Hjörleifur Guttormsson:

 

Leiðin frá Ríó - staða Íslands

(Erindi flutt á aðalfundi Landverndar 15. nóvember 1997)

 

Háttvirta samkoma, fulltrúar og gestir.

Sameinuðu þjóðirnar hafa í vaxandi mæli leitast við að fylkja þjóðum heims til umræðu um brennandi vandamál mannkynsins. Ráðstefnan í Stokkhólmi 1972 um umhverfi mannsins var ein fyrsta þeirrar tegundar. Hana sóttu fulltrúar 114 ríkja. Umræðan í aðdraganda hennar og ráðstefnan sjálf lagði grunninn að nýrri hugsun og breyttu stjórnkerfi hjá Sameinuðu þjóðunum. UNEP, Umhverfisskrifstofa Sameinuðu þjóðanna varð til með miðstöð í Kenya svo og Umhverfissjóður til fjármögnunar verkefna og Umhverfissamvinnunefnd.

Til næstu stóru ráðstefnunnar um umhverfismál var boðað þegar nálgaðist 20 ára afmæli Stokkhólmsfundarins. Vandamálin höfðu vaxið á mörgum sviðum og gjáin í kjörum ríkra og fátækra þjóða breikkað. Fundarstaðurinn Ríó de Janeiro var valinn með hið síðara í huga, enda yfirskrift þeirra ráðstefnu Umhverfi og þróun. Um hana var einnig notað heitið "Leiðtogafundur", "Earth summit" þar sem höfðað var til þjóðarleiðtoga; ekki færri en 118 slíkir fyrirmenn sóttu ráðstefnuna og fulltrúar 178 aðildarríkja. Samhliða ríkjaráðstefnunni kom saman í Ríó fjöldi fulltrúa áhugasamtaka á eins konar heimsmóti, Global forum.

Framkvæmdastjórinn sem stýrði undirbúningi ráðstefnunnar var hinn sami og í Stokkhólmi, Kanadamaðurinn Maurice Strong. Í ræðu við upphaf Ríó-ráðstefnunnar sagði hann m.a.:

" Í brennidepli þeirra mála sem við munum fjalla um hér eru: Framleiðsluferli og neysla í iðnvæddum hluta heimsins sem eru að grafa undan burðarásum lífs á jörðinni; sprenging í fólksfjölgun sem bætir við fjórðungi úr milljón daglega; dýpkandi gjá mismununar milli ríkra og fátækra sem skilur 75% mannkyns eftir við kröpp kjör; og efnahagskerfi sem tekur ekkert tillit til vistrænna útjalda eða skemmda - kerfi þar sem litið er á óhefta gróðasöfnun sem framfarir."

Sannleiksgildi þessara orða framkvæmdastjórans voru rækilega staðfest af því sem fyrir augu bar í Ríó, þar sem fátæktarhverfin (favelas) þekja hæðirnar ekki langt frá auðsældinni við Copacabana. Útigangsbörnin höfðu að vísu verið hrakin úr augsýn og sum drepin og lögreglu í aðdraganda ráðstefnunnar. Ungur forseti Brasilíu, Collor de Mellor, sá er setti ráðstefnuna, var hrakinn af valdastóli af andstæðum meirihluta á þingi fyrir magnaða spillingu áður árið var liðið.

Yfir ráðstefnusölum í Ríó ríkti óræð spenna, frumherjaandblær, sem einnig hafði örlað á í Stokkhólmi. Hann endurspeglaðist í mörgum ræðum þjóðarleiðtoga bæði frá hægri og vinstri og þeim sem töluðu úr ópólitísku hásæti eins og Vigdís forseti. Enginn hlaut þó viðlíka athygli og Fidel Castro Kúbuforseti, sem talaði í fjóra og hálfa mínútu af sjö leyfilegum, og uppskar lófatak sem varaði lengur en ræðan. Hér fylgir örstutt tilvitnun í meitlaða ræðu hans:

"Þegar ógnin sem talin var stafa af kommúnismanum og ekki er lengur hægt að bera fyrir sig köld stríð, hernaðarkapphlaup og útgjöld til hermála, hvað er það sem kemur í veg fyrir að þegar í stað sé notað það sama fjármagn til að styðja við þróun í þriðja heiminum og til að bægja frá ógninni af eyðingu vistkerfa jarðarinnar."

