Tillögur stjórnar um ályktanir aðalfundar NAUST 2000

 

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Austurlands, haldinn í Snæfellsskála 27. sept. 2000 ályktar eftirfarandi:

 

I. Stóriðju og virkjunarmál

1. Áfangasigur

Aðalfundur NAUST fagnar þeirri ákvörðun stjórnvalda að hverfa frá því að virkja Jökulsá í Fljótsdal með miðlunarlóni á Eyjabökkum, og telur að þar með hafi sjónarmið náttúruverndar hlotið mikilvæga viðurkenningu. Sú fjöldahreyfing sem skapaðist gegn þeirri aðferð sem stjórnvöld og virkjunaraðili hugðust beita var einsdæmi í sögu þjóðarinnar. Fundurinn þakkar öllum sem gengu fram fyrir skjöldu í því máli, og vonar að þarmeð hafi framtíð Eyjabakka verið tryggð.

Enn er þó vá fyrir dyrum á Austurlandi. Í stað Fljótsdalsvirkjunar er nú áætluð margfalt stærri virkjun á öræfum Austurlands, með tilheyrandi risaálveri í Reyðarfirði. Aldrei hafa verið áformuð svo víðtæk inngrip í náttúru landsins.

Samtökin beina þeim tilmælum til allra landsmanna að taka höndum saman til varnar náttúru Fljótsdalshéraðs og hálendisins upp af því. Framtíð Austurlands og Íslands alls er í húfi.

 

2. Kárahnjúkavirkjun hin nýja

Landsvirkun áætlar nú að virkja Jökulsá á Dal, með stíflum við Kárahnjúka og um 60 ferkm. miðlunarlóni  í efsta hluta Jökuldals. Þangað er áætlað að veita Jökulsá í Fljótsdal, að viðbættu vatni frá Hraunum og Snæfelli, og skella svo öllu ofan í Lagarfljót. Stefnt er að virkjun í Fljótsdal með allt að 750 MW afli og um 5-6 þúsund GWst ársframleiðslu, sem er álíka mikið og öll raforkuframleiðsla á Íslandi nú.

Ef þessi áætlun kemst til framkvæmda mun hún snerta allt náttúrufar Fljótsdalshéraðs frá jöklum til strandar. Athafnasvæðið verður hálendi Austurlands, frá Brúaröræfum að vestan til Hrauna að austan, eða 1500-2000 ferkm. svæði. Við Héraðsflóa getur auk þess um 300 ferkm. svæði orðið fyrir breytingum, og í flóanum geta orðið breytingar á lífsskilyrðum.

Bæði stóru vatnsföllin á Héraði, Jökulsá á Dal og Lagarfljót, munu gjörbreytast. Jökla verður lítil bergvatnsá að jafnaði, en rennsli í Lagarfljóti tvöfaldast, og þarf að dýpka farveg þess utantil. Vatnsmagn stórminnkar í flestum ám í Fljótsdal og fossar þeirra verða aðeins svipur hjá sjón.

Eftir þessar framkvæmdir verður náttúrufar Fljótsdalshéraðs gjörbreytt og aðrir möguleikar til náttúrunýtingar munu rýrna stórlega. Breytingarnar eru að miklum hluta óafturkræfar.

Náttúruverndarsamtök Austurlands hafa frá upphafi lýst andstöðu við svo stórfellda vatnaflutninga sem hér eru áætlaðir og vísa til fyrri ályktana um það efni.

Aðalfundur NAUST vill þó ekki útiloka einhverja virkjun eða virkjanir í Jökulsá á Dal, með því skilyrði að vatnið falli aftur í farveg hennar. Aðveitu Jökulsár í Fljótsdal og Hraunaveitu telur fundurinn mjög orka tvímælis, og aðveitur smáánna frá Snæfelli ekki koma til greina.

 

3. Umhverfismat

Unnið er að umhverfismati Kárahnjúkavirkjunar, sem skylt er skv. lögum, en til rannsókna vegna þess var aðeins ætlað sumarið 2000. Stefnt er að því að auglýsa matsskýrslu í mars 2001, ljúka matinu snemma árs 2002, taka ákvörðun um virkjun í framhaldi af því, og hefja framkvæmdir sumarið 2002. Fyrstu niðurstöður “Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma” eru ekki væntanlegar fyrr en síðla árs 2002, eða eftir að framkvæmdir eiga að hefjast.

Fundurinn telur að þetta sé allt of knappur tímarammi, og lýsir furðu sinni á því, að ýmsar opinberar stofnanir hafa fallist á þessa áætlun og vinna eftir henni, jafnvel þótt reglugerð á grundvelli nýrra laga um umhverfismat hafi enn ekki séð dagsins ljós.

Fundurinn krefst þess að aðrir möguleikar til nýtingar og verndar hálendi Austurlands verði skoðaðir og metnir samhliða umhverfismati því sem nú fer fram, og bendir í því sambandi á fyrri tillögur samtakanna um friðlýsingu Snæfellsöræfa og þjóðgarðsstofnun á því svæði.

 

4. Álver í Reyðarfirði

Fyrirtækið Reyðarál stefnir nú að byggingu álvers í Reyðarfirði með 420 þúsund tonna ársframleiðslu, og tilheyrandi rafskautaverksmiðju. Jafnvel er gert ráð fyrir stækkun í 560 þúsund tonn síðar. Fyrirhugað er að ljúka rannsóknum vegna umhverfismats verksmiðjunnar í sumar, og leggja matsskýrslu fram í janúar 2001.

