Nyrst í sýslunni liggur byggðalína yfir öræfin." - Það er ekki rétt ef á annað borð er verið að miða við mörk fyrrum sýslu. Norðurmörk hennar voru um Helkunduheiði og Fossdal norðan Gunnólfsvíkurfjalls.

 

10.1.4 Þjóðminjasvæði - Miðstöðvar gangnamanna (bls. 130).

* Bergkvíslarkofi telst vart "í Múlanum", heldur er hann innarlega þar sem Ytri-Bergkvísl fellur niður á austanverða Eyjabakka.

* Laugakofi norðan undir Laugafelli. Afrétturinn kallast "Undir Fellum".

* Hálskofi austan undir Snæfelli.

* Sauða(?)kofi á Vesturöræfum.

 

"Fjallskarðskofi" á að vera Fjallaskarðskofi.

 

10.4.4 Flugbrautir.

Telst ekki merktur "flugvöllur" (Sauðafellsflugvöllur) norðanvestan undir Sauðafelli skammt norðan Snæfells vera "óskráður flugvöllur"?

 

10.4.6 Gönguleiðir

2. "Milli Jökuldals og Fljótsdals eru gamlar kirkjugötur m.a. umhverfi Snæfell og um Vesturöræfi." Hvað er hér átt við?

 

10. 5.1 Ferðamál - Jaðarmiðstöðvar

Möðrudalur er sagður vera í um 440 m hæð yfir sjó. Er þetta ný mæling? Venjulega er gefin upp talan 469 m hæð y.s.

 

10.5.3 Skálar

Hér vantar skála Jöklarannsóknafélags Íslands í um 1800 m hæð á Kverkfjöllum vestari skammt frá Hveradal.

 

10.5.4 Fjallasel

2. "Fjallaskarðakofi" á að vera Fjallaskarðskofi.

3. "Hálskofi, Fljótsdalshr. Lítill gangnamannakofi úr torfi, stendur austan við Snæfell." Þetta er málum blandið. Núverandi kofi, reistur 1975, er úr timbri og með bárujárni, en við hlið hans er eldri kofi úr torfi og grjóti, til skamms tíma nýttur sem hesthús.

 

11. Suður-Múlasýsla

11.1.4 Samgönguminjar: "Úr Berufirði í Skriðdal um Berufjarðarskarð, Axarvegur (SM-215:003)" Þetta er ekki Axarvegur, heldur mun átt við gömlu póstleiðina úr Berufirði um Berufjarðarskarð, innsta hluta Breiðdals og yfir Breiðdalsheiði.

 

11.1.1 Náttúruverndarsvæði

Lagt er til að Þrándarjökull verði hluti af náttúruverndarsvæði en ekki aðeins flokkaður sem verndarsvæði.

 

11.4.5 Reiðleiðir

Væri ekki rétt að nefna reiðleið "um Sviðinhornahraun" norðvestan Hamarsdals, þó ekki væri nema vegna frásagnar Njálu um ferð Flosa.

 

11.5.4 Fjallasel

Rétt væri að nefna gamlan gangnmannaskála Vallamanna á Gilsárdalsafrétt norðan Hornbrynju, þótt hann liggi aðeins utan við markalínu.

 

11.6.1 Önnur mannvirki

Klappás, ekki Klappá innst á Fossárdal. Stendur norðan í Víðidalshæðum við Fossá. Eign Eyjólfsstaða-bænda. Reistur til að auðvelda smalamennsku.

Þrándarás norðan Hamarsár. Hús á vegum Orkustofnunar. "Innribót í Geithellnadal. Hús í eigu Landsvirkjunar." Hvoru tveggja er rangt. Húsið stendur við Vatn á Hraunum inn af Geithellnadal (Innri-Bót) í um 800 m hæð, norðan ár. Það er á vegum Orkustofnunar.

 

12. Austur-Skaftafellssýsla

12.1.4 Þjóðminjasvæði - Búsetuminjar.