Georg Bush sem sat í sama sal var þar í erfiðara hlutverki, þar sem hann mælti gegn mörgum helstu málum á dagskrá ráðstefnunnar, fremst af öllu samningnum til varnar loftslagsbreytingum.

Afrakstur Ríó-ráðstefnunnar

Vel var vandað til undirbúnings Ríó-ráðstefnunnar og flest ríki skiluðu skýrslum til undirbúningsnefndar hennar, þar sem fjallað var um aðstæður í hverju landi og viðhorf til sjálfbærrar þróunar. Það hugtak var mótað af Bruntland-nefndinni sem skilaði af sér þegar á árinu 1987 með ritinu Sameiginleg framtíð okkar. Nú er þetta sérkennilega og nokkuð teygjanlega hugtak orðið á margra vörum. Hérlendis beitti umhverfisráðuneytið, sem var á þessum tíma að stíga fyrstu skrefin, sér fyrir umræðu um undirbúningsskjöl ráðstefnunnar og var það virðingarverð tilraun. Þótt þátttaka í starfshópum væri ekki mikil, var hér á ferðinni ný nálgun í anda Ríó-ferilsins, þar sem áhersla var lögð á breiða þátttöku almennings og samfellu í málsmeðferð.

Árangur Ríó-ráðstefnunnar var margvíslegur og verður sennilega seint að fullu metinn. Sýnilegur árangur kom m.a. fram í samþykktum ráðstefnunnar, sameiginlegri yfirlýsingu, framkvæmdaáætlun og tveimur alþjóðasáttmálum sem undirbúnir voru fyrir ráðstefnuna. Allir þessir þættir mynda þann grundvöll sem síðan hefur verið starfað á. Verða hér rifjuð upp nokkur atriði úr samþykktum ráðstefnunnar þessu til staðfestingar.

 

Ríó-yfirlýsingin

Ríó-yfirlýsingin er í 27 liðum og hefur að geyma mörg lykilhugtök í umhverfisumræðunni. Í henni er kveðið á um að allir eigi rétt á að lifa heilbrigðu lífi í sátt við náttúruna. Þjóðríki hafi rétt til að nýta eigin náttúruauðlindir, enda valdi það ekki öðrum skaða. Unhverfisvernd verði að vera óaðskiljanlegur hluti sjálfbærrar þróunar og hagþróun að taka tillit til hennar. Iðnríki gangast við þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir í þeirri alþjóðlegu viðleitni að koma á sjálfbærri þróun, í ljósi þess álags sem þjóðfélög þeirra valda á umhverfi heimsins og þeirrar tækni og fjármagns sem þau hafa yfir að ráða. Er fróðlegt að rifja þetta upp m. a. vegna umræðu um aðgerðir til varnar loftslagsbreytingum af mannavöldum. Í yfirlýsingunni er að finna grundvallarreglur svo sem um greiðsluskyldu þess er mengar, varúðarregluna, upplýsingaskyldu stjórnvalda og mat á umhverfisáhrifum.

 

Framkvæmdaáætlunin Dagskrá 21

Dagskrá 21 er heiti á framkvæmdaáætlun Ríó-ráðstefnunnar og það er hún sem oftast heyrist nefnd, enda langítarlegasta afurð ráðstefnunnar. Áætlunin er hátt í 500 síður í miðlungsbroti og skiptist í fjóra meginhluta og 40 kafla sem hver er í mörgum undirliðum. Tekur áætlunin til flestra þátta umhverfis- og þróunarmála. Meginhlutarnir eru * efnahags- og félagslegir þættir, * Umhverfis- og auðlindastjórnun, * hlutverk óopinberra hópa í sjálfbærri þróun og * forsendur fyrir framkvæmd áætlunarinnar.