Aðalfundur NAUST 2000 ítrekar ályktun aðalfundar 1999 varðandi þetta mál, þar sem varað er eindregið við byggingu risaálvers í Reyðarfirði. Fundurinn bendir á að fyrirhugað álver er langt yfir þeirri stærð sem líklegt er að hið tiltölulega lokaða umhverfi fjarðarins þoli að skaðlausu. Með tilkomu þess mun losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi aukast um 30-40 %, sem er langt yfir þann kvóta sem Íslandi var úthlutaður í Kyoto. Ljóst er að áætluð stærð verksmiðjunnar er eingöngu miðuð við hagkvæmni framleiðslunnar, en ekkert tillit tekið til annara þátta.

Fundurinn telur vafasamt að fram hafi farið nægilegar rannsóknir á veðurfari, sjávarlífi og hafstraumum í Reyðarfirði, til að hægt sé að gera raunhæfa spá um dreifingu mengunarefna í lofti eða sjó, og að núverandi tímamörk slíkra rannsókna séu allt of naum. Einnig vantar hlutlausa rannsókn á félagslegum áhrifum slíks risaiðjuvers.

 

5. Raflínur

Aðalfundur NAUST 2000 vekur athygli á þeirri miklu og tilfinnanlegu sjónmengun, sem hljótast mun af lagningu tveggja 400 kV háspennulína frá fyrirhuguðu orkuveri í Fljótsdal til Reyðarfjarðar, samkvæmt áformum Landsvirkjunar. Landslagi Fljótsdals, Skriðdals og Reyðarfjarðar yrði þannig spillt um langa framtíð. Fundurinn tekur undir fram komnar kröfur um að þessi áform verði sett í frekara mat, og engar bindandi ákvarðanir verði teknar fyrr en niðurstaða er fengin um virkjanir og stóriðju á Austurlandi.

 

 

II. Önnur mál

 

6. Snæfellsþjóðgarður

Aðalfundur NAUST 2000, ítrekar fyrri tillögur um friðlýsingu Snæfellsöræfa í formi þjóðgarðs, er taki a.m.k. yfir afréttarsvæðin á milli Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal, sem nú teljast eign hins opinbera eða Valþjófsstaðakirkju.

Fundurinn skorar á umhverfisráðherra og Náttúruvernd Ríkisins að láta nú þegar kanna möguleika á slíkri friðlýsingu, og hvaða áhrif hún geti haft á umhverfi og atvinnulíf austanlands.

 

7. El Grillo

Aðalfundur NAUST 2000 undrast það sleifarlag sem einkennir málsmeðferð stjórnvalda við að koma í veg fyrir mengun frá flaki olíuskipsins El Grillo í Seyðisfirði. Fundurinn ítrekar fyrri samþykktir félagsins um þetta mál, og krefst aðgerða sem útiloki til frambúðar mengunarhættu frá flakinu.

 

8. Utanvegaakstur

Aðalfundur NAUST 2000 telur að utanvegaakstur á hálendi Austurlands sé viðvarandi vandamál, sem afar brýnt sé að taka á. Hluti vandans tengist veiðum, einkum á Snæfellsöræfum, Fljótsdalsheiði og Múla. Veiðimenn þurfa að eiga kost á nákvæmu korti, er sýni alla vegi og slóðir, sem heimilt er að fara um.

Fundurinn beinir þeim tilmælum til Náttúruverndar ríkisins og Vegagerðarinnar, að vinna hið fyrsta að lausn þessa máls í samráði við heimamenn.

Fundurinn fagnar því að ráðnir voru tveir landverðir á vegum Náttúruverndar ríkisins við Snæfell og Kárahnjúka í sumar og hvetur til að svo verði framvegis.

 

9. Fjárveitingar

Aðalfundur NAUST 2000 skorar á alþingi og ríkisstjórn að margfalda á næstunni fjárveitingar til umhverfis- og náttúruverndar. Hvarvetna blasa við óleyst verkefni á því sviði, og ný löggjöf um náttúruvernd er lítils virði ef ekki fæst fé til að fylgja fram ákvæðum hennar. Í því sambandi telur fundurinn eðlilegt að fé og verkefnum verði í auknum mæli beint til náttúrustofa landshlutanna, sem m.a. er ætlað það hlutverk að annast náttúruverndarmál.

 

10. Náttúruverndarfélög

Aðalfundur NAUST 2000 fagnar þeim aukna áhuga fyrir verndun náttúrinnar, sem átt hefur sér stað hérlendis, og birst hefur m.a. í stofnun nýrra félaga á höfuðborgarsvæðinu og endurlífgun á náttúruverndarfélögum landshlutanna. Ekki síst er það fagnaðarefni að Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) hafa verið endurreist, og væntir fundurinn þess að gott samstarf geti tekist við það félag um verndun á hálendi Norðausturlands. Mikilvægt er að tengja náttúruverndarfélögin saman, og koma á fót sameiginlegu fréttabréfi eða tímariti fyrir þau og málstað þeirra.

Samþykkt á stjórnarfundi á Eg., 24. ágúst.