Til skipulagsstjóra ríkisins
Skipulagsstofnun Laugavegi 166
105 Reykjavík
Efni: Athugasemdir vegna mats á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna
álvers í Reyðarfirði - frumathugunar - sbr. auglýsingu frá skipulagsstjóra
15. október 1999.
Undirritaður leyfir sér hér með að gera eftirfarandi athugasemdir
við málið með ósk um að vandlega verði yfir þær farið við mat á vegum
skipulagsstjóra. Til glöggvunar læt ég hér fylgja yfirlit um helstu
efnisþætti athugasemda minna.
Efnisyfirlit:
1. Eignarhaldsfélagið Hraun ehf ekki réttur framkvæmdaaðili
2. Lagastoð brostin fyrir mati
3. Virkjanir, raflínur og verksmiðja fylgist að í
mati
4. Tillaga að starfsleyfi liggi fyrir samtímis mati
á umhverfisáhrifum
5. Stærð verksmiðjunnar og áhrif á þjóðarbúskap
6. Skammsýn ráðstöfun náttúruauðlinda
7. Losun gróðurhúsalofttegunda
8. Staðarval og náttúrufarslegar aðstæður
9. Mið-Austurland, vinnuafl og félagsleg áhrif
10. Staðsetning í Reyðarfirði, veðurfarsathuganir
og loftdreifingarspá
11. Náttúruvá, snjóflóð, aurskriður og hafís
12. Losun mengandi efna og úrgangs frá verksmiðjunni
12.1 Starfsleyfistillögur
ekki fyrirliggjandi
12.2 Viðmiðanir
um mengunarmörk
12.3 Flúor-mengun
12.4 Brennisteinsdíoxíð-mengun
(SO2)
12.5 PAH- og
díoxín-mengun
12.6 Þungmálmar
og snefilefni
12.7 Kerbrot
12.8 Hávaðamengun
12.9 Sjónmengun
og áhrif á útivistarsvæði
13. Neikvæð áhrif á ímynd Austurlands og landsins
alls
14. Ýmis atriði
- Eignarhaldsfélagið Hraun ehf ekki réttur framkvæmdaraðili
Ekki er hægt að fallast á að Eignarhaldsfélagið
Hraun ehf, sem leggur fram frummatsskýrslu sé til þess bært að lögum.
Í skýrslunni - aðalskýrslu, bls 1 - segir: "Eignarhaldsfélagið Hraun
ehf kemur fram fyrir óstofnað hlutafélag um álver við Reyðarfjörð
með aðild HAMP og íslenskra fjárfesta".
Í lögum nr. 63/1993 2. gr. stendur: "Í lögum þessum merkir: Framkvæmdaraðili:
Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að
nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir
sem lög þessi taka til."
Ekkert í frummatsskýrslu bendir til að nefnt félag hyggist hefja
framkvæmdir við álver á Reyðarfirði og ekkert umboð eða beiðni kemur
fram í skýrslunni frá neinum sem talist geti framkvæmdaraðili í
skilningi laganna. Hraun ehf er þannig leppur fyrir einhvern hulduaðila
og getur því ekki talist gilt fyrirtæki sem framkvæmdaraðili í því
samhengi sem hér um ræðir. Því verður að fresta mati á umhverfisáhrifum
að lögum uns marktækur framkvæmdaraðili birtist og leggur fram frummatsskýrslu.
Framhaldið í tilvitnuðum texta leiðir enn frekar í ljós sýndartilvist
Hrauns ehf í þessu samhengi, þar sem félagið felur STAR "að hafa
umsjón með gerð skýrslu þeirrar sem hér liggur fyrir" og verkefnisstjórn
STAR "fól verkfræðihópnum HVH að vinna skýrsluna." Þannig er enginn
marktækur aðili í skilningi laga til staðar til að svara fyrir um
innihald skýrslunnar eða áform raunverulegs framkvæmdaraðila.
- Lagastoð brostin fyrir mati
Gild lagastoð fyrir mati á umhverfisáhrifum
er brostin, almennt séð og einnig í þessu tilviki, þar eð stjórnvöld
hafa vanrækt að láta endurskoða lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum
eins og lögboðið var við setningu laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði
I í nefndum lögum þar sem segir: "Lög þessi skulu endurskoðuð jafnframt
því sem fram fer endurskoðun skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964,
ásamt síðari breytingum, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978,
ásamt síðari breytingum."
Umræddri endurskoðun nefndra laga lauk með setningu skipulags- og
byggingarlaga nr. 73 frá 28. maí 1997. Auk þess hafa stjórnvöld
vanrækt að bregðast við breytingum á tilskipun Evrópusambandsins
nr. 97/11/EC frá 3. mars 1997, sem bar að tryggja lagastoð að landsrétti
í síðasta lagi fyrir 15. mars 1999.
Ástæða er til að ætla að vanræksla umhverfisráðherra að leggja tillögur
að breyttum lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrir Alþingi í tæka
tíð sé af ásetningi vegna þeirrar framkvæmdar sem nú er sett í mat
og virkjana sem henni tengjast. Af þessum ástæðum ber að fresta
auglýstu mati á "480 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði" sem og öðru
mati á framkvæmdum sem undir lög nr. 63/1993 falla uns Alþingi hefur
lokið lögboðinni endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum.
- Virkjanir og raflínur verði metnar með álverksmiðju
Forsenda fyrir byggingu og rekstri 480
þúsund tonna álverksmiðju er að til hennar fáist nægileg raforka
sem samkvæmt frummatsskýrslu nemur 6.640 gígavattstundum á ári,
þar af til ráðgerðs 1. áfanga 1660 gígavattstundum.
Í þessu sambandi má minna á ákvæði laga nr. 63/1993, m.a. 1. grein
þar sem segir: "Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin
er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna, vegna staðsetningar, starfsemi
sem þeim fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð
áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram mat
á umhverfisáhrifum, svo og að tryggja að slíkt mat verði fastur
liður í gerð skipulagsáætlana." Einnig ber sérstaklega að líta til
ákvæða 4., 5. og 7. greinar laganna í þessu samhengi. Framkvæmdaraðila
sem hyggst hefja framkvæmdir við 480 þúsund tonna álver ber lögum
samkvæmt að leggja fram, sem hluta af heildstæðu mati, lýsingu á
öllum framkvæmdum sem varða orkuöflun til slíkrar álverksmiðju,
hvort sem áformað er að byggja hana í einum eða fleiri áföngum og
fá þær metnar með álverksmiðjunni. Þannig ber að leggja fram til
mats í samstæðri heild framkvæmdir við verksmiðju, virkjanir, raflínur
og aðra matsskylda þætti sem tengjast umræddum framkvæmdaáformum.
Með öðrum hætti verður ekki náð markmiðum laganna né heldur unnt
fyrir almenning að gera sér grein fyrir umfangi og áhrifum framkvæmdarinnar
í heild sinni. Rétt er að benda á að vegna álverksmiðjunnar þyrfti
óhjákvæmilega að ráðast í margar virkjanir.
Auk Fljótsdalsvirkjunar er þar Kárahnjúkavirkjun efst á blaði vatnsaflsvirkjana.
Um hana segir Orkustofnun í greinargerð frá 4. nóvember 1999: "Slík
virkjun verður auðvitað ekki reist nema í tengslum við sérstakan
áfanga í orkufrekum iðnaði. Áfanginn yrði að vera stór, eða sem
svarar til álvers með um 240 þús. tonna afkastagetu á ári." Telur
Orkustofnun að Kárahnjúkavirkjun gæti verið komin í gagnið um 2007-2008,
"enda væri ákvörðun um að ráðist [ráðast] í hana tekin þegar á þessum
vetri."
Hvernig getur mönnum dottið í hug að setja í mat 480 þúsund tonna
álver á Reyðarfirði án þess að um leið og sem hluti af heild séu
metnar lögum samkvæmt viðkomandi vatnsaflsvirkjanir. Umrædd 480
þúsund tonna verksmiðja er þannig forsenda umræddra virkjunarframkvæmda
og útfærsla þeirra er nátengd og háð hver annarri, miðlun, virkjun,
afl o.s.frv. Má í þessu sambandi benda á mat á umhverfisáhrifum
Vatnsfellsvirkjunar og upphaflegum tengslum við Norðlingaöldumiðlun.
Það stríðir gegn markmiðum og anda laga um mat á umhverfisáhrifum
að ætla að fjalla einangrað og óháð hvert öðru um framkvæmdaþætti
sem eru jafn samofnir og hér um ræðir. Raflínutenging við aðra landshluta.