Í síðastnefnda hlutanum er fjallað um fjármál til að hrinda áætluninni í framkvæmd og þá sérstaklega um aðstoð iðnþróaðra ríkja við þróunarríki. Giskað var á að kostnaður við framkvæmd áætlunarinnar til ársins 2000 næmi 125 miljörðum bandaríkjadala. Sá þáttur sem hvað mest var deilt um við gerð áætlunarinnar var þróunaraðstoð. Norðurlöndin önnur en Ísland höfðu lagt til að öll iðnþróuð ríki legðu fram sem svarar 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar. Það fékkst ekki samþykkt með skuldbindandi hætti en þess í stað óskuldbindandi orðalag um að þessu marki skuli náð "svo fljótt sem verða má" til að tryggja framkvæmd Dagskrár 21.

Þetta er í raun veikasti þáttur Dagsrár 21 eins og berlega kom í ljós á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna í júní 1997, þegar farið var yfir stöðuna fimm árum eftir Ríó. Aðeins fjögur ríki hafa náð óskatölunni 0,7%, Danmörk (1,04%), Noregur (0,85%), Holland (0,83%) og Svíþjóð (0,82%). Meðaltal framlaga frá iðnvæddum ríkjum er 0,4%. Á botni eru ríkar þjóðir eins og Japanir (0,2%), Bandaríkin 0,12% og Ísland með rétt um 0,1% árið 1996.

Tveir alþjóðasamningar

Fyrir Ríó-ráðstefnunni lágu fullbúninir til undirritunar tveir alþjóðasamningar, sem um árabil höfðu verið í deiglu. Þetta voru:

* Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni (biodiversity) og

* Samningurinn um loftslagsbreytingar (climate change).

Ísland tók ekki neinn þátt í undirbúningi þessara samninga fyrir ráðstefnuna og sýnir það eitt með öðru veika stöðu og andvaraleysi á þessum tíma.

Yfir 150 ríki undirrituðu samninga þessa á sjálfri ráðstefnunni. Athygli vakti að Bandaríkin undirrituðu ekki samninginn um líffræðilega fjölbreytni á ráðstefnunni og lögðust gegn skuldbindandi markmiðum um losun gróðurhúsalofttegunda í þeim síðartalda.

Báðir þessir samningar hafa verið mikið í sviðsljósinu síðan, eins og nánar verður vikið að hér á eftir. Auk þessara samninga gekk ráðstefnan frá yfirlýsingu um skóga jarðarinnar, en ekki tókst samkomulag um skuldbindandi reglur um nýtingu þeirra. Um þetta efni var áberandi ágreiningur milli iðnríkja og þróunarríkja, en þau síðartöldu vildu hafa sem mest óbundnar hendur um nýtingu skóga.

 

Ávinningar Ríó-ráðstefnunnar

Þótt ráðstefnan í Ríó skilaði líkt og Stokkhólmsráðstefnan 20 árum áður engan veginn því sem forgöngumenn hennar höfðu bundið vonir við, var hún afar merkur atburður. Sú staðreynd að á annað hundruð þjóðarleiðtoga kom á sérstakan fund undir lok ráðstefnunnar talar sínu máli. Flest það sem síðan hefur gerst jákvætt í umhverfismálum á alþjóðavettvangi byggir á ferlinu frá Ríó. Í þeim efnum þar sem ekki náðist samkomulag eða skilið var við málin í þoku hefur hallað undan fæti. Þetta á bæði við um sambúð efnahagsmála og umhverfis og um samskipti þróunarríkja og iðnríkja, "norðurs" og "suðurs".

 

Aukaþing SÞ 1997 um Ríóferlið (UNGASS eða Ríó + 5)

Á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í júní síðastliðnum var í einni viku farið yfir stöðuna fimm árum eftir Ríó-ráðstefnuna. Það var mat flestra þeirra sem þar ræddu málin að neikvæð þróun yfirgnæfði það sem jákvætt getur talist á þeim tíma sem liðinn er.