Valskógsnes, ekki Valaskógsnes.

Miðstöðvar gangnamanna:

Kollumúladalur er ekki notað sem örnefni svo mér sé kunnugt. Átt mun vera við gangnamannakofann í Nesi (Stórahnausnesi) vestan undir Kollumúla. Hann hefur verið notaður fram undir þetta. Fast þar hjá er Múlaskáli Ferðafélagsins. Einnig er rúst af gangnamannaskýli norðan undir Illakambi.

 

12.4.2 Fjallvegir

Skaftafellsvegur er í Hofshreppi, ekki Bæjarhreppi.

 

12.4.6 Gönguleiðir

Tæpast er hægt að tala um "hefðbundna leið" frá Lónsöræfum í Snæfell.. Aðeins eru um 15 ár síðan ferðafólk byrjaði að ganga þessa leið eftir að skáli við Geldingafell var reistur.

Leiðir í Skaftafelli eru fyrst og fremst gönguleiðir innan þjóðgarðsins. Tæpast er skynsamlegt að beina fólki frá Skaftfelli yfir Skeiðarárjökul að Grænalóni. Þangað er best að ganga úr Núpsstaðarskógum.

 

12.6.1 Önnur mannvirki

Goðahnjúkaskáli ekki Goðahnjúkshús. Í eigu Jöklarannsóknafélags Íslands. Esjufjöll. Skáli Jöklarannsóknafélags Íslands. Er í Borgarhafnarhreppi að best ég veit.

 

13. Vestur-Skaftafellssýsla

Æskilegt hefði verið að hálendisskipulag hefði tekið til fjalllendis jarða í Fljótshverfi austan Hverfisfljóts. Ljóst er að ekki er þar talið um eiginlega afrétt að ræða, en tæpast er eðlilsmunur á fjalllendi jarða á þessum slóðum og t.d. fjalllendis milli skriðjökla í Austur-Skaftafellssýslu. Vegna þessa falla úr skipulaginu svæði hið næsta Vatnajökli og við austanverðan Síðujöklul, þar á meðal Grænalón og Núpsstaðarskógar, sem brýnt er að koma undir verndarskipulag.

 

13.1.4 Þjóðminjasvæði - Búsetuminjar

Þarna sýnist vanta Eintúnaháls.

 

13.2.1 Landgræðslusvæði

"Aurar Skaftár frá Tröllhamri og með Fögrufjöllum (austan Langasjávar), Skaftárhr. Gert er ráð fyrir landgræðsluaðgerðum til að hefta gróðureyðingu vegna aurburðar til suðurs yfir Lakagíga, gróðurlendi og byggð. Veita stærstu flóðakvísl Skaftár í Langasjó er öðrum þræði landgræðsluaðgerð. Aurinn botnfellur og komið er í veg fyrir að verulegur hluti hans berist niður ána."

 

Hér eru á ferðinni afar hæpnar ráðagerðir og verið er að styðja við hugmyndir Landsvirkjunar um Skaftárveitu (sjá athugasemd framar og hér á eftir). Þótt vissulega flæmist Skaftá úr farvegi þar efra í hlaupum hefur ekki verið sýnt fram á að um stórfellda gróðureyðingu sé að ræða, hvað þá að Lakagígum sem jarðmyndunum stafi hætta af.

 

13.3.3 Hugsanleg orkuvinnslusvæði

Mótmælt er öllum hugmyndum um Skaftárveitu 1 um Langasjó til Tungnár. Umhverfi Langasjávar á að lýsa náttúruverndarsvæði og gera það að hluta í Vatnajökulsþjóðgarði.

 

Hverjum dettur í hug þrepavirkjun í Skaftá á því eldvirka svæði? Svipuðu máli gegnir um Hverfisfljót.

 

13.4.5 Reiðleiðir

Blágil er fleirtöluorð - Bjágiljum.

 

Lokið 10. desember 1997

 

Hjörleifur Guttormsson

311035-6659

 

 


Til baka | | Næsta grein