Látið er að því liggja í frummatskýrslu að ekki þurfi að koma til
ný tenging með raflínu við raforkukerfi annarra landshluta "í fyrsta
áfanga". Ekkert er í skýrslunni frekar um það efni fjallað með tilliti
til síðari áfanga verksmiðjunnar. Ljóst er þó af umfjöllun Orkustofnunar
frá 4. nóvember 1999 [fylgiskjal II með tillögu til þingsályktunar
um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun, 186. mál á 125. löggjafarþingi]
að lagning öflugrar raflínu milli Suðurlands og Austurlands er áfram
á dagskrá og þá frekar tvær en ein. Um þetta segir Orkustofnun (bls.46):
"Allt um það er kostnaður við þessar línur þvílíkur að ekki er skynsamlegt
að leggja í þau útgjöld vegna umrædds álvers eingöngu. Þess verður
þó að geta að aukin raforkuvinnsla og raforkunotkun austanlands
kallar fyrr eða síðar á öfluga tengingu við meginvirkjunarsvæðin
sunnanlands."
Þessi þáttur þarf að sjálfsögðu nánari athugunar við, en fullyrt
hefur verið af ráðherrum núverandi ríkisstjórnar að með staðsetningu
álverksmiðjunnar eystra megi komast hjá slíkri kostnaðarsamri tengingu.
Athyglisvert er ef hugmyndin er að fría eigendur álverksmiðju eystra
kostnaði af slíkri tengingu, sem þó er samkvæmt ofansögðu talin
nauðsynleg.
- Tillaga að starfsleyfi liggi fyrir samtímis mati
á umhverfisáhrifum
Tillaga að starfsleyfi fyrir umrædda 480
þúsund tonna álbræðslu og sem byggist á ákvæðum laga nr. 7/1998
um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur enn ekki komið fram og
verið auglýst. Er þó ljóst að ákvæði starfsleyfis varða miklu um
umhverfisáhrif umræddrar verksmiðju.
Þótt í frummatsskýrslu sé fjallað almennt um losun og dreifingu
efna o.fl. frá rekstri hennar er það starfsleyfið sem bindur rekstaraðila
og kveður á um eftirlit og vöktun. Því er eðlilegt að gera kröfu
um að tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna sé auglýst samhliða
matsferli á umhverfisáhrifum. Á meðan tillögur að starfsleyfi liggja
ekki fyrir frá Hollustuvernd er rétt að fresta mati á umhverfisáhrifum
álverksmiðjunnar eða að öðrum kosti að lengja frest til athugasemda
þannig að mönnum gefist kostur á að kynna sér formlegar tillögur
að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna og geti lagt mat á þær jafnhliða
frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum.
- Stærð verksmiðjunnar og áhrif á þjóðarbúskap
480 þúsund tonna álverksmiðja tekur fullbyggð
til sín álíka mikið af raforku og nú er framleidd á öllu landinu,
þ.e. til stóriðju og almennra nota samanlagt. Hér er um að ræða
risastórt fyrirtæki, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Álverksmiðjur
af þessari stærð mun ekki vera að finna í Vestur-Evrópu. Þær tvær
álverksmiðjur sem fyrir eru í landinu hafa framleiðslugetu sem nemur
samanlagt 250 þúsund tonnum á ári (160 + 90) og sé miðað við að
þær nýti heimildir samkvæmt starfsleyfum yrði samanlögð framleiðsla
þeirra 380 þúsund tonn á ári (200 + 180).
Telja verður óráðlegt fyrir Íslendinga að verja meiri orku en nú
er gert til hefðbundins orkufreks iðnaðar, hvað þá að binda meiri
orku en orðið er í áliðnaði og leggja með því fleiri egg í sömu
körfu. Þegar 480 þúsund tonna álverksmiðja væri fullbyggð og komin
í rekstur lætur nærri að 80% af rafmagnsframleiðslu í landinu sé
bundin sölu til stóriðju, að langmestu leyti til áliðnaðar.
Verð á hrááli tekur á sig miklar sveiflur sem kunnugt er og þær
munu hafa víðtæk áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Orkuverð til áliðnaðar
er nú þegar tengt markaðsverði á hrááli og gert er ráð fyrir framhaldi
á slíkri verðtengingu í viðskiptum við þessa verksmiðju. - Með aukningu
á áliðnaði og slíkum viðskiptum með raforku er ekki verið að auka
fjölbreytni í íslensku atvinnulífi en hinsvegar ýtt undir stórauknar
sveiflur í þjóðarbúskapnum.
Ekkert er að finna um raforkuverð til verksmiðjunnar í þjóðhagsútreikningum
með frummatsskýrslunni. Ef að líkum lætur verður það mjög lágt.
Meðalverð raforkusölu Landsvirkjunar til stóriðju á árinu 1998 var
aðeins 88 aurar en til almenningsveitna 286 aurar á sama tíma. Útreikningar
Þjóðhagsstofnunar (fskj. A13) á þjóðhagslegum áhrifum tveggja áfanga
álverksmiðjunnar (120 + 240 þús. t) af þremur verða að teljast mjög
ótraustir og raunar viðurkennt af stofnuninni að mat hennar sé háð
ýmsum forsendum sem mikil óvissa ríki um.
Ekki er þar lagt neitt mat á hagnað eða tap af orkusölu og ekki
tekið neitt tillit til kostnaðar vegna umhverfisáhrifa. Á meðan
það er ekki gert, að meðtalinni umhverfisröskun vegna viðkomandi
raforkumannvirkja, liggur ekki fyrir hlutlægt og heildstætt mat
á meintum ávinningi eða fórnarkostnaði af framkvæmdunum.
Þau dæmi sem Þjóðhagsstofnun birtir eru þeim mun ótraustari sem
líkönin sem notuð eru hvíla á veikum grunni. Gert er ráð fyrir að
aðrar forsendur en þær sem varða umrædda stóriðju haldist óbreyttar
og segir Þjóðhagsstofnun þá aðferð í flestum tilvikum vera stóriðjudæmunum
í hag. Einnig segir um líkanið sem notað er að það sé einungis gert
til að spá nokkur ár fram í tímann, en ekki til þess árafjölda sem
útreikningunum er ætlað að taka til. Því megi búast við að margföldunaráhrifin
séu í raun minni en fram kemur í niðurstöðum. Þjóðhagsstofnun reiknar
með að framleiðsluþættir séu að jafnaði fullnýttir á þeim tíma sem
athugunin tekur til án þess að til stóriðjuframkvæmda komi. Því
sé óvíst að líkanútreikningar stofnunarinnar spái nægjanlega vel
fyrir um áhrif framkvæmdanna á þróun verðlags og raungengis.
Þjóðhagsstofnun hefur varað við miklum hagvexti, en hann stefni
langt yfir jafnvægisvöxt á framkvæmdatíma, jafnvel í 7% á ári, sem
leitt geti til óstöðugleika í efnahagslífi, meiri verðbólgu en ella
og áhrifa á gengi krónunnar. Á þessum neikvæðu efnahagsþáttum er
ekki tekið í frummatsskýrslunni en einhliða leitast við að gylla
jákvæð þjóðhagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna.
Um áhrifin af starfrækslu verksmiðjunnar á losun gróðurhúsalofttegunda
er lítillega fjallað í umsögn Þjóðhagsstofnunar og kemur fram að
ekki er reiknað með neinum kostnaði af kaupum á losunarkvóta til
verksmiðjunnar. Að þeim þætti er nánar vikið undir tölulið 7.
Á heildina litið verður að telja að í frummatsskýrslu og fylgiskjölum
með henni sé allsendis ófullnægjandi grein gerð fyrir líklegum þjóðhagslegum
áhrifum og afleiðingum fyrirhugaðra framkvæmda við álverksmiðju
á Reyðarfirði, þar á meðal áhrifum á margar þjóðhagsstærðir og einstaka
þætti í efnahags- og atvinnulífi landsmanna.
- Skammsýn ráðstöfun náttúruauðlinda
Markmið með mati á umhverfisáhrifum er
meðal annars að meta líkleg áhrif framkvæmda á náttúruauðlindir
og bera fyrirhugaðar framkvæmdir saman við aðra þróunarkosti og
landnýtingu, þar á meðal við að ekki verði í framkvæmdina ráðist
(0-lausn).
Helstu orkulindir Íslendinga eru takmarkaðar. Talið hefur verið
að fjárhagslega geti verið hagkvæmt að virkja og framleiða sem svarar
um 30 000 gígavattstundum (30 teravattstundir) af raforku úr vatnsafli
og um 20 000 gvst með virkjun jarðvarma eða samtals um 50 000 gvst
(50 teravattstundir). Frá þessum tölum er skynsamlegt að draga sem
svarar að minnsta kosti helming, þ.e. um 25 000 gígavattstundir,
vegna tillits til umhverfisverndar og hlífðar við náttúru landsins.
Nú þegar eru framleiddar um 6500 gígavattstundir sem samkvæmt framansögðu
væri fjórðungur af því sem gæti verið til ráðstöfunar í heild. Tölur
um framleidda orku eiga eftir að hækka í um 9000 gígavattstundir
á næstu fáum árum vegna þegar gerðra skuldbindinga um orkusölu til
stóriðju (ÍSAL, Norðurál og Íslenska járnblendifélagið). Miðað við
ofangreindar forsendur standa þá eftir um 16 000 gígavattstundir
(25 000 - 9 000 = 16 000 gvst).
