Fréttatilkynning frá NAUST – Náttúruverndarsamtökum Austurlands

 

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST) var haldinn í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs við Snæfell sunnudaginn 27. ágúst sl., við nokkuð óvenjulegar aðstæður. Undir miðnætti á föstudag, hafði Einar Rafn Haraldsson, formaður samtakanna “Afl fyrir Austurland”, afhent Höllu Eiríksdóttur, formanni NAUST, lista með 59 nöfnum manna sem óskuðu inngöngu í félagið og höfðu þegar greitt tilskilið félagsgjald inn á reikning þess.

Stjórn NAUST taldi ekki annað fært en að fallast á þessar inngöngubeiðnir, þó að aðferðin gæti orkað tvímælis, því að samtökin eru öllum opin, sem “vinna vilja að markmiðum samtakanna”, eins og segir í lögum þeirra.

Á aðalfundinum kom þó í ljós að hér lá fiskur undir steini. Þessir nýju félagar fjölmenntu á fundinn, og voru þar í miklum meiri hluta.

Stjórn félagsins hafði undirbúið  nokkrar tillögur til ályktunar um stóriðju- og virkjunarmál, sem lagðar voru fram á fundinum. Þær voru sumar felldar og öðrum breytt. Einar Rafn Haraldsson og Eiríkur Ólafsson, talsmenn Afls fyrir Austurland, báru hins vegar fram nokkrar tillögur um þessi mál, sem voru samþykktar sem ályktanir fundarins. Ályktanir stjórnar um önnur efni voru þó samþykktar.

Stjórninni er nokkur vandi á höndum vegna þessa upphlaups, sem er næsta fátítt í félagsmálasögu þjóðarinnar, og brýtur í bága við almennar siðferðisreglur og félagafrelsi. Ef þessari aðferð væri almennt beitt, væri allt félagsmálastarf úr sögunni og lýðræðið í hættu.

Stjórnin hefur því ákveðið að senda frá sér tillögur sínar um ályktanir í stóriðju- og virkjunarmálum óbreyttar, auk hinna sem samþykktar voru á fundinum. Geta lesendur þá borið þær saman, og séð hvað á milli ber.

Samkvæmt lögum félagsins er stjórn þess kosin á þriggja ára fresti, og var núverandi stjórn kosin á síðasta aðalfundi (1999). Um kosningu nýrrar stjórnar var því ekki að ræða á þessum fundi. Ekki má heldur breyta lögum félagsins nema á sama aðalfundi og stjórnarkosning fer fram. Hins vegar fer aðalfundur með æðsta vald í málum samtakanna, svo sem venja er í félögum.

Náttúruverndarsamtök Austurlands voru stofnuð á Egilsstöðum 13. september 1970 og eiga því 30 ára afmæli um þessar mundir. Forgöngumaður að stofnun þeirra var Hjörleifur Guttormsson, síðar alþingismaður og ráðherra. Samsvarandi félög voru stofnuð um líkt leyti í öðrum landshlutum, en ekkert þeirra hefur starfað samfleytt í þrjá áratugi eins og NAUST.

Samtökin hafa ávallt komið fram af hófsemi og festu, og forðast allar öfgar, enda hefur verið mark á þeim tekið. Það mun ekki breytast þó að þau hafi nú verið látin kenna “aflsmunar”. Stjórn samtakanna vonar að hinir nýju félagar sjái sóma sinn í því að starfa samkvæmt lögum félagsins og vinna að yfirlýstum markmiðum þess, eða segja sig úr þeim ella.

Stjórn NAUST er nú þannig skipuð: Halla Eiríksdóttir, Egilsstöðum (fomaður), Helgi Hallgrímsson, Egilsstöðum (varaformaður), Þóra B. Guðmundsdóttir, Seyðisfirði (gjaldkeri), Halldór W. Stefánsson, Egilsstöðum (ritari) og Ingólfur Arason, Vopnafirði (meðstjórnandi).

Egilsstöðum 29. ágúst 2000. – Stjórn NAUST.