Skilningur hefur að vísu vaxið víða meðal almennings á þeim mikla vanda sem við mannkyni blasir vegna rányrkju og annars álags á umhverfið. En athafnir fylgja ekki orðum og geta Sameinuðu þjóðanna til að leysa verkefnin hefur minnkað í öfugu hlutfalli við þörfina fyrir samstillt viðbrögð. Vald ríkisstjórna aðildarríkja hefur í miklum mæli færst í hendur fjölþjóðafyrirtækja og annarra fjársterkra aðila, sem hafa stundargróða að leiðarljósi og leita uppi veikleika í alþjóðlegu viðskiptakerfi til að koma ár sinni fyrir borð. Reglur viðskiptalífsins eins og þær birtast í samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO eru ekki sniðnar að umhverfisvernd. Þar er óhindrað vöruflæði æðsta boðorð án teljandi tillits til áhrifa á umhverfið. Svipuðu máli gegnir um stóru viðskiptaheildirnar, Evrópusambandið og NAFTA og viðlíka blokkir. Jafnvel mikilvægar stofnanir Sameinuðu þjóðanna eins og FAO, Matvæla og landbúnaðarstofnunin, hafa fram til þessa tekið lítið tillit til vistfræðilegra sjónarmiða.

Í þróunaraðstoð blasir nánast við gjaldþrot þeirrar stefnu sem reynt var að marka í Ríó. Árið 1992 nam opinber þróunaraðstoð iðnríkja 0,34% af vergri þjóðarframleiðslu. Í stað þess að færast nær 0,7% markinu hefur hún rýnað verulega á síðustu 5 árum og mælist nú aðeins 0,27%. Hefur slík aðstoð ekki verið minni síðan 1983. Í ljósi þessa þarf engan að undra að fulltrúar margra þróunarlanda séu bitrir og fullir tortryggni.

Staðan varðandi alþjóðasamningana sem kenndir eru við Ríó er heldur ekki uppörvandi. Takmarkið í samningnum um loftslagsbreytingar var að iðnríkin stöðvuðu sig af í losun gróðurhúsalofttegunda, færu árið 2000 ekki fram úr losun eins og hún mældist árið 1990. Bandaríkin sem eru ábyrg fyrir um 20% allrar losunar slíkra lofttegunda í heiminum og menga álíka mikið eins og öll þróunarríki samanlagt eru þegar komin 13% fram úr 1990-viðmiðuninni og stefna hraðfara upp á við. Svipaða sögu er að segja um okkur Íslendinga, þótt ólíku sé saman að jafna að magni til. Eftir lítilsháttar samdrátt fram til 1995 stefnum við í 16% aukingu árið 2000, aðallega vegna iðnaðarferla í stóriðju en einnig vegna aukningar í samgöngum og fiskveiðum.

Nú er unnið að því á vegum aðila samningsins um loftslagsbreytingar að styrkja ákvæði hans og ná saman um lagalega skuldbindandi mörk um samdrátt á komandi árum. Sú umræða er nú í brennidepli hér á landi.

Erfiðara er að leggja tölulegt mat á stöðuna um framkvæmd samningsins um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Á því sviði hallar þó verulega undan fæti, og liggja fyrir ágiskanir um að allt að 100 þúsund tegundir lífvera hafi horfið af sjónarsviðinu frá því að hátíðarræðurnar voru haldnar í Ríó fyrir fimm árum. Auk beinnar útrýmingar tegunda hafa menn ört vaxandi áhyggjur af afleiðingu tegundaflutnings milli svæða og landa. Á því sviði erum við Íslendingar stórtækir með ótæpilegum flutningi framandi tegunda til landsins án þess nokkrar reglur hafi verið settar. Þar ganga opinberar stofnanir á undan og skeyta oft á tíðum hvorki um skömm né heiður. Hlutur stjórnvalda, ráðuneyta og meirihluta fulltrúa á Alþingi, er hins vegar enn lakari, því að þar ætti að leggja grunninn að stefnumótun og setja leikreglur.

 

Kynningin á Ríó-ferlinu og úrvinnsla á Íslandi

Umræða hér á landi um samþykktir Ríó-ráðstefnunnar sem og úrvinnsla stjórnvalda hefur verið dauflegri og kraftminni en annars staðar á Norðurlöndum. Umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar snerist einna helst um það hvort halda ætti ráðstefnuna í Ríó vegna morða á götubörnum þar í borg og síðan um það hverjir ogn hversu margir sæktu ráðstefnuna fyrir Íslands hönd og hvað sú sólund öll kostaði þjóðina.