Orkuspárnefnd gerir ráð fyrir 2% vexti almennrar raforkunotkunar
hérlendis fram til 2050 en það svarar til viðbót sem nemur um 5500
gígavattstundum frá aldamótum talið. Eftir standa þá aðeins 10 500
gígavattstundir, sem nægir tæpast til að framleiða vetni eða annað
vistvænt eldsneyti sem komið geti í stað innflutts jarðefnaeldsneytis
miðað við núverandi notkun olíuafurða. Mun ekki veita af talsverðri
beislun vinds að auki til raforkuframleiðslu til að ná því markmiði
að gera vetnissamfélag hérlendis að veruleika á komandi öld [sbr.
minnisblað frá Orkustofnun (Eldsneytisnotkun Íslendinga 1996) sem
fylgdi þingsályktunartillögu um sjálfbæra orkustefnu, 13. mál á
125. löggjafarþingi].
Af þessu sést hversu andstætt það væri sjálfbærri orkustefnu að
ráðstafa meiri orku til hefðbundinnar stóriðju en þegar er orðið,
hvað þá skammti upp á 6 700 gígavattstundir, sem þyrfti handa 480
þúsund tonna álverksmiðju. Til skammsýnnar notkunar náttúruauðlinda
verður einnig í mörgum tilvikum að telja ráðstöfun lands undir miðlunarlón
og raforkumannvirki, sem setja vaxandi mark sitt á lítt snortin
svæði á hálendinu. Ekki síst á það við um fyrirhugaðar virkjanir
norðan Vatnajökuls í þágu þeirrar álverksmiðju sem hér um ræðir.
Fyrir Alþingi liggur tillaga til þingsályktunar um Snæfellsþjóðgarð
( 11. mál á 125. löggjafarþingi) sem tæki m.a. til Eyjabakkasvæðisins
og Jökulsár í Fljótsdal að mörkum heimalanda. Slík landnýting sýnist
langtum ráðlegri en nýting svæðisins undir virkjun og hlýtur að
eiga að koma til álita í sambandi við mat á umhverfisáhrifum álverksmiðjunnar
og orkumannvirkja sem fyrirhuguð eru í hennar þágu.
Þá ber og að taka tillit til þess skýra fyrirvara sem samvinnunefnd
um skipulag miðhálendisins gerði um stærð miðlunarlóns á Eyjabökkum
við lokaafgreiðslu á skipulagstillögu sinni í desember 1998. Í greinargerð
nefndarinnar, sem einhugur var um, segir m.a. um Fljótsdalsvirkjun:
"Nefndin telur að eðlilegt sé að endurmeta 15 ára gömul áform með
tilliti til breyttra forsendna, m.a. nýrrar tækni og breyttra viðhorfa
til umhverfismála."
- Losun gróðurhúsalofttegunda
Ekki verður séð af frummatsskýrslunni
að skráðir ábyrgðarmenn hennar og höfundar hafi miklar áhyggjur
af losun gróðurhúsalofttegunda frá verksmiðjunni.. Engin sértæk
umfjöllun er um það mál þótt losun slíkra lofttegunda sér langstærsti
einstaki mengunarvaldurinn frá rekstri verksmiðjunnar.
Í samantekt frummatsskýrslu segir þetta eitt: "Við rafgreininguna
losnar CO2 við bruna á kolaskautum og súrefni í súrálinu. Staðbundin
umhverfisáhrif vegna CO2 eru engin en losun CO2 fyrir landið eykst."!
(bls. 22).
Í töflu 7.1 á bls. 23 kemur fram að árlegur útblástur CO2 [annars
staðar í skýrslunni kemur fram að um CO2-ígildi er að ræða. HG]
frá 480 þúsund tonna verksmiðju yrði 853.200 tonn, þar af frá 1.
áfanga 213.300 tonn á ári. Sem mótvægisaðgerð er nefnd "Aukin skógrækt"
án þess að nokkuð sé frekar um þann þátt fjallað í skýrslunni. Í
því samhengi má geta þess að ríkisstjórn Íslands ákvað á árinu 1997
að verja 450 miljónum króna til aukinnar skógræktar með það að yfirlýstu
markmiði að binda 22 þúsund tonn af gróðurhúsalofttegundum til lengri
tíma litið.
Í umsögn Þjóðhagsstofnunar frá 30. ágúst 1999: Þjóðhagsleg áhrif
nokkurra stóriðjuverkefna, fylgiskjal A13 með frummatsskýrslu, er
lítillega vikið að losun gróðurhúsalofttegunda. Segir þar:
"Bygging álvers á Reyðarfirði með 360 þúsund tonna framleiðslugetu
eykur losun CO2 sem nemur 650 þúsund tonnum, sem samsvarar 30%
af losun CO2 á árinu 1990." (bls.2)
Og litlu síðar segir:
"Losunarheimild Íslendinga samkvæmt Kyoto-bókuninni nemur þeirri
losun sem var árið 1990 að viðbættum 10%. Losun vegna verkefna
í dæmum 2 og 3 eru umfram þau mörk. Fyrir liggur tillaga um að
Ísland fái að halda losun vegna nýrrar stóriðju utan við losunarbókhald,
en ekki er ljóst hvort sú tillaga verður samþykkt. Til að uppfylla
ákvæði Kyotobókunarinnar yrði að öðrum kosti væntanlega að kaupa
losunarkvóta á alþjóðamarkaði, en kostnaður vegna þess er ekki
tekinn með í útreikningana."
Í "aðalskýrslu" er á bls-79-80 fjallað um árlegan útblástur frá
álveri á Reyðarfirði og koma ofangreind CO2-ígildi þar fram í töflu
6.5 . Síðan segir í texta:
"Þess má geta að aukin álnotkun, t.d. í bifreiðum og
öðrum flutningstækjum, getur óbeint leitt til minni CO2-mengunar
vegna þess að þau eru léttari og brenna því minni olíu og bensíni.
Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kveður
á um að iðnvædd ríki, þar á meðal Ísland, skuldbinda sig til að
grípa til aðgerða til að auka ekki útblástur gróðurhúsalofttegunda,
þannig að hann verði ekki meiri árið 2000 en árið 1990. Það er
skilningur íslenskra stjórnvalda að í rammasamningnum sé átt við
útblástur frá innlendri neyslu. Íslensk stjórnvöld hafa því undanskilið
stóriðju sem nýtir endurnýjanlegar orkulindir frá markmiðum sínum
um takmörkun á útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Því er litið svo
á að framkvæmdir við álver á Reyðarfirði rúmist innan alþjóðlegra
skuldbindinga íslenskra stjórnvalda um loftslagsbreytingar. Um
stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi loftslagsbreytingar er vísað
á rit umhverfisráðuneytisins Ísland og loftslagsbreytingar af
mannavöldum1." [1 Umhverfisráðuneytið, 1997. (53.)
Svo mörg eru þau orð. Umræddur "skilningur íslenskra stjórnvalda"
er enn sem komið er heimatilbúinn hugarburður. Þá er þess ekki getið
í skýrslunni að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar má lesa:
"Ísland gerist aðili að Kyoto-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg
niðurstaða í sérmálum þess." Eins og fram kemur í tilvitnaðri umfjöllun
Þjóðhagsstofnunar liggur engin niðurstaða fyrir um óskir Íslands
í tengslum við útfærslu á Kyótó-bókuninni. Talið er líklegt að úrslit
í því efni og niðurstaða um ýmsa fleiri mikilvæga þætti ráðist ekki
fyrr en á 6. aðildarríkjaþingi Rammasamningsins (COP-6) seint á
árinu 2000 eða vorið 2001.
Uns þetta liggur fyrir verður allt í óvissu um framtíðarstöðu Íslands
gagnvart loftslagssamningnum og fullkomið ábyrgðarleysi að leiða
mat á umhverfisáhrifum álvers á Reyðarfirði til lykta áður en sú
staða liggur skýrt fyrir. Hér er ekki aðeins um umhverfismál og
alþjóðlegar skuldbindingar að tefla heldur, eins og fram kemur í
umsögn Þjóðhagsstofnunar sem vitnað er til hér að ofan, stórt efnahagslegt
atriði sem í engu hefur verið tekið tillit til í þjóðhagslegum útreikningum
til þessa varðandi rekstrarforsendur verksmiðjunnar. Stærð málsins
skýrist meðal annars af því að við rekstur 480 þúsund tonna álbræðslu
myndi losun ígilda CO2 frá Íslandi vaxa um nálægt 40% frá því sem
var á viðmiðunarárinu 1990.
Þótt ekki væri nema vegna þessa eina þáttar verður að telja framkvæmdina
ótæka og vísa henni frá mati á þessu stigi. Skiptir þá ekki máli
hvar á landinu slíkt fyrirtæki væri staðsett.
