Hjörleifur Guttormsson | 2. ágúst 2001 |
Traustur faglegur úrskurður Afar fróðlegt er að fylgjast með viðbrögðum talsmanna ríkisstjórnar og Landsvirkjunar við úrskurði Skipulagsstofnunar um Kárahnjúkavirkjun. Í stað þess að líta í eigin barm og reyna að átta sig á vel rökstuddri niðurstöðu Skipulagsstofnunar er strax farið að hreyta ónotum í stofnunina og reynt að gera hana tortryggilega. Hvergi annars staðar í Evrópu gæti það gerst að forsætisráðherra landsins gangi fram fyrir skjöldu til að reyna að ómerkja ríkisstofnun, sem Alþingi hefur falið með lögum að meta umhverfisáhrif framkvæmda. Það er sök sér að minni spámenn æmti og tali um "pólitískan úrskurð" af því hann fellur þeim ekki í vil. Til hvers er umhverfismat? Lög um mat á umhverfisáhrifum hafa verið í gildi frá árinu 1994 og af þeim er komin veruleg reynsla. Þau voru sett að alþjóðlegri fyrirmynd til að koma í veg fyrir óhæfilega umhverfisröskun og setja deilur og álitaefni í skýran farveg. Gildur þáttur í matsferlinu er þátttaka almennings og opin stjórnsýsla þannig að komið verði í veg fyrir áafturkræft tjón og umhverfisslys. Lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda sett um svipað leyti lutu að sama markmiði. Reynslan af framkvæmd laganna að því er Skipulagsstofnun varðar rennir ekki stoðum undir þær upphrópanir sem nú heyrast frá valdsmönnum. Auðvitað hafa úrskurðir stofnunarinnar verið umdeildir og stundum verið kærðir til ráðherra en ásakanir um óvönduð vinnubrögð eða þjónkun við verndarsjónarmið umfram það sem lög bjóða fá ekki staðist hlutlæga athugun. Geta sjálfum sér um kennt Stjórnmálamenn sem settu af stað stóriðjuáformin risavöxnu á Austurlandi haustið 1997 geta sjálfum sér um kennt hvernig komið er. Hugmyndunum skyldi þröngvað fram með illu eða góðu. Allt var sett á annan endann til að koma í veg fyrir að Fljótsdalsvirkjun færi í lögformlegt mat. Búið var til sýndarfyrirtæki nokkurra sveitarstjórnarmanna til að leggja fram matsskýrslu haustið 1999 um 480 þúsund tonna álverksmiðju. Þessi málatilbúnaður hrundi í febrúar árið 2000. Þá voru ný lög um mat á umhverfisáhrifum í burðarliðnum. Í stað þess að bíða reglugerðar á grundvelli nýrra laga var rubbað saman matsáætlunum og þeim sniðinn þröngur tímarammi. Margir vöruðu við þessum vinnubrögðum en ekkert var á það hlustað. Engir sem höfðu fyrir að kynna sér matsskýrslu Landsvirkjunar þurfa að undrast þá traustu og eindregnu niðurstöðu sem nú liggur fyrir af hálfu Skipulagsstofnunar. Krafa um kviðristu Þeir sem nú gera kröfu til stjórnar Landsvirkjunar um að hún kæri þennan úrskurð til umhverfisráðherra virðast lítið hafa sett sig inn í málavexti. Ráðherra getur ekki snúið við þeirri skýru efnislegu niðurstöðu sem nú liggur fyrir. Það vald sem ráðherra er fengið að lögum til að úrskurða um kærur felur ekki í sér rétt til pólitískra geðþóttaákvarðana og er takmarkað af ákvæðum laga. Þeir sem ætlast til að umhverfisráðherra gangi gegn skýrum úrskurði Skipulagsstofnunar og snúi honum við eru að kalla eftir kviðristu sem þó myndi ekki duga til að blása lífi í andvana stóriðjuáform. Hjörleifur Guttormsson |