Íslenskir þátttakendur í ráðstefnunni gerðu sitt til að kynna niðurstöður ráðstefnunnar, alþjóðastofnun Háskóla Íslands hélt fund um hana og Gunnar G. Schram prófessor gaf út yfirlitsrit. Umhverfisráðuneytið gaf í árslok 1992 út yfirlitsskýrslu um ráðstefnuna. (glæra)

Markviss úrvinnsla á efni og leiðsögn ráðstefnunnar gekk hins vegar afar hægt. Dagskrá 21, framkvæmdaáætlunin frá Ríó, hefur mér vitanlega enn ekki verið þýdd á íslensku og er þannig ekki aðgengileg almenningi í heild. Um svipað leyti var hins vegar tugum milljóna varið í þýðingu og útgáfu á reglufrumskógi Evrópusambandsins, líklega á um 20 þúsund blaðsíðum. Heilu bálkarnir úr Dagskrá 21 gleymdust hérlendis, m.a. bálkur nr. 3 um hlutverk almennings, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Í Svíþjóð áttu öll sveitarfélög samkvæmt ákvörðun þings og ríkisstjórnar að hafa lokið áætlanagerð um sjálfbæra þróun fyrir lok síðasta árs, svo dæmi sé tekið. Hér er sú vinna rétt að byrja hjá einstaka sveitarfélagi og Alþingi dregur enn við sig að álykta til stuðnings því bráðnauðsynlega starfi.

Hér er ekki hugmyndin að mála myndina dekkri en hún er. Sjálfsagt má sitthvað bera fram til skýringa og málsbóta. Ekki er sanngjarnt að bera okkur saman við tugmilljóna þjóðir. Umhverfisráðuneyti komst ekki á laggirnar fyrr en 1990 og þá halaklippt, þar eð mikilvægum málaflokkum sem þar eiga heima var haldið eftir í öðrum ráðuneytum. Þar á ég m.a. við það sem snýr að rannsóknum og meðferð náttúruauðlinda til lands og sjávar. Gróðurvernd að meðtalinni jarðvegsvernd var skilin eftir undir landbúnaðarráðuneytinu, sem greinilega er vanbúið til stefnumótunar á þessu sviði. Umhverfisráðuneytið hefur ekki verið byggt upp í neinu samræmi við þarfir og helstu stofnanir þess eru í fjárhagssvelti, ekki síst Hollustuvernd og Náttúruvernd ríkisins.

Ríkisstjórnin sem sat 1991-1995 megnaði ekki í reynd að lyfta merki í umhverfismálum í anda Ríó-ráðstefnunnar. Ekki skorti þó fögur orð og fyrirheit. Í mars 1993 gaf umhverfisráðuneytið (Eiður Guðnason) út skýrsluna "Á leið til sjálfbærrar þróunar - Stefna og framkvæmdir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í umhverfismálum". Þar er margt vel sagt og efst á blaði sem markmið er þetta:

"34 Markmið ríkisstjórnarinnar er að Ísland verði um næstu aldamót hreinasta land hins vestræna heims og ímynd hreinleika og sjálfbærrar þróunar tengist allri atvinnustarfsemi í landinu. Stefna hennar er að verndun lífríkis landsins og umhverfi þess verði haft að leiðarljósi í þróun atvinnuvega jafnt sem á sviði umhverfismála."

Um staðbundna loftmengun og gróðurhúsaáhrif: "Stefnt er að því að staðbundin loftmengun og gróðurhúsaáhrif vegna innlendrar neyslu verði ekki meiri við lok aldarinnar en var á árinu 1990." Draga á úr olíunotkun fiskiskipaflotans og bensín og olíunotkun samgöngutækja og vinnuvéla o.s.frv.