- Staðarval og náttúrufarslegar aðstæður
Staðsetning 100 þúsund tonna álverksmiðju
við aðstæður eins og á Reyðarfirði væri mikið óráð, að ekki sé talað
um risafyrirtæki upp á 480 þúsund tonna framleiðslu á ári eins og
hér um ræðir. Reyðarfjörður er þröngur, umluktur háum fjöllum og
þar eru staðviðri óvenju tíð og meiri en algengt er hérlendis. Við
slíkar aðstæður á ekki að setja niður stóriðjufyrirtæki sem valda
teljandi mengun. Fyrri athuganir sem gerðar hafa verið á staðsetningu
fyrir álverksmiðjur hérlendis, m.a. á vegum Staðarvalsnefndar iðnaðarráðuneytis,
hafa stutt þessa skoðun. Reynsla erlendis, meðal annars í Noregi,
hnígur í sömu átt. Þar hefur verið horfið frá því sem gerðist fyrr
á öldinni, að setja álverksmiðjur niður inni í fjörðum, ekki síst
vegna takmarkaðrar dreifingar mengunarefna.
Lýsing og niðurstöður frummatsskýrslu breyta engu um þetta viðhorf,
sem hlýtur að vega þungt þegar mat er lagt á umhverfisáhrif og staðsetnigu
verksmiðjunnar.
- Mið-Austurland, vinnuafl og félagsleg áhrif
Þegar litið er til íbúafjölda á Mið-Austurlandi
sætir furðu að mönnum skuli detta í hug að setja þar niður fyrirtæki
sem þetta, en fullbyggt kallar það á 720 ársverk í sjálfri verksmiðjunni
að því fram kemur í frummatsskýrslunni. Jafnvel fyrsti áfangi verksmiðjunnar,
sem talað er um að skapi 270 heilsárstörf er meira en æskilegt er
að safna á einn vinnustað í svo fámennu samfélagi og hér um ræðir.
Draga verður í efa að svæðið rísi undir því að veita fyrirtæki sem
þessu viðunandi þjónustu sem þá yrði í miklum mæli aðkeypt. Yrði
það með öðru íþyngjandi fyrir samkeppnisstöðu verksmiðjunnar.
Þau gögn sem fylgja frummatsskýrslu um þessi efni eru ótrúlega rýr
og virðast tekin saman með það fyrst og fremst í huga að sannfæra
höfunda og einhverja stjórnmálamenn um að óhætt sé að staðsetja
fyrirtækið miðað við aðstæður í landshlutanum. Vert er að hafa í
huga að ásetningur ráðherra í ríkisstjórn Íslands um að setja slíkt
risafyrirtæki niður í Reyðarfirði var tilkynntur í lok ágúst 1997,
án nokkurra undangenginna athugana. Viðamesta plaggið sem síðan
hefur verið sett saman um félagsleg áhrif staðsetningar á Reyðarfirði
er skýrsla Nýsis hf o.fl.: "Athugun á samfélagslegum áhrifum álvers
í Reyðarfirði" (fskj. A15). Athyglisvert er það sem segir á bls.
8 í þessu fylgiskjali: "Skýrsla þessi var að mestu unnin í lok ársins
1997 og ársbyrjun 1998, miðað við aðrar forsendur um stærð álversins
og framkvæmdatíma en nú eru uppi. Skýrslan var endurskoðuð seinni
hluta sumars 1999 miðað við breyttar forsendur.
Ekki reyndust á reiðum höndum nýjar upplýsingar nema um vissa efnisþætti
og hefði það kostað mikla vinnu og seinkað verkinu verulega ef ákveðið
hefði verið að endurvinna allan upplýsingagrunn verksins…"
Athygli vekja þau viðhorf og ábendingar sem fram koma í greinargerð
frá þróunarsviði Byggðastofnunar, dagsett 26. júlí 1999 (fskj. B2).
Hafði stofnunin nánast með engum fyrirvara verið beðin um ábendingar
varðandi byggðaþætti umhverfismats. Í umsögninni koma þó fram margar
ábendingar um mikilvæga þætti þar sem ósvarað er stórum spurningum.
Einnig er þar bent á mörg tilefni til rannsókna vegna fyrirhugaðra
framkvæmda varðandi m.a. áhrif á þær atvinnugreinar sem fyrir eru
og þætti sem miklu geta varðað um samkeppnisstöðu álverksmiðju.
Sem dæmi má vitna til eftirfarandi ummæla í greinargerð Byggðastofnunar:
"Í heild má segja að búsetuþættirnir séu ekki hagstæðir álverinu,
en há laun geti þar vegið á móti. Þar þarf m.a. að meta samsetningu
starfa, þ.e. fjölda fólks í ýmsum sérfræðistörfum, fagstörfum og
ófaglærðum störfum."
Þótt í svari Byggðastofnunar sé gert ráð fyrir að áhrif álversins
geti orðið jákvæð fyrir atvinnulíf á svæðinu telur Byggðastofnun
erfitt að segja til um hver heildaráhrifin verða. Ekki verður séð
af frummatsskýrslu að nein viðbrögð hafi komið við þessu umbeðna
erindi Byggðastofnunar. Er þetta ámælisvert í ljósi þeirra afleiðinga,
sem hér geta verið í húfi og hlytust af röngum ákvörðunum. Í skýrslu
Nýsis kemur fram að þrátt fyrir að tekjur í útgerðarbæjum eins og
Eskifirði og Neskaupstað séu töluvert yfir landsmeðaltal og þar
sé góð afkoma, ekkert atvinnuleysi og þurft hafi að flytja að vinnuafl
hefur fólki fækkað þar síðustu 5 árin.
"Á árunum 1998 og 1999 hefur í auknum mæli farið að bera á vinnuaflsskorti
á Mið-Austurlandi. Í september 1999 er talið að það vanti fólk í
100-200 störf." Í skýrslu Nýsis hf. (bls. 21) kemur fram að "Á vinnumarkaði
á Mið-Austurlandi er munur á fjölda karla og kvenna í öllum aldurshópum.
Konur á aldrinum 15-69 ára voru 2.688 þann 1. janúar 1999 en karlar
á sama aldri 3.021 eða 12% fleiri." Einnig segir (bls. 36): "Ungar
konur virðast sjá enn færri náms- og starfsmöguleika í sinni heimabyggð
og flytja á brott í enn meiri mæli en ungir karlmenn".
Augljóst er að álverksmiðja mun ekki bæta úr þessari kynbundnu misskiptingu
nema síður sé, enda hafa höfundar skýrslunnar af því nokkrar áhyggjur
og tala um að huga þurfi að því "…hvernig hægt er að laða ungar
konur af svæðinu til starfa í álverinu." Staðhæfingar frummatsskýrslunnar
og höfunda fylgigagna um að vegna tilkomu álverksmiðjunnar muni
fólki á Mið-Austurlandi fjölga um 2500 íbúa umfram það sem yrði
"…að óbreyttri þróun…" eru fjarstæðukenndar og ekki studdar viðhlítandi
rökum. Þannig gefur Þjóðhagsstofnun sér í minnisblaði (fskj A11)
um staðbundin áhrif af 1. áfanga verksmiðjunnar að engar breytingar
verði á "…mannaflaþörf þess atvinnulífs sem fyrir er…" og að reiknað
sé með "…að staðbundin áhrif verði hrein viðbót á svæðinu. Því mun
álver [120 þúsund tonn] leiða af sér um 440 ný störf samtals og
er ekki reiknað með því að álverið ryðji burt öðrum atvinnugreinum."
Í langri skýrslu Nýsis er sáralítið að finna um áhrif álverksmiðjunnar
og byggingaframkvæmda við verksmiðju og virkjanir á það atvinnulíf
sem fyrir er, hvað þá að reynt sé að fjalla um aðra þróunarkosti.
Er þetta mikill veikleiki í frummatsskýrslunni. Ein stærsta áhættan
sem tekin er með stóriðjuframkvæmdunum og rekstri álverksmiðjunnar
eru áhrifin á samfélagið á Mið-Austurlandi, atvinnulíf sem þar er
fyrir og mögulega þróunarkosti sem þar væru til staðar án risaálverksmiðju.
Að mati undirritaðs eru líkur á að mikið af vinnuafli við stóriðjuframkvæmdirnar
komi úr starfandi fyrirtækjum á svæðinu sem lent geti í miklum erfiðleikum
af þeim sökum. Fráleitt er að reikna vinnuaflsþörf álbræðslunnar
sem hreina viðbót við fjölda starfandi fólks á svæðinu. Svo gæti
farið þegar upp er staðið að stóriðjuframkvæmdirnar dragi í umtalsverðum
mæli úr atvinnustarfsemi sem fyrir er og að nettó fólksfjöldaáhrif
verði langtum minni en skýrsluhöfundar vilja gefa sér. Hafa ber
í huga að eftir að rekstur 1. áfanga álverksmiðju hæfist er gert
ráð fyrir byggingaframkvæmdum við síðari áfanga verksmiðjunnar og
tilheyrandi raforkumannvirki. Það myndi leiða til viðvarandi spennuástands
á vinnumarkaði á meðan á þeim framkvæmdum stæði, þ.e. í 1 - 2 áratugi,
og yrðu áhrifin vafalítið neikvæð fyrir marga þætti hefðbundins
atvinnurekstrar á svæðinu og gætu gert nýsköpunarviðleitni í öðrum
greinum erfitt um vik. Benda má í þessu sambandi á áhrif virkjanaframkvæmda
á Suðurlandi fyrr á árum, sem ekki skiluðu miklu inn í samfélög
í landshlutanum.