Takið eftir orðalaginu "vegna innlendrar neyslu". Þarna er þegar á kreiki sú hugsun að undanskilja losun gróðurhúsalofttegunda frá orkufrekum iðnaði í samhengi alþjóðasamningsins um loftslagsbreytingar. Sú stefna var síðar sett fram tæpitungulaust í nóvember 1995 í framkvæmdaáætlun næstu ríkisstjórnar um loftslagssamninginn. Stóriðjan skal undanskilin!

Staðan ganvart samningnum um loftslagsbreytingar er nú sú að því er Ísland varðar, sbr. nýlega skýrslu umhverfisráðherra til Alþingis, að heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda hérlendis muni aukast um 16% til ársins 2000 (miðað við 1990 sem grunn), um 26% til ársins 2010 og 35% til ársins 2020, ef ekki verður gripið til aðgerða. Þá er ekki gert ráð fyrir neinni stóriðju til viðbótar því sem samið hefur verið um.

Hvað íslenska ríkisstjórnin er að fara í þessu máli málanna er afar erfitt að átta sig á, sbr. ummæli forsætisráðherra 12. nóvember sl. (Mbl. 13. nóvember 1997) og mótsagnakenndar yfirlýsingar einstakra ráðherra. Viðræður um 720 þúsund tonna álbræðslu sem nú eru hafnar segja kannski allt sem segja þarf um stefnu ríkisstjórnarinnar, en slík fabrikka myndi auka losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi um nálægt 1,5 milljón tonn á ári og bæta heilum þriðjungi við það sem nú stendur á reikningi Íslands.

 

Hóparnir sjö og framkvæmdaáætlun sríkisstjórnar

Í september 1993 skipaði þáverandi umhverfisráðherra sjö starfshópa til að vinna að mótun framkvæmdaáætlunar til næstu aldamóta, og skyldu hóparnir hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Sérstakir hópar fjölluðu þannig um landbúnað, sjávarútveg, iðnþróun og orkumál, ferða- og samgöngumál, myndun úrgangs, sorphirðu og spilliefni, byggðaþróun og umhverfisfræðslu. Alls störfuðu í hópunum 124 einstaklingar og var formennska fyrir þeim mörgum frá öðrum ráðuneytum en ráðuneyti umhverfismála. Hugsunin að baki þessari vinnu var um margt góðra gjalda verð. Hóparnir skiluðu áliti á árunum 1994 og 1995. Í stað þess að fljótt yrði unnið úr áliti hópanna og þau gerð aðgengileg almenningi, sat umhverfisráðuneytið á þeim í hartnær tvö ár. Í árslok 1995 var settur niður vinnuhópur sem gera skyldi drög að framkvæmdaáætlun fyrir ríkisstjórnina og átti hann að byggja á skýrslum hópanna sjö. Umhverfisráðherra lagði svo niðurstöðu þessa vinnuhóps fram á Umhverfisþingi, því fyrsta sinnar tegundar, í nóvember 1996. Þótt margt jákvætt væri í þeim drögum að framkvæmdaáætlun sem þar lágu fyrir, var afar naumur tími til að fjalla um þau á vettvangi umhverfisþings. Ráðherra tók síðan afurðir þingsins heim með sér, lagði það í breyttu formi fyrir ríkisstjórn til samþykktar í febrúar 1997 og síðan var það gefið út af umhverfisráðuneytinu í júní 1997 undir heitinu "Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáætlun til aldamóta."

Þannig höfum við loks í höndum, fimm árum eftir Ríó-ráðstefnuna, framkvæmdaáætlun sem ætti að endurspegla stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar til þeirra verkefna sem dregin eru upp í Dagskrá 21. Um þessa áætlun má vissulega segja betra seint en aldrei, en jafnframt er viðurkennt af ráðherra að áætlunin sé fjarri því að vera tæmandi listi um fyrirhugaðar framkvæmdir í umhverfismálum á næstu árum. Benda má á að enginn starfshópanna fjallaði um alþjóðlegt samstarf í umhverfismálum og um þau efni er í besta falli að finna smá brot í framkvæmdaáætluninni.