Í skýrslu Nýsis er aðaláherslan á að sýna fram á að unnt muni reynast
að manna álverksmiðjuna. Í því sambandi er í afar litlum mæli vikið
að öðrum atvinnugreinum en þó talið líklegt að ýmsir sem nú starfa
í sjávarútvegi svo og bændur og starfsfólk í ferðaþjónustu muni
leita eftir vinnu í verksmiðjunni eða afleiddum störfum sem til
kæmu vegna hennar. Um þessi áhrif og erfiðleika sem af gætu hlotist
fyrir það atvinnulíf sem fyrir er er hins vegar lítið rætt og er
sú umfjöllun alsendis ófullnægjandi fyrir frummat umhverfisáhrifa.
Ekki eru síður brotalamir í hugleiðingum skýrsluhöfunda um vinnuafl
til starfa í verksmiðjunni. Staðhæft er að þess megi vænta að ungt
fólk leiti þar eftir störfum, þar á meðal ungt fólk sem aflað hefur
sér góðrar menntunar. Fyrir slíkum fullyrðingum eru ekki færð fram
nein haldbær rök né liggja þar að baki rannsóknir. Álverksmiðjur
eru einhæfir og ekki aðlaðandi vinnustaðir, ef frá eru kannski talin
skrifstofu- og stjórnunarstörf. Allt tal um slíkar verksmiðjur sem
hátækniiðnað er fjarstæðukennt. Skýrsluhöfundar gera því líka skóna
að það "heimafólk" sem leiti starfa í verksmiðjunni sé öðru fremur
"fólk á svæðinu sem hefur stopula vinnu og/eða lágar tekjur." "Álverið
mun því draga til sín starfsfólk sem nú er með stopula vinnu en
gæti hugsanlega haldið áfram með núverandi starfsemi í aukavinnu
ef vinnufyrirkomulag hentar." (Skýrsla Nýsis, bls. 47). Allsendis
er óvíst að ungt og vel menntað fólk leiti starfa í verksmiðjunni
að einhverju marki.
Samanburður við fyrirtæki eins og ÍSAL á fyrstu áratugum starfrækslu
þeirrar verksmiðju er ekki marktækur. Samfélagsaðstæður voru þá
allt aðrar, fyrir utan að aðsóknarsvæði þess fyrirtækis er ósambærilegt
við Mið-Austurland. Hins vegar hefur vöntun á hæfu starfsfólki verið
vaxandi vandamál hjá ÍSAL síðustu árin Ekki er líklegt að skýrsluhöfundar
hafi hitt naglann á höfuðið þegar þeir gera því skóna að hátt í
200 "brottfluttir Austfirðingar, einkum fólk á aldrinum 18-30 ára"
muni snúa "heim" og ráðast til starfa í verksmiðjunni. "Ungar konur
frá svæðinu sem giftar eru mönnum annars staðar frá og eiga e.t.v.
lítil börn myndu hafa áhuga á að snúa til baka ef starf við hæfi
býðst fyrir eiginmanninn og aðrir í fjölskyldunni eru búsettir á
svæðinu." - Þetta er sýnishorn af kynlegum hugarburði, sem virðist
fram reiddur til að dæmið gangi upp! Sama er uppi á teningnum þegar
leiddar eru líkur að því "…að einhverjir Íslendingar sem búsettir
eru erlendis hafi áhuga á að snúa til fósturjarðarinnar einkum þeir
sem hafa menntun og starfsreynslu sem nýtist í starfi í álveri."
(Nýsir, bls. 50). Hitt er líklegra að fylla þurfi upp í störf í
álverksmiðjunni, ef byggð verður, með innfluttu vinnuafli ekki ósvipað
og gerst hefur víða að undanförnu í fiskvinnslu á landsbyggðinni.
Veikleikarnir í flestu því sem fram kemur í frummatsskýrslunni varðandi
samfélagsleg áhrif stóriðjuframkvæmdanna eru slíkir að lítið sem
ekkert er hægt að byggja á þeim þætti skýrslunnar. Viðleitni er
nánast engin til að bera saman og greina aðstæður á Mið-Austurlandi
annars vegar og á Faxaflóasvæðinu hins vegar með tilliti til áliðnaðar.
Látið er að því liggja að skýrsluhöfundar hafi skyggnst um erlendis
en lýsingu og lærdóma af því er ekki að finna í framlögðum gögnum.
Má þó víða erlendis finna dæmi um dapra reynslu af fámennum stóriðjusamfélögum,
sbr. m.a. skýrslu Staðarvalsnefndar iðnaðarráðuneytisins um iðnrekstur:
Staðarval fyrir orkufrekan iðnað. Forval. Mars 1983, bls. 9-10 og
16-17, en þar er rakin reynsla Norðmanna í þessum efnum. Einnig
kemur fram í þessari skýrslu (Tafla 14, heildaryfirlit) að Reyðarfjarðarsvæðið
geti hentað fyrir minniháttar og miðlungstórt iðjuver en ekki stóriðjuver.
Varðandi stóriðjuver höfðu menn á þeim tíma í huga fyrirtæki eins
og 100 þúsund tonna álverksmiðju.
Ekki verður fallist á það sem segir um skýrslu Nýsis í frummatsskýrslunni:
"Úttektin sýnir að tiltölulega auðvellt [sic.] verður að að manna
álverið með því að nýta framkvæmdatímabilið til undirbúnings." Slík
mönnun er þvert á móti líkleg til að verða þung þraut og stefna
rekstri fyrirtækisins frá byrjun í mikla tvísýnu.
Niðurstaðan mín af skoðun frummatsskýrslu að því er varðar samfélagsleg
áhrif er að athuganir og umfjöllun skýrsluhöfunda sé lítt marktæk
og allsendis ófullnægjandi og engar teljandi rannsóknir liggi að
baki því sem þar er staðhæft. Slíkt er ekki grunnur til að byggja
á ákvarðanir um risastórt fyrirtæki.
- Staðsetning í Reyðarfirði, veðurfarsathuganir og
loftdreifingarspá
Í frummatsskýrslu, bls. 25-27, er fjallað
um staðarval fyrir verksmiðjuna í Reyðarfirði en einnig er rætt
um Keilisnes sem valkost. Sú umfjöllun er hvorki ítarleg eða sannfærandi.
Ljóst er að ráðandi þáttur í hugmyndinni um Reyðarfjörð er að nýta
vatnsafl jökulánna norðan Vatnasjökuls í þágu verksmiðjunnar. Svæðið
við Hraun í Reyðarfirði er valið undir verksmiðjulóð og hafnargerð.
Gerður er lítilsháttar samanburður á því svæði og staðsetningu á
Leirum inn af fjarðarbotni. Hugmyndin frá 1990 um að setja niður
álverksmiðju þar var frá upphafi hrein fjarstæða. Því má segja að
samanburðurinn milli þessara svæða sé út í hött.
Í frummatsskýrslu segir: "Sýnt hefur verið fram á það með veðurmælingum
að loftdreifingarskilyrði við Hraun eru allt önnur og betri en í
botni Reyðarfjarðar. Kauptúnið verður langt utan við þynningarsvæði
álversins."
Það er nú svo. Vegalengdin frá verksmiðjunni að kauptúni er ekki
nema um 5 km og ríkjandi vindáttir eru sagðar vera inn og út fjörðinn
þegar ekki er staðviðri. Fyrirliggjandi veðurfarsathuganir gefa
til kynna að hægviðri eða mjög hægur vindur sé ríkjandi í Reyðarfirði,
"…undir 3 m/s í rúmlega helmingi tilvika á árunum 1983-1998, en
í tæplega þremur fjórðu tilvika undir 5 m/s." (bls. 36-37).
Er ekki að undra að Veðurstofa Íslands bendir í bréfi frá 6. ágúst
1999 (fskj. B22) á
"… veðurfarslega sérstöðu Austfjarða þar sem kaldur
Austur-Íslandsstraumur kælir oft neðsta hluta austlægra og suðaustlægra
vinda sem af hafi berast. Veldur þetta tíðum hitahvörfum við jörð
eða lágt í lofti og miklum stöðugleika loftsins. Eins hefur Veðurstofan
oft bent á hina landfræðilegu staðreynd að Reyðarfjörður er umluktur
um 1000 m háum fjöllum sem móta loftstreymi og auka líkur á hægviðri.
- Allar mælingar okkar staðfesta þessa sérstöðu og þær mælingar
á stöðugleika lofts sem gerðar hafa verið - fyrst með mælingum
á Mjóeyri í Eskifirði upp undir Oddsskarð og nú síðast mælingar
í mastrinu að Sómastaðagerði - sýna mikla tíðni jarðlægra hitahvarfa.
Þar sem mastrið er aðeins tæplega 40 metra hátt nægir það ekki
til að mæla hitahvörf hærra uppi, en leiða má að því líkur að
tíðni hærri hitahvarfa sé talsverð, sbr. mælingarnar upp frá Eskifirði.
Tíðni hægviðris er einnig mjög mikil samkvæmt mælingum að Kollaleiru,
en þar reyndist vindhraði í 2 metra hæð vera undir 3 m/s í rúmlega
helmingi tilvika á árunum 1983-1998, en í tæplega þremur fjórðu
tilvika undir 5.0 m/s. Þetta tíða hægvirði er einnig staðfest
með öðrum mælingum. Í 11 m hæð á Leirum mældist vindhraði t.d.
5.0 m/s í 59% tilvika."
Af þessu yfirliti Veðurstofunnar má álykta að óhagstæðari stað fyrir
staðsetningu mengandi iðnaðar sé vart að finna hérlendis en einmitt
á Reyðarfirði. Þá vekur athygli hvað veðurathuganir á iðnaðarlóðinni
ná yfir stuttan tíma eða aðeins í eitt ár, sem er auðvitað alltof
stuttur tími til að fá marktækar niðurstöður til að byggja á loftdreifingarspá.
Kemur óvissan berlega í ljós þegar bornar eru saman niðurstöður
stöðugleikamælinga á þessum tíma (1998-99) og á öðrum mælistað í
um 200 m fjarlægð í tvö ár á tímabilinu 1982-84. "Mælingar nú sýna
minni stöðugleika lofts og því eru dreifingarskilyrði útblástursefna
betri en áður var talið" stendur í frummatsskýrslu. (Bls. 62). Loftdreifingarspá
sem víðtækar ályktanir eru dregnar af í frummmatsskýrslu byggir
þannig á allsendis ófullnægjandi forsendum og geta ekki talist marktækar.
Nú alveg nýlega , eða í október 1999, gaf Veðurstofa Íslands út
skýrslu á ensku og ber hún heitið Wind and Stability Observations
at Sómastaðagerði in Reyðarfjörður May 1998 - April 1999. Höfundar
eru Flosi Hrafn Sigurðsson, Hreinn Hjartarson, Torfi Karl Antonsson
og Þórður Arason. Ályktunarorð skýrslunnar undir fyrirsögninni Remarks
(bls. 18), eru einkar fróðleg og verður hér vitnað til þeirra samkvæmt
frumtexta (ensku):
"From this and earlier reports (Ref. 1, 2 and 3) it
is evident that low wind velocities are very frequent at Sómastaðagerði
and in the Reyðarfjörður area. The high mountains surrounding
the fiord steer and modify the wind and limit to some extent ventilation.
Furthermore, it is evident that ground based temperature inversions
are very frequent during the winter and during the nights in summer.
During daytime in summer an easterly sea breeze is usually blowing,
and although the lowest air layer over land then frequently is
neutral or unstable, as seen from the observations at Sómastaðagerði,
higher temperature inversions may often be suspected, as indicated
by earlier observations in Eskifjörður. In the Reyðarfjörður area
the winds are usually either blowing inwards or outwards along
the fiord. On the positive side, the common and frequently stable
westerly winds will blow polluted air towards the sea. During
summer the winds, however, usually turn in the morning and become
easterly. Accordingly there seems to be some possibility of recirculation
of polluted air. In view og this, it seems advisable not to limit
studies of pollution dispersion to whole seasons or the whole
year, but also to study shorter periods of unfavourable dispersion
conditions, lasting for days or even weeks. This could prove to
be of importance for determining the size of proposed industrial
plants in Reyðarfjörður and the requirements for control and cleaning
systems."
Hér koma fram skýrar ábendingar um sérstöðu veðurkerfa í Reyðarfirði
og þörfina á frekari rannsóknum í tengslum við ákvörðun um stærð
iðjuvera sem eru á döfinni með tilliti til mengunarvarna. Athygli
vekur að aðeins eru gerðir útreikningar fyrir loftdreifingu svifryks
frá álveri (480.000 t.) með vothreinsun. Eru niðurstöður sagðar
langt undir viðmiðunarmörkum um loftgæði. "Því má gera ráð fyrir
að svifryk sé ekki vandamál fyrir fyrri áfanga." (Bls. 66). Rétt
er að benda á að ekki er gert ráð fyrir vothreinsun í fyrsta áfanga
verksmiðjunnar og því hefði verið nauðsynlegt að gera útreikninga
fyrir dreifingu svifryks frá honum sérstaklega. Þá kemur einnig
fram (bls. 66) að reglur Evrópusambandsins sem taka gildi frá 1.
janúar árið 2000 gera ráð fyrir helmingi strangari kröfum um loftgæði
en hér er miðað við. Sýnist full þörf á að athuga þetta misræmi
sérstaklega og miða hér við loftgæðakröfur samkvæmt ESB-reglum.
Margoft hefur verið á það bent af undirrituðum að löngu sé tímabært
að endurskoða íslensku mengunarvarnarreglugerðina frá 1994. Nýlega
er komin út ný tilskipun (1999/30/EC) frá Evrópusambandinu um styrk
brennisteinsdíoxíðs í lofti með hertum kröfum. Munu ákvæði hennar
væntanlega verða innleidd hér á næstunni.
- Náttúruvá, snjóflóð, aurskriður og hafís
Í frummatsskýrslu kemur fram að :
"Við mat á snjóflóðahættu á áætluðu athafnasvæði álverksmiðjunnar
voru tveir ferlar, sem snjóflóð geta mögulega runnið eftir að
svæðinu, metnir og skoðaðir með aðstoð eðlisfræðilegra- og tölfræðilegra
reiknilíkana. Ekki liggja fyir upplýsingar um snjóflóð eða snjóalög
á þessu svæði…Við skoðun á áðurnefndum snjóflóðaferlum kemur í
ljós að verksmiðjusvæðið er í um 2 til 2,5 km fjarlægð frá mögulegu
upptakasvæði snjóflóða, þar af er um 1 km ofan verksmiðjusvæðisins
með landhalla minni en 10o."
Fram kemur einnig að:
"Ekki hefur verið unnið mat á áhættu vegna snjóflóða fyrir þessa
tvo ferla…"
Af samanburði við ákveðinn snjóflóðafarveg í Neskaupstað þar sem
meðalendurkomutími er talinn um 2000 ár sé hér þó ekki tekin óhófleg
áhætta. "Af þessum sökum má meta sem svo að áhætta vegna snjóflóða
sem ná inn á verksmiðjusvæðið sé mjög lítil og vel innan þeirra
marka sem gerðar verða til svæða þar sem bygging nýrra mannvirkja,
þar með taldar íbúðabyggingar, verður leyfð samkvæmt núverandi
drögum að reglum þar að lútandi sem væntanlega verða tilbúnar
innan tíðar." (Bls. 38).
Eins og sést af framansögðu virðast menn hér á gráu svæði. Engin
skýring er gefin á því í skýrslunni, hvers vegna ekki hefur verið
unnið áhættumat vegna snjóflóða á fyrirhuguðu byggingarsvæði verksmiðjunnar.
Ætti það þó að vera sjálfsagt mál svo mikið sem hér gæti verið í
húfi, einnig vegna trygginga ef til byggingar verksmiðju kæmi. Sama
máli gegnir um hættu af völdum skriðufalla sem eru tíð úr Hólmatindi
í næsta nágrenni. "Tvær minniháttar aurskriður féllu nærri bænum
Flateyri, skammt austan við iðnaðarlóðina, og utan við fyrirhugaða
staðsetningu álversins" segir í frummatsskýrslunni (bls. 39) um
skriðuföll haustið 1999. Ráðlegt sýnist að meta hættu á skriðuföllum
af sérfróðum aðilum áður lengra er haldið.
Hvergi hef ég í frummatsskýrslu séð getið um hafískomur og hættu
á að siglingar til og frá Reyðarfirði geti teppst af þeim sökum,
jafnvel drjúgan hluta vetrar. Tvívegis á 7. áratug þessarar aldar
og einu sinni á 8. áratugnum fylltist Reyðarfjörður af hafís svo
dæmi sé tekið, og hafþök af ís voru ekki óalgeng við Austfirði á
öldinni sem leið og fyrr á tímum. Ekkert skal fyrirfram fullyrt
um hættu og óhagræði af hafís við Austfirði og þar inni á fjörðum
fyrir rekstur álverksmiðju en sjálfsagt sýnist að fá þennan áhættuþátt
metinn ekki síður en aðra náttúruvá.
- Losun mengandi efna og úrgangs frá verksmiðjunni
12.1 Starfsleyfisstillögur ekki fyrirliggjandi
Það eru afar ámælisverð vinnubrögð að ekki
skuli við lögformlegt frummat á umhverfisáhrifum liggja fyrir tillaga
Hollustuverndar að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna. Er hér því gerð
krafa um að frestað verði matsferli á umhverfisáhrifum uns tillögur
að starfsleyfi liggja fyrir og frestir til athugasemda verði lengdir
til samræmis og reiknaðir frá þeim tíma sem starfsleyfistillögur
verða formlega auglýstar. Vinnubrögð sem birtast í því að tillögur
að starfsleyfi séu fyrst auglýstar eftir að frestur til athugasemda
við frummatsskýrslu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum hefst,
hvað þá eftir að honum lýkur, gengur augljóslega gegn eðlilegu vinnulagi
og anda settra laga og reglna um aðkomu almennings að þessum málum.