Augljósustu veikleikar í allri meðferð íslenskra stjórnvalda á Ríó-ferlinu er að hugmyndagrunninn, meginstefnuna vantar, að minnsta kosti hefur ekki verið gerð grein fyrir henni á viðhlítandi hátt. Þátttaka almennings, áhugasamtaka um umhverfismál og náttúruvernd, hefur verið afar takmörkuð og lítið verið gert af hálfu stjórnvalda til að örva hana. Hér á landi ríkir allt annað og neikvæðara viðhorf til slíkrar lýðræðislegrar þátttöku almennings en í nágrannalöndum, og þarf ekki að fjölyrða um það á þessum vettvangi.

 

Brotalamir

Brotalamirnar í stjórnun og stefnumótun í umhverfismálum hér á landi eru margar, og búum við Íslendingar vissulega ekki einir að slíkum brestum.

Auk þess sem hér hefur verið að vikið og tengist Ríó-ferlinu og veikri stöðu umhverfismála í stjórnkerfi okkar, vil ég nefna einn málaflokk af mörgum sem þörf væri að ræða. Það eru skipulagsmál, landrænt skipulag og hagræn áætlanagerð sem því tengist. Með því er ég ekki að gagnrýna þá opinberu stofnun, nú Skipulagsstofnun, sem fer með yfirstjórn málaflokksins í umboði umhverfisráðherra. Sökin liggur hjá stjórnmálamönnum, á Alþingi, í ríkisstjórnum og í sveitarstjórnum, sem gert hafa þennan undirstöðumálaflokk að þeirra hornreku sem raun ber vitni. Það tók ráðandi aðila fullan áratug að endurskoða skipulagslöggjöfina frá 1964 og það var fyrst sl. vor að því verki var lokið með mikilli og góðri vinnu umhverfisnefndar þingsins. Þetta er þó aðeins grunnurinn til að byggja á og vissulega ekki fullkominn.

Sérstakt skipulag er í mótun fyrir Miðhálendi Íslands. Þar er á ferðinni eitt afdrifaríkasta mál nú um stundir. Margt er vel um fyrirliggjandi skipulagstillögu, þótt að henni megi sitthvað finna. Þeir verða hins vegar margir vargarnir sem vilja sjá hálendisskipulag í allt öðrum og lakari búningi og því ærin ástæða að standa vakt.

 

Orð Jacque Coustous

Ágæta samkoma.

Eitt það eftirminnilegasta í mínum huga eftir ráðstefnuna í Ríó er erindi sem franski líffræðingurinn heimskunni Jacques-Yves Cousteau flutti þar í hliðarsal. Undir lok máls síns sagði hann þetta (lauslega þýtt):

"Hjá þjóðum í suðri, hefur 20. öldin leitt af sér fátækt og hungur, en í norðri og vestri hefur hún skapað ringulreið. Ringulreið milli upplýsingar og menntunar, ánægju og gleði, peninga og siðgæðis, hefðar og nýunga, einstaklingsbundinnar áhættu og áhættu fyrir aðra, jafvel hina óbornu. Háskólar eru orðnir vinnumiðlanir; frjálst framtak er að leiða til hróplegs misréttis; Yfirdrottnun gullkálfsins, hvers lögum við lútum, er að setja lokamark sitt á aflífun alls siðgæðis, sem ekkert samfélag hefur þó hingað til komist af án."

 

Og síðustu orð þessa áttræða öldungs sem skyggnst hafði öðrum betur niður í hafdjúpin voru þessi:

"Ósk mín er að þessi Ríó-ráðstefna, þjóðarleiðtogar og fulltrúar þeirra, átti sig á knýjandi nauðsyn róttækra, óhefðbundinna ákvarðana. Þið hafið sérstakt tækifæri til að breyta gangi heimsins...en aðeins ef þið takið ákvörðun um að mæta hinum risavöxnu vandamálum með róttækum lausnum. Heimsbyggðin býður milli vonar og ótta eftir nýju ljósi. Slík er ábyrgð okkar, því að það erum við sem höfum í hendi okkar framtíð hinna kröfuhörðu kynslóða morgundagsins."

 

Góðir tilheyrendur. Hvar er ljósið? Okkar er að leita þess og bera það fram.

 

 


Til baka | | Næsta grein