12.2 Viðmiðanir um mengunarmörk
Fram kemur í frummatsskýrslu að mörk fyrir
útblástur frá verksmiðjunni verði miðuð við svokallaða PARCOM-samþykkt
frá árinu 1994. PARCOM er fjölþjóðlegt samkomulag sem fjallar um
varnir gegn mengun sjávar af völdum starfsemi á landi. Er samþykktin
leiðbeinandi fyrir stjórnvöld um viðmiðunarmörk losunar frá álverksmiðjum
sem ná skal fyrir árið 2005, einkum varðandi flúor og ryk. Gera
þau ráð fyrir 0,6 kg af heildarflúoríði per tonn af áli að hámarki
sem ársmeðaltal og 1 kg af ryki sem hámark.
Ekki er kveðið á um bindandi mörk fyrir brennisteinssambönd (SO2)
í PARCOM, en nýlega hafa verið sett hert mörk þar að lútandi í tilskipun
frá Evrópusambandinu, sem taka mun gildi hér á landi. PARCOM-viðmiðanir
um losun mengandi efna frá álverksmiðjum eru málamiðlun þeirra ríkja
sem að samkomulaginu standa og þannig fela þær í sér lægsta mögulegan
samnefnara innan þessa hóps. Sum ríki sem stóðu að samkomulaginu,
þar á meðal Noregur, gerðu á sínum tíma kröfur um lægri mörk og
að gert væri ráð fyrir vothreinsun til viðbótar við þurrhreinsun
til að ná betri árangri í að takmarka mengun brennisteins- og flúorsambanda
svo og ryks.
Alrangt væri af stjórnvöldum hérlendis að láta sér nægja PARCOM-viðmiðanirnar
þegar setja á losunarmörk fyrir áformaða álverksmiðju í Reyðarfirði.
Landfræðilegar og veðurfarslegar aðstæður eru þar eins og áður var
rakið afar slæmar með tilliti til dreifingar mengandi efna og auk
þess væri fráleitt að miða ekki losunarmörk við bestu fáanlega tækni
og þá miðað við nútíma en ekki nokkurra ára gamlar BAT-viðmiðanir
(Best available technology) sem ekki er víst að taki mið af nýjustu
möguleikum til að draga úr mengun. Það er gagnrýnivert ef Hollustuvernd
ríkisins ætlar að láta sér nægja PARCOM-mörk sem forskrift í starfsleyfi
slíkrar verksmiðju, sbr. fskj. B7 með frummatsskýrslu.
Í þessu fylgiskjali segir að vísu: "Þær kröfur sem gerðar verða
til stóriðju munu taka mið af umhverfisaðstæðum hverju sinni og
mat á þeim umhverfisáhrifum sem framkvæmdin kann að valda." Þar
eð ráðgert er að nota í álverksmiðju á Reyðarfirði tækni frá Norsk
Hydro sem samkvæmt yfirlýsingum fyrirtækisins og reynslu sem staðfest
er af systurstofnun Hollustuverndar ríkisins í Noregi (Statens Forurensningstilsyn
- SFT) að geri kleift að ná langtum betri árangri í mengunarvörnum
en PARCOM-viðmiðanir gera ráð fyrir, væri fráleitt að fylgja því
ekki eftir í skilyrðum starfsleyfis.
Sama máli gegnir um varnir gegn mengun af brennisteinssamböndum
þar sem vothreinsun er árangursrík aðferð sem jafnframt drægi verulega
úr flúor- og rykmengun í umhverfi verksmiðjunnar. Væri glapræði
að gera vothreinsun ekki að skilyrði fyrir byggingu 1. áfanga verksmiðjunnar.
Hafa verður í huga óhagstæðar ytri aðstæður í Reyðarfirði og risastærð
fyrirhugaðrar verksmiðju. Í þessu sambandi ber að taka tillit til
þess að óvissuþættir eru margir og því einboðið að taka mið af varúðarreglu
þá leyfileg mengunarmörk eru ákveðin. Andmælt er eftirfarandi sem
fram kemur í frummatsskýrslu (bls. 59) þar sem segir: "Það sem ræður
úrslitum um hvers konar hreinsibúnaður verður fyrir vali í fyrsta
byggingaráfanga álvers á Reyðarfirði eru niðurstöður loftdreifingarútreikninga
á útblæstri í samræmi við kröfur stjórnvalda þar sem stuðst er við
viðmiðunarmörk fyrir loftgæði samkvæmt mengunarvarnareglugerð.
Útreikningar þessir gefa mönnum vísbendingu um stærð þess svæðis,
þar sem búast má við breytingum á gróðri eða þar sem óæskilegt er
að fólk búi að staðaldri af heilsufarsástæðum. - Umhverfisathuganir
sem gerðar hafa verið í tengslum við þetta verkefni benda til þess
að óþarfi sé að setja upp tvöfaldan hreinsibúnað fyrir 120 þúsund
t álver." Útilokað er annað en krafa sé gerð um vothreinsun til
viðbótar þurrhreinsun eins og veðurfarsaðstæður eru í Reyðarfirði.
Hér á eftir verður vikið stuttlega að helstu mengunarþáttum verksmiðjunnar:
12.3 Flúor-mengun
Rétt er að miða mörk fyrir heildarflúoríð-losun
við 0,35 kg/t af áli. Þetta er vel ofan þeirra marka sem unnt er
að ná með tækni Norsk Hydro. Lá þetta raunar fyrir þegar um 1990
og benti undirritaður á þá staðreynd við undirbúning að stækkun
ÍSAL og byggingu álverksmiðju Norðuráls. Vothreinsun auðveldar að
ná besta árangri við losun flúoríðsambanda. Fráleitt væri að halda
sig við PARCOM-viðmiðunina við útgáfu starfsleyfis fyrir álverksmiðju
í Reyðarfirði þegar unnt er að miða við nær helmingi lægri gildi..
12.4 Brennisteinsdíoxíð-mengun (SO2)
Krefjast verður vothreinsunar frá upphafi
framkvæmda við verksmiðjuna, bæði til að draga úr mengun af völdum
brennisteinsdíoxíðs en einnig flúoríðs og ryks. Með vothreinsibúnaði
minnkar losun brennisteinsdíoxíðs í andrúmsloft ca. 15-falt frá
því sem ella væri og skolun þessara brennisteinssambanda í sjó er
ekki talin skaðleg sem slík vegna skjótra efnahvarfa sem þar verða.
Að hámarki ætti að miða við 2 kg/t af áli fyrir SO2-losun við fyrsta
áfanga verksmiðjunnar í stað 21 kg/t sem gert er ráð fyrir í frummatsskýrslu.
12.5 PAH- og díoxín-mengun
Mengun af völdum fjölhringa kolefnissambanda
(PAH) frá áliðnaði er verulegt áhyggjuefni, meðal annars vegna ónógra
rannsókna og takmarkaðrar þekkingar á afleiðingum hennar. Þessi
tjöruefnasambönd ganga inn í fæðukeðju ýmissa lífvera séu þau til
staðar í umhverfi þeirra og geta reynst krabbameinsvaldur auk margháttaðra
annarra áhrifa. Af þessum sökum m.a. fer illa saman stóriðja eins
og áliðnaður og matvælaframleiðsla þar sem kröfur um ómengað umhverfi
og stranga gæðastaðla í afurðum fara stöðugt vaxandi. Rétt er að
benda á að bakgrunnsrannsóknir vantar alveg fyrir PAH-sambönd í
Reyðarfirði. Þá liggur fyrir að díoxín-efni myndast við álvinnslu
í einhverjum mæli. Hafa menn m.a. haft áhyggjur af því á vettvangi
OSPAR.
Álverksmiðjur á Íslandi eru nefndar í norrænum rannsóknaskýrslum
(AMAP-skýrsla 1998: An assessment report) sem hugsanlegar uppsprettur
díoxín-mengunar á norðlægum slóðum, en af slíkri mengun hafa menn
nú vaxandi áhyggjur. Þá má geta þess að bandaríska Umhverfisverndarstofnunin
EPA gaf nýlega út það álit að við endurvinnslu (secondary aluminium
smelters) á áli falli til umtalsvert magn af díoxíni. [Ninth Biennial
Report on Great Lakes Water Quality. Á Netinu, "last modified on
10 - August - 1999.] Hér gæti verið á ferðinni mál sem varði hagsmuni
Íslendinga sem framleiðendur matvæla ekki síst úr sjávarfangi og
er rétt að farið verði ofan í saumana á þessu við mat á umhverfisáhrifum
480 þúsund tonna álvers í Reyðarfirði.
12. 6 Þungmálmar og snefilefni
Áliðnaði fylgir mengun af þungmálmum og
fleiri óæskilegum snefilefnum úr aðfluttum hráefnum. Geta þau haft
skaðleg áhrif á gróður í nágrenni verksmiðjunnar og ef til vill
í öllum innanverðum Reyðarfirði þar sem loftdreifing er mjög takmörkuð
og hægviðri algengt. Einnig er hugsanlegt að losun þeirra hafi víðtækari
áhrif, meðal annars á Fljótsdalshéraði, þar sem menn hljóta í framtíðinni
að hugsa til lífrænnar ræktunar í landbúnaði í auknum mæli. Tilvist
mengandi efna í umhverfinu er að sjálfsögðu afar óæskileg fyrir
ímynd svæðisins og getur fyrr en varir haft neikvæð áhrif á markaðssetningu
matvæla sem og ferðaþjónustu.
12. 7 Kerbrot
Gífurlegt magn kerbrota fellur til við
starfsemi verksmiðjunnar eða 12.000 tonn árlega, þar af 3.000 tonn
vegna 1. áfanga. Áformað er að farga þessum úrgangi í flæðarmálið
rétt austan hafnarsvæðis verksmiðjunnar. Kerbrotin innihalda margvísleg
efnasambönd, þar á meðal cyaníð, PAH og þungmálma.
Þótt mér vitanlega hafi ekki verið sýnt fram á skaðleg áhrif á sjávarlífverur
af völdum efnaskolunar frá kerbrotagryfjum er rangt að álykta sem
svo að slík áhrif geti ekki verið til staðar. Rannsóknir sem á þessu
hafa verið gerðar eru takmarkaðar og auk þess fleytir mælitækni
stöðugt fram. Getur því mengun af efnum sem rekja má til kerbrota
orðið vandamál við markaðssetningu sjávarafurða, verði sýnt fram
á hana.
Þegar fjallað var um álbræðslu á Keilisnesi í umhverfisnefnd Alþingis
snemma á yfirstandandi áratug var staðhæft af stjórnvöldum að gert
væri ráð fyrir að endurvinnsla hæfist innan tíðar á kerbrotum. Er
rétt að athuga vandlega þann kost að flytja kerbrot frá áliðnaði
hérlendis úr landi til endurvinnslu eða förgunar hliðstætt því sem
gildir um skautleifar og álsora frá steypuskálum.
Mikið óráð er að bjóða upp á þá hættu fyrir sjávarlíf og fiskiðnað
landsmanna sem hlotist getur af frumstæðri meðferð kerbrota eins
og hér hefur verið ástunduð. Því ber að flytja slíkan úrgang frá
álverksmiðju á Reyðarfirði úr landi í stað þess að farga honum á
strönd fjarðarins.
12. 8 Hávaða-mengun
Álverksmiðjum fylgir mikill og hvimleiður
hávaði, innanhúss og í grennd verksmiðjanna. Í frummatsskýrslunni
er talið að hávaða frá verksmiðjunni muni gæta í einhverjum mæli
í þéttbýlinu á Reyðarfirði og geti hann þar orðið allt að 25dB(A)
að hámarki í 5,5 km fjarlægð. "Ljóst er því að miðað við aðstæður
á Reyðarfirði eru ekki líkur á að hávaði frá álverinu muni valda
truflun í þéttbýlinu í Reyðarfirði. Helst má gera ráð fyrir að heyra
megi óverulegan nið frá álverinu á stilltum sumarkvöldum með hægum
andvara í áttina að bænum samfara hitaskilum í lofti." (Bls. 94).
Truflun er samkvæmt þessu afstætt hugtak! Hávaða frá álverksmiðju
mun að sjálfsögðu gæta til allra átta, þar á meðal í náttúruverndarsvæðinu
í Hólmanesi og einnig við Eyri sunnan fjarðarins og inn eftir ströndinni.
12. 9 Sjónmengun og áhrif á útivistarsvæði
Gífurleg sjónmengun yrði af álveri við
Reyðarfjörð. Í stað þess umhverfis sem nú er munu kílómetralangir
verksmiðjuskálar ásamt fleiri mannvirkjum setja svip sinn á umhverfið.
Hið sama á við jafnvel í enn tilfinnanlegri mæli um tvær afar áberandi
raflínur að verksmiðjunni. Munu þær setja mark sitt á fjarðarbotninn
og hlíðina ofan kauptúnsins á Reyðarfirði. Verksmiðjusvæðið við
Hraun blasir meðal annars við frá Skíðamiðstöðinni í Oddsskarði
en ósnortið yfirbragð Reyðarfjarðar þaðan séð er drjúgur hluti af
upplifun manna sem þangað sækja. Bætist sjónmengunin og hugsanlega
einhver hávaðamengun við sýnilega rykmengun frá verksmiðjunni. Þannig
myndi álverksmiðja við Hraun laska verulega ímynd þessa fjölsótta
íþrótta- og útivistarsvæðis. Þessi neikvæðu áhrif munu ekki síður
eiga við um þá sem leggja leið sína í friðlandið á Hólmanesi en
það er örstutt frá verksmiðjusvæðinu.
- Neikvæð áhrif á ímynd Austurlands og landsins alls
Ekki fer hjá því að stórfelld aukning
áliðnaðar hérlendis með tilkomu risaálverksmiðju við Reyðarfjörð
og virkjarnir sem henni myndu fylgja hefði afar neikvæð áhrif á
ímynd landsins í heild og Austurlands sérstaklega., bæði fyrir íbúa
svæðisins í framtíðinni og ferðamenn sem þangað leggja leið sína.
Í stað friðsælla sjávarbyggða og sveita með hefðbundnum og lífrænum
búskap mun Mið-Austurland óhjákvæmilega fá á sig stimpil stóriðju,
sem í augum flestra mun rýra upplifun af náttúru svæðisins og dvöl
á því og verða til þess að beina ferðamönnum annað.
Virkjanir í þágu verksmiðjunnar reistar á lítt snortnum víðernum
norðan Vatnajökuls og raflínur frá þeim bæta síðan gráu ofan á svart.
Framkvæmd þeirra stóriðjuáforma sem hér um ræðir myndi hafa mjög
slæm áhrif á þróun ferðaþjónustu allt frá upphafi og til langrar
framtíðar litið.
Álverksmiðja við Reyðarfjörð jafngildir gengisfalli alls Mið-Austurlands
sem svæðis þar sem að óbreyttu eru góðir möguleikar á að efla ferðaþjónustu
sem atvinnugrein. Hætt er við að svipað verði uppi á teningnum fyrir
ímynd matvælaiðnaðar á svæðinu og um leið fyrir matvælaútflutning
frá öllu Íslandi vegna þeirrar mengunar sem er fylgifiskur þungaiðnaðar
eins og álverksmiðju. Ráðamenn ættu að gera sér ljóst að kröfur
neytenda víða um heim til hreinleika og gæða matvæla fara vaxandi
með ári hverju og því segir reynsla úr fortíðinni hvað þetta varðar
ekki hálfa sögu.
- Ýmis atriði
Margt er hér enn ótalið sem ástæða væri
til að gera athugasemdir við af tilefni framkominnar frummatsskýrslu.
Þannig má vænta margvíslegra áhrifa á gróðurríki í næsta nágrenni
verksmiðjunnar og á dýralíf á landi og í sjó og fjörum. Minna má
á æðarvarp í sjávarhólmum í landi Hólma skammt frá verksmiðjusvæðinu.
Ýmis konar skaðleg áhrif verða ekki útilokuð á heilsufar starfsmanna
í álverksmiðju og hugsanlega á íbúa í þéttbýlinu á Reyðarfirði vegna
starfrækslu verksmiðjunnar, ekki síst á þá sem veilir eru fyrir
og viðkvæmir, m.a. fyrir asma.
Kynning á fyrirhuguðum framkvæmdum hefur verið yfirborðsleg á forstigi
málsins og gagnrýnivert að efnt var til kynningarfunda síðastliðið
sumar á þeim tíma sem margir eru í orlofi og fjarverandi. Einnig
hefur kynning höfunda frummatsskýrslu á útdrætti úr skýrslunni á
Netinu verið kauðaleg og langt frá því að teljast neytendavæn. Mikið
skortir á fullnægjandi rannsóknir á ýmsum umhverfisþáttum og ekki
síður á félagslegum atriðum sem miklu gætu varðað um mat á umhverfisáhrifum
fyrirhugaðra framkvæmda.
Síðast en ekki síst verður að minna á að orkumannvirki eru ekki
hluti af frummatsskýrslunni, þar á meðal stórvirkjanir, raflínur
og spennuvirki sem ekki verða síður áberandi og landfrek en framkvæmdir
á verksmiðjulóð. Er hætt við að margir, meðal annars fólk á Reyðarfirði,
eigi eftir að vakna upp við vondan draum ef þessir þættir, sem auðvitað
ættu að vera hluti af yfirstandandi mati á verksmiðjunni, koma fram
í dagsljósið.
Af því sem hér hefur verið rakið ætti að vera ljóst að framlögð frummatsskýrsla
er langt frá því að standast lágmarkskröfur efnislega og í samhengi
laga um mat á umhverfisáhrifum.
Hjörleifur Guttormsson kennitala
311035-6659
|